« Um LífsverndTíu svör til stjórnmálamanna sem styðja fóstureyðingar »

18.03.06

  14:17:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 666 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Hinn heilagi Kristur reiðinnar

Guðspjall Jesú Krists á Drottins degi þann 19. mars er úr Jóhannesarguðspjalli 2. 13-15

Nú fóru páskar Gyðinga í hönd, og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá, er seldu naut, sauði og dúfur, og víxlarana, sem sátu þar. Þá gjörði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra, og við dúfnasalana sagði hann: „Burt með þetta héðan. Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð.“ Lærisveinum hans kom í hug, að ritað er: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“ Gyðingar sögðu þá við hann: „Hvaða tákn getur þú sýnt oss um það, að þú megir gjöra þetta?“ Jesús svaraði þeim: „Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum.“ Þá sögðu Gyðingar: „Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum, og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!“ En hann var að tala um musteri líkama síns. Þegar hann var risinn upp frá dauðum, minntust lærisveinar hans, að hann hafði sagt þetta, og trúðu ritningunni og orðinu, sem Jesús hafði talað. Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni, fóru margir að trúa á nafn hans, því þeir sáu þau tákn, sem hann gjörði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn, því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki, að neinn bæri öðrum manni vitni; hann vissi sjálfur, hvað í manni býr.

Hugleiðing.
Ofurfrjálslyndisguðfræðin dregur upp sína eigin mynd mennskra hugsmíða af Kristi. Þetta er mynd af frjálslyndum og umburðarlyndum „krataforingja“ sem vill vera öllum til hæfis. Þannig gera menn Guð að eins konar páfagauk í búri. Slík afstaða felst í því að gott sé að eiga þennan „guð“ að þegar við þurfum að skæla við öxl hans, en getum síðan lokað inn í búri sínu þess á milli og gleymt honum, eins konar plástursguð. Og hann lætur sér í léttu rúmi liggja hvernig við breytum á jörðinni vegna þess að þessi „guð“ setur okkur engin boðorð.

En hin sifurtæra lind Orðsins dregur upp aðra mynd hér í guðspjalli dagsins: AF KRISTI REIÐINNAR. Þetta er sá Guð sem hefur vald á himni sem jörðu og ríkir sem Konungur eða Höfuð yfir kirkjunni. Rétt eins og fræðimenn Gyðinga afneitar ofurfrjálslyndisguðfræðin slíkum Guði. Þessi Drottinn kom til jarðar og grundvallaði kirkju sína sem lifandi líkama sinn: „Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum.“ Hér skírskotaði hann til píslardauða síns á krossinum til að kaupa okkur frjáls undan ógnarvaldi syndarinnar. Hann sætti okkur ekki einungis við Guð Föður, heldur fyllir hann okkur af Heilögum Anda og gerir okkur að lifandi musteri Guðs (1 Kor 6. 19-20). Það er Heilagur Andi sem lifir í kirkjunni, upplýsir hugi okkar og hreinsar hjörtu okkar svo að við berum Guði Föður þóknanlegir fórnir og fyllir okkur heilagri vandlætingasemi vegna húss Guðs: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“ Eftir Holdtekju Drottins á jörðu er öll mannanna börn orðin að húsi hans. Gefum gaum að orðum Ágústínusar kirkjuföður á þessum degi Drottins:

Ég er fæða fullvaxinna og þú skalt nærast á mér. Og ekki ert það þú sem munt umbreyta mér, líkt og hinni holdlegu fæðu í þig sjálfan, heldur munt þú ummyndast í mig. [1]

[1]. Játningar, 7. 10.

No feedback yet