« HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 101-110)HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 81-90) »

11.02.07

  10:28:14, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1549 orð  
Flokkur: Hirðisbréf páfa

HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta, 15. maí 1956 (§ 91-100)

91. En staðreyndin er sú að ætíð hafa verið uppi einstaklingar sem hafa helgast Guði og þar með fylgt fordæmi hinnar hjartfólgnu Guðsmóður. Postularnir og hinir miklu feður kirkjunnar hafa lagt rækt við þessa guðrækni þakkargjörðar, tilbeiðslu og elsku á hinni háheilögu mennsku Krists, einkum þó á sárum þeim sem gegnumnístu líkama hans þegar hann þjáðist sökum hjálpræðis okkar.

92. Felst auk þess ekki í þessum orðum „Drottinn minn og Guð minn!“ [96] sem hl. Tómas postuli tók sér í munn, orðum sem leiða í ljós að hann hafði breyst úr vantrúarmanni í trúaðan lærisveim, trúarjátning, tilbeiðsla og elska sem rís frá særðri mennsku Drottins hans til hátignar hinnar guðdómlegu Persónu?

93. En ef hið særða Hjarta Frelsarans hefur ætíð hrifið menn til tilbeiðslu á þeirri takmarkalausu elsku sem hann umvefur mannkynið í – og til þessa má rekja orð Sakaría spámanns: „Þeir munu líta til mín, til hans, sem þeir lögðu í gegn,“ [97] og hl. Jóhannes guðspjallamaður sér rætast á Jesús á krossinum og talað hafa til kristinna manna á öllum öldum – verður engu að síður að játa, að það var einungis með stigvaxandi hætti að heiðrun sérstakrar guðrækni auðsýndri Hjartanu sem ímynd elskunnar, mennskrar og guðdómlegrar og var til staðar í hinu holdgaða Orði þróaðist.

94. En hvað áhrærir þá sem óska að kynna sér mikilvægustu stig þessarar guðrækni í aldanna rás og vér víkjum að hinni ytri iðkun, koma jafnskjótt fram nöfn einstaklinga sem hafa orðið víðkunn þar sem þeir hafa verið framverðir þessa afbrigðis guðrækni sem með persónulegum hætti hefur öðlast fótfestu meðal safnaða. Svo að minnst sé á nokkur dæmi um það hvernig stoðum hefur verið rennt undir þessa guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú og unnið sífellt að útbreiðslu hennar, þá hafa hl. Boneventura, hl. Albert hinn mikli, hl. Gertrude, hl. Katrín frá Siena, blessaður Heinrich Suso, hl. Pétur Cansíus og hl. Frans frá Sales innt mikla þjónustu af höndum. Hl. Jóhannes Eudes stóð að baki fyrstu guðsþjónustunni sem haldin var til heiðurs hinu Alhelga Hjarta, en margir byskupar í Frakklandi samþykktu sérstaka hátíð í þessu sambandi sem haldin var í fyrsta skiptið þann 20. október 1672.

95. En hl. Maragaret Marie Alacoque skipar sérstakan sess á meðal þeirra sem lögðu rækt við þessa háleitu og ágætu guðrækni, en undir andlegri leiðsögn blessaðs Claude de la Colombiere brann hún af sérstakri ákefð til að sjá að hin raunverulega merking þessarar guðrækni sem þróaðist með svo víðfeðmum hætti hinum trúuðu til mikillar uppbyggingar nyti viðurkenningar og yrði aðskilin frá öðrum afbrigðum kristinnar guðrækni með sérstakri áherslu á elskuna og fórnina. [98]

96. Nægilegt er að minnast einstakra atvika á þeirri öld sem guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú tók að þróast til að gera sér ljóst, að þessa undraverðu útbreiðslu mátti rekja til þess að hún var í fullkominni samhljóðan við kjarna kristinnar guðrækni vegna þess að hér var um guðrækni elskunnar að ræða. Það má því ekki halda því fram að þessi guðrækni hafi sprottið fram vegna nokkurra persónulegra opinberana Guðs sem birtust óvænt í kirkjunni. Miklu fremur tók hún að blómstra af sjálfri sér vegna þeirrar lifandi trúar og brennandi guðrækni manns sem nutu himneskrar náðar og drógust að hinum lofsverða Endurlausnara og dýrlegra sára hans sem þeir litu á sem óhrekjanlegan vitnisburð um þessa takmarkalausa elsku.

97. Þar af leiðandi er ljóst að þær opinberanir sem hl. Margaret Marie varð aðnjótandi fólu ekki í sér neina nýjung í kaþólskri kenningu. Mikilvægi þeirra fólst í því, að þegar Kristur og Drottinn vor opinberaði Alhelgt Hjarta sitt þráði hann með einstæðum hætti að hvetja hugi manna til að íhuga og auðsýna leyndardómi miskunnarríkrar elsku Guðs á mannkyninu guðrækni. Í þessari sérstöku opinberun benti Kristur á Hjarta sitt með markvissum og endurteknum orðum, sem því tákni sem laða átti menn að þekkingu og viðurkenningu á elsku hans. Jafnhliða þessu gerði hann það að tákni og staðfestingu þeirrar miskunnar og náðar sem kirkjan á vorum tímum þarfnast.

98. Auk þess má sjá að þessi guðrækni streymir fram úr grundvelli kenninga kristindómsins á þeirri staðreynd, að hið postullega Sætu veitti samþykki sitt á helgisiðum hátíðarinnar áður en það samþykkti skrif hl. Margaret Marie. Án þess að taka með beinum hætti afstöðu til einhverrar persónulegrar opinberunar frá Guði, heldur með því að verða náðarsamlegast við bænum hinna trúuðu ákvað Stjórnardeild helgisiða – með ákvörðun þann 25. janúar 1765 sem forveri vor, Klemens XIII, samþykkti þann 6. febrúar sama árs – heimild til handa pólsku byskupunum að hafa helgisiði hátíðarinnar um hönd auk þess sem þetta náði til svonefnds Archonbræðralags hins Alhelga Hjarta Jesú í Róm. Hið posttulega Sæti brást við með þessum hætti svo að guðrækni sem þegar var til staðar og blómstraði mætti breiðast enn frekar út þar sem takmark hennar var „að glæða minninguna um hina guðdómlegu elsku með þessu tákni“ [99] sem knúði Frelsara vorn til að bera sjálfan sig fram sem friðþægingarfórn vegna synda mannanna.

99. Þessu fyrsta samþykki sem veitt var sem forréttindi og í takmörkuðum mæli var fylgt eftir um öld síðar með öðru sem var sínu mikilvægara og skýrar orðað. Vér eigum hér við ákvörðun þá sem vér vikum að hér að framan sem Stjórnardeild helgisiða tók þann 23. ágúst 1856 þegar forveri vor af ódauðlegri minningu, Píus IX, með hliðsjón af bænum frönsku byskupanna og því sem næst alls hins kaþólska heims, innleiddi Hátíð hins Alhelga Hjarta Jesú í allri heimskirkjunni og að hún væri haldin með verðugum hætti. [100]. Þennan atburð má vissulega tileinka minningu allra hinna trúuðu því að eins og vér lesum í helgisiðum þessarar sömu Hátíðar: „Frá og með þessari stundu streymdi guðrækni hins Alhelga Hjarta fram líkt og stórfljót og ruddi öllum hindrunum úr vegi og breiddist út um alla heimsbyggðina.“

100. Í ljósi þess sem vér höfum þegar varpað ljósi á, æruverðugu bræður, er ljóst að hinum trúuðu ber að leita til Ritningarinnar, arfleifðarinnar og helgisiðanna eins og til óflekkaðrar uppsprettu hvað áhrærir guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú, ef þeir þrá að bera skyn á innra eðli hennar og íhuga hana af guðsótta til að öðlast næringu til að glæða og þroska trúarhita sinn. Ef lögð er sífellt rækt við þessa guðrækni í ljósi þessarar þekkingar og skilnings, bregst það ekki að hinir trúuðu öðlist ljúfa þekkingu á elsku Krists sem felur í sér fullkomleika kristilegs lífernis, líkt og postulinn sem þekkti þetta af eigin reynslu boðar: „Þess vegna beygi ég kné mín fyrir Föðurnum . . . Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir Anda sinn að krafti hið innra með yður, til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika. Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.“ [101] Skýrasta ímynd þessarar alltumvefjandi fyllingar Guðs er sjálft Hjarta Krists Jesú. Vér eigum hér við fyllingu þeirrar miskunnar sem er sérkennandi fyrir Nýja sáttmálann þar sem „gæska Guðs Frelsara vors birtist og elska hans til mannanna,“ [102] því að „Guð sendi ekki Soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.“ [103]

[96]. Jh 20. 28.
[97]. Jh 19. 37; Sjá Sak 12. 10.
[98]. Sjá hirðisbr. „Miserentissimus Redemptor“: A.A.S. XX, 1928, bls. 167-168.
[99]. Sjá A. Gardellini, "Decreta authentica," 1857, n.4579. vol. III, bls. 174.
[100]. Sjá Decr. S.C. Rit., apud. N. Nilles, „De rationibus festorum Sacratissimi Cordis Jesu et purissimi Cordis Mariae,“ 5a ed., Innsbruck, 1885, vol. I, bls. 167.
[101]. Ef 3. 14, 16-19.
[102]. Tit 3. 4.
[103]. Jh 3. 17.

No feedback yet