« HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 111-120)HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 91-100) »

11.02.07

  15:30:44, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2013 orð  
Flokkur: Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 101-110)

101. Kirkjan, uppfræðari mannanna, hefur því ávallt verið fullviss um það frá því að hún gaf opinberlega út fyrstu skjölin um guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú að kjarni hennar, það er að segja elskan og fórnin þegar takmarkalaus elska Guðs á mannkyninu er vegsömuð, sé með engum hætti lituð af svo nefndri „efnishyggju“ eða eitri hindurvitna. Miklu fremur er guðrækni þessi afbrigði trúrækni sem er í fullri samhljóðan við þá andlegu tilbeiðslu sem sjálfur Frelsarinn boðaði þegar hann talaði við samversku konuna: „En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja Föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika." [104]

102. Það er þannig rangt að staðhæfa að íhugun á líkamlegu Hjarta Jesú standi í vegi fyrir því að nálgast elsku Guðs enn frekar og sé sálinni til hindrunar til að öðlast æðstu dyggðir. Þessari fölsku kenningu dulúðarinnar hafnar kirkjan alfarið, eins og þegar hún talar fyrir munn forvera vors af eilífri minningu, Innocent XI, og hafnar villu þeirra sem segja af fíflsku: „(Sál á hinum innri vegi) á ekki að auðsýna hinni blessuðu Mey, hinum heilögu og heilagri mennsku Krists ástúð vegna þess að elska sem beinst að slíku er skynræn vegna þess að takmark hennar er þess eðlis. Engin sköpuð vera, hvorki hin blessaða Mey né hinir heilögu eiga að finna sér stað í hjarta okkar vegna þess að Guð einn þráir að dvelja þar og eignast það.“ [105] Það er augljóst að þeir sem hugsa með þessum hætti telja sér trú um að ímynd Hjarta Jesú skírskoti til mennskrar elsku hans einnar og það sé ekkert það í henni að finna sem grundvalla megi þá tilbeiðslu á sem einskorðast við Guðdómseðlið líkt og á nýjum grundvelli. Allir gera sér ljóst að þessi túlkun á heilögum ímyndum er að öllu leyti röng vegna þess að hún túlkar merkingu þeirra allt of þröngt.

103. Kennin kaþólskra guðfræðinga gengur þvert á þetta og meðal þeirra kemst hl. Tómas svo að orði: „Ímyndum er ekki auðsýnd trúarleg tilbeiðsla í sjálfu sér sem hlutum, heldur sökum þess að inntak þeirra beinist til hins holdtekna Guðs. Sú viðleitni sem beinst að ímyndinni sem slíkri nemur þar ekki staðar, heldur beinist að inntaki hennar. Þegar mynd af Kristi er auðsýnd trúarleg heiðrun felur hún af þeim sökum ekki í sér að um mismunandi stig æðri tilbeiðslu trúarinnar sé að ræða.“ [106] Guðræknin beinst þannig til Persónu hins guðdómlega Orðs sem lokatakmarks sem með hlutlægum hætti er auðsýnt ímyndinni, hvort sem slíkar myndir draga svo upp mynd af hinum sáru píslum sem Drottinn leið sökum okkar eða þá þeirri sérstöku ímynd sem er öllum öðrum æðri í áhrifamætti og að merkingu, það er að segja gegnumstungið Hjarta hins krossfesta Krists.

104. Þannig er það bæði réttmætt og tilhlýðilegt fyrir oss í styrk kristindómsins að rísa upp frá einhverju líkamlegu líkt og Hjarta Jesú Krists, ekki einungis til þeirrar elsku sem er skynræn, heldur enn ofar til íhugunar og tilbeiðslu á hinni innblásnu og himnesku elsku og að lokum í ljúfum og háleitum hrifum sálarinnar til að íhuga og tilbiðja hina guðdómlegu elski hins holdgaða Orðs. Þetta gerum vér með hliðsjón af þeirri trú þegar vér trúum að bæði eðlin – hið mennska og guðdómlega – eru sameinuð í Persónu Krists og þannig fáum vér borið skyn á þau innilegu bönd sem sameina hina skynrænu elsku á hinu líkamlega Hjarta Jesú og hina tvíþættu andlegu elsku, það er að segja hina mennsku og guðdómlegu elsku. Ekki má víkja að þessum tveimur stigum eins og þau séu hlið við hlið í hinni lofsverðu Persónu hins guðdómlega Endurlausnara, heldur samfléttuð með eðlislægum hætti að svo miklu leyti sem hin mennska elska, ásamt með tilfinningunum, lýtur þeirri guðdómlegu og dregur upp mynd fyrir oss af þeirri síðari. Vér höldum því þó ekki fram samt sem áður, að vér verðum að íhuga og tilbiðja það sem er nefnt hin áþreifanlega ímynd í Hjarta Jesú, það er að segja hið fullkomna og algilda tákn guðdómlegrar elsku hans vegna þess að engin sköpuð ímynd megnar að tjá með fullnægjandi hætti kjarna þessarar elsku. En þegar kristinn einstaklingur auðsýnir Hjarta Jesú heiður ásamt kirkjunni með því að auðsýna tákninu lotningu eða bókstaflega sýnilegu tákni hins guðdómlega kærleika sem gekk svo langt að elska af brennandi elsku mannkynið sem flekkað var af syndunum í Hjarta hins holdgaða Orðs.

105. Það er því afar brýnt á þessu stigi í kenningu sem er jafn mikilvæg og þessi og krefst slíkra hygginda, að sérhver og einn geri sér ljóst að sannleikur hins náttúrlega tákns þar sem hið líkamlega Hjarta Jesú skírskotar til Persónu Orðsins, hvílir að öllu leyti á grundvallarsannindum einingar Persónanna. Ef einhver heldur því fram að þetta sé ekki sannleikanum samkvæmt, þá reifar hann villukenningar sem kirkjan hefur fordæmt oftar en einu sinni vegna þess að þær ganga þvert á einingu Persóna Krists, þrátt fyrir að hin tvö eðli séu hvort fyrir sig fullkomin og aðgreind.

106. Þegar þessi grundvallarsannindi liggja ljóst fyrir í eitt skipti fyrir öll gerum vér oss ljóst að Hjarta Jesú er hjarta guðlegrar Persónu, hins holdgaða Orðs og með því er dregin upp mynd og sú elska bókstaflega sett oss fyrir sjónir sem hann umvafði oss með og heldur áfram að umvefja oss í. Þar af leiðandi er sá heiður sem hinu Alhelga Hjarta er auðsýndur slíkur, að hann hefur hann – að svo miklu leyti sem lýtur að hinni ytri viðleitni – til æðsta stig kristinnar trúrækni. Þetta er trúin á Jesú sem grundvallast á Meðalgangaranum sem er maður og Guð og það með slíkum hætti, að vér getum ekki nálgast Hjarta Guðs nema um Hjarta Krists eins og hann segir sjálfur: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Engin kemur til Föðurins nema fyrir mig.“ [107]

107. Þannig getum vér auðveldlega skilið að guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú er í eðli sínu tilbeiðsla á þeirri elsku sem Guð elskaði okkur með í fyrir Jesú og samtímis rækt við okkar eigin elsku sem tengir okkur Guði og öðrum mönnum. Eða svo að þetta sé orðað með öðrum hætti: Slík guðrækni beinist til elsku Guðs á oss til að tilbiðja hana, þakka fyrir hana og lifa með þeim hætti að samlíkjast henni. Þetta er markmið hennar og lokatakmark: Að vér berum þá elsku sem vér eigum Guði að þakka til annarra manna til að fullkomna hana með því að fylgja því boðorði eftir daglega af vaxandi ákefð sem Meistarinn guðdómlegi gaf postulum sínum sem heilaga köllun þegar hann sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ [108] Og þetta boðorð er í raun og veru nýjung og Krists eins, eða eins og Tómas frá Akvínó segir: „Í sem fæstum orðum er þetta munurinn á Nýja og Gamla sáttmálanum eins og Jeremía segir: ‚Ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús’ [109]. En það boðorð sem í Gamla sáttmálanum grundvallaðist á ótta og lotningarverðri elsku skírskotaði til Nýja sáttmálans. Þannig var þetta boðorð að finna í gamla lögmálinu án þess að eiga heima þar í raun og veru, heldur sem undirbúningur að hinu nýja lögmáli“ [110]

108. Áður en vér ljúkum umfjöllun vorri á því hvað felst í slíkri guðrækni og ágæti hennar í kristilegu lífi og vér höfum lagt fyrir yður til íhugunar – efni sem er bæði aðlaðandi og huggunarríkt – teljum vér í krafti hins postullega embættis sem fyrst var falið blessuðum Pétri eftir að hann hafði borið fram hina þríþættu ástarjátningu sína, við hæfi að hvetja yður að nýju, æruverðugu bræður, og fyrir ykkar tilstuðlan öll ástfólgin börn vor í Kristi, að halda áfram að sýna enn meiri ákafa til að vinna að útbreiðslu þessa afar þekkilega afbrigðis guðrækni. Vér treystum því fjölþætt blessun felist í henni á vorum tímum.

109. Sannleikurinn er sá, að ef þau rök sem borin hafa verið fram og liggja guðrækni hins Alhelga Hjarta til grundvallar eru yfirveguð af grandvarleika, þá leikur ekki á því nokkur vafi að hér er ekki um neina venjulega guðrækni að ræða sem hver og einn getur umgengist af eigin geðþótta eða talið þýðingarlitla eða vikið til hliðar sem léttvægri í samanburði við eitthvað annað. Hér er um trúarlega viðleitni að ræða sem hjálpar mikið til að öðlast kristinn fullkomleika. Ef „guðrækni“ – til samræmis við þá viðurkenndu guðfræðilegu skilgreiningu sem hinn englum líki kirkjufræðari veitir oss – „virðist ekki vera neitt annað en fúsleiki til að helga sjálfan sig fúslega því sem lýtur að þjónustunni við Guð,“ [111] er þá hugsanlegt að um nokkra aðra þjónustu við Guð sé að ræða sem er meira knýjandi og nauðsynlegri, og samtímis jafn ágæt og aðlaðandi, en sú sem er helguð elskunni? Hvað er Guði velþóknanlegra og betur við hæfi en sú þjónusta sem felst í því að vegsama hina guðdómlegu elsku og er borin fram sökum þessarar elsku – vegna þess að sérhver þjónusta sem er innt fúslega af hendi er gjöf í vissum skilningi og elskan „gegnir hlutverki fyrstu gjafarinnar sem allar aðrar gjafir grundvallast á?“ [112]

110. Þetta afbrigði trúrækni ætti að hafa í hávegum þar sem maðurinn heiðrar elsku Guðs og helgar sig með auðveldari hætti og réttmætari hinum guðdómlega kærleika, afbrigði sem sjálfur Endurlausnarinn boðaðu og bauð kristnum mönnum og páfarnir fyrir sitt leyti vörðu og lofuðu mikið í minnisstæðum útgefnum skjölum. Þar af leiðir að þegar þetta blessunarríka tákn sem Jesú Kristur færði kirkju sinni í hendur er talið léttvægt felur það bæði í sér hvatvísi og tjón og vekur vanþóknun Guðs.

[104]. Jh 4. 23-24.
[105]. Innocent XI, Apostolic Constitution „Coelestis Pater,“ 19th Nov., 1687; Bullarium Romanum, Rome, 1734, vol. VIII, bls. 443.
[106]. Sum. Theol. II-II, q. 81, a. 3 ad 3m: ed. Leon., vol. IX, 1897, bls. 180.
[107]. Jh 14. 6.
[108]. Jh 13. 34, 15. 12.
[109]. Jer 31. 31.
[110]. „Comment, in Evang. S. Ioan.,“ c. XIII, lect. VII, 3: ed. Parmae, 1860, vol. X, bls. 541.
[111]. Sum. Theol. II-II, q. 82, a. 1: ed. Leon., vol. IX, 1897, bls. 187.
[112]. Ibid. I, q. 38, a. 2: ed. Leon., vol. IV, 1888, bls. 393.

No feedback yet