« HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 41-50)HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 21-30) »

05.02.07

  06:40:10, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1477 orð  
Flokkur: Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 31-40)

31. Jeremía spámaður virðist segja fyrir um þessi undursamlegum áhrif sem áttu að ná fram að ganga sökum miskunnarríkrar og eilífrar elsku Guðs með eftirfarandi orðum: „Með ævarandi elsku hefi ég elskað þig. Fyrir því hefi ég látið náð mína haldast við þig . . . En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta – segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: „Lærið að þekkja Drottin," því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir – segir Drottinn. Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra“ [25]

32. En það er einungis í guðspjöllunum sem vér sjáum sett fram með áþreifanlegum og ljósum hætti hinn nýja sáttmála milli Guðs og manna. Sá sáttmáli sem Móses hafði gert milli Ísraelsmanna og Guðs var einungis ímynd og tákn þess sáttmála sem Jeremía sagði fyrir um. Vér segjum að þessi nýi sáttmáli hafi einmitt verið sá sem hið holdgaða Orð og uppspretta allrar náðar grundvallaði og kom til leiðar. Þannig ber að líta á þennan sáttmála ósegjanlega miklu háleitari og grundvallaðan á traustari grunni vegna þess að hann var ekki vígður með blóði hafra og kálfa sem sá fyrri, heldur með dýrmætu blóði þess sem þessi saklausu dýr án skynsemi boðuðu sem forgildi hans: „Guðs lambið, sem ber synd heimsins“ [26]

33. Hinn kristni sáttmáli birtist með miklu ljósari hætti sem sáttmáli sem ekki grundvallast á þrældómsótta, heldur sem vináttusamband sem á að ríkja milli föðurs og barna, sem sáttmáli sem nærist á ríkulegri úthellingu guðdómlegrar náðar og sannleika til samræmis við orð hl. Jóhannesar guðspjallamanns: „Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan. Lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist“ [27]

34. Þar sem vér höfum, æruverðugu bræður, komist í snertingu við innsta leyndardóm takmarkalauss kærleika hins holdgaða Orðs með þessum orðum lærisveinsins „sem Jesús elskaði, og sem hallaðist að brjósti hans við kvöldmáltíðina,“ [28] virðist það verðugt og rétt, réttlátt og hollt til hjálpræðis, að nema hér andartak staðar í ljúfri íhugun þessa leyndardóms, þannig að upplýstir í því ljósi sem skín frá guðspjallinu getum vér einnig láið þá þrá rætast sem postuli heiðingjanna vék að við Efesusmennina: „Til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika. Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu“ [29]

35. Leyndardómur hinnar guðdómlegu endurlausnar er fyrst og fremst og í eðli sínu leyndardómur elskunnar, það er að segja hinnar fullkomnu elsku Krists á himneskum Föður sínum sem hann bar fram fyrir hann í anda elskunnar í fórn krossins sem er hin ósegjanlega og takmarkalausa friðþæging sökum synda mannkynsins: „Með píslum elsku og hlýðni gaf Kristur Guði meira en nauðsynlegt var til að bæta fyrir vansæmd alls mannkynsins“ [30]

36. Hér er einnig um leyndardóm elsku hinnar Alhelgu Þrenningar og hins guðdómlega Endurlausnara að ræða. Þar sem mennirnir voru fullkomlega vanhæfir að bæta með tilhlýðilegum hætti fyrir syndir sínar, [31] var Kristur þess umkominn í ósegjanlegu ríkidæmi verðskuldunar sinnar með því að úthella blóði sínu að endurnýja þann vináttusáttmála milli Guðs og mannsins sem hafði verið rofinn, upphaflega með hryggilegu falli Adams í hinni jarðnesku paradís og síðar vegna ótaldra synda hins útvalda lýðs.

37. Þar sem guðdómlegur Endurlausnari vor sem réttmætur og fullkominn Meðalgangari vor endurvakti í brennandi elsku sinni fullkomið samræmi milli kvaða og skyldna mannkynsins og réttar Guðs, þá er hann ábyrgur fyrir tilurð hinna undursamlegu sátta hins guðdómlega réttlætis og miskunnar sem felur í sér háleitan leyndardóm hjálpræðis vors. Hvað þetta áhrærir kemst hinn englum líki kirkjufræðari svo að orði: „Að maðurinn skyldi öðlast frelsi með píslum Krists var bæði til samræmis við réttlæti hans og miskunn. Með réttlæti sínu vegna þess að með píslum sínum friðþægði Kristur fyrir syndir mannkynsins og þannig öðlaðist maðurinn frelsi sökum réttlætis Krists. Og með miskunn hans vegna þess að fyrst maðurinn gat ekki friðþægt fyrir syndir mannkynsins, þá gaf Guð honum Son sinn til að friðþægja fyrir þær. Þannig var þetta ríkulegri miskunn en ef hann hefði fyrirgefið syndirnar án friðþægingar. Því segir hl. Páll: „En Guð er auðugur að miskunn. Af mikilli elsku sinni, sem hann gaf oss, hefur hann endurlífgað oss með Kristi.“ [32]

38. En svo að oss megi auðnast eins og slíkt er heimilt dauðlegum mönnum „ásamt öllum heilögum að skilja, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur“ [33] í huldri elsku hins holdgaða Orðs á himneskum Föður sínum og á mönnunum flekkuðum af syndinni, þá verðum vér að hyggja vel að því, að elska hans var ekki einungis hin andlega elska sem Guði ber að svo miklu leyti sem „Guð er Andi.“ [34] Það leikur ekki á því neinn vafi að sú elska sem Guð elskaði forfeður okkar og Hebreana með var þessa eðlis. Til þessa má rekja tjáningu þeirrar mennsku, innilegu og föðurlegu elsku sem vér sjáum í Sálmunum, skrifum spámannanna og í Ljóðaljóðunum sem ummerki og tákn þessarar sönnu og algjörlega andlegu elsku sem Guð viðhélt í mannkyninu. Hins vegar dregur sú elska sem streymir fram í guðspjöllunum, úr hinum postullegu bréfum og af síðum Opinberunarbókarinnar upp mynd af elsku Hjarta Jesú Krists, sem tjáir ekki einungis hina guðdómlegu elsku, heldur einnig mennskar tilfinningar elskunnar. Allir sem játa kaþólska trú samþykkja þessa elsku án þess að efast.

39. Orð Guðs íklæddist ekki ónáttúrlegum sýndarlíkama eins og sumir villitrúarmenn kristindómsins lýstu yfir þegar á fyrstu öld og hl. Jóhannes postuli ámælti í eftirfarandi og alvöruþrungnu orðum: „Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki játa, að Jesús sé Kristur, kominn í holdi. Þetta er afvegaleiðandinn og andkristurinn, [35], heldur sameinaði hann hið sanna manneðli guðdómlegri Persónu sinni, sem einstaklingur og fullkomlega og getið var í hreinu skauti Maríu meyjar í krafti Heilags Anda. [36]

40. Hið mennska eðli sem Orð Guðs sameinaðist var ekki ábótavant í neinu. Þannig íklæddist hann því ekki að takmörkuðu leyti bæði hvað áhrærir hið andlega og líkamlega, það er að segja það var gætt skilningi og vilja og öðrum innri og ytri sálarkröftum og auk þess öllum þrám og náttúrlegum hneigðum skynhrifanna. Allt þetta boðar kaþólska kirkjan eins og þetta er ítarlega skilgreint af hálfu rómversku hirðanna og hinna almennu kirkjuþinga: „Heill og algjör í því sem er hans eigin, heill og algjör í því sem er vors“ [37] „Fullkominn í Guðdómi sínum og einnig í mennsku sinni.“ [38] „Fullkominn Guð er maður, fullkominn maður er Guð.“ [39]

[25]. Jer. 31. 3, 31, 33-34.
[26]. Sjá Jh. 1. 29; 9. 18-28, 10. 1-17.
[27]. Jh. 1. 16-17.
[28]. Jh. 21. 20.
[29]. Ef. 3. 17-19.
[30]. Sum. Theol. III, q. 48, a. 2: ed. Leon., vol. XI, 1903, bls. 464.
[31]. Sjá hirðisbr. „Miserentissimus Redemptor“: A.A.S. XX, 1928, bls. 170.
[32]. Ef 2. 4; Sum. Theol. III, q. 46, a. 1 ad 3: ed. Leon., vol. XI, bls. 436.
[33]. Ef 3. 18.
[34]. Jh 4. 24.
[35]. 2 Jh. 7.
[36]. Sjá Lk. 1. 35.
[37]. Hl. Leó hinn mikli, Epist. dogm. ’Lectis dilectionis tuae' ad Flavianum Const. Patr., 13. júní, a. 449; Cfr. P.L. XIV, 763.
[38]. Kirkjuþingið í Kalsedon, a. 451.
[39]. Sjá Mansi, Op. cit., Vlll, 115B.

No feedback yet