« HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 71-80)HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 51-60) »

08.02.07

  06:16:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1269 orð  
Flokkur: Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 61-70)

61. En eftir að dýrlegur líkami hans hafði að nýju sameinast sál hins guðdómlega Endurlausnara eftir sigurinn yfir dauðanum, hætti hið Alhelga Hjarta hans ekki og mun aldrei hætta að slá með kyrrðarríkum og órjúfanlegum hjartaslætti. Þannig mun það heldur aldrei hætta að vera tákn þeirrar þríþættu elsku sem bindur hann hinum himneska Föður og öllu mannkyninu, en hann hefur allan rétt til að vera leyndardómsfullt Höfuð þess.

62. Og nú, æruverðugu bræður, og til þess að vér getum safnað saman ríkulegum og sáluhjálplegum ávöxtum með þessum heilögu íhugunum, viljum vér hugleiða og íhuga lauslega þau fjölmörgu geðhrif, mennsk og guðleg, sem Hjarta Frelsara vors Jesú Krists opinberaði okkur í dauðlegu lífi hans og heldur áfram að gera að eilífu. Það er einkum af síðum guðspjallanna sem ljós skín til vor og í styrk þess og birtu megnum vér að ganga inn í hinn hulda stað hins guðlega Hjarta og horfa ásamt postula heiðingjanna á „hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar hans með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú.“ [57]

63. Hið tilbeiðsluverða Hjarta Jesú Krists tók að slá í elsku bæði með mennskum og guðlegum hætti eftir að María mey gaf fúslega „Fiat“ sitt og Orð Guðs eins og postulinn segir kom í heiminn: „Því er það, að Kristur segir, þegar hann kemur í heiminn: Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað, en líkama hefur þú búið mér. Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki. Þá sagði ég: „Sjá, ég er kominn – í bókinni er það ritað um mig – ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!" . . . Og samkvæmt þessum vilja erum vér helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.“ [58]

64. Það var einnig elskan sem stjórnaði honum í fullkomnu samræmi við ástúð mennsks vilja hans og guðlegrar elsku þegar hann talaði við blíðlynda Móður sína og fósturföður sinn, hl. Jósef í húsinu í Nasaret, í hlýðni við þann sem hann leysti mörg erfið verk fyrir sem trésmiður.

65. Hann lét enn og aftur stjórnast af þeirri þríþættu elsku sem vér höfum vikið að í sínu opinbera lífi: Í löngum postullegum ferðum, þegar hann gerði ótal kraftaverk, líkt og þegar hann kallaði hina dauðu úr gröfinni eða læknaði fólk sem þjáðist af margvíslegum sjúkdómum, í erfiði og örþreyttur, hungraður og þyrstur, á næturvökunum þegar hann ákallaði Föður sinn í bæninni með elskuríkum hætti og að lokum í predikunum sínum og þegar hann sagði dæmisögur sínar og útskýrði þær, einkum þær þeirra sem viku að miskunnseminni: Drökmunni týndu, sauðnum vegvillta og syninum glataða. Eins og hl, Gregor hinn mikli segir opinberaðist í verki og orðum sjálft Hjarta Guðs: „Lærið að þekkja Hjarta Guðs í orðum Guðs svo að þið takið að brenna af þrá eftir eilífum hlutum“ [59]

66. En Hjarta Jesú Krists var knúið áfram af enn meiri kærleika þegar orð streymdu af vörum hans sem þrungin voru hinni brennandi elsku. Vér tökum dæmi hér um: Þegar hann horfði á mannfjöldann örmagna og hungraðan sagði hann: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann.“ [60] og þegar hann horfði á ástfólgna borg sína, Jerúsalem, blindaða af syndinni og þannig dæmda til tortímingar: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.“ [61]. Og Hjarta hans sló af elsku til Föður síns og af heilagri reiði þegar hann sá vanhelgun sölumennskunnar í musterinu og atyrti yfirtroðslumennina með eftirfarandi orðum: „Ritað er: ,Hús mitt á að vera bænahús,' en þér gjörið það að ræningjabæli.“ [62]

67. En Hjarta hans var snortið alveg sérstakri og brennandi elsku samofinni ótta þegar hann horfði fram til þeirrar stundar að sárar píslir hans nálguðust og þegar hann tjáði náttúrlega andúð á komandi píslum og dauða og hrópaði: „Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér.“ [63] Og þegar svikarinn fagnaði honum með kossi þá sameinaðist sigrandi elska hans dýpstu hryggð þegar hann ávarpaði [Júdas] með þessum orðum sem virðast vera lokatilboð miskunnarríks Hjarta hans til vinar sem blindaður af illskufullri sviksemi sinni var í þann veginn að selja hann í hendur böðla hans: „Vinur, hví ertu hér? Svíkur þú Mannssoninn með kossi?" [64] Það var sökum meðaumkunnar og úr dýpstu uppsrettu elsku sinnar sem hann ávarpaði guðræknu konurnar þegar þær grétu vegna hans þegar hann gekk til óverðskuldaðs refsidóms krossins: „Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar . . . Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna?" [65]

68. Og þegar hinn guðdómlegi Endurlausnari hékk á krossinum leiddi hann í ljós að Hjarta sitt hrærðist í ýmsum tilifinningum – brennandi elsku, örvæntingu, meðaumkun, óslökkvandi þrá og órjúfanlegum friði. Orðin sem hann mæli af munni fram tjá þessar tilfinningar: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra!“ [66] „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ [67] „Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“ [68] „Mig þyrstir“ [69] „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!“ [70]

69. En hver er þess umkominn að geta sér til um slátt hinn guðlega Hjarta, tákns takmarkalausrar elsku hans, á því andartaki þegar hann færði mönnunum mestu gjöf sína: Sjálfan sig í sakramenti Evkaristíunnar, háheilaga Móður sína og prestsembættið sem hann deildi með oss?

70. Jafnvel áður en hann snæddi með lærisveinum sínum við síðustu kvöldmáltíðina fann Drottinn vor Jesú Kristur á þeirri stundu sem hann innsetti sakramenti líkama síns og blóðs, en hinn Nýi sáttmáli átti að helgast í því, hvernig hjarta hans var gripið miklum tilfinningahita sem hann opinberaði postulunum með eftirfarandi orðum: „Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður, áður en ég líð.“ [71] Og þessar tilfinningar voru vafalaust enn sterkari þegar hann „ tók brauð, gjörði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: „Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.“ [72]

[57]. Ef 2. 7.
[58]. Heb 10. 5-7. 10.
[59]. Registr. epist., lib. IV, ep. 31, ad Theodorum medicum: P.L. LXXVII, 706.
[60[. Mk 8. 2.
[61]. Mt 23. 37.
[62]. Mt 21. 13.
[63]. Mt 26. 39.
[64]. Mt 26. 50; Lk 22. 48.
[65]. Lk 23. 28, 31.
[66]. Lk 23. 34.
[67]. Mt 27. 46.
[68]. Lk 23. 43.
[69]. Jh 19. 28.
]70]. Lk 23. 46.
[71]. Lk 22. 15.
[72]. Lk 22. 19-20.

No feedback yet