« Heil. Pétur frá Damian – Um einingu kirkjunnar í Heilögum AndaMeistari Eckhart – Um eilífan getnað Orðsins í skauti hinnar blessuðu Meyjar í Heilögum Anda »

02.05.08

  01:22:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2611 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Hl. Serafim frá Sarov – í ljósklæðum Heilags Anda

N. A. Motolivov var rússneskur aðalsmaður sem læknast hafði af erfiðum húðsjúkdómi vegna fyrirbæna hl. Serafims. Atburður sá sem hér er lýst átti sér stað í skóginum við Sarovklaustrið skammt frá klefa hl. Serafims. Ekkja Motolivovs fann eftirfarandi frásögn í skjölum hans að honum látnum.

„En hvernig,“ spurði ég batjúska [1] Serafim. „get ég vitað að ég dvel í náð Heilags Anda?“

„Þetta er afar einfalt, yðar hávelborinheit,“ svaraði hann. „Það er þess vegna sem Drottinn segir: Öll eru þau [orð munns míns] einföld þeim sem skilning hefur (Ok 8. 9). Vandamálið felst í því að við leitum ekki þessarar guðdómlegu þekkingar sem blæs manninn ekki upp vegna þess að hún er ekki af þessum heimi. Þessi þekking sem er þrungin elsku Guðs og náungakærleika uppbyggir sérhvern mann vegna sáluhjálpar hans. Drottinn komst svo að orði um þessa þekkingu að Guð vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum (1 Tm 2. 4).

Hvað varðar skortinn á þessari þekkingu sagði hann við postula sína: Eruð þér líka skilningslausir ennþá? (Mt 15. 16) eða: Hafið þér aldrei lesið í ritningunum (Mt 21. 42), eða: Þér skiljið eigi þessa dæmisögu (Mk 4. 13). Hvað áhrærir þennan skilning er sagt í guðspjalli postulanna: Síðan lauk hann upp skilningi þeirra, að þeir skildu ritningarnar (Lk 24. 45) og postularnir skynjuðu einnig hvort Andi Guðs dvaldi í þeim eða ekki. Þar sem þeir voru fylltir skilningi sáu þeir nærveru Heilags Anda og sögðu án þess að hika að verk þeirra væru heilög og Drottni Guði afar velþóknanleg. Þetta varpar á það ljósi hvernig þeir gátu sagt í postullegum skrifum sínum: Það er ályktun Heilags Anda og vor (P 15. 28). Það var einungis af þessari ástæðu sem þeir lögðu postulleg skrif sín fram sem óbrigðulan sannleika öllum hinum trúuðu til uppbyggingar. Þannig voru hinir heilögu postular sífellt varir við nærveru Anda Guðs í sér sjálfum. Af þessu getið þér séð, yðar hávelborinheit, hversu einfalt þetta er!“

„Engu að síður,“ svaraði ég, „fæ ég ekki skilið hvernig ég get verið viss um að ég sé í Andi Guðs. Hvernig get ég orðið áskynja um áþreifanlega nærveru hans í mér sjálfum?“

Bróðir Serafim svaraði: „Ég hef þegar sagt yðar hávelborinheit, að þetta er afar einfalt. Ég hef greint yður frá því með gagngerum hætti, hvernig fólk er í Anda Guðs og hvernig við getum borið skyn á nærveru hans í okkar. Hvað vakir fyrir yður, kæri vinur?“

„Ég vil skilja þetta til fulls,“ svaraði ég.

 Þá tók bróðir Serafim þéttingsfast í öxl mína og sagði: „Núna erum við báðir í Anda Guðs, kæri vinur. Hvers vegna horfið þér ekki á mig?“

 Ég svaraði: „Það get ég ekki, batjúska, vegna þess að elding leiftrar frá augum yðar. Ásjóna yðar er orðin bjartara en sólin og mér verkjar sárlega í augun.“

Bróðir Serafim sagði: „Verið ekki hræddir, yðar hávelborinheit! Núna eruð þér sjálfir jafn bjartir yfirlitum og ég. Núna eruð þér sjálfir í fyllingu Anda Guðs, að öðrum kosti gætuð þér ekki séð mig eins og ég er.“

Því næst laut hann að mér höfðinu og hvíslaði blíðlega í eyra mér: „Þakkið Drottni Guði fyrir þá óumræðilegu miskunn sem hann auðsýnir yður! Þér sáuð að ég gerði ekki einu sinni svo mikið sem að signa mig. Ég ákallaði einungis Drottin Guð í hjarta mínu í huglægri bæn og sagði hið innra með sjálfum mér: „Veittu honum að sjá greinilega með líkamlegum augum sínum þegar Andi þinn stígur niður og þú veitir þjónum þínum þegar þér þóknast að birtast í ljósi hátignar dýrðar þinnar.“ Og þér sjáið, kæri vinur, Drottinn var samstundis við auðmjúkri bæn aumingja Serafims. Hversu mjög eigum við þá ekki að þakka honum fyrir þessa ósegjanlegu náðargjöf sem hann hefur veitt okkur? Það er ekki alltaf sem Drottinn Guð auðsýnir mestu einsetumönnum sínum miskunn sína með þessum hætti, kæri vinur. Eins og elskurík móðir hefur þessari náð Guðs þóknast að veita hjarta yðar huggun vegna fyrirbæna sjálfrar Guðsmóðurinnar. En hvers vegna, kæri vinur, horfist þér ekki í augu við mig? Horfið og óttist ekki! Drottinn er með okkur!“

Að orðum þessum mæltum horfði ég í ásjónu hans og varð gagntekinn en meiri og lotningarfyllri ótta. Setjið ykkur fyrir sjónir að ásjóna viðmælanda ykkar sé eins og sólin í hádegisstað í geisladýrð sinni. Þið sjáið hvernig varir hans bærast og greinið svipbrigðin í augum hans. Þið heyrið rödd hans og skynjið að hönd hans hvílir á öxl ykkar, en sjáið þó ekki hendur hans og sjáið ekki ykkur sjálf eða ásýnd hans, heldur einungis ofurskært og blindandi ljós sem streymir út frá honum nokkar þumlunga og upplýsa bæði snjóbreiðuna sem þakti skóginn og snjóflyksurnar sem féllu á mig og staretsinn í ljóma sínum. Þið getið rétt ímyndað ykkur líðan mína!

„Hvernig líður yður núna?“ spurði bróðir Serafim mig.
 „Ósegjanlega vel,“ sagði ég.
  „En hvernig? Nákvæmlega hvernig líður yður?“
 Ég svaraði: „Ég finn til svo mikillar kyrrðar og friðar, að engin orð geta tjáð slíkt.“
    
„Þetta, yðar hávelborinheit,“ sagði bróðir Serafim, „er sá friður sem Drottinn vék að við lærisveinana þegar hann sagði: Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður (Jh 14. 27). Væruð þér af heiminum, myndi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum (Jh 15. 19). En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn (Jh 16. 33). Því fólki sem heimurinn hatar en Drottinn hefur útvalið, gefur hann þennan frið sem þér upplifið núna hið innra með yður, þann frið sem postulinn sagði að sé æðri öllum skilningi (Fl 4. 7). Postulinn lýsir honum með þessum orðum vegna þess að það er með öllu útilokað að tjá með orðum þann andlega ljúfleika sem glæðist í hjörtum þeirra sem verða aðnjótandi þessa innblásturs Drottins. Kristur, Frelsarinn, kallar þetta þann frið sem rekja megi til örlætis síns og sé ekki af þessum heimi vegna þess að engin jarðnesk gæði geta glætt hann í mannshjartanu. Sjálfur Drottinn Guð miðlar honum úr hæðum og því er hann nefndur friður Guðs. Verðið þér áskynja um eitthvað meira?“ spurði bróðir Serafim mig.

 „Ég finn til ósegjanlegs ljúfleika,“ svaraði ég.

Og hann hélt áfram: „Þetta er sá ljúfleiki sem komist er svo að orði um í heilagri Ritningu: Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna (Sl 36. 8). Nú streymir þessi ljúfleiki um hjörtu okkar og æðar með ósegjanlegum unaði. Hjörtu okkar bráðna í þessum ljúfleika í bókstaflegri merkingu og við erum báðir gagnteknir þvílíkri hamingju, að okkur vefst tunga um tönn. Finnið þér til einhvers meira?“

„Ég finn til óumræðilegrar  gleði í öllu hjartanu.“

 Hl. Serafim hélt áfram: „Þegar Andi Guðs kemur yfir mann í fyllingu innblásturs síns verður sálin gagntekin ósegjanlegri gleði vegna þess að Andi Guðs gagntekur alla sem hann snertir fögnuði. Það er að þessari gleði sem Drottinn víkur í guðspjalli sínu: Þegar kona fæðir, er hún í nauð, því að stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrautar sinnar af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn (Jh 16. 21, 22). En hversu huggunarrík sú gleði kann að vera sem þér skynjið í hjartanu, er hún ekkert í samanburði við þá gleði sem Drottinn vék að fyrir munn postula síns: Það sem augað sá ekki og eyra heyrði ekki, og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann (1 Kor 2. 9).

Nú gefst okkur að njóta þessarar fagnaðarríku fyrirhugunar og ef við upplifum slíkan ljúfleika, vellíðan og hamingju núna, hvað getum við þá sagt um þá gleði sem fyrirhuguð hefur verið þeim á himni sem grátið hafa á jörðu? Og þér, kæri vinur,  hafði grátið nægilega í jarðnesku lífi yðar. Nú sjáið þér með hvílíkri gleði Drottinn hefur huggað yður þegar í þessu lífi! Nú er það komið undir okkur sjálfum að bæta erfiði á erfiði ofan til að yður aukist æ kraftur á göngunni (Sl 84. 7) og náið vaxtartakmarki Krists fyllingar (Ef 4. 13), svo að orð Drottins nái að ganga fram í okkur: En þeir sem vona á Drottin, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki (Jes 40. 31) og: Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon (Sl 84. 7) skilningur og himneskar sýnir. Fyrst þá mun núverandi gleði okkar (sem vitjar okkur nú í litlu mæli í skamman tíma) birtast í allri sinni fyllingu. Og enginn mun svipta okkur henni vegna þess að við munum verða gagnteknir ósegjanlegum og himneskum fögnuði. Hvers annars verðið þér áskynja, yðar hávelborinheit?

Ég svaraði: „Ég skynja einstakan yl.“

„Hvernig getið þér skynjað yl, kæri vinur. Sjáið, við sitjum hérna í skóginum. Veturinn ríkir í öllu sínu veldi og snjórinn er undir fótum okkar. Við erum þaktir meira en þumlungsþykku snjólagi og enn falla snjóflyksurnar til jarðar. Um hvaða yl getur þá verið að ræða?“

Ég svaraði: „Líkt og í baðhúsi þegar vatninu er hellt yfir steinana og gufan stígur upp.“

„Og lyktin,“ spurði hann, „er hún sú sama og í baðhúsi?“

„Nei,“ svaraði ég. „Ekkert jarðneskt kemst í samjöfnuð við þennan ilm. Ég hafði gaman að því að dansa meðan ástkær móðir mín var enn á lífi. Ég fór á dansleiki og mannfagnaði og móðir mín hafði til siðs að dreypa á mig ilmvatni sem hún keypti í bestu tískuversluninni í Kazan. En ilmur þess var ekki svona sterkur.“

 Bróðir Serafim kímdi og sagði léttur í bragði: „Ég þekki hann sjálfur rétt eins og þér, kæri vinur, en ég spurði yður vísvitandi til að ganga úr skugga um, hvort þér skynjuðuð hann með sama hætti. Þér hafði hárrétt fyrir yður, yðar hávelborinheit! Ljúfasti ilmur á jörðu kemst ekki í samjöfnuð við þennan ilm sem við skynjum núna vegna þess að nú erum við umvafðir ilmi Heilags Anda. Hvað á jörðu kemst í samjöfnuð við hann? Veitið því athygli, yðar hávelborinheit, að þér hafið sagt að við erum umvafðir yl, líkt og í baðhúsi. En takið eftir því að snjórinn bráðnar ekki af okkur, fremur en undan fótum okkar vegna þess að þessi ylur er ekki í andrúmsloftinu, heldur í okkur sjálfum.

Það er þessi ylur Heilags Anda sem fær okkur til að hrópa í bæninni til Drottins: „Yljaðu mér með yl Heilags Anda!“ Það var þessi ylur sem vermdi einsetufólki af báðum kynjum og því óttaðist það ekki vetrarkuldann vegna þess að það var íklætt loðfeldum þeirra náðarríku klæða sem Heilagur Andi óf því. Og þannig hlýtur þessu að vera varið vegna þess að náð Guðs dvelur hið innra með okkur þar sem Drottinn sagði: Því að Guðs ríki er hið innra með yður (Lk 17. 21). Með ríki Guðs á Drottinn við náð Heilags Anda.

Núna er þetta konungsríki Guðs hið innra með okkur og náð Heilags Anda skín á okkur og yljar okkur einnig hið ytra. Hún mettar andrúmsloftið með ýmiss konar angan og gagntekur skynhrif okkar himneskum ljúfleika og hjörtu okkar með ósegjanlegri gleði. Postulinn varpar ljósi á núverandi ástand okkar: Því að ekki er Guðs ríki matur og drykkur, heldur réttlæti, friður og fögnuður í Heilögum Anda (Rm 14. 17). Trú okkar felst ekki í sannfærandi orðum jarðneskrar speki, heldur í sönnun Anda og kraftar (sjá 1 Kor 2. 4). Það er þetta ástand sem við dveljum í núna og Drottinn komst svo að orði um: Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki komið með krafti (Mk 9. 1). Sjáið yðar hávelborinheit, hversu ósegjanlega gleði Drottinn Guð hefur látið okkur verða aðnjótandi á þessari stundu! Þetta er það  sem átt er við þegar vikið er að fyllingu Heilags Anda. Hl. Makaríus frá Egyptalandi kemst svo að orði um hana: „Sjálfur dvaldi ég í fyllingu Heilags Anda.“ Nú hefur Drottinn veitt okkur vesælli sköpun sinni þessa fyllingu Heilags Anda í ríkum mæli. Þannig þurfið þér ekki lengur, yðar hávelborinheit, að spyrja að því hvernig fólk getur dvalið í náð Heilags Anda . . . Teljið þér að þér getið munað þessa birtingu ósegjanlegrar miskunnar Guðs sem hefur nú vitjað okkar?“

 „Ég veit það ekki, faðir,“ sagði ég, „hvort Drottinn muni gera mér kleift að minnast þessarar guðdómlegu miskunnar eins áþreifanlega, og ég upplifi hana núna.“

 „Ég tel,“ svaraði bróðir Serafim, „að Drottinn muni hjálpa yður til að greypa þetta í minni yðar alla tíð vegna þess að öðru vísi hefði hann ekki í allri sinni gæsku samstundis uppfyllt auðmjúka bæn og bón aumingja Serafims. Einkum vegna þess að yður er ekki ætlað einum að skilja þetta, heldur er þetta fyrirhugað öllum heiminum fyrir milligöngu yðar svo að þér verðið rótfastir í verki Guðs og öðrum til gagns. Það skiptir ekki nokkru máli í þessu sambandi, að ég er munkur, en þér leikmaður. Það sem Guð krefst er sannrar trúar á sig sjálfan og á eingetinn Son sinn. Sem umbun fyrir þetta veitist náð Heilags Anda í ríkulegum mæli úr hæðum. Drottinn leitar hjartna sem gagntekin eru elsku á Guði og náunganum. Þetta er það hásæti þar sem hann elskar að sitja og þar sem hann birtist í fyllingu himneskrar dýrðar sinnar. „Sonur minn, gefðu mér hjarta þitt,“ segir hann, „og ég mun veita þér allt annað að auki.“

[1] Virðingarávarp úr alþýðumáli: Litli faðir.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hugtakið ljósklæði Drottins er komið frá hl. Gregoríosi frá Nyssa (330-395):

„Allir þeir sem að ráði Páls afklæðast gamla manninum líkt og saurguðum klæðum með verkum hans og girndum hafa íklæðast hreinleika (καθαρότης) lífsins, ljós­klæðum (ἰμάτια φωτεινά) Drottins með hreinu líferni, þessum klæðum sem hann opinberaði okkur í ummyndun sinni á fjallinu.

Patrologia Greaca XLIV. 272 C.

17.05.08 @ 13:12