« Nýr vefur kirkjunnar á FacebókMorgunmessa með Þorláki biskupi helga »

19.07.18

  15:55:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 177 orð  
Flokkur: About our website. Kirkju.net

Hjalti Magnússon: Bæn

við brottför mína úr Stykkishólmi í október 1896. Kringumstæðurnar voru bágar, jeg vildi komast að Djúpi, en átti þar þó enga nótt vísa. Varð að fara í vondri tíð, undir veturinn, bæði sjóveg og landveg.

Alvaldi faðir allra þjóða,
eilífa guðdóms þrenningin,
láttu nú haf og land mjer bjóða
liðugan þrautaferilinn.
Yfirbugað fær ekkert mig,
ef aðeins treysti´ eg fast á þig.

Láttu mótgerðir ljett mjer falla,
ljúfasti, góði frelsarinn !
og nær til dauða´ eg höfði halla,
hirtu þá sálarneistann minn,
oft sem jeg hef um æfiskeið
útfordjarfað á marga leið.

Þótt ófullkominn jeg sje nú svona,
samt flýgur til þín hugur minn,
og ávallt skal jeg á þig vona,
elskuríkasti græðarinn.
Hjá þjer einum er allra skjól
eilíf miskunnar náðarsól.

Heyr þú bæn mína, herra góði,
og hjástoð veit mjer, drottinn kær ;
af miskunar þinnar mæta sjóði
mjer veittu líkn, og vertu nær,
eg svo að þreifi´ um almátt þinn,
elskuríkasti faðir minn.

Drottinn heyrði þessa bæn mína. Mjer gekk ferðin vel, og jeg fjekk atvinnu um veturinn við barnakennslu, og hefi jeg verið við það síðan.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þannig ritar langafi minn Hjalti um þetta inngangs-kvæði sitt í smákverinu Einfeldningur, nokkur ljóðmæli (Ísaf. 1898, gefin út af höfundinum), s. 3-4. Hjalti var fæddur á Svarfhóli í Álftafirði, N-Ís., 4. nóv. 1839, sonur Magnúsar prests í Ögurþingum og síðast á Rafnseyri, Þórðarsonar prests, síðast í Ögurþingum, Þorsteinssonar, og konu hans Matthildar Ásgeirsdóttur prófasts í Holti í Önundarfirði, Jónssonar prófasts þar (móðurföður Jóns forseta), Ásgeirssonar. Hjalti var kvæntur Friðrikku saumakonu Kristjánsdóttur sterka á Borg í Arnarfirði Guðmundssonar. Þau voru á ýmsum stöðum við Ísafjarðardjúp og á Ísafirði, búandi og í vinnumennsku, og formaður var hann einnig. Áttu þau nokkur börn, m.a. Magnús, “skáldið á Þröm", og tvo syni átti hann að auki, Jens í Bolungarvík og Hinrik vélstjóra, afa undirritaðs (hann og Hjalti eru með æviskrár í Kennaratali IV, 108 og 109, en Magnús á Þröm í sama riti, I, 470, og í Ísl. æviskrám, III, 445). “Hjalti var hagorður og vel að sér ger um marga hluti, drengur góður og glaður hvað sem á móti blés, ráðvandur og vel gefinn, var við barnakennslu á vetrum á síðari árum og fór það betur en mörgum sem lærðu meira.” (Sighvatur Grímsson Borgfirðingur: Presta æfir á Íslandi, XI,1, bls. 59 o.áfr.: Magnús Þórðarson). Ljóst er af orðalagi hans við þetta ljóð, að hann hefur verið barnakennari í Djúpinu a.m.k. 1896-8, sennil. til dd., einnig getið sem heimiliskennara í Súgandafirði 1891-2 og 1896 (Ktal). “Hann varð bráðkvaddur á Dvergasteini í Álftafirði 15. maí 1899, [nær] 60 ára, en Friðrikka kona hans dó á Ísafirði 7. júní 1913″ (Sighv. Bgf.). Friðrikka ól upp Hinrik, afa undirritaðs, en móðir hans var Sigurlína María Hinriksdóttir kaupm. og útgm. á Ísafirði, Sigurðssonar á Seljalandi.

19.07.18 @ 17:16
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ekki veit ég til þess, að langafi minn hafi gefið út fleiri ljóð en þau, sem eru á 16 blaðsíðna kverinu Einfeldningur. Mér er það gleðiefni að birta þetta hér og þykist kenna hér og í fleiri kvæðum hans og vísum innileg merki trúar hans, eins og sést hér á því, með hve fallegum hætti hann ávarpar skapara sinn og frelsara, og með samanburði við annan kveðskap í kverinu er augljóst, að þessi hátignarlega virðing fyrir guðdómnum og elskufullur andi gagnvart Jesú, ásamt bænarhita (sjá ávörpin hér: I:1-2, II:2, III:4 (og 6), IV:1,2,6), hefur verið honum inngróin trú, vafalítið frá bernskuárum, þar sem hann ólst upp með trúuðum foreldrum sínum (og af sjö prestum var hann kominn í beinan karllegg), en hann “flutti með foreldrum sínum að Rafnseyri 1860 og var hjá þeim áður alla stund, en flutti aftur frá Baulhúsum í Arnarfirði 1863 að Eyri í Seyðisfirði og var þá orðinn giftur Friðrikku …” (Sighvatur Borgfirðingur, ibid.).
Vafalítið tel ég, að Hjalti eigi þau innilegu eftirmæli sem í nafni móður hans eru letruð á grafstein séra Magnúsar á Rafnseyri, en hann lézt þar 7. sept. 1860, 59 ára gamall, en 31 ár prestur.

PS. Allri stafsetningu kversins er haldið hér óbreyttri. Prentað var það í Prentsmiðju Stefáns Runólfssonar á Ísafirði fyrir 120 árum.

19.07.18 @ 17:35
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sjá hér annað ljóð Hjalta, með eindregnum trúarvitnisburði (o.fl. þar): Huggunarstef.

19.11.19 @ 13:17
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by open-source CMS software