« HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 51-60)HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 31-40) »

06.02.07

  06:12:56, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1113 orð  
Flokkur: Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 41-50)

41. Þannig leikur ekki á því nokkur vafi að Jesú Kristur íklæddist sönnum líkama og hafði allar þær eigindir til að bera sem eru hans, en þar er það elskan sem er ríkjandi um fram allt annað. Það er einnig hafið yfir allan vafa að hann var gæddur líkamlegu hjarta eins og voru vegna þess að án þessa göfuga líkamshluta eru venjubundnar mennskar tilfinningar óhugsandi. Í þessu ljósi slær Hjarta Jesú Krists sem er sameinað hinni guðdómlegu Persónu í einingu í elsku ásamt öðrum tilfinningum – en sameinuðu mennskum vilja gagnteknum guðdómlegum kærleika og þeirri takmarkalausu elsku sem Sonurinn deilir með Föðurnum og Heilögum Anda og í slíkri einingu og samhrynjan, að í þessari þríþættu elsku var ekki um neinar andhverfur eða missamræmi að ræða. [40]

42. En þrátt fyrir að Orð Guðs hafi íklæðst sönnu og fullkomnu mennsku eðli og mótað fyrir sjálfan sig mennskt hjarta af holdi sem gat þjáðst og verið gegnumstungið ekki síður en vort eigið hjarta, getur það orðið að hrösunarhellu og fíflsku í sumar augum – rétt eins og Jesús Kristur, negldur á kross, kom gyðingunum og heiðingjunum fyrir sjónir – nema því aðeins að þessi staðreynd sé íhuguð í ljósi einingar Persónanna og með eðlislægum hætti ásamt þeim afleiðingum sem af því má draga. [41]

43. Hin opinbera kenning kaþólskrar trúar og í fullkominni samhljóðan við Ritninguna fullvissar oss um að eingetinn Sonur Guðs íklæddist mennsku eðli sem gat þjáðst og dáið, einkum sökum þess að hann þráði þar sem hann hékk á krossinum að bera fram blóðfórn til að fullkomna endurlausn mannsins. Þetta boðar postuli heiðingjanna með eftirfarandi orðum: „Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður . . . Og enn fremur: Sjá, hér er ég og börnin, er Guð gaf mér. Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði, þá hefur hann og sjálfur fengið hlutdeild í mannlegu eðli á sama hátt . . . Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins. Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.“ [42]

44. Hinir heilögu feður og sannir vottar hinnar guðdómlegu og opinberuðu kenningar skildu með undursamlegum og ljósum hætti hvað hl. Páll boðaði svo beinum orðum, það er að segja að leyndardómur elskunnar grundvallaðist bæði á og náði hástigi með holdtekjunni og friðþægingunni. Iðulega getum vér lesið með ljósum hætti í skrifum þeirra að Jesús Kristur íklæddist fullkomnu mennsku eðli vors vanmegna og forgengilega líkama með eilíft hjálpræði vort í huga og til að opinbera oss eins augljóst og unnt er í mennskum aðstæðum takmarkalausa elsku sína oss í garð.

45. Hl. Justin skrifar og er sem bergmál skrifa postula heiðingjanna: „Við tilbiðjum og elskum Orðið sem hinn ógetni og ósegjanlegi Guð fæddi vegna þess að hann varð maður sökum okkar til að græða þjáningar okkar eftir að hafa öðlast hlutdeild í þeim.“ [43]

46. Hl. Basil, fyrstur Kappodokíufeðranna þriggja, lýsir því yfir að tilfinningar og skynhrif Krists væru samtímis sannar og heilagar: „Það er ljóst að Drottinn íklæddist náttúrlegum geðhrifun sem sönnun þess að holdtekja hans var raunveruleg en ekki hugarburður og hafnaði þeim geðhrifum sem saurga hreinleika lífs okkar sem ósamrýmanleg Guðdóminum.“ [44]

47. Með sama hætti játar ljós kirkjunnar í Antiokkíu, hl. Jóhannes Chrysostomos, að þær skynrænu tilfinningar sem hinn guðdómlegi Endurlausnari beygði sig undir opinberuðu þá staðreynd, að hann íklæddist mennsku eðli sem var fullkomið í öllum greinum: „Ef hann hefði ekki deilt með okkur eðli okkar hefði hann ekki orðið harmþrunginn hvað eftir annað.“ [45].

48. Meðal latnesku feðranna getum vér vitnað til orða þeirra sem kirkjan heiðrar í dag sem mestra meðal kirkjufræðaranna. Þannig víkur hl. Ambrosíus að því að hræringar og hneigðir skynhrifanna og hið holdgaða Orð (Guðs var ekki undanþegið) streyma frá einingu persónanna sem náttúrlegri uppsprettu sinni: „Því íklæddist hann sál og ástríðum sálarinnar vegna þess að Guð, einmitt sökum þess að hann er Guð, hefði ekki getað komst við eða dáið.“ [46]

49. Það var einmitt á þessara sömu tilfinningum sem hl. Hieronýmus grundvallaði þá sönnun, að Kristur hefði í raun og veru íklæðst mennsku eðli: „Drottinn okkar varð sannarlega sorgmæddur til að sanna sannleika þeirrar mennsku sem hann hafði íklæðst.“ [47]

50. En það er hl. Ágústínus sem með sérstökum hætti vekur athygli á sambandi tilfinninga hins holdgaða Orðs og hlutverki í endurlausn mannsins: „Þessum geðbrigðum, rétt eins og sjálfum hinum mennska líkama og dauða, íklæddist Drottinn Jesús ekki af nauðsyn, heldur fúslega og sökum samúðar þannig að hann gæti umbreytt líkama sínum í sjálfan sig, en hann er sú kirkja þar sem hann er Höfðuðið, það er að segja limirnir sem eru hinir trúuðu og hinir heilögu, þannig að ef einhver þeirra verður hryggur eða þjáist í þolraunum lífsins hugsi hann ekki sem svo að Drottinn hafi svipt þá náð sinni. Þeir eiga þannig ekki að líta á þessa hryggð sem synd, heldur ummerki mennsks vanmáttar. Eins og samkór eiga þeir að syngja þann undirtón sem hefur hljómað og þannig á líkaminn að læra af Höfðinu.“ [48]

[40]. Sjá Sum. Theol. III, q. 15, a. 4; q. 18, a. 6: ed. Leon., vol. X(1) ,1903, bls.189, 237.
[41]. Sjá 1Kor 1. 23.
[42]. Heb 2.11-14. 17-18.
[43]. Apol. II, 13; P.G. VI, 465.
[44]. Epist. 261, 3: P.G. XXXII, 972.
[45]. „In loann.“, Homil. 63, 2: P.G. LIX, 350.
[46]. „De fide ad Gratianum,“ II, 7, 56: P.L. XVI, 594.
[47]. Cfr. Super Mt. 26:27: P.L. XXVI, 205.
[48]. Enarr. in Ps. LXXXVII, 3: P. L. XXXVII, 1111.

No feedback yet