« Ritningarlesturinn 27. september 2006Ritningarlesturinn 26. september 2006 »

26.09.06

  07:07:59, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 832 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hinn eilífi getnaður Orðsins í mannssálinni

Í umfjöllun minni um Bænaháskóla Guðsmóðurinnar í gær lagði ég ríka áherslu á iðrunina og syndafyrirgefninguna sem ávexti dyggða auðmýktarinnar, hlýðninnar og fátæktarinnar. Engin er eins hæf til að uppfræða okkur um þessar háleitu dyggðir eins og María Guðsmóðir vegna þess að þær bókstaflega holdguðust í henni í sýnilegri mynd og ávöxtur þeirra varð Sonur hennar Jesú og því er hún sögð blessuðust meðal kvenna! María Guðsmóðir er hinn gullni hlekkur milli Gamla sáttmálans og þess Nýja þar sem öll fyrirheit þess fyrri náðu fram að ganga sökum flekkleysis síns. Ef við gætum þess sjálf að varðveita hreinleika hjartans með því að hafna óhreinum hugsunum óvinar alls lífs með syndajátningu og syndafyrirgefningu samlíkjumst við Guðsmóðurinni í hennar eigin flekkleysi. Þannig verður okkar eigin hjörtu að hreinum og fægðum speglum sem uppljómast geta í hinu Óskapaða ljósi Guðs þannig að ljós hans tekur að skína í myrkrinu.

Samkvæmt ævafornum munnmælasögnum hétu foreldrar hennar Jóakim (Javhe frelsar) og Anna (á hebr. Hannah eða náð). Sagt er að María hafi verið ein þeirra meyja sem þjónuðu frammi fyrir Drottni í musterinu í Jerúsalem. Við getum sagt með fullum rétti að þau Jóakim og Anna, foreldrar Maríu, hafi verið meðal dýrmætustu ávaxta hins Gamla sáttmála og farvegur þeirrar fyrirhugunar sem búið hafi í hjarta Guðs frá því „áður en heimurinn var grundvallaður,“ (Ef 1. 4): Að frelsa heiminn með náð sinni! Um aldir beið Guð eftir því að draumur hjarta hans næði fram að ganga sem gerðist í hinni Flekklausu. Þetta gat hann gert vegna þess að María laut VILJA hans til fulls. „Þá sagði María: ‚Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orði þínu´“ (Lk 1. 38). Sérhver sál sem bregst við með sama hætti og María verður að nýrri „móðir“ Jesú, að nýrri meysál, eins og Meistari Eckhart komst að orði í þeim leyndardómi sem hann kallaði hinn eilífa getnað Orðsins í sálinni og lagði svo ríka áherslu á með eftirfarandi orðum:

Ef þessi fæðing nær í raun og veru fram að ganga megnar ekkert að halda aftur af þér: Allt beinir þér til Guðs og þessarar fæðingar. Við sjáum líkingu við þetta í eldingunni. Hvað sem hún lýstur, hvort sem það sé tré, dýr eða maður, snýr sá sem á hlut að máli sér að henni með þrumugnýnum. Maður sem snýr við henni baki snýr sér samstundis við til að bera hana augum. Öll þúsunda laufblaða trésins snúa sér við til að verða vitni að þessu leiftri. Sama gegnir um alla þá þar sem þessi fæðing nær fram að ganga. Þeir snúa sér þegar í stað til þessa getnaðar af öllum mætti, jafnvel einungis með jarðneskum hætti. Já, það sem áður var til hindrunar verður nú ekkert annað en til hjálpar. Ásjóna þín snýr sér svo fullkomlega til þessa getnaðar, hvað sem þú svo kannt að sjá og heyra, að þú meðtekur ekkert annað en þennan getnað. Allir hlutir eru einfaldlega Guð og þú sérð ekkert annað en Guð í öllum hlutum. Rétt eins og sá sem horfir lengi í sólina sér ekkert annað en sólina hvað sem hann svo horfir á. [1]

Þetta er leyndardómur getnaðar hinnar blessuðu meyjar. Frá fyrstu andrá tilvistar sinnar mændi hún til Guðs í fullkomnu og elskuríku ásæi hið innra. Allar þær sálir sem fylgja fordæmi hennar í þessum hrifum elskunnar sannreyna þennan leyndardóm vegna þess að hér er um tilvistarfræðilega staðreynd að ræða í hreinleika hjartans hjá öllum sálum sem skírðar eru til nafns Drottins í kirkjum hinnar postullegu arfleifðar. Þennan sannleika hafa feður og mæður Vestur- og Austurkirkjunnar endurtekið í sífellu í aldanna rás:

Og svo að þetta sé allt dregið saman, þá er hlutverk alls alheimsins, allra frumefna og allrar mennskrar sköpunar, allra kynþátta og ættkvísla manna á öllum öldum og tímum, að horfa til Frúar vorrar og Þeotokos sem skrúðblóms auk þess trés sem er fegurst allra trjáa . . . hins Eingetna Sonar hennar. [2]

[1]. Meister Eckhart (Pfeiffer), bls. 24.
[2]. Joseph Vryennios, býsanskur guðfræðingur (uppi á fyrri hluta fimmtándu aldar). Tilvitnun sem Nikódemus af hinu Heilaga fjalli greip til í umfjöllun sinni um eina af perlum dulúðarguðfræðinnar sem hann þýddi á grísku, það er „Combattimiento spirituale“ Ítalans Scupoli.

No feedback yet