« HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 91-100)HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 71-80) »

10.02.07

  07:43:43, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1497 orð  
Flokkur: Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 81-90)

81. Gjöf Heilags Anda sem úthellt var yfir lærisveina hans er fyrsta áþreifanlega táknið um ríkidæmi kærleika hans eftir sigur uppstigningar hans til hægri handar Föðurins. Að tíu dögum liðnum kom Heilagur Andi sem Faðirinn gaf yfir þá þar sem þeir voru saman í loftsalnum í samhljóðan við það fyrirheit sem gefið var við síðustu kvöldmáltíðina: „Ég mun biðja Föðurinn, og hann mun gefa yður annan Hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu.“ [84] Og þessi Hjálpari sem er hin gagnkvæma elska milli Föðurins og Sonarins er sendur af þeim báðum í mynd eldtungna sem úthellti í sálir þeirra guðdómlegum kærleika í gnægtum og öðrum himneskum náðargjöfum.

82. Innblástur þessa guðdómlega kærleika á sér einnig upptök í Hjarta Frelsarans, en „í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.“ [85]. Þessi kærleikur er gjöf Jesú Krists og Anda hans og hann er í reynd Andi Föðurins og Sonarins, sem er uppspretta kirkjunnar sem opinberar undursamlegan vöxt hennar fyrir heiðingjunum sem saurgast höfðu af skurðgoðadýrkun, hatri innan fjölskyldunnar, siðspillingu og ofbeldi.

83. Þessi guðdómlegi kærleikur er dýrmætasta gjöf Hjarta Krists og Anda hans. Það er hann sem gæddi postulana og píslarvottana þeim styrk sem veitti þeim kraft til að heyja stríð sitt eins og hetjur allt til dauða til að predika sannleika guðspjallanna og bera þeim vitni með því að úthella blóði sínu. Það var hann sem blés kirkjufræðurunum í brjóst ákafa til að útskýra og verja kaþólska trú. Það var hann sem nærði dyggðir játendanna og hóf þá upp til þeirra undursamlegu verka sem voru þeirra eigin hjálpræði hollt og blessunarríkt fyrir hjálpræði annarra bæði í þessu lífi og því komandi. Að lokum var það hann sem hvatti meyjarnar til að snúa fúslega baki frá fullnægju skynhrifanna til að helga sig fullkomlega elskunni á himneskum Eiginmanni sínum.

84. Það var til að auðsýna þessum guðdómlega kærleika heiður sem streymir úr Hjarta hins holdgaða Orðs og með hjálp Heilags Anda er úthellt í sálir hinna trúuðu sem postuli heiðingjanna samdi þennan sigursöng til að boða sigur Krists, Höfuðs lima hins leyndardómsfulla líkama gagnvart öllum þeim sem með einhverjum hætti stæðu gegn stofnun konungsríkis elskunnar meðal manna: „Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? . . . Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss. Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ [86]

85. Ekkert hindrar oss þannig í að tilbiðja hið Alhelga Hjarta Jesú Krists sem hluta og náttúrlegt og tjáningarríkt tákn þeirrar sívarandi elsku sem hinn guðdómlegi Endurlausnari brennur í gagnvart mannkyninu. Þrátt fyrir að hún lúti ekki lengur breytilegum tilfinningum þessa jarðneska lífs, lifir hún áfram sem hjartasláttur og er óaðskiljanleg Persónu hins guðdómlega Orðs og í honum og fyrir hann hinum guðdómlega vilja. Þar sem Hjarta Krists er bæði altekið mennskri og guðdómlegri elsku og ríkidæmi allrar náðar sem Endurlausnarinn verðskuldaði með lífi sínu, þjáningum og dauða, þá er það hin varanlega uppspretta þess kærleika sem Heilagur Andi úthellir í öllum limum hins leyndardómsfulla líkama.

86. Þannig endurspeglar Hjarta Frelsarinn með ákveðnum hætti ímynd hinnar guðdómlegu Persónu Orðsins og samtímis hin tvö eðli hans, hið mennska og hið guðdómlega. Í því getum vér ekki einungis íhugað táknið, heldur að ákveðnu marki allt inntak leyndardóms endurlausnar vorrar. Þegar vér tilbiðjum hið Alhelga Hjarta Jesú Krists, tilbiðjum vér í því bæði hina ósköpuðu elsku hins guðdómlega Orðs, en einnig mennska elsku hans og aðrar tilfinningar hennar og dyggðir vegna þess að það var þessi tvíþætta elska sem knúði Endurlausnara vorn til að fórna sjálfum sér fyrir oss og fyrir eiginkonu sína, heimskirkjuna, eins og postulinn segir: „Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði. Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus.“ [87]

87. Rétt eins og Kristur elskaði kirkjuna elskar hann hana enn ákaft með þeirri þríþættu elsku sem vér höfum vikið að sem hrærði við honum sem árnaðarmanni vorum [88] „þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir oss“ [89] til að verðskulda okkur náðar og miskunnar Föður síns. Þær bænir sem spretta fram úr þessari óbrigðulu elsku og beinast til Föðurins eru óaflátanlegar. Eins og á „jarðvistardögum sínum“ [90] ber hann nú sem sigurvegarinn á himnum bónarbænir fram fyrir himneskan Föður sinn með jafn áhrifaríkum hætti, hann sem elskaði svo heiminn „að hann gaf Son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ [91] Hann leiðir oss lifandi Hjarta hans fyrir sjónir sært eins og það var og þrungið enn meiri elsku en þegar það var sært til dauða með spjóti rómverska hermannsins: „(Hjarta þitt) hefur verið sært þannig að við getum sökum hins sýnilega sárs séð hið ósýnilega sár elskunnar.“ [92]

88. Það er hafið upp yfir allan vafa að himneskur Faðir hans „Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin Syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla“ [93] muni þegar svo máttugur árnaðarmaður ákallar hann af svo elskuríkum ákafa úthella guðdómlegum náðargjöfum yfir menn í ríkum mæli.

89. Það var vilji vor, æruverðugu bræður, með þessari almennu umfjöllun að setja yður og hinum trúuðu fyrir sjónir innra inntak þessarar guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú og það ósegjanlega ríkidæmi sem streymir frá henni þar sem hún liggur ljóst fyrir í frumkenningunum og hinni guðdómlegri opinberun. Vér teljum að athugasemdir vorar sem njóta ljóss fagnaðarerindisins hafi sannað að þessi guðrækni eins og hún er tjáð í heild sé ekkert annað en guðrækni sem beinist að mennskri elsku hins holdgaða Orðs og þeirrar elsku þar sem hinn himneski Faðir og Heilagur Andi auðsýna syndugum mönnum umhyggju sína. Eins og hinn englum líki kirkjufræðari kennir, þá er elska hinnar Alhelgu Þrenningar uppspretta friðþægingar mannsins. Hún streymdi inn í mennskan vilja Jesú Krists og inn í tilbeiðsluvert Hjarta hans af fullum þunga og leiddi hann undir áhrifavaldi þessarar elsku til að úthella blóði sínu til að frelsa oss undan þrældómsoki syndarinnar [94]: „Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð.“ [95]

90. Vér erum þess fullvissir að sú guðrækni sem vér glæðum á elsku Guðs og Jesú Krists á mannkyninu með hinu tilbeiðsluverða tákni gegnumstungins Hjarta hins krossfesta Endurlausnara hafi aldrei verið fjarlæg í trúrækni hinna trúuðu, þrátt fyrir að hún hafi orðið betur kunn með því að breiðast með svo undursamlegum hætti um kirkjuna á síðustu tímum. Einkum gerðist þetta eftir að Drottinn vor sjálfur opinberaði sumum barna sinna þennan guðdómlega leyndardóm með persónulegum hætti sem hann hefur miðlað ríkulegum náðargjöfum og hann hefur útvalið til að vera sérstaka boðbera og raddir þessarar guðrækni.

[84]. Jh 14. 16.
[85]. Kol 2. 3.
[86]. Rm. 8. 35, 37-39.
[87]. Ef 5. 25-27.
[88]. Sjá 1 Jh 2:1.
[89]. Heb 5. 7.
[90]. Heb 5. 7.
[91]. Jh 3. 16.
[92]. Hl. Bonaventure, Opusc. X: "Vitis mystica," c. III, n. 5; "Opera Omnia," Ad Claras Aquas (Quaracchi) 1898, vol. VIII, bls. 164.; Cfr. Sum Theol. III, q. 54, a. 4:ed. Leon., vol. XI, 1903, bls. 513.
[93]. Rm 8. 32.
[94]. Sjá Sum. Theol. III, q. 48, a. 5: ed. Leon., vol. XI, 1903, bls. 467.

No feedback yet