« Athugasemdir við skrif Kristins Hauks Guðnasonar sagnfræðings.Bjargið alda, borgin mín »

22.04.07

  11:51:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1003 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hinn algildi sannleikur – kærleiki elskunnar

Kristin trú er opinberunartrú og það var Drottinn Jesús sem opinberaði okkur eðli Guðs Föður fyrir tvö þúsund árum sem elsku. Það er elskan sem er hinn algildi sannleikur, eða með orðum Jóhannesar guðspjallamanns:

Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent Einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann. Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi Son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.

Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef vér elskum hver annan, þá er Guð stöðugur í oss og kærleikur hans er fullkomnaður í oss. Vér þekkjum, að vér erum stöðugir í honum og hann í oss, af því að hann hefur gefið oss af sínum Anda. Vér höfum séð og vitnum, að Faðirinn hefur sent Soninn til að vera Frelsari heimsins. Hver sem játar, að Jesús sé Guðs Sonur, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Vér þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á oss, og trúum á hann.

Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. Með því er kærleikurinn orðinn fullkominn hjá oss, að vér höfum djörfung á degi dómsins, því að vér erum í þessum heimi eins og hann er. Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.

Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði. Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn“ (1Jh 7-21).

Það er þessi algildi sannleikur sem nafnleysinginn Níðhöggur og tvíeikið Hjalti Rúnar Ómarsson og Lárus Viðar Lárusson telja stefna tilvist mannkynsins í voða. Ég kalla þá tvíeiki vegna þess að þeir eru samvaxnir síamstvíbúar afstæðishyggju póstmódernískar afstæðishyggju og níhilisma: ördeyðu dauðamenningar fósturdrápa og ofbeldis gagnvart snauðum Þriðjaheimsríkjum. Með hliðsjón af ótta hinnu andlegu tvíbura og í ljósi ummæla guðspjallamannsins hér að ofan hlýtur að mega rekja þennan áþreifanlega ótta þeirra til þess að þeir þekkja ekki Guð Föður því að „fullkomin elska rekur út óttann.“

Þeir þarfnast því frelsunar Einkasonar Guðs Föður til að lifa óttalausu lífi í elsku hins algilda sannleika kærleikans. Þeir eru ekki einir um að upplifa þennan ótta efasemda náttmyrkurs vantrúarinnar. Jafnvel fólk sem telur sig kristið er þjakað af þessum ótta í afstæðishyggju mennskra hugsmíða.

Heilög Ritning opinberar okkur að Guð Faðir agar þann sem hann elskar: „Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og lætur þann son kenna til, sem hann hefir mætur á“ (Ok 3. 12). Við skulum taka mennskt dæmi. Sá eiginmaður sem elskar konu sína hugástum drýgir ekki hór þegar konan sér ekki til hans. Þetta gerir hann sökum elsku á eiginkonu sinni. Þetta er ekki fullkomin samlíking við elsku Guðs vegna þess að við stöndum frammi fyrir augliti hans á sérhverju andartaki. Það er einmitt af þessum sökum sem við elskum hann. Við vitum að hann vakir yfir velferð okkar á sérhverju andartaki lífs okkar.

Í náð sinni gefur hann okkur auðmjúkt hjarta og þetta hjarta segir okkur að okkur beri að hlýðnast boðum hans sem hann hefur opinberað okkur í heil. Ritningu, meðal annars að lúta ekki fýsnum okkar eins og ómálga skepnur, líkt og að iðka kynlíf með einstaklingi af sama kyni því að þetta er eitt af því sem Guð Faðir vill ekki að við gerum.

Það er afar brýnt að lúta boðum Guðs vegna þess að þau forða okkur frá dauða sem er miklu verri en hinn líkamlegi dauði: Hinn andlegi og eilífi dauði! Og hann biður okkur um að óttast þann sem stendur þessum síðari dauða að baki. Vegna hvers? Við skulum leggja við eyru og heyra hvað hann hefur sjálfur um þetta að segja:

„Ég segi yður, ég veit ekki, hvaðan þér eruð, farið frá mér allir illgjörðamenn! Þar verður grátur og gnístran tanna, er þér sjáið Abraham, Ísak og Jakob og alla spámennina í Guðs ríki, en yður út rekna“ (Lk 13. 27-30).

Það er þetta sem þeir félagarnir ættu að óttast jafnt og þeir sem rangfæra orð Drottins með því að segja að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Okkar er valið: Að velja Veg lífsins eða dauðans vegna þess að enginn getur gengið þessa tvo vegi samtímis. Við hér á Kirkjunetinu mælum af sannleika til bræðra okkar og systra af elsku til að forða sem flestum frá hinum síðari og eilífa dauða.

„Að standa ekki gegn villu er að samþykkja hana – að verja ekki sannleikann er að brjóta hann á bak aftur.“ – Heil. Felix páfi þriðji

13 athugasemdir

Athugasemd from: Reynir Harðarson
Reynir Harðarson

Ef þessi guð er kærleikur og kærleikurinn fyrirgefur allt og umber allt… er ekkert að óttast.

Ef þessi guð kastar börnum sínum - sem ekki þóknast honum - í eilífar kvalir vítis, er hann fyrirlitlegt foreldri.

Ef þessi guð þarf á sjálfskipuðum frelsurum hér á jörðu að halda til að forða öðrum börnum sínum frá eilífum dauða er hann aumur guð.

25.04.07 @ 13:12
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þeir sem hafna náð lifandi og heilags Guðs geta ekki staðið frammi fyrir honum líkt og Guðsmóðirin og sagt: „Ég er ambátt Drottins. Verði mér samkvæmt orðum þínum“ (Lk 1. 38).

Engin sál sem játar ekki syndir sínar og iðrast gjörða sinna megnar slíkt. Þetta gildir um okkur öll! Guðlast kemur hér að litlu haldi!

25.04.07 @ 14:23
Lárus Viðar Lárusson

Dýrt er kveðið Jón Rafn! Ég skil ekki hvaða “ótta” ég og Hjalti ásamt fleirum eigum að vera þjáðir af. Annars skil ég fátt af því sem skrifað er hér.

Ég er þakklátur fyrir að vera uppi á tímum þegar að sæmilegt trúfrelsi er hér við lýði. Á flestum öðrum tímum hefði ég verið ofsóttur og úthrópaður af trúbræðrum JRJ fyrir efahyggju mína.

Mönnum sem skrifa hér á kirkju.net virðist vera mikið í nöp við nútímann, finnst hann vera siðlaus og dimmur.

Mér finnst aftur á móti nútíminn vera nokkuð góður, miklar framfarir hafa orðið í siðferði á síðustu árhundruðum. Fyrir hundrað árum voru nær allir rasistar á okkar mælikvarða, þ.e. litu niður á aðra “kynþætti". Fyrir fimmtíu árum var ekkert að því að fordæma samkynhneigð opinberlega, það þótti sjálfsagt í þá daga (margir horfa með eftirsjá til þessara tíma). Í Fyrri Heimstyrjöldinni þótti sjálfsagt að fórna mörg þúsund hermönnum í árásum sem höfðu lítið taktískt vægi, menn voru ekki að horfa í mannslífin í þá daga. Þetta þætti siðlaust í dag. Að konur ættu að hafa sömu réttindi og karlar þótti hin mesta svívirða á 19. öld á Vesturlöndum, þykir reyndar enn í mörgum löndum múslima og víðar.

Siðferði mannsins hefur tekið miklum framförum, bara á síðustu áratugum og er enn í framþróun. Það sem heldur helst aftur af þróuninni er blindar, algildar siðferðiskröfur trúarbragðanna og fylgismanna þeirra. Rétt eins og kaþólska kirkjan stóð í vegi fyrir framförum í vísindum fyrir nokkrum öldum með því að útrýma þeim sem ekki fylgdu Orðinu, þá stendur hún enn í vegi fyrir framförum í almennu siðferði í dag. Það á þó eftir að breytast.

25.04.07 @ 15:22
Athugasemd from: Reynir Harðarson
Reynir Harðarson

Þrælslund, undirgefni og auðsveipni… halelúja. Beygjum okkur undir vald Herrans, Kóngsins, Drottins, Kúgarans. Heldur er þetta dapur boðskapur, Jón Rafn, jafnvel þótt eilífri sælu sé heitið að launum. Þrælagenin lifa.

“Verði mér samkvæmt orðum þínum.” Eins og um annað sé að ræða? Þessi orð eru ámóta hjákátleg og eilíft bænakvak ykkar - segjandi guði fyrir verkum: Gerðu þetta… gerðu hitt… og verði svo þinn vilji.

25.04.07 @ 15:24
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Jæja, Lárus minn Viðar. Nú vellur aldeilis á súðunum hjá þér, en sæll verður hver að vera í sinni trú. Ef mig rekur rétt minni til var það Klóthildur Frakklandsdrottning sem afnam þrælahald með lögum árið 592, ein af þessum svörtu blettum og leyfum rómverskrar heiðni.

Menningarfræðingum ber saman um að konur hafi notið fulls jafnréttis á við karla allt fram á fjórtándu öld þegar Fillipus fríði afnam þau með lögum, m. a. með því að meina þeim jafnan rétt á við karla til að erfa krúnuna.

Alla þessa þróun má rekja til vaxandi áhrifa nýheiðinna lagafyrirmæla sem komu í kjölfar þess að prófessorarnir við Parísarháskólann lögðust í forn fræði rómversk. Þannig voru fjölmörg heiðin ákvæði Rómaréttarins innleidd að nýju í Evrópu, þróun sem hélst áfram og lýsti sér meðal annars í því að eiginkonur voru bókstaflega eign eiginmanna sinna á nítjándu öldinni í Frakklandi sem aðrar Evrópuþjóðir tóku síðan upp eftir þeim af því að allt sem kom frá Frakklandi var svo „fínt.“ Þetta hafði ekkert með kirkjuna að gera. Veraldarhyggjan (secularism) þreifst ágætlega án hennar tilstuðlunar.

Það er gott að þú sért sæll í þinni trú og lítir með velþóknun til þróunar og framfara „siðferðisins.“ Vafalaust verður tuttugustu aldarinnar minnst sem þeirrar blóðugustu í sögu mannkynsins, en sínum augum lítur hver á silfrið.

Ég sé enga ástæðu til að svara Reyni Harðarsyni, Málflutningur hans dæmir sig sjálfur.

25.04.07 @ 16:01
Lárus Viðar Lárusson

Ég lít nú á það sem lélegan brandara að konur hafi hafi notið fulls jafnréttis á við karla á miðöldum. Ekki hef ég heyrt þá söguskoðun áður.

Þrælahald var stundað af kappi af hinum kristnum þjóðum Evrópu þegar þrælar frá Afríku voru sendir til að puða fyrir hvíta manninn í Ameríku.

Kvennakúgun var nátengd kirkjunni og kristni, jafnvel enn þann dag í dag leyfir kaþólska kirkjan ekki konum að taka prestvígslu og bera þeim undarlegu rökum fyrir sig að postularnir hafi allir verið karlar.

Ef tölur eru skoðaðar í hlutfallslegu samhengi þá sést að tuttugasta öldin var nokkuð góð. Hlutfallslega féllu færri í stríðsátökum en á mörgum undangengnum öldum. Lífslíkur manna jukust til muna víðast hvar. Gríðarlegar framfarir urðu í vísindum og tækni af öllum toga (nema guðfræði). Kúgaðar nýlendur Evrópumanna fengu langþráð frelsi. Fátækt minnkaði hlutfallslega mikið.

Nú árið 2007, þrátt fyrir grimmdarleg árásarstríð Bush og félaga í M-Austurlöndum, eru stríðsátök í sögulegu lágmarki. Segir þetta okkur ekkert?

25.04.07 @ 16:53
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Það er þessi algildi sannleikur sem nafnleysinginn Níðhöggur og tvíeikið Hjalti Rúnar Ómarsson og Lárus Viðar Lárusson telja stefna tilvist mannkynsins í voða. Ég kalla þá tvíeiki vegna þess að þeir eru samvaxnir síamstvíbúar afstæðishyggju póstmódernískar afstæðishyggju og níhilisma: ördeyðu dauðamenningar fósturdrápa og ofbeldis gagnvart snauðum Þriðjaheimsríkjum. Með hliðsjón af ótta hinnu andlegu tvíbura og í ljósi ummæla guðspjallamannsins hér að ofan hlýtur að mega rekja þennan áþreifanlega ótta þeirra til þess að þeir þekkja ekki Guð Föður því að „fullkomin elska rekur út óttann.“

1. Ég tel þennan “algilda sannleika” ekki stefna tilvist mannkynsins í voða.
2. Ég aðhyllist ekki “afstæðihyggju póstmódernískar afstæðishyggju” og reyndar fer póstmódernismi afskaplega mikið í taugarnar á mér.
3. Ég aðhyllist ekki heldur níhilisma (amk ekki eins og ég skil hann, kannski ert þú með aðra skilgreiningu sem gæti passað við mig).
4. Ég veit ekki betur en að Lárus Viðar sé á móti fóstureyðingum og ég held að hvorugur okkar vill ofbeldi gagnvart snauðum þriðjaheimsríkjum.
5. Ég kannast ekki heldur við þennan ótta sem þú ert að tala um. Hvaða ótti er það eiginlega?

25.04.07 @ 18:35
Lárus Viðar Lárusson

Ég veit ekki betur en að Lárus Viðar sé á móti fóstureyðingum

Ah, ég er reyndar “pro-choice” í þessum efnum. Þó að mér hugnist þær ekki þá tel ég tilgangslaust að banna þær. Ég bý í Mexíkó og hér er þær enn bannaðar sem leiðir það eitt af sér að hér eru stundaðar fóstureyðingar við skelfilegar aðstæður, oft láta konur lífið eða bíða skaða af vegna þess.

25.04.07 @ 18:58
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er slagur hér, sé ég. En Lárus Viðar ber þess greinilegan vott í svari sínu kl. 18:53 við hinu ágæta innleggi Jóns Rafns kl. 18:01, að hann (LVL) er einungis að bjóða fram yfirborðs-þekkingu sína á miðaldasögu, talandi út frá “hearsay", eins og Englendingar kalla það, í stað traustra heimilda. Það er sízt á því “almannavitorði” byggjandi, sem nútíma-Íslendingar eru alnir upp við, hvað evrópska miðaldasögu snertir; þar hleðst hver vanþekkingin ofan á aðra.

Öðru má svara á morgun.

25.04.07 @ 22:57
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Jæja piltar. Þá er að láta hendur standa fram úr örmum. Fyrst til þín Hjalti Rúnar. Feginn er ég að heyra tilsvör þín. Ég átti ekki við þig persónulega heldur secularismann almennt.

Ég benda þér á hið ágæta verk: Kaþólsku alfræðiorðabókina. Hana finnur þú hér: http://www.newadvent.org/cathen/index.html

Því miður er þetta útgáfan frá 1901 vegna þess að þá nýju er ekki unnt að birta á netinu vegna einkaréttar á greinum. En hér er hafsjór upplýsinga um kaþólska guðfræði og sögu.

Hvað áhrærir tilvitnun mína í skrif Jóhannesar um kærleikann langar mig að koma eftirfarandi á framfæri. Milli tvítugs og þrítugs féll ég sjálfur frá trúnni og ánetjaðist marxisma, einkum sökum Víetnamsstríðsins eins og svo margir aðrir af 68 kynslóðinni.

Svo var það kvöld nokkuð sem uppeldissonur minn fékk Gídeontestamentið að gjöf fyrir ferminguna. Það varð óvart á vegi mínum og af slysni tók ég það með þér í rúmið og gluggaði einmitt í þennan kafla um kærleikann. Þetta var á föstudagskveldi. Ég man að það síðasta sem ég hugsaði áður en ég fór að sofa var þetta: „Þetta gæti verið dálítið sniðugt ef það virkaði!“ Í sem fæstum orðum vaknaði ég gjörbreyttur maður að morgni og það tók mig um það bil ár að átta mig á þeirri breytingu sem á mér var orðin.

Þetta rakti ég til krafts kærleikans sem augljóslega vann sitt verk dyggilega á þessari sömu nóttu. Ekki meira um það.

Lárus Viðar: Ég öfunda þig fyrir að búa í Mexíkó. Sjálfur hafði ég það í hyggju þegar heilsan brast óvænt. Ég heyri að þú ert velþenkjandi maður sem vilt öllum vel. Okkur greinir einungis á um aðferðina að markinu. Ég set kærleikann þar í fyrsta sæti og hlýðni við Tíyrðinn (Dekalog), meðal annars: „Þú skalt ekki mann deyða (á einnig við um ófædd börn).

Áður höfum við vikið báðir að því að það er staðreynd að dregið hefur úr styrjaldarátökum í heiminum frá 1990. Sjálfur þakka ég það bænum hinna trúuðu. Ég aðhyllist Kristsfriðinn, þann frið sem er öllum skilningi æðri. Þannig er ég eindreginn andstæðingur styrjaldarátakanna í Írak og harma hvernig gífurlegum fjármunum hefur verið kastað þar á glæ. Og orð Krists rætast þar að fullu og öllu:

„Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla“ (Mt 26. 52).

Þetta tel ég og trúi að sé algilt andlegt lögmál í heimi hér.

Jafnvel Hindúar og Búddistar gera sér þetta ljóst, til að mynda Gandhi. Hann var undir kristnum áhrifum og lét fyrst reyna á þetta andlega lögmál sem ungur lögfræðingur í Suðurafríku þar sem það gafst honum vel. Síðar varð það breska heimsvelinu að falli í Indlandi eins og allir vita nú.

Undursamlegur er Kristsfriðurinn og það er hann sem brýtur öll vopn og verjur, ef nægilega margir trúa í raun og veru á hann. Þar er Bush ekki undanskilinn. Öllum skynsömu fólki varð ljóst að Tsarinn í Rússlandi framdi pólitískt sjálfsmorð þegar hann lét kósakkana skjóta á verkamennina fyrir framan Vetrarhöllina árið 1907.

Vitur maður sagði við mann sem ætlaði að skjóta andstæðing sinn: „Þetta skaltu ekki gera vegna þess að með þessu myrðir þú sjálfan þig.“

Kristur hefði aldrei boðað okkur frið sinn ef hann væri óraunhæfur vegna þess að hann er „Vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jh 14. 6). Og hann sagði: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð (Jh 17. 3). Og skömmu síðar: „Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum“ (Jh 17. 6). Og þetta nafn er elska kærleikans.

26.04.07 @ 07:57
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Mikið var þetta fallegt innlegg frá þér, Jón Rafn, mótað af Andans mildi, íhugunarvert og lærdómsríkt.

26.04.07 @ 10:56
Lárus Viðar Lárusson

Þetta er gott svar hjá Jóni Rafni.

Ég held að við friðarsinnarnir ættum ekki að hnýta hvor í aðra heldur beina spjótunum að þarfari málefnum, baráttu gegn sóun og græðgi stríðsvélarinnar og fátækt í Þriðja heiminum.

“All that is necessary for the triumph of evil is that good men do nothing.” (Edmund Burke)

26.04.07 @ 15:19
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hér er ég hjartanlega sammála þér, Lárus, og við getum sem best tekið ofbeldislausa andspyrnu Gandhís okkur til fyrirmyndar, arfleifð sem hann þáði frá Kristi.

Sjálfur varð hann undrandi þegar hann sá hvað þessi aðferð var áhrifarík þegar hann barðist fyrir réttindum Indverja í Suðurafríku.

Eitt enn. Við sem lesum spænska og franska sagnfræði öðlumst iðulega annað viðhorf en þá sem er ríkjandi í hinum enskumælandi heimi. Til að mynda leggja franskir menningarsögufræðingar áherslu á það hvernig ákvæði Rómarréttarins forna voru innleidd að nýju í stigvaxandi mæli í Miðevrópu á þrettándu öld.

Hvað varðar jafnrétti kvenna, þá var það ríkjandi bæði í Súmer og í Fornegyptalandi. Sjálfur rek ég þetta til árfeðra Biblíunnar, prestkonunganna sem ríktu í Súmer. Um 3200 fluttu þeir sig um set til Fornegyptalands sem sjá má meðal annars á því að fyrstu fjórar konungættirnar voru eingyðistrúar og trúðu á neter at (einn Guð). Síðar gerði musterisvaldið uppreisn og hrifsaði til sín völdin í landinu, í fyrstu í Efraegyptalandi. Þetta hafði skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir Egypta, þrátt fyrir að Aknaton faraó gerði tilraun til að snúa þessari þróun við síðar.

26.04.07 @ 16:07