« HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 61-70)HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 41-50) »

07.02.07

  06:42:57, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 905 orð  
Flokkur: Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 51-60)

51. Í styttra máli en ekki áhrifaminni orðum boðar eftirfarandi tilvitnun hl. Jóhannesar frá Damaskus kenningar kirkjunnar: „Fullkominn Guð samlíktist mér fullkomlega og fullkominn maður sameinast fullkomnum Guði, þannig að hann gæti borið fullkomnum manni hjálpræðið. Það sem ekki fólst í samlíking var ekki unnt að græða.“ [49] „Hann samlíktist því öllum til að helga alla.“ [50]

52. Engu að síður ber að taka fram að þessar völdu tilvitnanir í Ritninguna og feðurna og margar áþekkar sem vér höfum ekki gripið til bera því ljóst vitni, að Jesús Kristur var gæddur geðbrigðum og skynhrifum og íklæddist mennsku eðli til að vinna að eilífu hjálpræði voru, en aldrei er hér skírskotað með þessum geðbrigðum til líkamlegs hjarta hans með slíkum hætti að vikið sé að því með beinum orðum sem tákni um takmarkalausa elsku hans.

53. Þrátt fyrir að guðspjallamennirnir og aðrir helgir höfundar víki ekki með beinum hætti að Hjarta Endurlausnara vors, lifandi eins og vort eigið í hræringum tilfinningahita í sífelldum sveiflum tilfinninga hans og geðhrifum sálar hans og brennandi í kærleika tvöfalds vilja hans, þá sýndu þeir oftlega í réttu ljósi guðdómlega elsku hans og þær skynhræringar sem eru henni samhliða, það er að segja þrá, gleði, vanmátt, ótta og reiði og greina mátti á ásjónu hans, orðum eða látbragði. Ásjóna tilbeiðsluverðs Frelsara vors var sérstaklega ummerki og eins konar trúverðug endurspeglun þessara tilfinninga sem hrærðu við sál hans með ýmsum hætti og líkt og síendurtekið öldufall sem snerti við Alhelgu Hjarta hans og örvaði slátt þess. Það sem er sannleikanum samkvæmt í mennskri sálarfræði og áhrifum hennar á hér einnig við. Kirkjufræðarinn englum líki gerir þessa athugasemd þar sem hann styðst við venjubundna reynslu: „Tilfinning sem rekja má til reiði birtist í hinum ytri limum, einkum þeim þeirra þar sem áhrif hjartans eru augljós, eins og í augunum, ásjóninni og tungutakinu.“ [51]

54. Af þessum ástæðum er Hjarta hins holdgaða Orðs með réttu talið helsta ummerki og tákn þeirrar þríþættu elsku sem hinn guðdómlegi Endurlausnari elskar hinn eilífa Föður og mannkynið óaflátanlega með.

55. Það er tákn þeirrar guðdómlegu elsku sem hann deilir með Föðurnum og Heilögum Anda, en sem einungis hann, hið holdgaða Orð, tjáir einnig með veikbyggðum og forgengilegum líkama vegna þess að „í honum býr öll fylling guðdómsins líkamlega.“ [52]

56. Auk þess er það tákn þeirrar brennandi elsku sem innblásið var í sál hans og auðgaðist í mennskum vilja Krists sem uppljómaði hana og stjórnaði í þeirri alfullkomnu þekkingu sem rekja mátti til ásæis fullsælunnar og því sem innblásið var með beinum hætti. [53]

57. Og að lokum – og það með náttúrlegri og beinni hætti – er það einnig tákn hinnar skynrænu elsku vegna þess að líkami Jesú Krists sem Heilagur Andi mótaði í skauti Maríu meyjar, var gæddur fullkomnum mennskum tilfinningum og skynjun, í reynd fyllri en nokkur mennskur líkami. [54]

58. Þar sem heilög Ritning og hin opinbera kenning kaþólskrar trúar uppfræðir oss um að allir hlutir öðlast fullkomna samsemd og inntak í alhelgri sál Jesú Krists og að hann opinberi með beinum hætti þríþætta elsku sína til að tryggja hjálpræði vort, leiðir það af sér án nokkurra efasemda að vér getum íhugað og heiðrað Hjarta guðdómlegs Endurlausnara vors sem tákn og ímynd elsku hans og vitnisburð um hjálpræði vort sem er samtímis eins konar hulinn stigi þar sem við rísum upp og umvefjum „Guð og Frelsara“ [55] vorn.

59. Þannig eru orð hans, athafnir, boð og kraftaverk, en einkum þó þau verk sem opinbera ljóslega elsku hans oss í garð – líkt og innsetning Evkaristíunnar, beiskar píslir hans og dauði, sú elskuríka gjöf þegar hann færði oss heilaga Móðir sína í hendur, stofnun kirkju fyrir oss og að lokum þegar hann sendi postulunum og oss Heilagan Anda – allt þetta segjum vér að beri að líta á sem sönnun þríþættrar elsku hans.

60. Vér ættum þannig einnig að hugleiða elskuríkan slátt Alhelgs Hjarta hans sem var bókstaflega stundaglas ferðar hans á jörðu allt til hinstu stundar, eins og guðspjallamaðurinn gefur vitnisburð um: En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann.“ [56]. Það var á þessari stundu sem hjarta hans hætti að slá og rof varð á skynrænni elsku hans þar til sú stund rann upp að hann reis úr gröfinni eftir að hafa sigrað dauðann.

[49]. „De Fide Orth.,“ III, 6 P.G. XCIV, 1006.
[50]. Ibid. III, 20: P.G. XCIV, 1081.
[51]. Sum. Theol. I-II, q. 48, a. 4: ed. Leon., vol. VI, 1891, bls. 306.
[52]. Kol. 2. 9.
[53]. Sjá Sum Theol. III, q. 9 aa. 1-3: ed. Leon., vol. XI, 1903, bls. 142.
[54]. Sjá Ibid. Ill, q. 33, a. 2, ad 3m; q. 46, a: ed. Leon., vol. XI, 1903, bls. 342, 433.
[55]. Tit. 3. 4.
[56]. Mt. 27. 50; Jh 19. 30.

No feedback yet