« Hin heilaga arfleifð og Ritningarnar – Sophronij arkimandrítiHeilagur Andi er hinn Óskapaði „Flekklausi Getnaður“ – Hl. Maximilian Kolbe »

13.05.08

  16:13:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 470 orð  
Flokkur: Trúarljóð

Hinn guðdómlegi gleðileikur Dante – í þýðingu Guðmundar Böðvarssonar, bónda og skálds frá Kirkjubóli

Nú þegar Borgarleikhúsið hefur sett á fjalirnar verk sem byggist á Hinum guðdómlega gleðileik (Divina commedia) eftir Dante vil ég minna kaþólska lesendur á hina undurfögru þýðingu Guðmundars skálds Böðvarssonar frá Kirkjubóli (1904-1974). Tólf kviður úr Gleðileiknum komu út í þýðingu hans í bundnu máli á vegum Bókaútgáfu Menningarsjóðs árið 1968. Vert er að hafa þetta verk í hávegum. Hinn Guðdómlegi gleðileikur Dante er ein af perlum kaþólskra dulúðarbókmennta.

Sjálfskipaður hópur menningarforkólfa gagnrýndi þýðingu Guðmundar harkalega og án allrar sanngirni á sínum tíma (vafalaust blöskrað djörfung bóndans og erfiðismannsins að ráðast í slíkt verk!). Ég birti hér því brot úr þýðingu Guðmundur úr Paradísarkviðunni 33. 82, 121 ásamt ítalska textanum.

„O abbodante grazia, ond’ io presunsi
ficcar lo viso per la luce eterna,
tanto che la veduta vi consunsi!
Nel suo profondo vidi che s’ interna,
legato con amore in un volume,
ciò che per l’universo si squaderna;

Sustanzia ed accidenti, e lor costume,
quasi confiati insierne per tal modo,
che ciò ch’ io dico é un semplice lume,
La forma universal di questo nodo
credo ch’ io vidi, perchè più di largo,
discendo questo, mi sento ch’ io godo.

* * *
O, quanto è corto il dire, e como fioco
al mio concetto! e questo, a quel ch’ io vidi,
è tanto che non basta a dicer poco.
O luce eterna, che solo in te sidi,
solo t’ intendi, e da ta intelletta
ed intendente te, ami ed arridi!“

Svona hljómar þetta í þýðingu Guðmundur:

Ó náðarvald, sem gafst mér orku alla
eilífðarlogans regindjúp að kanna
áður en dauðans klukkur til mín kalla.
Ég sá hve tilvist alls og allra manna,
öll alheimsverund, fast er samanbundin
Guðs ástarband, hins eina, góða og sanna,

hvert hnattakerfi, er svífur himinsundin.
– Hver sáralítið brot af vitrun slíkri
í mínum smáu versum verður fundin.
Hin mikla eining alls, í dásemd ríkri
við augum skein, – enn stend ég þrotinn orðum
í hrifning minni, áður engri líkri.

* * *

Ó, hversu tungan á sér fátt til ráða
mót endurminning þeirri er sál mín dylur,
hvað er mót sýn sú sögn er ég hef tjáð?
Eilífa tign, sem enginn þanki skilur
utan þú sjálf í þinni kærleiksgleði,
og bæði í ljósi birtir þig og hylur.

Sjálft lokaerindið er eins og endapunktur yfir heimsmyndunarfræði skólaspekinnar:

Og líkt og mæta allir punkti einum
við öxul geislar hjóls á vegi förnum,
svo lukti um mig sú ást, er höndum hreinum
heldur á sól og jörð og öllum stjörnum.

Njótið!

3 athugasemdir

Athugasemd from: Steinunn Steinarsdóttir
Steinunn Steinarsdóttir

Góðan dag, mig langar til að vita hvort þýðing Guðmundar á Gleðiljóðunum Dante sé til og hvar sé hægt að nálgast hana, með bestu kveðju, Steinunn Steinars.

08.09.09 @ 15:49
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Kæra Steinunn,

Tólf kviður úr Gleðileiknum komu út í þýðingu hans í bundnu máli á vegum Bókaútgáfu Menningarsjóðs árið 1968.

Unnt er að nálgast eintak í Þjóðarbókhlöðunni.

Pace Tecum,

JRJ

09.09.09 @ 09:35
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þessi góðu sýnishorn og þína áminningu um fagran og mikinn kveðskap, Jón Rafn.

Hér minnir sumt óneitanlega á kveðskap Boethiusar, þar sem hann bæði ber lof á ást Guðdómsins á veröldinni allri (eins og hér í síðustu línunum í dæmi þínu) og bendir á, hvernig allt er samantengt af hans ástar-bandi, eða eins og Dante segir (sem vitaskuld hefur þekkt Huggun heimspekinnar):

“Ég sá hve tilvist alls og allra manna,
öll alheimsverund, fast er samanbundin
Guðs ástarband, hins eina, góða og sanna,

hvert hnattakerfi, er svífur himinsundin.

Hin mikla eining alls …”

Og þannig yrkir Boëthius:

Að heimur stöðugur standi,
þótt stórum breytist í þróun ;
að eining endalaus haldist
með öllu kviku, þó stríði
….
að löndum bannað sé leysast
úr læðing, mörk sín að víkka ;
sú skipan heims allra hluta,
jafnt hafs sem uppheims og jarðar,
er lögmál eilífrar ástar.

Ef bönd sín leysti hún, brysti
það bróðurþel, sem allt tengir,

Ást bindur sáttmála sönnum
allt saman : þjóðir og lýði,
og hún, með heilögu bandi,
í hreinleik elskendur tengir ;
hún tryggir félögum trúum
þau tryggðabönd, er þeir sverjast.

Hve sælir, mannanna synir,
ef ást sú anda´ ykkar leiðir,
sem öllu stýrir á himnum !

Með kærri kveðju og þakklæti.

20.09.09 @ 00:05