« HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 31-40)Uppgangan á Karmelfjall eftir Jóhannes af Krossi nú komin út á íslensku »

04.02.07

  09:31:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1595 orð  
Flokkur: Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 21-30)

21. Svo að allir megi gera sér betur ljóst þá uppfræðslu sem ákveðnar tilvitnanir í Gamla og Nýja testamentinu hafa fram að færa hvað áhrærir þessa guðrækni, verða þeir að skilja til fulls hvers vegna kirkjan auðsýnir Hjarta hins guðdómlega Endurlausnara æðstu tilbeiðslu. Eins og þér vitið, æruverðugu bræður, þá eru þessar ástæður tvær að tölu. Önnur þeirra sem einnig skírskotar til annarra heilagra lima líkama Jesú Krists, hvílir á þeirri forsendu, að vér lítum á Hjarta hans sem göfugusta hluta manneðlisins, persónulegri einingu við Persónu hins guðdómlega Orðs. Þar af leiðandi ber að auðsýna því þá vegsemd og lofgjörð sem kirkjan heiðrar Persónu hins holdgaða Guðson sjálfan með. Hér víkjum vér að trúarsetningu vegna þess að hún hefur verið skilgreind á hinu almenna kirkjuþingi í Efesus og öðru kirkjuþinginum í Konstantínópel. [15].

22. Hin ástæðan sem skírskotar með sérstökum hætti til Hjarta hins guðdómlega Endurlausnara og krefst jafnframt með sérstökum hætti æðsta stigs tilbeiðslu má rekja til þess að Hjarta hans um fram aðra hluti líkama hans er hin eðlilegu ummerki og tákn takmarkalausrar elsku hans á mannkyninu. Eða eins og forveri vor af eilífri minningu, Leó XIII benti á: „Hið Alhelga Hjarta er tákn og tjáningarrík ímynd hinnar takmarkalausu elsku Jesú Krists sem hvetur okkur til að endurgjalda þessa elsku.“ [16]

23. Það er að sjálfsögðu hafið yfir allan vafa að í heilögum Ritningum er hvergi vikið að sérstakri tilbeiðslu eða lotningarkenndri elsku á hinu líkamlega Hjarta hins holdgaða Orðs sem tákns um brennandi elsku hans. En þrátt fyrir að þetta skuli fúslega játað getur það ekki komið oss á óvart eða vakið efasemdir, að hin guðdómlega elska oss í garð er höfuðinntak þessarar guðrækni þar sem þessi elska er boðuð og lögð áhersla á hana í Gamla og Nýja testamentinu með samlíkingum sem hræra við tilfinningum vorum á áhrifaríkan hátt. Þar sem þessar ímyndir voru dregnar upp í heilögum Ritningum til að boða komu Guðsonarins í mennskri mynd, má líta á þær sem ummerki hins æðsta tákns og vitnisburð um guðdómlega elsku, það er að segja hins Alhelga og tilbeiðsluverða Hjarta hins guðdómlega Endurlausnara.

24. Vér teljum það ekki nauðsynlegt í ljósi umfjöllunar vorrar að skírskota í löngu máli til tilvitnana í rit Gamla testamentisins sem hafa að geyma sannleika sem opinberaður var með guðdómlegum hætti til forna. Vér teljum nægilegt að vekja athygli á að sáttmálinn milli Guðs og lýðsins sem helgaður var með friðarfórnunum – fyrsta lögmálið sem ritað var á tvær töflur og Móse kunngerði [17] og spámennirnir vörpuðu ljósi á – var sáttmáli sem hvíldi ekki einungis á almætti Guðs og skyldu mannsins til hlýðni, heldur hvíldi hann einnig á og nærðist á háleitari rökum elskunnar. Meginástæða þess að Ísraelsmenn hlýddu Guði var ekki óttinn við guðlega hefnd sem þrumurnar og eldingarnar á tindi Sínaifjalls vöktu með sálunum, heldur sú elska sem þeim bar að sýna Guði: „Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn! Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum. Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst.“ [18]

25. Því vekur það ekki furðu vora að Móses og spámennirnir og hinn englum líki kirkjufræðari nefnir „öldunga“ lýðsins [19] skynjaði ljóslega að grundvöllur alls lögmálsins hvíldi á kærleiksboðinu og varpaði ljósi á allar aðstæður og það samband sem átti að vera ríkjandi milli Guðs og lýðs hans með samlíkingu sem byggðist á náttúrlegri elsku föður á börnum sínum, eða eiginmanns og eiginkonu, fremur en á þeirri harðneskjulegu ímynd sem draga mætti af almætti Guðs og skyldum vorum til að lúta honum í ótta. Svo að dæmi sé tekið saung Móses hinn víðkunna lofgjörðaróð sinn til heiðurs lýðnum sem leiddur hafði verið til frelsis undan þrældómsoki Egypta til að gefa til kynna að þetta hafði gerst sökum máttar Guðs með því að grípa til þessara táknrænu og hjartnæmu orða: „Eins og örn, sem vekur upp hreiður sitt og svífur yfir ungum sínum, svo útbreiddi hann vængi sína, tók hann upp og bar hann á flugfjöðrum sínum.“ [20]

26. En ef til vill hefur enginn hinna heilögu spámanna tjáð og opinberað með eins ljósum og áþreifanlegum hætti elsku Guðs eins og Hósea sem í sífellu vakti yfir lýði sínum. Í skrifum þessa spámanns sem er einstakur meðal hinna minni spámanna sökum hnitmiðað og háleits málfars síns, lýsir Guð því yfir að elska hans á hinum útvalda lýð þar sem réttlæti og heilög angist fara saman, sé eins og elska miskunnarríks og elskandi föður eða eiginmanns sem hefur verið misboðið. Þessi elska dvínar ekki sökum ótrúmennsku eða skelfilegra glæpa þeirra sem svíkja hana. Ef hún lætur réttláta refsingu koma yfir hina seku, þá er það ekki til að hafna þeim eða láta þá eina eftir, heldur fremur til að glæða iðrun og hreinsa hina ótrúu brúðu og vanþakklátu börn og leiða til sín að nýju með endurnýjuðum og enn sterkari böndum elskunnar. „Þegar Ísrael var ungur, fékk ég ást á honum, og frá Egyptalandi kallaði ég son minn . . . Ég kenndi Efraím að ganga og tók þá á arma mér. En þeir urðu þess ekki varir, að ég læknaði þá. Með böndum, slíkum sem þeim er menn nota, dró ég þá að mér, með taugum kærleikans, og fór að þeim eins og sá sem lyftir upp okinu á kjálkunum og rétti þeim fæðu. Ég vil lækna fráhvarf þeirra, elska þá af frjálsum vilja, því að reiði mín hefir snúið sér frá þeim. Ég vil verða Ísrael sem döggin, hann skal blómgast sem lilja og skjóta rótum sem Líbanonsskógur“ [21]

27. Með svipuðum hætti kemst spámaðurinn Jesaja að orði þegar hann greip til samræðuformsins í mynd spurninga og svara í bókstaflegri merrkingu milli Guðs og hins útvalda lýðs: „Síon segir: „Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!" Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki“ [22]

28. Ekki eru orð þau sem höfundur Ljóðaljóðanna grípur til minna hjartnæm þegar hann tekur mið af ástarsambandi karls og konu og lýsir með táknrænum hætti böndum þeirrar gagnkvæmu elsku sem sameinar Guð og útvalinn lýð hans: Eins og lilja meðal þyrna, svo er vina mín meðal meyjanna . . . Ég heyri unnusta mínum, og unnusti minn heyrir mér, hann sem skemmtir sér meðal liljanna . . . Legg mig sem innsiglishring við hjarta þér, sem innsiglishring við armlegg þinn. Því að elskan er sterk eins og dauðinn, ástríðan hörð eins og Hel. Blossar hennar eru eldblossar, logi hennar brennandi“ [23]

29. Þessi ljúfa, fyrirgefandi og langlynda elska Guðs, og þrátt fyrir að hún hafði dæmt Ísraelsmenn óverðuga þegar þeir bættu einni syndinni við aðra, snéri aldrei endanlega baki við þeim. Og þrátt fyrir að hún virtist sannarlega mikil og háleit, þá var hún einungis forgildi og tákn þess brennandi kærleika sem Endurlausnari mannkynsins sem gefið var fyrirheit um var ætlað að ljúka upp fyrir öllum með elskuríku Hjarta sínu sem var ætlað að verða tákn elsku hans fyrir okkur og grundvöllur hins Nýja sáttmála.

30. Þegar hann sem er hinn Eingetni Föðurins og hið holdgaða Orð „fullur náðar og sannleika“ [24] kom til mannkynsins í fjötrum margvíslegra synda og volæðis, þá var það sannarlega hann einn, sem í mennsku eðli sínu var eitt með hinni guðdómlegu Persónu, sem var þess megnugur að ljúka upp fyrir mannkyninu „brunni hins lifandi vatns“ sem vökva átti skraufþurra jörðina og umbreyta henni í ávaxtaríkan og blómgaðan aldingarð.

[15]. Kirkjuþingið í Efesus, can. 8; Cfr. Mansi, „Sacrorum Conciliorum Ampliss. Collectio IV,“ 1083 C.; II Kirkjuþingið í Konstantínópel, can. 9; Cfr. Ibid. IX, 382 E.
[16]. Sjá. Hirðisbr. „Annum Sacrum“: Acta Leonis, vol. XIX, 1900, bls. 76.
[17]. 2M 34. 27-28.
[18]. 5M 6. 4-6.
[19]. Heil. Tómas, Sum. Theol. II-II, q. 2, a. 7: ed. Leon., vol. VIII, 1895, bls. 34.
[20]. 5M 32. 11.
[21]. Hs 11. 1. 3-4; 14. 5-6.
[22]. Jes 49. 14-15.
[23]. Ll 2. 2; 6. 2; 8. 6.
[24]. Jh 1. 14.

No feedback yet