« HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 81-90)HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 61-70) »

09.02.07

  06:58:01, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1012 orð  
Flokkur: Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 71-80)

71. Það má því lýsa því yfir að hin guðdómlega Evkaristía, bæði sakramentið sem hann gefur mönnunum og fórnin þar sem hann fórnar sér óaflátanlega „frá upprás sólar allt til niðurgöngu hennar “ [73] og jafnframt prestdómurinn, séu með sanni gjafir hins Alhelga Hjarta Jesú.

72. Önnur afar dýrmæt náðargjöf hins Alhelga Hjarta er, eins og vér höfum sagt, María, hin hjarttfólgna Móðir Guðs og elskurík Móðir okkar allra. Hún sem ól Frelsara vorn með holdlegum hætti og ásamt honum kallaði börn Evu til lífs guðlegrar náðar hefur með réttu verið heiðruð sem andleg Móðir alls mannkynsins. Og það er þannig sem hl. Ágústínus skrifar um hana: „Augljóslega er hún Móðir lima Frelsarans (en það erum við) vegna þess að hún deildi með honum erfiðinu í elsku svo að hinir trúföstu limir Höfuðsins gætu fæðst í kirkjunni“ [74]

73. Frelsari vor Jesús Kristur þráir að sameina blóðlausa gjöf sjálfs síns undir mynd brauðsins og vínsins hinni blóðugu fórn krossins sem staðfestingu djúpstæðrar og takmarkalausrar elsku sinnar. Með því að bregðast við með þessum hætti gaf hann oss dæmi um háleitan kærleika sinn sem hann hafði leitt lærisveinum sínum fyrir sjónir sem æðsta stig elskunnar með þessum orðum: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ [75]

74. Þannig varpar elska Jesú Krists, Guðsonarins, ljósi á fórnina á Golgata og á inntak elsku sjálfs Guðs: „Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna.“ [76] Sannleikurinn er sá að það var fremur vegna elskunnar en ofbeldis böðla hans sem guðdómlegur Endurlausnari vor var negldur á krossinn og hin fúslega og algjöra fórn hans er sú æðsta gjöf sem hann gaf sérhverjum manni í samhljóðan við þessi hjartnæmu orð postulanna: „Hann elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ [77]

75. Hið Alhelga Hjarta Jesú öðlast með innilegum hætti hlutdeild í lífi hins holdgaða Orðs og þannig verður það að eins konar verkfæri Guðdómsins. Þannig er það hafið yfir allan vafa að Hjarta hans gegnir ekki síður hlutverki í framkvæmd náðarverka og guðdómlegs almættis en aðrir limir mennsks eðlis hans og því réttmætt tákn þessarar ósegjanlegu elsku [78]

76. Í áhrifamætti þessarar elsku bast Frelsari vor kirkjunni hjúskaparböndum með því að úthella blóði sínu: „Í elsku leifði hann sjálfum sér að kvænast kirkjunni.“ [79] Þannig fæddist kirkjan sökum særðs Hjarta Endurlausnarans, þess sem miðlaði blóði friðþægingarinnar og héðan streymir sá ríkulegi straumur náðar sakramentanna þar sem börn kirkjunnar bergja á hinu eilífa lífi, eins og vér lesum í helgisiðunum: „Kirkjan, brúður Krists, fæðist í hinu gegnumstungna hjarta . . . Og hann úthellir náð úr þessu Hjarta.“ [80]

77. Hvað áhrærir merkingu þessa tákns, þá var það ekki ókunnugt fyrstu feðrunum og kirkjuskrifurunum og þegar hl. Tómas frá Akvínó endurómar einhverjum orða þeirra skrifar hann: „Úr síðu Krists streymdi vatn til hreinsunar og blóð endurlausnarinnar. Þannig er blóðið samofið sakramenti Evkaristíunnar, vatnið skírnarsakramentinu sem býr yfir hreinsandi mætti sökum dyggða blóðs Krists.“ [81]

78. Það sem hér er skrifað um síðu Krists sem opnaðist sökum sárs hermannsins má einnig segja um Hjartað, en spjótsoddurinn snart Hjartað sannarlega vegna þess að hermaðurinn beitti því einmitt til að ganga úr skugga um að Jesús Kristur krossfestur væri andaður. Með þessum hætti verður sár hins Alhelga Hjarta Jesú nú þegar hann hefur lokið dauðlegu lífi sínu að áhrifaríkri ímynd í aldanna rás af þeim óhjákvæmilega kærleika þegar Guð gaf eingetinn Son sinn til að friðþægja fyrir mennina og þegar Kristur tjáði svo ástríðufulla elsku okkar í garð, að hann fórnaði sjálfum sér sem blóðfórn á Krosshæðinni fyrir oss: „Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.“ [82]

79. Eftir að Drottinn vor var stiginn upp til himins ásamt líkama sínum skrýddum mætti eilífrar dýrðar og settist við hægri hönd Föðurins, hætti hann ekki að dvelja með brúði sinni, kirkjunni í þeirri brennandi elsku sem Hjarta hans slær í. Og hann bar á höndum sínum, fótum og síðu dýrleg ummerki þess sárs sem staðfestir þríþættan sigur hans yfir djöflinum og dauðanum.

80. Hann varðveitir einnig í Hjarta sínu fjársjóði verðskuldunar sinnar, líkt og hulda í dýrmætu skríni, ávexti þessa sama þríþætta sigurs sem hann úthellir í ríkum mæli fyrir hið endurleysta mannkyn. Þetta er sannleikur fullur huggunar sem postuli heiðingjanna tjáði með þessum orðum: „Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir . . . Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fylla allt.“ [83]

[73]. Mal 1. 11.
[74]. „De sancta virginitate,“ VI: P.L. XL, 399.
[75]. Jh 15. 13.
]76]. 1 Jh 3. 16.
[77]. Gal 2. 20.
[78]. Sjá Sum. Theol. III, q. 19, a. 1: ed. Leon., vol. XI, 1903, bls. 329.
[79]. Sum. Theol., Suppl., q. 42, a. 1. ad 3m: ed. Leon., vol. XII, 1906, bls. 31.
[80]. Sálmur við aftansöng á Hátíð hins Alhelga Hjarta Jesú.
[81]. Sum. Theol. III, q. 66, a. 3m: ed. Leon., vol XII, 1906, bls. 65.
[82]. Ef 5. 2.
[83]. Ef 4. 8, 10.

No feedback yet