« Ritningarlesturinn 9. nóvember 2006Ritningarlesturinn 8. nóvember 2006 »

08.11.06

  09:45:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 4898 orð  
Flokkur: Hinir þrír myrku dagar

Hinir þrír myrku dagar (7)

7. Þrengingartími kirkjunnar og endatíminn

Þrengingartími kirkjunnar eftir ofsóknir siðaskiptanna [1] hófst með frönsku stjórnarbyltingunni. Byltingarráðið krafðist þess að allir prestar sværu stjórnarskrá byltingarmanna hollustueið. Píus páfi VI bannaði prestum að gera þetta og ríflegur meirihluti þeirra varð við beiðni hans. Brátt hófust nauðungarflutningar á prestum til Guiana eða þeir voru dæmdir til dauða. Í stjórnarskrárráðinu á árunum 1792 til 1795 sem lýsti yfir stofnum lýðveldisins varð byltingin andsnúin kristindóminum. Kaþólskir voru ofsóttir, fjölmargir prestar myrtir og eitt sinn voru 1500 prestar barðir til dauða. Altari var reist í Notre Dame basilíkunni til heiðurs gyðju skynseminnar og Robespierre reyndi að innleiða dýrkun á hinni æðstu verund.

Sökum ótta við almenning í sveitum landsins hikuðu byltingarleiðtogarnir við að loka kirkjum fyrir fullt og allt sem sýnir veikleikamerki byltingarinnar. Engu að síður auðnaðist þeim að hrekja um 10.000 presta í útlegð. Þessu ofsóknarskeiði lauk ekki fyrr en Napóleon komst til valda árið 1799. Þetta var forboði þess sem beið kirkjunnar á tuttugustu öldinni með tilkomu kommúnismans sem sótti hugmyndir sínar til frönsku byltingarinnar.

Talið er að um 60 milljónir manna hafi orðið að fórnardýrum ógnarstjórnar kommúnista í Sovétríkjunum. Prestar, munkar og nunnur voru flutt í þrælkunarbúðir sem fæstir áttu afturkvæmt úr, dæmd til dauða eða einfaldlega barin til dauða án dóms og laga. Kirkjum var lokað í stórum stíl og breitt í birgðageymslur eða vopnabúr ógnarstjórnarinnar. Stalín (sem hrökklaðist úr prestaskóla) slakaði aðeins á klónni í Annarri heimstyrjöldinni og jafnvel hermönnum Rauða hersins var heimilað að sækja messur og meðtaka sakramentin áður en þeir fóru á vígvöllinn.

Ofsóknir þessar gegn kristnum mönnum hafa haldið miskunnarlaust áfram í Alþýðulýðveldinu Kína þar sem hinir trúuðu eru dæmdir til margra ára þrælkunarvinnu eða kveðnir upp yfir þeim dauðadómar, auk þess sem limlestingar eru daglegt brauð. Bróðir Liu Zhenying (Yun), einn forsytumanna meðal hvítasunnuhreyfingar mótmælenda hefur lýst þessu með greinagóðum hætti í bók sinni The Heavenly Man [2]. Hann hefur jafnframt vakið athygli á því að eftir að hann hafi komið til Vesturlanda í fyrsta skiptið hafi hann gert sér ljóst að á Vesturlöndum gengju kristnir menn í gegnum þrengingar sem fælust í rangfærslum, lygum og tilhæfulausum ásökunum. Þau öfl sem standa þessu að baki eru þau sömu sem tóku að bæra á sér í frönsku byltingunni og hrifsuðu til sín völdin með ofbeldi í Rússlandi þegar stjórn Kerenskijs var hrakin frá völdum og rússneska dúman (þingið) leyst upp. ÞETTA VAR SÖKUM ÞESS AÐ LÝÐRÆÐISÖFLIN SOFNUÐU Á VERÐINUM OG UGGÐU EKKI AÐ SÉR!

„Hversu afmáður er sáðmaðurinn er sigðina ber . . . Hversu er hamarinn, sem laust alla jörðina, höggvinn af skafti og sundurbrotinn!“ (Jer 50. 17, 23).

Guðsmóðirin sagði fyrir um það í Fatíma hvernig hamarinn og sigðin yrðu sem „burtflæmdur sauður er ljón hafa elt“ (sama) Allt var þetta sökum afvegaleiddarar og kærleikssnauðrar þekkingar sem fáir hafa varpað jafn góðu ljósi á og heil. Tómas frá Akvínó:

„Í Esekíel er Satan nefndur kerúbi . . . Kerúbar er talið þýða „fullir þekkingar,“ en serafar „þeir sem loga“ eða „kveikt er í.“ Fyrra heitið gefur í skyn þekkingu sem samræmist dauðasynd, hið síðara brennandi kærleika sem gerir það ekki. Þetta er ástæðan sem býr því að baki að fyrsti syndugi engillinn er sagður kerúbi en ekki serafi.“ [3]

Og hann heldur áfram:

„Í Biblíunni eru nöfn tveggja tignarraðanna serafar og hásæti og ekki gefin djöflum vegna þess að þeir skírskota til þess sem samræmist ekki dauðasynd, það er að segja hinn brennandi kærleiki og nærvera Guðs. En djöflar eru kallaðir kerúbar, tignir og völd vegna þess að þessi heiti skírskota til þekkingar og máttar sem getur bæði verið fyrir hendi í illskunni og gæskunni. [4]

Hér er vikið að siðvillu mennskrar afstöðu þar sem samband vísindalegrar hugsunar og sannleiksástar er rofið og viðkomandi draga ályktanir gegn betri vitund sem nefnt er siðblinda á máli siðaðra manna. Þetta er afstaða sem er alls ekki svo sjaldgæf þegar vísindamenn selja hæstbjóðandi þekkingu sína. Minna má á hvernig vísindamenn unnu fyrir tóbaksframleiðendur og fölsuðu eða rangtúlkuðu niðurstöður rannsókna. Í dag vinnur stór hópur vísindamanna fyrir lyfjaauðvaldið sem hagnast um marga milljarði dala árlega á framleiðslu alls kyns ólyfja til að fyrirfara mannslífum. Við verðum þannig að gera strangan mun á vísindum í sjálfu sér og „gervísindum“ eða vísindadýrkun sem á ekkert skylt við sannleikann. Það er vísindadýrkunin sem birtist með áþreifanlegum hætti í frönsku stjórnarbyltingunni í mynd gyðju skynseminnar í Notre Dame. Hún er ímynd þess sem heil. Tómas nefnir kærleikssnauða þekkingu, þekkingu þar sem tilgangurinn helgar meðalið, þekking sem maðurinn grípur til þegar hann vill koma vilja sínum fram án þess að hugsa um afleiðingarnar: Það sem í guðfræðinni er nefnt töfrabrögð eða galdrar. Það er þessi kærleikssnauða þekking sem var gerð að skurðgoði kommúnismans og nasismans og lifir góðu lífi í neikvæðustu þáttum veraldarhyggjunnar (secularism) sem lýsir sér best í hinum sjö sakramentum hennar sem vikið var að hér að framan: Fósturdeyðingum, kynvillu, getnaðarvörnum, hjónaskilnuðum, líknarmorðum, róttækum femínisma og tilraunum á fósturvísum og drápum á þeim. Rannsóknarniðurstöður eru þannig einfaldlega falsaðar eða haldið leyndum og þannig er líkami konunnar notaður eins og hver önnur sorptunna!

Tákn tímanna

Síðast liðna tvo áratugi hafa þessi falsvísindi beinlínis orðið völd að dauða eins milljarðs ófæddra barna sem er bein afleiðing af þeim róttæka femínisma sem rekja má til kenninga marxista. [5] Þau vandamál sem blasa við sjónum sem afleiðing fólskfjöldahrunsins á næstu áratugum mun verða mörgum menningarsvæðum á jörðinni þungbær, ef þau þá þurrkast ekki út fyrir fullt og allt. Til hins róttæka femínsima og þeirrar kynlífsbyltingar sem hann hefur barist fyrir má einnig rekja eitt geigvænlegasta heilbrigðisvandamálið sem heimsbyggðin verður að glíma við vegna þess að óheft kynlíf án nokkurrar skynsemi stuðlar að útbreiðslu kynsjúkdóma og nú flokkar WHO [6] þetta sem eitt af alvarlegustu heilbrigðisvandmálinum sem stofnunin verður að fást við.

Hvernig bregðast falsspámenn vísindadýrkunar veraldarhyggjunnar við? Það gera þeir með því að afneita afleiðingum eigin verka og hugsjóna og snúast af heift gegn rómversk kaþólsku kirkjunni annars vegar, og hins vegar gegn Bandaríkjunum. Það þarf ekki mikinn spámann til að sjá að nákvæmlega eins verða viðbrögð þeirra lánlausu stjórnmálaflokka og manna sem leitt hafa þjóðir sínar út í þetta forarfen mennskra hugvillna. Þegar kjósendur í viðkomandi löndum sjá afleiðingu verka þeirra munu þeir leitast við að beina reiði þeirra í annan farveg og þar liggur kirkjan vel við höggi! Sá hópur stjórnmálamanna sem skortur allt siðferðisþrek til að veita andspyrnu er meginreglan og þar er Ísland í fararbroddi meðal þjóða heimsins, rétt eins og Ísland var fyrsta lýðfrjálsa landið í heiminum til að taka upp fósturdeyðingar og vananir á fólki árið 1935 næst á eftir Sovétríkjunum og Þriðja ríki Hitlers!

Þetta var einmitt kjarni þessa máls sem kom fram á fundi WHO í Genf þann 2. nóvember s. l. Fyrsta hnattræna rannsóknin sem WHO stóð fyrir kemst að þeirri niðurstöðu að tíðni sjúkdóma og dauðsfalla af völum kynsjúkdóma hefur aukist geigvænlega. Í skýrslu WHO má lesa að hinn hái herkostnaður sökum óhefts kynlífs sé annar veigamesti þátturinn í dauðsföllum í þróunarlöndunum og sá níundi í þróunarríkjunum (enn sem komið er). Höfundar skýrslunnar viðurkenna að kynlíf fyrir giftingu sé rót meinsemdanna sem valdi smitun á meðal ungmenna (þar sem ýtt hefur verið mjög undir öfughneigð pilta gagnvart stúlkum).

Einn af skýrsluhöfundunum, prófessor Anna Glasier frá Edinborgarháskóla, fullyrðir að um 340 milljónir nýrra sýkinga af völdum kynsjúkdóma sé um að ræða árleg. Jafn furðulega og það kann að hljóma rekur hún þetta heilbrigðisvandmál til skorts á aðgengi á fósturdeyðingum og getnaðarvörnum, til ónægra fjárframlaga til að halda aftur af fólksfjölguninni og skorts á hugmyndafræðilegum stuðningi frá íhaldsöflum eins og Bandaríkjastjórn og kirkjunni. Auk þess ræðst hún á Vatíkanið fyrir að standa í vegi fyrir „framþróuninni“ (?) með því að berjast gegn notkun smokka í sóttvarnarskyni!

Gareth Thomas frá Bresku þróunarstofnuninni kemst svo að orði í Lancet: „Nokkur íhaldsöfl vilja ekki horfast í augu við þetta margþætta vandamál kynlífsins og réttar konunnar til að hafa stjórn á frjósemi sinni (hömlulausar fósturdeyðingar). Þau vilja fremur sjá heiminn í ljósi eigin hugmyndafræði. Það er þetta sem verður þess valdandi að okkur miðar ekkert áfram (væntanlega í enn frekari útbreiðslu óhefts kynlífs?). Ummæli sem slík leiða einfaldlega í ljós að þeir sem tala með þessum hætti hafa meiri áhuga á fólksfækkunaráætlunum sínum [7] og kynlífsbyltingu, þeirri sömu kynlífsbyltingu sem fólksfækkunarsinnarnir hvetja svo mjög til í þjónkun sinni við þa' voldugu afl í heiminum sem hefur slíkt að takmarki sínu.

Jafnframt þessu viðurkenna skýrsluhöfundarnir að þetta heilbrigðisvandamál sé orðið óleysanlegt og í skýrslunni má lesa að einungis í Afríku einni sé þörf á 70 milljónum Bandaríkjadala viðbótarfé til að mæta lágmarkskröfum Sameinuðu þjóðanna. Það broslega við þetta allt saman er að engin þjóð í heiminum hefur verið jafn iðin við að dreifa smokkum til þróunarríkjanna en einmitt Bandaríkin. En hjákátlegra er að smokkurinn er á gátlista hjá Sameinuðu þjóðunum vegna þess að rannsóknir hafa leitt í ljós að smokkar bregðast í 10% tilvika vægilega áætlað sem er alls ekki nægilega gott þegar um sóttvarnir er að ræða! Það er svo önnur hlið þessa máls og dapurlegri, að fjölmargir predikarar mótmælenda útbreiða þennan afkáraskap af ekki minni ofsa af predikunarstóli! Sundlunarandinn er svo sannarlega að starfi í heiminum.

Náttúrleg fjölskylduáætlun kirkjunnar og árangurinn í Úganda

En hjákátlegra er að kirkjan hefur bent heilbrigðisyfirvöldum á hina náttúrlegu aðferð til að hafa stjórn á barnafjölda í fjölskyldu áratugum saman, aðferð sem er 99% örugg. Það er ekki vilji kirkjunnar að hjón eignist börn sem þau geta ekki alið önn fyrir. Fólk getur kynnt sér þessa aðferð í grein hér á kirkju.net sem ég skrifaði s. l. vetur [8]. Eitt ríki, Japan, hefur nú tekið upp nýja þjónustu sem grundvallast á því að senda konum SMS-boð í farsíma þegar um egglos í tíðahring þeirra er að ræða. Þrátt fyrir að Japanir geri sér geigvænlegar afleiðingar fósturdeyðinga ljósar og frjósemisstuðull þeirra langt undir endurnýjunarmörkum, skortir japönskum stjórnmálamönnum siðferðisþrek til að berjast gegn þeim eins og starfsbræðrum þeirra á Vesturlöndum.

Hvað áhrærir öryggi smokka hefur rannsóknarblaðamaðurinn Sue Ellin Browder ritað grein í Crisis Magazine þar sem hún greinir frá því að það væri vaxandi áhersla hjá sérfræðingum í heilbrigðisþjónustu að líta á smokka sem síðasta neyðarúrræðið hjá fólki sem iðkar áhættusamt kynlíf. Hún segir að ekkert virðist benda til þess að smokkar muni koma í veg fyrir útbreiðslu kynsjúkdóma. Hún vitnar í tölfræðilegar upplýsingar frá Suðurafríku þar sem dreifing smokka jókst frá 6 milljónum árið 1994 í 198 milljónir árið 1998, en dánartíðnin sökum eyðni jókst á sama tíma um 57%.

Í skýrslu frá UNAIDS (Þróunarhjálp Sam. þjóð.) er þegar varað við því árið 2003 að styðjast við smokka sem sóttvarnaraðferð gegn eyðnismitun þar sem þeir bregðast í 10% tilvika og sumar rannsóknir gefa til kynna allt að 50%. Browder tekur hér undir viðvaranir fjölmargra sérfræðinga og meðal þeirra er Dr. Norman Hearst við Kaliforníuháskóla sem varaði alvarlega við smokkunum árið 2004. Hann sýndi fram á marktæka aukningu á eyðnismitun í Afríkulöndum eins og Kenýa og Botswana sem stóð í beinu sambandi við aukna smokkasölu og ábyrgðarleysi í kynlífinu.

Einhver árangursríkasta og marktækasta viðleitnin til að draga úr eyðni er viðleitni stjórnvalda í Úganda þar sem dregið hefur mjög úr eyðnismitun. Þetta er þakkað svo kallaðri ABC áætlun: „A“ stendur fyrir „abstinence (bindindi), „B“ fyrir trúfestu í hjúskap og „C“ fyrir „condom use“ (smokkanotkun) sem einungis er mælt með sem neyðarúrræði. Nú hefur dregið úr eyðnismiti í Úganda sem nemur 37%. Joseph A. D’Agostino hjá „Population Researcher Institute“ greinir frá því í rannsókn að dregið hafi úr virku kynlífi meðal úganskra ungmenna.

Sjálf kennir Browder kynlífsbyltingunni í vestrænum þjóðfélögum um eyðnifaraldurinn í dag og segir: „Sannleikurinn er sá að kynlífsbyltingin hefur reynst hreinasta martröð og í dag sitjum við uppi með 12 afbrigði nýrra kynsjúkdóma.“

Að hengja bakara fyrir smið

Hugmyndasmiðir kynlífsbyltingarinnar og óhefts kynlífs auk fósturdeyðinga og hömlulausrar notkunar hormónalyfja sem getnaðarvörn hafa leitt heimsbyggðina út í miklar ógöngur, þær ógnvænlegustu í mannkynssögunni. Talið er að í Evrópu einni muni fólksfjöldinn hrynja úr 732 milljónum (að Rússlandi meðtöldu) í um 250 milljónir að 100 árum liðnum. Slíkt mun leiða til umtalsverða efnahagsörðugleika og íbúaröskunar. Sama má segja um mörg önnur menningarsvæði. Meginorsakanna er að leita í hömlulausum fósturdeyðingum sem skammsýnir stjórnmálamenn hafa róið að öllum árum. Þeir örðugleikar og þrengingar sem hljótast einungis af þessum völdum munu leiða til umtalsverðra þrenginga fyrir viðkomandi þjóðir. Við þetta bætist svo hömlulaus græðgi veraldarhyggjunnar og ágangur á náttúruauðæfi jarðarinnar ásamt gróðurhúsaáhrifum.

Þegar hinn almenni kjósandi gerir sér loks grein fyrir því út í hvaða ófæru hugmyndafræði gervivísinda og siðvilltra stjórnmálamanna hefur leitt heimsbyggðina munu þeir leitast við að afsaka gjörðir sínar með því að búa til sektarlamb og þar liggur kirkjan vel við höggi eins og vikið var að hér að ofan. Ásamt fulltrúum hinnar kærleikssnauðu þekkingar, fjölmiðlavalds varaldarhyggjunnar og áhrifum þeim sem hún hefur náð með því að hreiðra um sig í alþjóðasamtökum og hreyfingum mun vafalaust leiða til þess að þeim auðnast þessi blekkingarleikur í upphafi. Sem þjónar föður lyginnar eru þeir hagvanir á þessum vettvangi. Án þess að vera spámaður get ég mér þess til að þetta muni verða inntak þeirra þrenginga sem framundan er fyrir hina stríðandi kirkju á jörðu.

Eins og sjá má á hinum persónulegu spádómum koma hinir þrír myrku dagar í LOK þessa þrengingartíma. Við skulum því sem kaþólskt fólk taka hinum fimm steinum sem Guðsmóðirin afhenti okkur í Medjugorje með þökkum, það er að segja: Bæn, föstu, skriftir, Biblíuna og Evkaristíuna. Fastan er athyglisverð í þessu sambandi sökum þess að hér er við siðvillt öfl andlegrar blindu að ræða: Hina daufdumbu:

„Hvað varðar áhrifamátt föstunnar skulum við hafa í huga textann í Markúsarguðspjalli (9. 16-28). Lærisveinarnir gátu ekki kastað út illum anda og spurðu Drottin hvers vegna. Hann svaraði: „Þetta kyn (andar daufdumbunnar) verður eigi út rekið nema með bæn og föstu“ (Koina textinn).
Ljóst er að á okkar tímum er fjölmargt fólk þjakað af þessum öndum daufdumbunnar. Það verður á vegi okkar alls staðar í þjóðlífinu, fólk sem er daufdumba gagnvart orði Guðs. Af þessum sökum er fastan svo nauðsynleg á okkar tímum.
Nú til dags er fastan „inni.“ Allir fasta, einkum þó konur, en allflestar af röngum og veraldlegum ástæðum. Þær fasta til að verða meira aðlaðandi, grannar og þessu líkt. Ef allir þeir sem fasta fórnuðu Guði föstunni (en ekki Satan með óbeinum hætti), myndi slíkt hafa afar mikil áhrif til góðs!].“ [9]

UM ENDATÍMANN

Fjölmargir sjónvarpspredikarar og sértrúarsöfnuðir innan mótmælendakirkjunnar hrópa nú að heimsendir sé nærri og vænta endurkomu Jesú Krists. Þrátt fyrir varnaðarorð þeirra fyrir árið 2000 er það liðið án kollsteypu þannig að þeir neyðast til að endurskoða spádóma sína. Hin kaþólska arfleifð lítur töluvert öðrum augum á endatímann.

Yfirlit yfir kenningar kaþólsku kirkjunnar
Þetta er kenning kaþólsku kirkjunnar um endatímann sem allir hinir trúuðu eru skuldbundnir til að trúa:

(1). Upprisa dauðra. Kenningar kaþólsku kirkjunnar boða raunverulega upprisu alls holds með líkamlegum hætti (að hinum glötuðu meðtöldum), en ekki einungis andlega upprisu. Þessi kenning er bæði staðfest í Níkeutrúarjátningunni og hinni Postullegu trúarjátningu.

(2). Allsherjardómur. Eftir upprisu alls holds kemur dómurinn í kjölfarið. Kristur mun sitja í hásæti dómsins og dæma hvern mann með hliðsjón af verkum hans (Mt 16. 27).

(3). Eyðing heimsins. Heiminum verður tortímt að boði Drottins Jesú Krists. Fullnaðar þessa spádóms er yfirskilvitlegur, en er ekki afleiðing kjarnorkustyrjaldar eða jarðfræðilegra eða stjarnfræðilegra voðaatburða.

(4). Tími hinnar sigrandi kirkju. Hinir trúföstu kirkjunnar munu ríkja með Kristi að eilífu. Vald djöfulsins og illra manna líður undir lok fyrir fullt og allt.

Villur hvað áhrærir túlkun spádóma um endatímann
Í aldanna rás hafa fjölmargar villur sprottið upp hvað áhrærir endatímann. Þessar eru þær helstu.

Millenaríanismi
Sú kenning að Kristur komi fyrir hinn hinsta dóm með sýnilegum hætti til að stjórna heiminum er alvarleg villukenning sem Píus páfi XII fordæmdi. Í reynd er kenning þessarar afstöðu einmitt forsenda komu Antíkrists svo að hann geti stjórnað heiminum.

Tímasetningar
Algeng villa felst í því að nefna ákveðna tímasetningu fyrir Endurkomu Krists. Ritningarnar vara við þessari villu: „En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né Sonurinn, enginn nema Faðirinn“ (Mk 13. 32). Engu að síður gaf Gregor páfi XVI það í skyn 1832 að tími „plágu engisprettunnar“ (Opb 9. 3) væri runninn upp í hirðisbréfi sínu „Mirari vos arbitramur“: „Ágústínus hafði til siðs að segja að fyrst að allri fyrirstöðu hefði verið rutt úr vegi sem héldi mönnum á vegi sannleikans vegna þess að eðli þeirra hneigist til ills, þá hefur það [manneðlið] núna hrapað niður og vér segjum að „brunnur undirdjúpanna“ hefur lokist upp en frá honum sá Jóhannes „loftið af reyknum myrkvaðist af engisprettum sem komnar voru til að leggja jörðina í auðn.“ Hér er að sjálfsögðu átt við villur þær sem komu í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarnar og kristölluðust í villukenningum kommúnismans á tuttugustu öldinni og sýktu Vesturlönd með marxískum viðhorfum sem móta alla afstöðu veraldarhyggjunnar í dag hvað áhrærir mannhelgi og guðstrú.

„Uppnumningin“
Algeng og vinsæl villa meðal sértrúarsafnaða er sú hugmyndn um að sanntrúaðir verði uppnumdir til himna fyrir komu Antíkrists. Biblíuleg rök þeirra eru óljós og táknærn og grundvallast á því að kenningin um uppnumninguna sé sannleikurinn. Þeir vitna í Fyrsta Þessalonikíubréfið 4. 16 sem sönnun fyrir máli sínu. En versið sem fer á undan leiðir berlega í ljós að hinir sofnuðu í Kristi rísa fyrst upp. Þessi sami atburður, fyrri upprisan gerist eftir að Drottinn Jesús Kristur er snúinn til baka og Antíkristur hefur verið sigraður. Í reynd eru það þeir sem líða píslarvætti á tímum Antíkrists sem ríkja og stjórna með Kristi í þúsund ár. (Opb 20. 4-6).

Endurreisn musterisins
Nú á tímum heyrum við að fjölmargir sértrúarsöfnuðir bíða eftir endurreisn musterisins í Jerúsalem af mikilli eftirvæntingu. Erfitt er að sjá hvernig kristnir menn geta fagnað slíku. Ef dýrum er aftur fórnað í musterinu í Jerúsalem, væri þá ekki blóð kálfa, lamba og geita fórnað sökum þess að krossfórn Krists Jesú væri hafnað (Heb 10. 10)? Er ekki afneitum friðþægingar Krists sjálfur kjarni boðskapar Antíkrists?

Í Matteus 24. 2 segir Jesús fyrir um eyðingu musterisins í Jerúsalem. Jesús minnist aldrei á endurreisn þess. Sannleikurinn er sá að Jesús sagði: „Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum“ (Jh 2. 19). En Jesús var að tala um líkama sinn sem er musteri Heilags Anda (sjá Jh 2. 21).

Spádómurinn um eyðingu musterisins náði fram að ganga árið 70 e. Kr. í umsátri Vespasíanusar. Fáir steinar voru eftir af grunninu. Síðar reyndi Flavíus Kládíus Júlíanus (331-363), síðasti heiðni rómverski keisarinn og því nefndur Júlíanus heiðingi af kristnum mönnum, að afsanna spádómsorð Drottins með því að skipa svo fyrir að musterið yrði endurbyggt að nýju. Gyðingar alls staðar úr Rómaveldi studdu verkið af miklum áhuga og gáfu mikið gull og silfur til verksins. Til að leggja grunninn að „nýja musterinu“ var síðustu gömlu steinunum rutt úr vegi til að fullna spádóm Jesú.

Þegar tekið var til að endurreisa musterið dundu miklir jarðskjálftar yfir á musterishæðinni sem komu í veg fyrir frekari framkvæmdir. Þegar jarðskjálftarnir liðu hjá var verkið hafið aftur. Þegar menn komu að grunninum brutust bláir eldknettir úr iðrum jarðar þannig að margir verkamennirnir brenndust illa. Að lokum var horfið frá því að leggja einn einasta stein að nýja musterinu! Drottinn sagði enn fremur:

Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur, svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins, allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir, segir Drottinn, sem gjörir þetta kunnugt frá EILÍFU. (P 15. 16, 17).

Guð hafði í hyggju að vera andlegur Konungur Ísraels í sönnu guðsstjórnarríki (theocracy) og samkvæmt ráðsályktun hans var gengið út frá því að æðstipresturinn gengi inn í hið Allra helgasta til að hlusta á davar (orð) hans og bera þjóðinni boð hans. Guð elskaði að dvelja í hreinleika samfundatjalds tjaldbúðarinnar: „Og þar vil ég eiga samfundi við þig og birta þér ofan af arkarlokinu millum beggja kerúbanna, sem standa á sáttmálsörkinni, allt það, er ÉG BÝÐ þér að flytja Ísraelsmönnum (2 M 25. 22). Þegar Samúel kvartaði við Guð þegar Ísraelsmenn vildu kjósa yfir sig konung eins og heiðnu þjóðirnar umhverfis þá, svaraði Guð honum:

Lát þú að orðum lýðsins í öllu því, sem þeir biðja þig um, ÞVÍ AÐ ÞEIR HAFA EKKI HAFNAÐ ÞÉR, HELDUR HAFA ÞEIR HAFNAÐ MÉR, að ég skuli ekki lengur vera konungur yfir þeim. Svona hafa þeir ávallt breytt frá þeim degi, er ég leiddi þá út af Egyptaland (1 Sam 8. 7).

Og þegar Davíð konungur fékk þá fáránlegu hugmynd að byggja musteri úr sedrusviði að hætti Fönikíumanna og annarra heiðinna þjóða, kom Guð til Natans spámanns nóttina á eftir og sagði við hann:

Far og seg þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn: „Ætlar þú að reisa mér hús til að búa í? Ég hef ekki búið í húsi, síðan ég leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag, heldur ferðaðist ég í tjaldi og búð. Alla þá stund, er ég hef farið meðal Ísraelsmanna, hefi ég þá sagt nokkurt orð í þá átt við nokkurn af dómurum Ísraels: Hví reisið þér mér ekki hús af sedrusviði?“ (2 Sam 5-8).

Drottinn reisti hina nýju tjaldbúð sína þegar hann stofnsetti KIRKJU sína á jörðinni og KIRKJAN er hið nýja og andlega Ísrael!

Hvernig túlka ber spádóma um endatímann
Heilagar Ritningar og kenningar kirkjunnar vega þyngst þegar við leitumst við að skilja endatímann. Auk þess varpa skrif kirkjufeðranna og hinna heilögu ljósi á hann. Kirkjan hafnar því ekki að slíkar persónulegar opinberanir séu kannaðar, svo framarlega sem þær koma frá heilögu fólki sem lifði dyggðugu lífi á jörðinni. Jafnvel spádómar Nostradamusar eru ekki útilokaðir í þessu sambandi, enda var hann kaþólskur lærdómsmaður. En kirkjan kennir okkur að nálgast alla spádóma um endatímana af varúð og gagnrýni. Hér eru nokkrar leiðbeiningar hvað þetta áhrærir:

Rannsóknir á þeim eiga að vera sálinni til uppbyggingar
Rannsóknir á spádómum um endatímann eiga að draga okkur nær Guði, en ekki frá honum. Þetta má ekki verða til að gagntaka hugi manns þannig að þeir vanræki kærleikann og skyldur sínar. Þetta má ekki verða til þess að við viljum að aðrir menn glatist, heldur ber okkur að biðja fyrir öllum mönnum svo að þeir megi frelsast.

Rannsókn þeirra má ekki leiða til fráfalls frá sannri trú
Rannsóknir á endatímanum mega ekki verða þess valdandi að við tileinkum okkur trúarlega afstöðu sem stangast á við kenningar kirkjunnar. Sérhverja opinberun sem gengur þvert á trúarsetningarnar ber að hafna án frekari málalenginga. Engin þeirra persónulega opinberana sem vikið hefur verið að hér að framan stangast á við trúarsetningar kirkjunnar, heldur leggja þær þvert á móti áherslu á orð postulans mikla:

„Drottinn vill að allir menn verði hólpnir og komist
til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tím. 2. 4.)

[1]. Þannig var biskupunum í Skara og Strängenes drekkt og 80 aðrir stuðningsmenn kaþólsku kirkjunnar myrtir í Stokkhólmsblóðbaðinu. Eftir siðaskiptin var kaþólskum prestum meinað gegn dauðadómi að stíga á jörð á Norðurlöndunum. Þessi lög voru í gildi á Íslandi til ársins 1874 og enn lengur í Noregi og Svíþjóð. Enginn kaþólskur maður bjó á Íslandi eftir siðaskipti fram til 1857. Það ár fengu tveir franskir prestar, Bernard Bernard og Jean-Baptiste Baudoin, undanþágu til að þjóna frönskum sjómönnum sem voru að veiðum við Ísland.
Sjá: http://www.answers.com/topic/stockholm-bloodbath
[2]. Þetta stórmerkilega rit verður gefið út á íslensku nú á næstunni.
[3]. Summa Theologiae 1, q. 63, a. 7
[4]. Sama, a. 9.
[5]. Paul Jalsevac: Glæpurinn gegn mannkyninu – Kynþáttahyggjan og markviss fækkun jarðarbúa, bls, 59.
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/index.html
[6]. Alþjóða heilbrigismálastofnunin.
[7]. Ágæta umfjöllun má lesa um þessa helstefnu í: Paul Jalsevac: Glæpurinn gegn mannkyninu – Kynþáttahyggjan og markviss fækkun jarðarbúa. Sjá:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/index.html
[8]. Sjá: http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2006/03/14/p271#more271
[9]. Logi elsku hins Flekklausa hjarta Maríu, bls. 145. Sjá:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/index.html

9 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er geypilega efnismikil grein hjá þér og góð, bróðir Jón. Ég er aðeins hálfnaður að renna í gegnum hana, en vil vekja athygli manna á henni og kem svo aftur hingað seinna til að segja nokkur orð.

08.11.06 @ 09:54
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þú ættir að setja auka-flokkun á þessa grein, þ.e.a.s. merkja hana líka inn í flokkinn (möppuna) ‘Fóstureyðingar og vernd’, og eins mættirðu taka upp fleiri flokka í möpputalið þitt, t.d.: ‘Getnaðarvarnir’, og merkja þessa grein inn í þá möppu líka, því að þú ert hér með mikilvæga hluti um brigðulleika tilbúinna (artificial) getnaðarvarna eins og smokksins. Það er alls ekki gott, að þú leggir á þig þessa miklu ritvinnu og flestir líti svo fram hjá því, af því að þeir ímyndi sér (af fyrirsögnum greinarinnar að dæma, sem og efnisflokkun hennar), að hér sé einungis um andlega hluti að ræða og ofsóknir gegn kirkjunni. Þetta er allt sagt einmitt með mikilli virðingu fyrir því sem úr þinni tölvu kemur.

08.11.06 @ 10:03
Lárus Viðar Lárusson

Kenningar kaþólsku kirkjunnar boða raunverulega upprisu alls holds með líkamlegum hætti (að hinum glötuðu meðtöldum), en ekki einungis andlega upprisu.

Hvernig er það með þessa upprisu holdsins? Ég reikna með því að menn fái nýtt hold því lítið er varið í upprisuna ef maður er allur hálfrotinn. En hvað um þá sem hafa t.d. verið brenndir og öskunni dreift á haf út? Verður öskunni safnað saman eða hvað?

Hvað með gamalt fólk, rís það upp í líkama gamlingja eða færist aldurinn niður á betri tíma? Hvað þá um fórnarlömb fósturdeyðinga, hvernig verður upprisa þeirra?

08.11.06 @ 16:46
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Menn fá nýjan líkama, dýrðarlíkama, eins og postulinn lýsir og allir kristnir menn eiga að vita. En ég læt Jón Rafn um að svara þér betur.

08.11.06 @ 17:49
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Við þetta svar nafna míns er engu að bæta í sjálfu sér vegna þess að þetta er mysterium fidei. En eins og í trúarjátningunni játa kaþólskir þessa trú sína með því að láta ekki brenna sig.

Hvað varðar ófædd börn sem eru myrt í móðurskauti, þá eru þau falin miskunn Guðs á vald í fyrirbænum kirkjunnar, rétt eins og gildir um lánlausa foreldra þessara barna sem framið hafa dauðasynd með sama hætti og þau öfl í þjóðfélaginu sem stuðla að slíku.

08.11.06 @ 19:06
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Úr Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar:

998. (1038) Hver rís upp? Allir hinir dauðu munu rísa upp: “Þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.” [166]

999. (640, 645) Hvernig? Kristur er upprisinn í sínum eigin líkama: “Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur”; [167] en hann sneri ekki aftur til jarðnesks lífs. Þannig að í honum “munu þeir allir rísa upp aftur með sínum eigin líkama sem þeir nú bera,” en Kristur “mun breyta lítilvægum líkama okkar til að vera líkan dýrðarlíkama hans,” að hann verði “andlegur líkami”: [168] En nú kynni einhver að segja: “Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?” Þú óvitri maður! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi. Og er þú sáir, þá er það ekki sú jurt, er vex upp síðar, sem þú sáir, heldur bert frækornið…Sáð er forgengilegu, en upp rís óforgengilegt. …Hinir dauðu munu upp rísa óforgengilegir.… Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum. [169]

1000. (647, 1405) Þetta “hvernig” er hafið yfir skilning okkar og ímyndunarafl; það er einungis aðgengilegt trúnni. En hluttaka okkar í evkaristíunni gefur okkur þegar forsmekkinn að því hvernig Kristur ummyndar líkama okkar: Eins og brauðið sem kemur af jörðinni, eftir að blessun Guðs hefur verið kölluð yfir það, er ekki lengur venjulegt brauð heldur evkaristían, mynduð af tveimur hlutum öðrum jarðneskum og hinum himneskum, þannig eru líkamar okkar, sem eiga hlut í evkaristíunni, ekki lengur forgengilegir heldur geyma þeir vonina um upprisu. [170]

1001. (1038, 673) Hvenær? Örugglega “á efsta degi,” “við endalok heimsins”. [171] Upprisa dauðra er í nánum tengslum við endurkomu Krists: Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa. [172]

Sjá: [Tengill]

08.11.06 @ 21:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Aths. við nmgr. [1]: “Þannig voru 49 kaþólskir biskupar brenndir lifandi í Stokkhólmi …” – Þetta hafði ég aldrei heyrt. Hlýtur raunar að vera rangt, því að naumast hafa í einn tíma verið svo margir kaþólskir biskupar í allri Svíþjóð, jafnvel ekki þótt Finnlandi væri bætt við. Vera má, að átt sé við háklerka. En hver er heimildin?

Í því ágæta, fróðlega riti Samt kom hún aftur, myndir úr kirkjusögu Norðurlanda 1500–1800, eftir dr. Helmut Holzapfel (sr. Hjalti Þorkelsson þýddi, Stykkishólmi 1977), sé ég engin ummerki um þennan aragrúa sænskra biskupa sem á að hafa verið brenndur lifandi á báli. Á bls. 5–6 segir þar hins vegar: “Kristján II, síðasti sambandskonungurinn [yfir Danmörku, Noregi og Svíþjóð], var krýndur til erfðakonungs í Svíþjóð fjórða nóvember [1520], og var því fagnað með hófi miklu og burtreiðum. En hinn sjöunda nóvember var haldinn ógnarlegur refsiréttur yfir andstæðingum konungs. Gustav Trolle, erkibiskup í Uppsölum, sem vinveittur var Dönum, lét draga forystumenn sænsku andspyrnuaflanna fyrir kirkjulegan dómstól, er fann þá seka um villutrú og fékk konungi vald til að fullnægja dómunum. Á einum degi voru drepnir áttatíu og tveir menn, þeirra á meðal biskuparnir Vinzenz frá Skara og Matthias frá Strängnäs. Næsta sunnudag á eftir lét konungur brenna lík hinna drepnu á Södermalm. Hann lét meira að segja opna gröf Stens Sture og varpa líki hans á bálköstinn. Á leið sinni heim til Danmerkur lét konungur drekkja ábótanum í Nydala og fimm munkum.”

Já, ljótar voru aðfarirnar við “siðbót” Svíþjóðar og miklu fleira sleppt úr þeirri sögu en hér er komið fram. Skaðinn í menningarsögulegu tilliti var t.d. óbætanlegur.

09.11.06 @ 00:16
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Fyrst langar mig að þakka þér, Ragnar, fyrir innlegg þitt. En vissulega er þetta mysterium fidei, eða með orðum heil. Jóhannesar af Krossi og kirkjufræðara þegar hann vék að leyndardómum speki Krists:

Dýptin í Kristi er ósegjanleg vegna þess að hann er eins og óþrjótandi náma með ótal afkimum huldra gersema (Ljóð andans 37, 4).

Já nafni, minnið brást mér í sambandi við Stokkhólmsblóðbaðið. Engu að síður voru nokkrir biskupar brenndir inni nokkru síðar í Stokkhólmi, en mér hefur ekki gefist tími til að leita að heimildunum ennþá.

Þeir voru boðaðir til fundar og brugguð launráð með þessum hætti.

09.11.06 @ 10:22
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Enn sem komið er hef ég einungis fundið tvö tilvik til viðbótar. Skömu eftir Stokkhólmsblóðbaðið var Hemming Gadd biskup myrtur og Diedrik Slaghoek erkibiskup í Lundi brenndur þann 22. janúar 1522.

09.11.06 @ 12:26