« HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 121-127)HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 101-110) »

12.02.07

  11:20:05, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1628 orð  
Flokkur: Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 111-120)

111. Fyrst þessu er svo varið, þá leikur ekki á því nokkur vafi að þegar kristið fólk auðsýnir hina Alhelga Hjarta Endurlausnarans lotningu uppfyllir það mikilvægan þátt skyldna sinna í þjónustu sinni við Guð og jafnhliða beygir það sig undir Skapara sinn og Endurlausnara, bæði í ástúð hjartna sinna og í sinni ytri breytni í lífinu. Með þessum hætti hlýðnast það boðorðinu guðdómlega: „Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ [113]

112. Auk þess ber það þá óhagganlegu fullvissu í brjósti að það sé ekki einungis knúið til að heiðra Guð fyrst og fremst sjálfu sér til ávinnings til sálar og líkama í þessu lífi og hinu komandi, heldur sé það vegna gæsku Guðs sem það leitast við að auðsýna honum lotningu með því að endurgjalda honum elsku með elsku, að tilbiðja hann og færa honum þakkir. Ef sú væri ekki raunin væri guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú Krists ekki í nokkurri samhljóðan við kjarna kristindómsins vegna þess að maðurinn beindi þá ekki lotningu sinni þegar í stað til hinnar guðdómlegu elsku. Þannig og ekki að ástæðulausu, eins og stundum vill bera við, væri unnt að ásaka þá sem annað hvort misskilja þetta háleita afbrigði guðrækni eða iðka hana með röngum hætti um öfgakennda sjálfselsku og sjálfsþjónkun. Þannig ber öllum að gera sér fullkomlega ljóst að þegar þeir auðsýna hinu Alhelga Hjarta Jesú guðrækni er það ekki hin ytri viðleitni sem vegur þyngst, fremur en að kjarni hennar felist í ávinningnum. Ef Kristur hefur gefið fyrirheit um slíkt í persónulegum opinberunum, þá var það til að hvetja menn til að iðka af enn meiri eldmóði frumskyldur kaþólskrar trúar, það er að segja elsku og fórn og þannig að grípa til allra tiltækra ráða sér til andlegs ávinnings.

113. Þannig hvetjum vér öll börn vor í Kristi, bæði þau sem hafa tamið sér nú þegar að bergja á því sáluhjálplega vatni sem streymir fram úr Hjarta Endurlausnarans, en einkum þó þau þeirra sem horfa á þetta úr fjarlægð sem hikandi áhorfendur, að umvefja þessa guðrækni. Þeim ber að íhuga af gaumgæfni eins og vér höfum sagt, að hér er um guðrækni að ræða sem hefur lengi verið máttug í kirkjunni og grundvölluð er á frásögnum guðspjallanna. Hún öðlaðist augljósan stuðning arfleifðarinnar og helgisiðafræðinnar og rómversku Hirðarnir hafa iðulega og fúslega borið lof á hana sjálfir. Þeir létu ekki nægja að innleiða Hátíð til heiðurs hinu Alhelga Hjarta Endurlausnarans og láta hana ná til allrar heimskirkjunnar, heldur voru þeir einnig ábyrgir fyrir því að allt mannkynið var helgað þessu sama Alhelga Hjarta. [114]

114. Auk þess ber að horfa til þeirra ríkulegu og fagnaðarríku ávaxta sem streymt hafa frá henni til kirkjunnar: Ótalinn fjöldi sálna snéri að nýju til kristindómsins, trú margra varð virkari og nánari bönd mynduðust milli hinna trúuðu og elskuríks Endurlausnara vors. Öll þessi blessunarríku áhrif hafa blasað við augum vorum, einkum á síðustu áratugum, í miklum mæli og með undraverðum afleiðingum.

115. Þegar vér horfum í kringum oss á þessi undursamlegu áhrif, það er að segja til guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú sem er elskuð og hefur breiðst út meðal allra hópa hinna trúuðu, verðum vér gripnir þakklæti, gleði og huggun. Og eftir að vér höfum borið fram þakklæti vort til Endurlausnarans eins og tilhlýðilegt er sem er hin óþrjótandi fjárhirsla gæskunnar, komumst vér ekki hjá því að færa öllum þeim, hvort sem það eru svo prestar eða leikmenn sem eiga hlut að máli og hafa lagt virkt starf af höndum til útbreiðslu þessarar guðrækni, vort föðurlega þakklæti.

116. Æruverðugu bræður. Þrátt fyrir að guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú hafi alls staðar borið sáluhjálplega ávexti fyrir kristilegt líferni, gera allir sér ljóst að hin stríðandi kirkja á jörðu – en einkum þó hið borgaralega samfélag – hefur ekki enn öðlast eðlislægan fullkomleika sinn í bókstaflegri merkingu orðsins sem kemur til móts við bænir og þrár Jesú Krists, hins leyndardómsfulla Brúðguma kirkjunnar og Endurlausnara mannkynsins. Þau eru alls ekki svo fá börn kirkjunnar sem skortir vegna allt of margra synda sinna og ófullkomleika fegurð þessarar Móður sem þau bera í sjálfum sér. Það eru ekki allir kristnir menn sem skera sig úr með þeim heilagleika breytni sem Guð kallar þá til. Ekki hafa allir syndarar snúið til húss Föðurins sem þeir yfirgáfu illu heilli svo að þeir geti íklæðst að nýju „fyrri kyrtlinum“ [115], tekið á móti hringnum og tákni trúfestu sinnar við Brúðguma sálnanna. Ekki hafa allir heiðnir menn safnast saman sem limir á leyndardómsfullum líkama Krists.

117. Og enn meira kemur til. Ef vér kennum til sárrar hryggðar sökum rótlausrar trúfestu gæskunnar í þeim sálum sem í tælingum blekkjandi langana eftir jarðneskum gæðum þegar eldur hins guðdómlega kærleika fer kulnandi og deyr smám saman út, því fremur er hjarta vort sárhryggt sökum vélabragða illra manna sem, líkti og Satan blási þeim slíku í brjóst, eru ákafari enn nokkru sinni fyrr í augljósu og sífelldu hatri sínu á Guði, kirkjunni og um fram allt honum sem á jörðu er fulltrúi Persónu hins guðdómlega Endurlausnara og auðsýnir mönnunum elsku í samhljóðan við hin víðkunnu ummæli kirkjufræðarans frá Milan: „Því að (Pétur) er spurður um það sem er óvíst, þrátt fyrir að Drottinn gangi ekki í óvissu. Ekki er hann spurður til að uppfræðast, heldur til að uppfræða þann sem hann færði okkur í hendur sem „fulltrúa elsku sinnar“ þegar hann sté upp til himins.“ [116]

118. En sannleikurinn er sá að hatur á Guði og á þeim sem með lögmætum hætti koma hans í stað er sú mesta synd sem maðurinn sem skapaður er í mynd Guðs getur drýgt sem fyrirhugað er að njóta fullkominnar og varanlegrar vináttu Guðs á himnum. Með hatri sínu á Guði hafnar maðurinn hinum æðstu gæðum og er knúinn til að kasta frá sjálfum sér og þeim sem standa honum næstir því sem á sér upptök í Guði, öllu því sem leiðir til sameiningar við Guð og öllu því sem leiðir til ljúfleikans í Guði, það er að segja, sannleika, dyggð, friði og réttlæti. [117]

119. Sökum alls þessa getum vér séð að fjöldi þeirra sem mikla sig af því að vera fjandmenn Guðs fer vaxandi á ýmsum stöðum. Og þegar hin fölsku slagorð efnishyggjunnar eru breidd út í verki og með röksemdum og lögleysi ástríðnanna alls staðar í hávegum haft, kemur þá nokkuð á óvart að elskan sem er æðsta lögmál kristindómsins og öruggasti grundvöllur raunverulegs og fullkomins réttlætis og höfuðuppsretta friðar og saklausrar gleði, glati yl sínum í sálum fjölmargra? Eða eins og Frelsari okkar varaði okkur við: „Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.“ [118]

120. Þegar vér horfumst í augu við svo fjölþætta illsku – slík átök meðal einstaklinga, fjölskyldna, þjóða og allrar heimsbyggðarinnar, og það meira á vorum eigin tímum en nokkru sinni fyrr – hvar getum vér þá leitað græðslu, æruverðugi bræður? Er unnt að finna það afbrigði guðrækni sem er æðri guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú og sem kemur betur til móts við grundvallarþætti kaþólskrar trúar, sem er þess betur umkomin að mæta þörfum kirkjunnar og mannkynsins í nútímanum? Hvaða trúariðkun er ágætari, meira aðlaðandi og sáluhjálplegri en þessi vegna þess að sú guðrækni sem er verið að fjalla um beinist að öllu leyti til elsku sjálfs Guðs? [119]

Að lokum þetta. Hvað er áhrifameira en elska Krists – sem guðræknin á hinu Alhelga Hjarta Jesú glæðir daglega og nærir í sífellu – til að fá hina trúuðu til að leggja rækt við boð Fagnaðarerindisins, en Heilagur Andi varar við að vanrækja slíkt vegna þess að „ávöxtur réttlætisins skal vera friður,“ [120] sem gerir friðinn verðugan þess nafns sem er óhugsandi í mennskum mætti?

[113]. Mk 12. 30; Mt 22. 37.
[114]. Sjá Leo XIII, Encl. „Annum Sacrum: Acta Leonis,“ vol. XIX, 1900, bls. 71 sq; Decree of the Sacred Congregation of Rites, 28th June, 1899, in Decr. Auth. III, n. 3712; Encl. Miserentissimus Redemptor: A.A.S. 1928, bls. 177 sq.; Decr. S.C. Rit., 29 Jan. 1929: A.A.S. XXI, 1929, bls. 77.
[115]. Lk 15. 22.
[116]. Exposit. in Evang. sec. Lucam, 1, X, n. 175: P.L. XV, 1942.
[117]. Sjá Sum Theol. II-II, q. 34, a. 2: ed. Leon., vol. VIII, 1895, bls. 274.
[118]. Mt 24. 12.
[119]. Sjá hirðisbr. „Miserentissimus Redemptor“: A.A.S. XX, 1928, bls. 166.
[120]. Jes 32. 17.

No feedback yet