« Ritningarlesturinn 6. nóvember 2006Ritningarlesturinn 5. nóvember 2006 »

05.11.06

  10:27:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2165 orð  
Flokkur: Hinir þrír myrku dagar

Hinir þrír myrku dagar (6)

6. Þrengingartímar en ekki heimsendir

Í ávarpi því sem Angelo Sodano kardínáli og forsætisráðherra hins heilaga Sætis flutti þann 13. maí árið 2000 í lok messunnar í Fatíma sem Jóhannes Páll páfi II tók þátt í, komst hann meðal annars svo að orði: „Opinberunin í Fatíma snýst fyrst og fremst um þá styrjöld sem guðsafneitunin háir gegn kirkjunni og kristnum mönnum og sjá má í þeim takmarkalausu þjáningum sem vottar trúarinnar hafa gengið í gegnum í síðustu öld annars árþúsundisins. Þetta er þrengingarganga Krossferils páfa tuttugustu aldarinnar.“

Þetta eru þrengingar sem Leó páfa XIII opinberuðust í persónulegri opinberun þann 13. október árið 1864, tímaskeið þar sem vald Satans næði hámarki. Þetta tímaskeið var tuttugasta öldin. Páfinn hné skyndilega niður eftir að hafa sungið heilaga messu og missti meðvitund. Viðstaddir töldu hann hafa fengið hjartaáfall eða slag. Að dágóðri stund liðinni eftir að hann tók að jafna sig sagði hann nærstöddum, að sér hefði brugðið svo mjög þegar hann sá alla þá tortímingu siðrænna og trúarlegra gilda sem ríða myndi yfir heimsbyggðina: „Hversu skelfileg var ekki þessi sýn sem bar mér fyrir augu.“ Eftir þetta atvik samdi hann sérstaka bæn og ákall til erkiengilsins Mikjáls sem hann bauð öllum prestum að biðja í lok sérhverrar messu:

Heilagur Mikjáll erkiengill! Veittu okkur vernd í átökunum miklu. Veittu okkur vernd gegn slægð og snörum djöfulsins. Við biðjum þig auðmjúklegast að Guð megi ljósta hann. Ó, þú leiðtogi hinna himnesku hersveita, varpa þú Satan og öllum hinum illu öndum hans niður í víti í mætti valds þíns, honum sem æðir um heiminn til að tortíma sálunum.

Þessa bæn báðu prestar í hljóði við messulok allt til ársins 1964 eða til Annars Vatíkansþingsins. Jafnskjótt og því var hætt létu áhrifin ekki á sér standa. Á sjöunda áratugi tuttugustu aldarinnar jukust glæpir, fósturdeyðingar, eiturlyfjaneysla, hómósexualismi og upplausn hjónabanda til mikilla muna og er orðið að holskeflu siðleysis og vantrúar á okkar tímum. Best lýsir þetta sér í afstæðishyggju póstmódernismans, guðsafneitun verldarhyggjunnar (secularism) og boðskap falspostula nýs fagnaðarerindis.

Þann 24. apríl árið 1994 hvatti Jóhannes Páll II páfi hina trúuðu til að halda áfram að biðja Mikjálsbænina: „Megi bænin styrkja okkur því að sú andlega barátta sem við heyjum er sú sem vikið er að í Efesusbréfinu: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans (Ef 6. 10). Opinberunarbókin víkur einnig að þessari sömu styrjöld og dregur upp fyrir okkur mynd af hl. Mikjál erkiengli (Opb 12. 7). Leó páfi XIII sá þessa sýn með áþreifanlegum hætti í lok síðustu aldar þegar hann innleiddi sérstakt ákall til hl. Mikjáls í allri kirkjunni. Þrátt fyrir að þessi bæn er ekki lengur höfð um hönd í lok messunnar, bið ég alla að minnast hennar og styðjast við hana í baráttunni við myrkravaldið og anda þessa heims.“

Þetta er það sama sem hinir heilögu kirkjunnar hafa boðað okkur með persónulegum opinberunum sínum á umliðnum öldum. Minnast má á nöfn eins og heil. Hildegard frá Bingen (1098-1179), blessaðan Jóakim (d. 1202), heil. Tómas frá Akvínó (d. 1274), bróðir Jóhannes af klettasprungunni (d. 1340), blessaðan Bartholmeus Holzhauser (1613-1689), systir María Agreda (d. 1665), heil. Margaret Mary Alacoque (1647-1690), Louis Marie de Montfort (1673-1716), bróðir Nectou, S.J. (d. 1777), Jeanne Le Royer (d.1798), móðir Josefa von Bourg (d.1807), Anna Katherine Emmerich (1774-1824), móðir Maria Rofols (d. 1815), George Micahael Wittman biskup (d. 1833), Catherine Labouré (1806-1876), heil. John Bosco (1815-1888), Píus páfi X (1835-1914), systir Marie Baourdi (1846-1878), Píus páfi IX (d. 1878), Jacinta frá Fatíma (d. 1920), Pere Lamy (d. 1931), systir Faustina Kowalska (1905-1938), Francesca de Billiante (d. 1935), Píus páfi XII (1939-58), Systir Elena Aiello (1919-1961) og Erzsebet Szanto (1913-1985).

Í Medjugorje er það ákallið um afturhvarf, afturhvarf til Guðs sem setur mark sitt á allan boðskap Guðsmóðurinnar frá upphafi. Hún gefur okkur þar fimm steina eða vopn í baráttunni við Satan: Bæn, föstu, skriftir, Biblíuna og Evkaristíuna. Það er með þessu segir Guðsmóðirin sem við getum brotið áhrif illskunnar í okkar eigin lífi á bak aftur. Þetta er kjarni boðskaparins og Guðsmóðirin er komin til jarðar til að beina okkur að nýju til Jesú, heilags Sonar síns. Þetta gerir hún með því að leiða okkur í stigvaxandi mæli til helgunar með boðskap sínum. Það er bænin, fastan og trúin sem munu endurnýja ásjónu jarðarinnar. Þessi boðskapur er ekki í neinni samhljóðan við það sem ýmsir sértrúarhópar innan mótmælendakirkjunnar boða, það er að segja Harmageddon heimsslita sem vofir yfir heiminum. Guðsmóðirin tekur af allan vafa í þessu sambandi: „Að lokum er það flekklaust hjarta mitt sem mun sigra.“

Hún segir „að guðsafneiturunum muni verða gefið tákn. Ykkur sem eruð trúuð hefur þegar verið gefin tákn. Þið hin trúuðu skuluð ekki bíða eftir tákninu áður en þið gerið iðrun: Iðrist skjótt. Þetta er tími náðar fyrir ykkur. Þegar táknið kemur verður það um seinan.“ Tíundi leyndardómurinn í Medjugorje boðar ekki heimsslit. Það er miklu áhrifameiri en hinir fyrri og sökum verður fjöldi þeirra sem deyja meiri en allra hinna leyndardómanna til samans. En þetta er ekki endir heimsins.

Boðskapurinn í Medjugorje er í samhljóðan við boðskap þann sem Erzsebet Szanto barst á árunum 1962-1981 í Ungverjalandi: Í einni opinberananna frá 19. maí 1963 víkja þau Jesús og María að stormi samtíðarinnar:

Jesús: „Þú sérð að heimurinn er líkt og sjálf náttúran núna áður enn fárviðrið skellur á. Hann er eins og eldfjall sem komið er að því að springa sem kæfir allt með eldinum sem logar í iðrum þess, deyðir, blindar og leggur allt í auðn. Þetta er hið skelfilega ástand sem ríkir á jörðu nú um stundir. Það kraumar í eldgíg hatursins. Með deyðandi ösku sinni vill hann umhverfa mannssálinni sem sköpuð er í mynd Guðs svo að hún glati lit sínum.“
Nú heyrði ég hina Alhelgu Mey tala: „En logi elsku minnar er tekinn að skína. Ég, hinn bjarti árdegisroði, mun blinda Satan. Ég mun bjarga mannkyninu frá reykjarbrælu syndugs hraunstraums syndarinnar. Þannig mun engin deyjandi manneskja fara til vítis. Logi elsku minnar er þegar tekinn að ljóma. Útvaldar sálir verða að berjast við höfðingja myrkursins. Skelfilegt stormviðri mun skella á líkt og fellibylur sem mun leggja allt í auðn. Og það sem er alvarlegra er að hann [Satan] hefur í hyggju að tortíma trúnni og öllu trúnaðartrausti hjá hinum útvöldu. Ég mun verða með ykkur þegar fárviðrið nálgast. Ég er Móðir ykkar. Ég get og mun hjálpa ykkur. Þið munið finna og sannreyna alls staðar leiftur loga elsku minnar sem mun uppljóma reikular og myrkvaðar sálir.

Hvað eftir annað endurtaka þau Jesús og María Guðsmóðir að logi elsku Flekklaus Hjarta hennar mun blinda Satan og þetta sé forboði hinnar Nýju hvítasunnu, náðartíma sem aldrei hafa sést áður á jörðinni:

„Við munum slökkva eld með eldi. Ásamt þér mun ég gera slíkt kraftaverk að það mun vekja furðu meðal fræðimanna þessa heims. Einungis speki hreinna og einfaldra sálna sem elska Guð geta skilið þetta vegna þess að það eru þær sem búa yfir leyndarmáli Guðs. Já, dóttir mín! Við munum slökkva eld með eldi – eld haturs með eldi elskunnar. Eldur hatur Satans logar svo glatt að hann trúir því að sigurinn sé hans, en logi elsku minnar mun blinda hann.
„Ég færði þér kyndil loga elsku Hjarta míns í hendur sem brátt mun berast um þá braut sem honum er ætlað að fara. Logi elsku minnar mun slökkva vítislogana. Logi elsku minnar mun endurvarpa ósegjanlegu ljósi og yl til heimsins. Dóttir mín! Ég þarfnast fórna þinna og fórna margra annarra, þannig að þeir hugir sem loga nú í hatri Heljar muni í stað þessa taka að loga í mildu ljósi elsku minnar (6. desember 1964).

Eitt sinn spyr Elísabet: „Hvað er logi elskunnar?“ Jesús svaraði: „Logi elsku Meymóður minnar er ykkur það sem örkin var Nóa!“ Og hin blessaða Mey svaraði: „Logi hins Flekklausa Hjarta míns er sjálfur Jesús Kristur!“ Og Jesús biður okkur að biðja:

Heil sért þú María, full náðar . . .
Bið þú fyrir oss syndugum mönnum
og úthelltu náð loga elsku þinnar
yfir allt mannkynið,
nú og á dauðastund vorri.

Allur endurspeglast þessi sannleikur í bæninni sem Páll páfi VI gaf persónulegt samþykki sitt til að biðja í nóvember árið 1973:

Af barnslegri trú áköllum við þig María mey svo að logi elsku hins Flekklausa Hjarta þíns sem Heilagur Andi hefur glætt tendri í vanmegna hjörtum okkar eld fullkominnar elsku á Guði og öllu mannkyninu, þannig að við elskum Guð og náunga okkar af einu hjarta ásamt þér.

Hjálpaðu okkur til að miðla þessum heilaga loga til allra manna sem hafa góðan vilja svo að logi elskunnar slökkvi eld hatursins alls staðar á jörðinni, þannig að Jesús, Konungur friðarins, verði einnig Konungur allra hjartna í sakramenti elsku sinnar á hásæti hjartna okkar. Amen.

Afstaða Marteins Lúters til Maríu Guðsmóður

Við það fólk sem tilheyrir lútersk evangelísku kirkjunni á Íslandi og les þessa umfjöllun vil ég einungis segja þetta: Margir trúbræðra ykkar og systra eru orðin miklu lúterskari en sjálfur Marteinn Lúter var nokkru sinni. Við skulum nú rifja upp nokkur ummæla hans um Maríu Guðsmóður. Lúter sagði meðal annars þetta:

„Hún er full náðar og réttilega sögð vera að öllu leyti án syndar . . . Náð Guðs fyllir hana allri gæsku og eyðir allri illsku úr henni . . . Guð er með henni sem felur í sér að allt sem hún gerði eða á eftir að gera er guðdómlegt og áhrif Guðs í henni. Auk þess vakti Guð yfir henni og verndaði hana gegn öllu sem gat unnið henni tjón.“ [1]

Á öðrum stað í predikunum sínum kemst hann svo að orði: „Hún er ekki einungis með réttu móðir mannsins, heldur einnig Guðsmóðir . . . það er ótvírætt að María er móðir hins raunverulega og sanna Guðs.“ [2]

Lúter sagði: „Menn hafa krýnt hana með allri dýrð hennar með því að segja: Guðsmóðir. Enginn getur sagt neitt háleitara um hana, jafnvel þó hann hefði eins margar tungur og laufin eru á trjánum.“ [3]

Í hinum 95 greinum sínum hafnar Lúter öllu guðlasti gegn Meyjunni og telur að sá sem fari um hana niðrandi orðum ætti að biðjast fyrirgefningar.“ [4] Í ritskýringum sínum við Lofsöng (Magnificat) Maríu byrjar Lúter og endar með ákalli til Maríu!“ [5]

Það sem er ef til vill athyglisverðast er áletrun sú sem er á gröf hans í Wittenbergkirkjunni, á sömu dyrunum og Lúter negldi upp hinar 95. mótmælagreinar á. Það var myndhöggvarinn Peter Vischer sem skreytti þeir með áletrun þar sem lesa má meðal annars þessi orð: „Ad summum Regina thronum defertur in altum: Angelicis praelata choris, cui festus et ipse Filius occurrens Matrem super aethera ponit." [6]

[1]. Luther's Works, American edition, vol. 43, p. 40 , ed. H. Lehmann, Fortress, 1968.
[2]. Sermon on John 14. 16: Luther's Works (St. Louis, ed. Jaroslav, Pelican, Concordia. vol. 24. p. 107).
[3]. Úr Ritskýringunum við Lofsöng Maríu.
[4]. J. Cole, "Was Luther a Devotee of Mary?" in Marian Studies 1970, p. 116.
[5]. David F. Wright, Chosen by God: Mary in Evangelical Perspecive (London: Marshall Pickering, 1989, p. 178).
[6]. „Drottningin er borin í hæðir að hinum æðsta hástóli (hásæti); hún er birt englakórunum, og jafnvel sjálfur Sonurinn er sæll yfir henni; er hann mætir Móðurinni setur hann hana yfir hinn efsta himin,“ P. Stravinskas in Faith Camp; Reason, Spring, 1994, p. 8.

Næst: 7. Þrengingartími kirkjunnar og endaíminn

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Jón, þakka þér kærlega þessa grein og fyrir elju þína alla. En ég legg til þú sníðir lokakaflann, ‘Afstaða Marteins Lúters til Maríu Guðsmóður’, frá henni, því að hann verðskuldar að birtast sem sérstök grein, þannig ber betur á því efni, þannig að menn dragist frekar að því að lesa þá grein. Þetta á nefnilega mikið erindi til íslenzkra Lútherana.

Það eru ekki nema um 10 dagar síðan einn áberandi Þjóðkirkjuklerkur átaldi kaþólsku kirkjuna í mín eyru fyrir að tala um að María Guðsmóðir hafi verið óflekkuð (þ.e. frá því að hún var getin). Ég er viss um, að þrátt fyrir að sá prestur hafi verið einlægur KFUM-ari á árum áður og gnesiolútherskur (hreinlútherskur) í áherzlum sínum í guðfræðideild, þá sé hann nú fjarri þeirri hugsun að viðurkenna syndleysi hennar (enda undir áhrifum líberalvillunnar). Þess vegna hæfir honum vel að hlýða á orð síns gamla meistara, Lúthers: „Hún er full náðar og réttilega sögð vera að öllu leyti án syndar,” eins og fram kemur hér ofar. „Að öllu leyti án syndar” eru svo fortakslaus orð, að þau innifela þá sennilega líka: án upprunasyndarinnar (’erfðasyndar’). En sé sú merkingin, er viðblasandi, að Lúther hefur talið getnað hennar óflekkaðan af upprunasyndinni. Það er þannig viðurkenning á okkar kaþólsku trúarsetningu: conceptio immaculata.

Já, Lúther var sanntrúaðri að mörgu leyti en líberalistarnir í ‘lútherskri’ kirkju samtíðar okkar. Dr. Einar Sigurbjörnsson prófessor átti m.a.s. til að benda á það í trúfræðifyrirlestrum sínum, að Lúther hafi verið ‘mariologiskur maxímalisti’, þ.e.a.s. að í Maríufræðum sínum hafi Lúther gefið Guðsmóðurinni hinn mesta mögulegan heiður, andstætt ‘mariologiskum mínímalistum’, sem efuðust um eða drógu úr heiðri hennar og vegsemd.

Farir þú, Jón, að tillögu minni með að sníða þennan kafla þinn frá þessari vefgrein, er ágætt að enda hana með tilvísun til hinnar (nýju) sérgreinar, ‘Afstaða Marteins Lúters til Maríu Guðsmóður’. Og þakka þér aftur.

06.11.06 @ 00:03
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Grafskrift Lúthers er líka stórmerkileg heimild.

06.11.06 @ 00:30