« Útvarpsmessa frá Dómkirkju Krists konungs LandakotiBandarískir biskupar kalla á herta vopnalöggjöf og betri heilsugæslu »

29.12.12

  13:42:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 302 orð  
Flokkur: Helgir menn

Hl. Thomas Becket

Hl. Thomas Becket (f. 1118) var erkibiskup Kantaraborgar frá 1162 til dauðadags, 29. desember 1170. Hann er dýrlingur og píslarvottur Rómversk-kaþólsku kirkjunnar sem og Anglíkönsku kirkjunnar. Hann var mikill vinur Hinriks II. konungs Englands en eftir að Thomas varð biskup spruttu upp deilur milli þeirra.

Víg Thomasar Becket

Misskilin orð Hinriks II. sem hann lét falla í reiði urðu til þess að fjórir riddarar héldu til Kantaraborgar og réðu erkibiskupinum bana í Kantaraborgardómkirkju. Vígið olli mikilli hneykslan um alla hina kristnu Evrópu og var þegar litið svo á að um píslarvætti væri að ræða. Alexander páfi III. tók Thomas í tölu heilagra árið 1173. Konungurinn reyndi að bæta fyrir brot sitt með opinberri píslargöngu um götur Kantaraborgar að gröf píslarvottsins árið 1174.

Gröfin varð fljótt einn helsti pílagrímastaður Englands á miðöldum. Síðasta ferð Becket til Kantaraborgar var frá Southwark í London og því varð þessi spölur milli borganna tveggja vinsæl pílagrímaleið einkum vegna þess að sama aflát og ívilnanir af kirkjunnar hálfu fengust fyrir hana og ef farið var til erlendra pílagrímastaða svo sem Santiago de Compostela, Landsins helga eða Rómar. Hinar kunnu Kantaraborgarsögur eftir Chaucer frá lokum 14. aldar eru sagðar af hópi pílagríma sem ferðast þessa leið.

Árið 1220 voru jarðneskar leifar dýrlingsins skrínlagðar í hinni þá nýbyggðu Þrenningarkapellu (Trinity Chapel). Jarðneskar leifar hans voru síðan eyðilagðar árið 1538 samkvæmt fyrirmælum frá Hinriki VIII konungi sem jafnframt bannaði að minnst yrði á dýrlinginn.

Bandaríska skáldið T.S. Eliot byggði á sögunni um Thomas Becket þegar hann samdi verkið Murder in the Cathedral. Texti sem Eliot var beðinn að fjarlægja úr verkinu var síðar birtur í kvæðinu Burnt Norton.

[Á vefsíðunni YouTube má finna kvikmyndina St. Thomas a Becket í 15 bútum: http://www.youtube.com/playlist?list=PLECA3B5D22EC6BBD4 viðb. 29.11.2012]

Endurbirtur pistill sem birtist fyrst á kirkju.net 29.12.2009. Orðalag endurbirtingar var lagfært. Síðari endurbirtingar: 29.12.2011, 29.12.2012.

RGB tók saman. Heimildir: The Penguin Dictionary of Saints. Butler's Lives of the Saints. Concise Edition og WikiPedia.

5 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Við þetta má bæta að til er vísubrot eftir Ólaf Þórðarson hvítaskáld (um 1210 – 1259) sem hann orti um hl. Becket:

Þér fremizk því með tíri,
þú ert næst guði hæstum.

Teitr gefr Tómás ýtum
trúarbót fyr sið ljótan.

Sjá: https://notendur.hi.is/eybjorn/ugm/skindex/olhv.html

29.12.11 @ 08:07
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hver ætli sá siðr ljóti hafi verið–––heiðni einhverra á Bretlandseyjum svo seint? Eða slakt siðferði?

Glaður (teitr) gefur Tómás ýtum (mönnum) trúarbót [í staðinn] fyrir sið ljótan.

Hressilegt að fá þessa grein þína, Ragnar!

10.01.12 @ 19:52
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Eða kátur/hressilegur (teitr).

10.01.12 @ 19:53
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Jón. Ekki veit ég hver sá ’siðr ljóti’ var. Líklega einhver heimsósómi sem hl. Thomas barðist gegn.

13.01.12 @ 21:19
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kannski illt siðferði kóngsins, og góðan daginn, Ragnar!

14.01.12 @ 09:33