« Uppgangan á Karmelfjall eftir Jóhannes af Krossi nú komin út á íslenskuHið guðlega Hjarta er tákn elskunnar »

02.02.07

  09:09:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1636 orð  
Flokkur: Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 11-20)

11. Enn aðrir telja þessa guðrækni til byrði eða hafa lítið gildi eða þá gagnslausa með öllu fyrir þá sem berjast í hersveitum hins guðdómlega Konungs og láta að mestu stjórnast af þeirri hugsun, að vinna beri í eigin mætti og grípa til eigin úrræða og hvernig verja beri tímanum í vörn sinni fyrir kaþólskum sannindum, að boða þau og kenna, að samfélagslegar kenningar kristindómsins eigi að leysa hana af hólmi og leggja beri rækt við þá trúrækni sem þeir telja vera meira aðkallandi í dag.

12. Svo eru það þeir sem telja það fjarri sanni að þessi guðrækni veiti mikinn stuðning í réttu kristnu siðgæði og endurnýjun þess bæði í persónulegu lífi einstaklingsins og innan veggja heimilsins og líta fremur á hana sem guðrækni sem nærist hvorki á sál né huga heldur á tilfinningasemi og þar af leiðandi betur við hæfi kvenna vegna þess að hún sé ekki við hæfi menntaðra manna að öllu leyti.

13. Auk þess er um þá að ræða sem telja slíka guðrækni fyrst og fremst krefjandi iðrun og yfirbót og nefna aðrar dyggðir „óvirkar,“ en með þessu eiga þeir við að þær skili engum ytri árangri. Þar af leiðandi telja þeir ekki við hæfi að endurvekja anda guðrækninnar í heimi nútímans. Fremur eigi slíkt að miðast við beina og sigurvænlegri viðleitni þar sem kaþólsk trú vinnur sigur með því að halda uppi miklum vörnum fyrir kristin siðgæðisgildi. Eins og allir vita er kristið siðgæði á vorum dögum saurgað með hártogunum þeirra sem láta sér alla trúariðkun í létu rúmi liggja og gera engan greinarmun á sannleika og rangfærslum, hvort sem er í hugsun eða verki og aðhyllast ámælisverðasta stig guðsafneitunar efnishyggjunnar, eða eins og þeir nefna þetta sjálfir: Veraldarhyggju (secularism).

14. Hver gerir sér ekki ljóst, æruverðugu bræður, að slík hugarfarsafstaða er í fullkomnu ósamræmi við kenningar þær sem forverar vorir boðuðu opinberlega frá þessu Sæti sannleikans þegar þeir samþykktu guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú? Hver er svo djarfur að halda því fram að sú guðrækni sé gagnslaus og óviðeigandi á vorum tímum sem forveri vor af eilífri minningu, Leó páfi XIII, lýsti yfir að væri „æskilegasta afbrigði guðsótta?“ Hann var ekki í nokkrum vafa um að hún fæli í sér máttuga græðslu fyrir þá illsku sem í dag og án nokkurs vafa leiðir til örvæntingar og hörmunga með víðtækum og alvarlegum hætti bæði fyrir einstaklinga og mannkynið í heild. Hann komst svo að orði: „Þessi guðrækni sem vér mælum með er öllum til góðs.“ Og hann bætti við þessari athugasemd og hvatningu með skírskotun til guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú: „ . . . gagnvart þessum öflum illskunnar sem hafa nú skotið rótum í svo langan tíma og knýja oss að leita hjálpar hans sem einn er þess megnugur að sigrast á henni. Hver er hann annar en Jesús Kristur, eingetinn Sonur Guðs? „Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss" [8] „Vér verðum að leita hjálpar hans sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið“ [9].

15. Forveri vor sællrar minningar, Píus XI, taldi þessa guðrækni ekki síður holla til að glæða kristinn guðsótta. Í hirðisbréfi sínu skrifaði hann: „Er ekki inntak allrar trúar vorrar og auk þess leiðsögn til fullkomnara lífs falið í þessari einu guðrækni? Sannarlega leiðir hún hugi vora til að þekkja Krist Drottinn með innilegri hætti og beinir hjörtum vorum með áhrifaríkari hætti til að elska hann af brennandi elsku og líkja eftir honum með fullkomnari hætti.“ [10].

16. Í vorum huga liggja þessi höfuðsannindi fyrir ljóst og með fullvissu í ekki minna mæli en hjá forverum vorum. Þegar vér hófum embættisstörf vor sem hinn æðsti Hirðir og sáum í fyllsta samhljóðan við bænir vorar og þrár að guðrækni hins Alhelga Hjarta fór vaxandi og var virk í bókstaflegri merkingu og breiddist út í sigurmætti sínum meðal kristinna manna, glöddumst vér þegar hún streymdi um alla kirkjuna með ótaldri og sáluhjálplegri blessun. Þetta var oss velþóknanlegt að benda á í fyrsta hirðisbréfi voru. [11].

17. Á árum páfadóms vors – árum sem hafa ekki einungis falið í sér sársaukafullt erfiði, heldur jafnframt ósegjanlega huggun – hefur ekki dregið úr þessum áhrifum hvorki hvað áhrærir tíðni, mátt eða fegurð, heldur hafa þau þvert á móti aukist. Það er sannarlega gleðiefni að margvíslegt starf hefur glæðst sem blæs nýju lífi í þessa guðrækni. Vér skírskotum til samtaka trúnni og kærleiksverkum til styrktar, útgáfustarfsemi sem varpað hefur ljósi á sögulegt samhengi alls þessa efnis og kenningar hvað áhrærir ögunarlífið og dulúðarguðfræðina, guðrækin verk sem hvetja til iðrunar og einkanlega þá brennandi trúrækni sem Boðunarstarf bænarinnar hefur staðið að, en að tilhlutun þess hafa staðbundnir hópar – fjölskyldur, skólar og stofnanir – og stundum heilar þjóðir verið helgaðar hinu Alhelga Hjarta Jesú. Öllum þessum aðilum höfum vér fært föðurlega blessun vora við mörg tækifæri, bréflega, með persónulegum hætti eða jafnvel í útvarpi. [12]

18. Þegar vér sjáum þannig svo ríkulegan ávöxt þessa græðandi vatns, það er að segja himneskrar náðargjafar guðdómlegrar elsku, streyma fram úr Alhelgu Hjarta Endurlausnara vors og breiðast út meðal ótaldra barna hinnar kaþólsku kirkju sökum innblásturs og áhrifa hins guðdómlega Anda, getum vér einungis, æruverðugu bræður, af föðurlegri ástúð tekið undir hjartanlega lofgjörð og fært Guði þakkir, gjafara allra góðra gjafa. Vér gerum eftirfarandi orð postula heiðingjanna að vorum: „En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen“ [13]

19. En eftir að vér höfum tjáð eilífum Guði dýpsta þakklæti viljum vér hvetja yður og öll börn kirkjunnar sem vér elskum að íhuga af fyllri alvöru alla þá þætti sem rekja má til Ritninganna og kenninga feðra og guðfræðinga sem guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú hvílir á sem traustri undirstöðu. Vér erum fullkomlega sannfærðir um, að það sé ekki fyrr en vér höfum kynnt okkur til hlítar kjarna þessarar háleitu guðrækni með hjálp ljóss guðdómlegra og opinberaðra sanninda, að vér séum þess umkomnir að meta til fulls óviðjafnanlegt ágæti hennar og þá ósegjanlegu blessun sem hún hefur glætt og þannig getum vér fagnað með verðugum hætti lokum fyrstu hundrað áranna síðan Hátíð hins Alhelga Hjarta Jesú var færð heimskirkjunni.

20. Knúðir áfram af þessari íhugun með það í huga að hinir trúuðu öðlist staðgóða næringu úr hendi vorri og geti að lokinni slíkri næringu öðlast dýpri skilning á eðli þessarar guðrækni og meðtekið ríkulega ávexti hennar, munum vér nú takast það verk á hendur að varpa ljósi á þá staði í Gamla og Nýja testamentinu þar sem þessi ósegjanlega elska Guðs á mannkyninu (og oss mun aldrei auðnast að skilja til fulls) er opinberuð oss og sett fram. Þannig munum vér eftir því sem tilefni gefst til víkja að megininntaki útskýringa feðranna og kirkjufræðaranna sem þeir hafa ljáð oss í hendur. Vér munum leitast við að sjá í réttu ljósi hið nána samband sem er fyrir hendi milli þeirrar guðrækni sem Hjarta okkar guðdómlega Endurlausnara er auðsýnd og þeirra tilbeiðslu sem oss ber að sýna elsku hans og elsku hinnar Alhelgu Þrenningar á öllum mönnum. Vér trúum því að einungis ef meginþættirnir sem þessi háleita guðrækni hvíla á séu útskýrðir í ljósi heilagrar Ritningar og kenninga arfleifðarinnar auðveldi það kristnum mönnum að „ausa úr lindum hjálpræðisins“ [14] Með þessu eigum vér við að þeir geti skilið með fyllri hætti mikilvægi það sem guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú gegnir í helgisiðum kirkjunnar og í innra og ytra lífi hennar og verkum og geti þar með safnað þessum ávöxtum hjálpræðisins þannig að hver og einn geti bætt framferði sitt með hollum hætti, eins og Hirðir hinnar kristnu hjarðar þráir.

[8]. (P 4. 12).
[9]. Hirðisbréfið „Annum Sacrum,“ 25. maí 1899; Acta Leonis, vol. XIX, 1900, bls. 71, 77-79.
[10]. Pius XI, Hirðisbréfið „Miserentissimus Redemptor,“ 8. maí 1928 A.A.S. XX, 1928, bls. 167.
[11]. Sjá Hiðisbréfið „Sumni Pontificatus,“ 20. október 1939: A.A.S. XXXI, 1939, bls. 415.
[12]. Sjá A.A.S. XXXII, 1940, bls. 170; XXXVII, 1945, bls. 263-264; XL, 1948, bls. 501; XLI, 1949, bls. 331.
[13]. (Ef 3. 20-21).
[14]. (Jes 12. 3).

No feedback yet