« Ritningarlesturinn 9. októberRitningarlesturinn 8. október 2005 »

08.10.06

  11:06:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 750 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

1. Ímynd hins Alhelga Hjarta og boðskapur

Jesus

Til þess að skilja kenningu kirkjunnar um guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú og hins Flekklausa Hjarta Maríu er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir hinni sönnu merkingu orðsins „hjarta“ í ljósi hinnar heilögu arfleifðar. Orðið „hjarta“ (hebr. lev, gr. kardia), í heilagri Ritningu og samkvæmt skilningi kirkjufeðranna skírskotar ekki einungis til hins líkamlega hjarta heldur andlegs verundarkjarna mannsins, mannsins eins og hann er skapaður í ímynd Guðs, til sjálfrar guðsímyndar mannsins.

Í umfjöllun sinni um verund Guðs og mannsins í hirðisbréfi sínu Deus caritast est víkur Benedikt páfi að þessu verundardjúpi Guðs sem hann gefur manninum hlutdeild í sem sköpun sinni með því að fjalla um dýpstu hræringar verundar Guðs sem „eros“ eða ástarfuna og „agape“ eða elsku. Við getum þannig sagt með fullum rétti að ástarfuninn sé hræringin til kyrrðarríkis elskunnar: Verundardjúps Guðs. Það er þetta sem við sjáum með svo áþreifanlegum hætti í 42. Davíðssálminum: „Eitt djúpið hrópar á annað“ (vers 8. Vúlgata). Djúp Guðs hrópar til djúps mannsins. Þessi skilningur kemur einnig fram í 51. Davíðssálminum: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda“ (vers 12). Það er í hreinleika hjartans sem maðurinn öðlast „stöðugan anda,“ hlutdeild í kyrrðarríki elsku Guðs. Því nefndu hinir heilögu feður og mæður hinsta takmark bænar hjartans hjartakyrrðina.

Bæn hjartans greina feðurnir frá sem sameiningu hugar og hjarta, „að láta hugann síga niður í hjartað,“ eða að hugurinn verði eitt með hjartanu. Þetta ber að skilja sem svo að skilningur mannsins verði eitt með skilningi Guðs – Logos eða frumspekinni – eins og Benedikt páfi kemst að orði í Deus caritast est. Þetta gerist í leyndardómi sameiningarbænarinnar sem guðfræðin tjáir sem guðsgjörninguna eða Kristsgjörninguna. Það er þetta sem tjáð er í ákallinu til hins Alhelga Hjarta Jesú með orðunum: „Jesús, auðmjúkur og lítillátur af hjarta. Megi hjarta mitt verða sem þitt Hjarta.“

Annað ákall í sömu bæn hljóðar: „Alhelga Hjarta Jesú, ég trúi á elsku þá
sem þú auðsýnir mér.“ Hér er vikið að ástarfuna (eros) Drottins til sköpunar sinnar, að leiða manninn inn í djúp elsku sinnar. Orð Elísabetar af Þrenningunni varpa best ljósi á þennan leyndardóm trúarinnar: „Það er einungis ein hræring í hinu Alhelga Hjarta Jesú, að uppræta syndina og leiða okkur til síns himneska Föður.“

Það er ekki svo fátítt að við sjáum að bókstafstrúarmenn meðal mótmælenda ráðast harkalega að kirkjunni og ásaka hana um skurðgoðadýrkun fyrir guðrækni þá sem boðuð er með guðfræði hins Alhelga Hjarta. Þetta leiðir einungis í ljós að þeir hinir sömu hafa engan skilning á hinni heilögu arfleifð eða þeirri guðfræði sem býr hér að baki.

Á næstunni hef ég í hyggju að fjalla ítarlega um tilbeiðslu hins Alhelga Hjarta Jesú í margvíslegu samhengi. Fjölmargir standa í þeirri trú að guðrækni hins Alhelga Hjarta hafi fyrst komið fram í kirkjunni á sextándu öld. Hér er um mikinn misskilning að ræða vegna þess að hún hefur fyglt kirkjunni frá upphafi vega, eða allt frá því að lærisveinninn sem Jesú elskaði mest, Jóhannes, hallaði sér upp að brjósti Jesú. Þetta var sú ímynd sem var kirkjufeðrunum hvað hjartfólgnust á fimmtu öld, en ég mun víkja betur að þessu í næsta pistli mínum. Hið Alhelga Hjarta Jesú er táknmynd eða íkona þeirrar elsku sem hann úthellti yfir mannkynið á fórnarhæð krossins.

Næst: 2. Ástarfuni hins Alhelga Hjarta í umfjöllun kirkjufeðra fornkirkjunnar.

BÆN:

Miskunnsami Jesú, ég helga líf mitt þínu
Alhelga Hjarta í dag og ávallt.
Alhelga Hjarta Jesú, ég sárbæni þig um að
ég elski þig sífellt meira.
Alhelga Hjarta Jesú!, ég treysti þér!
Alhelga Hjarta Jesú, miskunna þú oss!
Alhelga Hjarta Jesú, ég trúi á elsku þá
sem þú auðsýnir mér.
Jesús, auðmjúkur og lítillátur af hjarta.
Megi hjarta mitt verða sem þitt Hjarta.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Falleg bæn – og skýr og upplýsandi grein. Þökk, bróðir.

08.10.06 @ 20:13