« María Guðsmóðir – Lifandi sáttmálsörk hins Nýja sáttmálaHl. Símon nýguðfræðingur – Guð sameinast guðum í Heilögum Anda. »

29.04.08

  22:01:16, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 540 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Hl. Jóhannes af Krossi – um hreinsandi mátt hins guðdómlega ljóss Heilags Anda.

Til þess að varpa enn frekara ljósi á það sem ég hef sagt og mun segja, verð ég að taka hér fram að þetta hreinsandi og kærleiksríka innsæi, eða umtalaða guðdómlega ljós, hreinsar sálina og undirbýr til þess að sameinast Guði fullkomlega með sama hætti og eldurinn þegar hann vinnur á viðnum sem hann umbreytir í eld. Þegar hinn náttúrlegi eldur kemst í snertingu við viðarbút, byrjar hann að þurrka hann með því að draga út allan rakanum þannig að allt vatnið gufar smám saman upp. Síðan svíður eldurinn viðarbútinn, svertir og dekkir og gerir hann óásjálegan og illa þefjandi og með því að þurrka viðinn sífellt meira eyðir hann öllu því sem er í hrópandi andsögn við eðli eldsins í ljótleika sínum.

Loks byrjar eldurinn að kveikja í viðnum að utanverðu og hita hann upp og þannig umbreytir hann honum í sjálfan sig og gerir viðinn eins fagran ásýndar eins og hann er sjálfur. Í öllu þessu leggur viðurinn ekkert fram af sjálfu sér – er hvorki óvirkur né virkur – nema með þyngd sinni og þéttleika sem er meiri en sjálfs eldsins og þannig öðlast hann eiginleika og virkni eldsins.

Þannig er hann þurr og þurrkar. Hann er skær og lýsir upp og býr yfir miklu meiri léttleika en áður. Það er eldurinn sem framkallar öll þessi áhrif í viðnum.

Við skulum nú íhuga þetta að nýju, en nú með hliðsjón af hinum guðdómlega eldi ásæisins. Áður en hann verður eitt með sálinni hreinsar hann hana af öllu sem er andstætt eðli hans. Hann upprætir allan óhreinleika hennar og svertir hana og dekkir þannig að henni finnst illska sín meiri en áður og að hún sé miklu óásjálegri og ekki eins leiðitöm. Þessi guðdómlega hreinsun hrekur á brott allar illar ástríður sem sálinni var um megn að komið auga á áður vegna þess að þær voru henni svo samgrónar og samofnar. Hún gat bókstaflega ekki gert sér í hugarlund að slík illska og ágallar leyndust hið innra með henni. En núna, þegar komið er að því að hrekja slíkt brott og uppræta, blasir þetta við sjónum hennar með ljóslifandi hætti í myrku ljósi hins guðdómlega ásæis. Þetta felur þó ekki í sér að hún sé orðin verri, hvorki hvað sjálfa hana áhrærir eða gagnvart Guði. En þegar hún sér það hið innra með sér sem áður var henni hulið, verður hún engu að síður að gera sér ljóst, að hún verðskuldar ekki að standa frammi fyrir ásýnd Guðs, heldur miklu fremur fyrirlitningu hans og hafi í raun og veru kallað slíkt yfir sig. Þessi samlíking við eldinn getur nú hjálpað okkur til að skilja mikið af því sem sagt hefur verið og mun verða sagt.

Hin myrka nótt sálarinnar, 2. 10, 1-2

No feedback yet