« Pílagrímsferðir og suðurgöngurHl. Angela Merici, mey og stofnandi Úrsúlínureglunnar »

28.05.05

  13:52:22, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 2621 orð  
Flokkur: Helgir menn, Pílagrimsferðir

Hl. Jóhanna af Örk

I.

Hl. Jeanne La Puchelle eða Jóhanna af Örk fæddist í sveitaþorpinu Domremy árið 1412, komin af bændafólki staðarins. Saga hennar er í stuttu máli á þá leið að Karl VI. Frakklandskóngur fór halloka í stríði við Hinrik V. Englandskonung á franskri grund. Kóngar þessir létust árið 1422 en deilurnar héldu áfram. Um 14 ára aldur fann Jóhanna fyrir innri hvatningu eða heyrði „raddir“ sem buðu henni að hitta hinn ókrýnda franska prins og krýna hann konung yfir Frakklandi í dómkirkjunni í Rheims til að sameina Frakka í baráttunni gegn Englendingum. Það er ef til vill ekki alveg augljóst nútímafólki hve fjarstæðukennd þessi fyrirætlun Jóhönnu var ef tillit er tekið til aldarfarsins.

Hún var af almúgafólki, bláfátæk kona, en þær nutu lítilla réttinda á þessum tíma og þar að auki barnung, líflátin aðeins 19 ára að aldri. Enn fremur var fólk almennt og valdsmenn þá, engu síður en þeir myndu vera í dag, eðlilega lítt tilbúnir að ljá eyra stúlku sem „heyrði raddir“, og hafa vafalaust haldið að um ofskynjanir, vannæringu eða geðtruflanir væri að ræða. Þessar raddir sagði hún tilheyra hl. Míkael erkiengli og helgum mönnum sem byðu henni að framkvæma það sem fyrr er sagt. Faðir hennar hafði veður af því að hún ætlaði sér að heiman, og hótaði barsmíðum. Engu að síður strauk hún og komst til riddara nokkurs í her prinsins. Henni tókst að sannfæra hann um erindi sitt og fékk áheyrn hjá prinsinum. Prinsinn dulbjó sig en Jóhanna fann hann. Frammi fyrir honum og hirðinni bað hún að mega tala við hann einslega. Eftir að hafa hvíslað nokkrum setningum að honum var hann sannfærður um að hún færi með rétt mál þrátt fyrir að helsti ráðgjafi prinsins og hirðin teldi að Jóhanna væri annað hvort brjáluð eða útsendari óvinarins. Til að jafna þennan ágreining bað prinsinn guðfræðinga í Poitiers að yfirheyra Jóhönnu. Þessar yfirheyrslur stóðu í þrjár vikur og að þeim tíma liðnum fékk prinsinn Jóhönnu vopn og herklæði og hún fór fremst ásamt biskupum og prestum fyrir könnunarflokki sem gerði árás á umsáturslið Englendinga um borgina Orléans. þeir horfðu fyrst á í forundran, börðust en hörfuðu síðan. Jóhanna komst til Oréans og nærvera hennar hafði sterk áhrif á borgarbúa þar. Nokkrum dögum síðar féllu ensku virkin í kringum Orléans og umsátrinu var aflétt. Jóhanna fékk ör í brjóstið í þessum bardögum. Nokkru síðar náði Jóhanna borginni Patay með hjálp hertogans af Alencon og sigraði þar her Englendinga sem var undir stjórn Sir John Fastolf. Borgin Troyes gafst upp og nú var leiðin til Rheims opin. Jóhanna sannfærði prinsinn um að hann yrði að láta krýna sig konung, og það var gert Í dómkirkjunni í Rheims en þar höfðu kristnir konungar Frakklands verið krýndir allar götur síðan hl. Remy krýndi Clovis konung árið 596 og Frakkar gengu kristninni á hönd sem þjóð. Þar með var Jóhanna búin að gera það sem raddirnar höfðu boðið henni að gera. Skömmu síðar féll hún í hendur Englendinga. Eftir níu mánaða harðneskjulega fangavist var Jóhanna leidd fyrir dómstól biskupsins í Beauvais, sem skipaður var kirkjunnar mönnum hliðhollum Englendingum, ákærð fyrir nornagaldur og trúvillu. Í fimmtán yfirheyrslum svaraði hún ásökunum hinna lærðu ákærenda sinna og neitaði þeim með óttalausu yfirbragði. Dómstóll þessi dæmdi hana seka og var hún brennd lifandi á báli á markaðstorginu í Rúðuborg, 30. maí 1431 þá aðeins 19 ára eins og áður segir. Til að styrkja stöðu sína reyndi Frakkakonungur tvisvar að fá dóminum hnekkt, en án árangurs. Það var svo Callistus páfi III. sem kallaði saman nefnd sem árið 1456 lýsti því yfir að dómurinn væri ógildur og endurreisti mannorð Jóhönnu. Tæpum 500 árum síðar, eða 30. maí 1920 var Jóhanna tekin í tölu dýrlinga, að sögn ekki vegna föðurlandsástar eða hernaðar, heldur vegna dyggðugs lífernis, staðfestu og auðsveipni við Guðs vilja. Hún er þjóðardýrlingur Frakka. Sagt hefur verið að ekki hafi þótt ráðlegt að taka hana í dýrlinga tölu fyrr til að styggja ekki Englendinga. Fjöldi bóka hefur verið gefinn út um hl. Jóhönnu og leikrit hafa verið skrifuð um ævi hennar, enn fremur hefur saga hennar verið kvikmynduð. [1]

Gamla þorpskirkjan í Domremy, fæðingarstað hl. Jóhönnu var og er helguð hl Remy. (Domremy þýðir reyndar kirkja-Remys). Auðvelt er að lesa út úr þessum nöfnum dálitla helgisögu. Hl. Remy krýnir Clovis Frakkakóng árið 596. Clovis gerist verndari kirkjunnar og breiðir hana út um ríki sitt. Hann sem Frakkakonungur gerist einskonar jarl með umboði frá guðdóminum. Hl. Remy er fulltrúi Guðs og í Rheims, sem fær nafn sitt frá dýrlingnum er byggð dómkirkja. Sveitaþorp nokkuð fær nafnið Domremi, kirkja-Remys. Á viðsjárverðum tímum þegar ljóst er að konungsveldi Frakka riðar til falls, rennur upp björt mey og hrein í húsi Remys, Domremi, sem gengur til fregna við guðleg völd og heldur á fund Frakkaprins sem fulltrúi Guðs. Hún endurreisir franska konungsdæmið, Frakkakonungur, jarl Guðs er krýndur í Rheims og sest í veldisstól. Bandalag Guðs og konungs er fullkomnað! Þegar þetta er haft í huga verður skiljanlegra að franska byltingin var ekki aðeins gerð gegn konungsveldi heldur einnig tímatali og kirkju. Nú er alger aðskilnaður þar á milli í Frakklandi, og svo rammt kveður að því að fólk verður til dæmis að giftast tvisvar, borgaralega og trúarlega ef það svo kýs.

II.

Föstudaginn 16. júní árið 1989 átti sá er þetta ritar þess kost að heimsækja heimabæ Jóhönnu. Við vorum 8 Íslendingar í hóp undir leiðstögn séra Jakobs Rollands prests í Landakoti. Lagt var af stað frá tjaldstæði í Luxemburg um morguninn. Yngri ferðafélagarnir vildu ólm leggja upp sem fyrst. Framundan beið heill dagur í ókunnu og spennandi landi og veðrið var hagstætt. Við tókum tjöldin saman, borðuðum morgunverð og lögðum af stað til borgarinnar. (Luxemborgar) Þaðan tókum við þjóðleiðina suður á bóginn, og eftir um það bil klukkutíma akstur var komið til Frakklands. Stefnan var tekin til Domremi,fæðingarstaðar hl. Jóhönnu. Leiðin lá suður framhjá borginni Metz, og síðan í suðvestur eftir hraðbrautinni um landbúnaðarhéruð. Eftir um það bil fimm tíma akstur beygðum við til hægri út af þjóðveginum. Vegirnir voru allir vel gerðir, og malbikaðir. En breiðari voru þeir ekki en venjulegir sveitavegir á Íslandi. Þarna var frekar sléttlent, en hæðir, langir ásar og trjálundir földu lítil sveitaþorp, sem skyndilega komu í ljós þegar sjónlína leyfði. Vegurinn var ekki beinn, en hlykkjaðist milli þorpanna og ásanna. Það fyrsta sem sást af hverju þorpi var venjulega turnspíra þorpskirkjunnar sem alltaf stóð í miðju þorpinu og stærst bygginga. Sólskin var og góður hiti. Skyggni var ágætt, en þó var ekki alveg heiðskírt, því þunnt mistur sló hvítri slikju á blámann. Leiðin lá alltaf gegnum þorpin og býlin þar stóðu sum hver fast við veginn. Þar gat að líta geitur og gripahús, Renault eða Citroen dráttarvélar, sumar nýlegar, aðrar eldri, en allar virtust í góðu ástandi, heybindivélar, hænsni, heybagga, hesta, heykvíslar, hálm- og skarnhauga. Þetta voru fjölskyldubýli og stundum sáum við fólkinu bregða fyrir. Karlarnir með derhúfur, akandi dráttarvélum og konurnar í kjólum.

Fordinn klifraði yfir háan, skógi vaxinn ás, réttara væri sjálfsagt að kalla hann lítið fjall. Við spurðum til vegar í þorpi, ókum sjö kílómetra í viðbót, og skyndilega vorum við komin til Domremi. Greinilegt var að Domremy hafði fyrr á öldinni verið mikill ferðamannastaður en þar er enn ágætis aðstaða fyrir ferðafólk. Þó að ekki hafi verið mannmargt þar þennan júnímorgunn þá hvíldi samt helgi yfir staðnum. Á rann í dalnum fyrir neðan við þorpið sem stendur við rætur eins ássins. Um 3-4 km. í suðaustri var annar ás, heldur lægri. Saman mynda þessir tveir ásar dalverpi, sem áin rennur eftir. Trjágróður var talsverður á ásunum báðum, í kringum þorpið og í dalnum. Þetta þorp var eins og hin þorpin að sjá, nema að kirkjan virtist miklu stærri. Það var kirkja hl. Jóhönnu af Örk, verndardýrlings Frakka. Kirkjan stendur fyrir suðvestan þorpið og utan það. Inni í þorpinu er enn gamla þorpskirkjan frá 14. öld. Við stöðvuðum bílinn á plani í miðju þorpinu um hádegisbil. Séra Jakob fór að leita að sóknarprestinum til að fá leyfi til að messa í gömlu kirkjunni. Við röltum um, og við brúarsporðinn fundum við styttu af hl. Jóhönnu og þeim himnavættum sem hvöttu hana og studdu. Við höfðum stansað á planinu fyrir framan garðinn sem umkringir æskuheimili hl. Jóhönnu. Þar er búið að koma á fót safni í næsta húsi sem er greinilega eitt af upprunalegum staðarhúsum. Sóknarpresturinn gaf ekki leyfi til að messa í gömlu kirkjunni, en leyfði að messað yrði í kjallarakapellu stóru kirkjunnar. Við ákváðum því að halda þangað, messa, borða og skoða síðan safnið og æskuheimilið á eftir.

Við gengum inn í tóma kirkjuna og niður í kjallara. Á veggjunum voru skráð nöfn hermanna frá þorpinu, sem fallið höfðu í styrjöldum. Fyrir framan aðalinnganginn að kapellunni var stytta af hl. Jóhönnu í bæn. Við röðuðum stólunum í hálfhring í kringum altarið, síðan messaði sr. Jakob. Kyrrðin þarna niðri var djúp, grófir og þurrir múrarnir og þykk tjöld gleyptu hvert hljóð. Við fengum sakramentið undir báðum myndum. Eftir kyrrðarstund að lokinni messunni fórum við út og fundum trjálund skammt fyrir ofan veginn út úr þorpinu. Það var dálítið uppi í hlíðinni svo við höfðum gott útsýni yfir dalinn og ána sem liðaðist eftir honum. Laufið bærðist í hlýrri golunni. Beinvaxnar og háar furur skýldu fyrir sólinni. Fyrir ofan og aftan stóðu þær svo þétt að sólargeislarnir náðu tæplega í gegnum laufþykknið. Jörðin þar var þakin teppi af rauðbrúnum furunálum. Við borðuðum Lúxembúrgískar pylsur, brauð, mjólk, ost, súkkulaði og ávexti. Á leiðinni að lundinum höfðum við farið framhjá karmelklaustri. Guðný og Perla fóru áður en matnum lauk að kanna klaustrið. Skammt frá okkur var maður að raka saman kalkvistum og rusli í hjólbörur. Hann keyrði það að eldi sem logaði rétt hjá. Séra Jakob gaf sig á tal við hann. Þetta var eftirlaunamaður sem átti þennan skógarlund. Hann var frá þessum slóðum, og hafði mikinn áhuga á sögu hl. Jóhönnu. Þeir töluðu mikið saman og við kvöddum hann með handabandi. Ég lagði af stað gangandi eftir veginum í áttina til þorpsins. Fljótlega kom ég að klaustrinu sem var fyrir neðan veginn. Hliðið var opið. Ég gekk inn í garðinn. Snyrtilegir göngustígar úr sandi lágu milli lítilla upphlaðinna blómabeða. Kantarnir á stígunum voru hlaðnir úr lófastórum flötum steinum, og mynduðu þeir upphleðslu beðanna. Ekki sá ég eina einustu illgresisjurt gægjast milli steinanna. Tré, bæði runnar og furur uxu þarna líka, svo að sól og mildir skuggar léku sér í trjánum og á jörðinni og á hvítri styttu af hl. Guðsmóður. Handan við brúna klausturbygginguna sem stóð aðeins neðar í hlíðinni glampaði á ána. Ég sá fyrir mér systurnar að snyrta stígana, reyta illgresið, tína burt strá, og rétta við brotin blóm. Þetta var líkt og andvari eilífðar, tíminn hefði stöðvast og héldi niðri í sér andanum eitt augnablik.

Við ókum í Fordinum inn í þorpið aftur og að planinu þar sem við komum fyrst. Safnið var opið, en fáir gestir aðrir en við. Fyrst sáum við litskyggnusýningu sem drap á helstu atriðum í ævisögu hl. Jóhönnu. Síðan skoðuðum við kort og skjöl frá þessum tíma, þar var meðal annars eiginhandaráritun hl. Jóhönnu sem hún hafði sett á einhver mikilvæg opinber plögg. Á eftir skoðuðum við bernskuheimili hennar. Leiðsögumaður sýndi okkur húsið. Það var hlaðið úr hnullungagrjóti og límt. Veggirnir voru þykkir, um það bil ein alin. Dyrnar voru lágar og bogmyndaðar að ofan. Fyrir ofan þær var skjaldarmerki hl. Jóhönnu. Inni var eldhús, búr og íverustofa. Stór arin blasti við þegar gengið var inn í húsið beint inn í eldhúsið. Loftbitarnir voru geysiþykkir, um það bil sex þumlungar á alla kanta. Við fórum ekki upp á loftið. Í einu horninu var bronsstytta af hl. Jóhönnu. En það sem mesta eftirtekt vakti voru gluggarnir, eða réttara sagt smæð þeirra. Ef okkur hefði ekki verið sagt annað þá hefðum við haldið að við værum í gripahúsi. Við gerðum því strax skóna að þetta hefði verið til að halda hitanum inni og spurðum ekkert út í þetta. Seinna kom kynnirinn svo að þessu og í ljós kom að þetta átti sér efnahagslegar skýringar. Kóngurinn sem réð ríkjum þegar húsið var byggt lagði sérstakan skatt á húseigendur sem fór eftir fjölda og stærð þeirra glugga sem á húsinu voru. Kynnirinn bætti við að það hefði þótt stöðutákn þeirra tíma að hafa glugga á búrinu, aðeins þeir efnameiri hefðu getað leyft sér það.

Eftir matinn var keyrðum við til Fellenring, nálægt Thann í Frakklandi þar sem foreldrar sr. Jakobs bjuggu. Það er í dal í skógivöxnum Vogesafjöllum. Þar er mikil náttúrufegurð. Við keyrðum til Thann og skoðuðum þetta fallega þorp. Ég ímynda mér að þannig líti lítil sveitaþorp á himnum út.

Heimild:
[1]Butler's Lives of the Saints. Concise Edition. Burns and Oates. Kent 1988.

No feedback yet