« HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 121-127)HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 111-120) »

12.02.07

  15:21:10, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1292 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir, Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 121-127)

121. Nú þegar vér fylgjum í fótspor forvera vors ávörpum vér fullir gleði enn einu sinni alla ástfólgna bræður vora í Kristi með þeim hvatningarorðum sem Leó XIII af eilífri minningu greip til í lok síðustu aldar í ávarpi sínu til allra hinna trúuðu og allra þeirra sem bera hjálpræði sitt og borgaralegs samfélags síns fyrir brjósti: „Sjá, í dag hefur annað sannverðugt tákn um náð Guðs verið sett oss fyrir sjónir, það er að segja hið Alhelga Hjarta Jesú Krists . . . sem ljómar í ósegjanlegri dýrð úr logunum. Vér verðum að setja alla von vora á það og í því ber að leita alls hjálpræðis og vonar.“ [121]

122. Það er jafnframt vor brennandi þrá að allir þeir sem játa að þeir séu kristnir og vinna af einurð og alvöru að því að stofna konungsríki Krists á jörðu, líti á iðkun guðrækni Hjarta Jesú sem uppsprettu og tákn einingar, hjálpræðis og friðar. Enginn má hugsa sem svo að slík iðkun varpi rýrð á önnur afbrigði trúrækni sem kristið fólk undir leiðsögn kirkjunnar hefur heiðrað hinn guðdómlega Endurlausnara með. Brennheit guðrækileg iðkun á Hjarta Jesú mun án nokkurs vafa næra og styrkja guðræknina á hinum heilaga krossi sérstaklega auk elsku á hinu heilaga sakramenti altarisins. Vér getum jafnvel fullyrt – eins og opinberanir Jesú Krists til hl. Gertrude og hl. Margaret Marie leiða berlega í ljós – að enginn öðlast réttan skilning á Kristi krossfestum sem hefur ekki komist í kynni við innri leyndardóm Hjarta hans. Það mun heldur ekki reynast auðvelt að skilja kraft þeirrar elsku sem knúði Krists til að fórna sjálfum sér vorra vegna sem andlega næringu vora nema með því að leggja sérstaka rækt við guðrækni Hjarta Jesú í Evkaristíunni, en takmark hennar – svo að gripið sé til orða forvera vors sællar minningar, Leó XIII – „er að minnast þeirrar háleitu elsku þegar Endurlausnari vor úthelltu öllum fjársjóði Hjarta síns til þess að vera með oss allt til enda tímanna með innsetningu Evkaristíunnar.“ [122] „Það er ekki síst opinberun Hjartans í Evkaristíunni sem hann gaf oss sökum hins mikla kærleika í sínu eigin Hjarta.“ [123]

123. Að lokum er það svo sú einlæga þrá að mynda sterkan varnarvegg gegn illum launráðum þeirra sem hata Guð og kirkjuna samtímis, og til að leiða menn að nýju í einkalífi sínu sem opinberu lífi til elsku Guðs og náungakærleikans, að vér hikum ekki við að lýsa því yfir að guðræknin á hinu Alhelga Hjarta Jesú sé áhrifaríkasti skólinn í elsku Guðs, þeirri elsku Guðs segjum vér, sem verður að vera sá grundvöllur sem konungsríki Guðs er reist á í hjörtum einstaklinga, fjölskyldna og þjóða, eins og þessi sami forveri vor af guðrækilegri minningu minnir oss á: „Ríki Jesú Krists öðlast styrk og festu í hinni guðdómlegu elsku: Að elska af heilagleika og festu er grundvöllur þess og fullkomnun. Það er frá slíku sem það verður að streyma: Að uppfylla skyldur af grandvarleik, að svipta engan hans eiginn rétti, að stjórna óæðri mennskum málefnum samkvæmt himneskum lögmálum, að elskan á Guð verði tekin fram yfir allt hið skapaða.“ [124]

124. Til þess að náðin streymi í enn ríkulegri mæli yfir allt kristið fólk, já, yfir allt mannkynið, frá guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú, megi hinir trúuðu hyggja að því að guðrækni hins Flekklausa Hjarta Guðsmóðurinnar sé samofin henni. Samkvæmt vilja Guðs var hin blessaða María mey óaðskiljanlega tengd Kristi í framkvæmd hinnar mennsku endurlausnar með slíkum hætti, að hjálpræði vort streymdi fram úr elsku þjáninga Jesú Krists og elska og hryggð Móður hans var samfléttuð henni. Það er þannig tilhlýðilegt að kristið fólk – sem meðtók hið guðdómlega líf frá Kristi um Maríu – og eftir að það hefur goldið hinu Alhelga Hjarta Jesú þakkarskuld sína, auðsýni jafnframt elskuríku Hjarta himneskrar Móður sinnar samsvarandi guðrækilega ástúð, þakklæti og fórnir. Í fyllsta samræmi og með hliðsjón af þessari ljúfu og viturlegu tilhögun hinnar guðdómlegu Forsjónar er sú minnistæða athöfn, er vér helguðum kirkjuna og alla heimsbyggðina hinu flekklausa Hjarta blessaðrar Maríu meyjar. [125]

125. Þar sem fyrstu hundrað árin eru nú liðin á þessu ári frá því að heimskirkjan fagnaði Hátíð hins Alhelga Hjarta Jesú samkvæmt boði forvera vors sællar minningar, Píusar IX, er það einlæg ósk vor, æruverðugi bræður, að þessarar aldarminningar verði minnst af hálfu hinna trúuðu með almennri tilbeiðslu, þakkargjörð og fórnum til hins guðdómlega Hjarta Jesú. Og þrátt fyrir að allt kristið fólk tengist böndum kærleikans í sameiginlegum bænum, munu fagnaðarrík hátíðarhöld verða haldin af sérstökum trúarmóði hjá þeirri þjóð þar sem heilög meyja ruddi veginn og var boðberi þessarar guðrækni að tilhögun hins guðdómlega Vilja.

126. Endurnærðir af þeirri ljúfu væntingu og með því að sjá nú þegar þá andlegu ávexti sem vér trúum einlæglega að muni streyma fram í ríkum mæli í kirkjunni frá guðrækni hins Alhelga Hjarta – svo framarlega sem hún er skilin með réttum hætti með hliðsjón af útskýringum vorum og lögð sé rækt við hana – berum vér þá bæn fram fyrir Guð að honum þóknist náðarsamlegast að veita hjálp sína svo að þessi brennandi þrá vor nái fram að ganga með styrkri hjálp náðar hans. Megi það ná fram að ganga með guðdómlegum innblæstri og sem tákn um náð hans, að elska hinna trúuðu á hinu Alhelga Hjarta Jesú megi vaxa daglega sökum þeirra hátíðarhalda sem haldin verða á þessu ári og ljúft og almáttugt konungsríki þess megi breiðast enn frekar út alls staðar í heiminum: Konungsríki „sannleika og lífs, konungsríki náðar og heilagleika, konungsríki réttlætis, elsku og friðar.“ [126]

127. Sem ummerki þessarar náðar færum vér yður af heilu hjarta hverjum og einum, æruverðugi bræður, ásamt með prestastéttinni og hinum trúuðu sem yður eru faldir á hendur, en þó sérstaklega þeim sem með guðrækilegri viðleitni sinni glæða og útbreiða guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú, vora postullegu blessun.

Gjört á stóli hl. Péturs, 15. dag maímánaðar á átjánda ári stjórnartíðar vorrar.

[121]. Hirðisbr. „Annum Sacrum: Acta Leonis,“ vol. XIX, 1900, bls. 79; Hirðisbr. „Miserentissimus Redemptor“: A.A.S. XX, 1928, bls. 167.
[122]. „Litt. Apost. quibus Archisodalitas a Corde Eucharistico Jesu ad S. Ioachim de Urbe erigitur,“ 17th Feb., 1903; Acta Leonis, vol. XXII, 1903, bls. 116.
[123]. Heil. Albert hinn mikli, „De Eucharistia,“ dist. Vl, tr. 1., c. 1: Opera Omnia, ed. Borgnet, vol. XXXVIII, Paris, 1890, bls. 358.
[124]. Hirðisbr. „Tametsi: Acta Leonis,“ vol. XX, 1900, bls. 303.
[125]. Sjá A.A.S. XXXIV, 1942, bls. 345 sq.
[126]. Úr rómversku messunni, forgildi Krists konungs.

No feedback yet