« Ritningarlesturinn 5. nóvember 2006Ritningarlesturinn 4. nóvember 2006 »

04.11.06

  11:30:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 3948 orð  
Flokkur: Hinir þrír myrku dagar

Hinir þrír myrku dagar (5)

Opinberanir þeirra Anna-Maria Taigi og Marie Julie Jahenny frá La Fraudais

Ég birti hér loks opinberanir tveggja kvenna til mótvægis við karlana tvo hér að framan sem víkja berum orðum að hinum þremur myrku dögum því að það er ekki tilgangur þessarar umfjöllunar að fara út fyrir þennan ramma. [1] Önnur þeirra er ítölsk og hin frönsk.

Blessuð Anna-Maria Taigi (1769-1837)

Hún fæddist í Síena á Ítalíu þann 29. maí árið 1769 og andaðist í Róm þann 9. júní 1837. Páfar og kardínálar hafa talað um þessa kvæntu konu sem einhverja heilögustu konu allra tíma. Benedikt páfi XV komst svo að orði þegar hún var tekin í tölu blessaðra þann 20. maí 1920, að hún hefði verið fyrirmyndar móðir við þær verstu kringumstæður sem hugsast getur. Iðulega dvaldi hún í andlegum hrifum, vann ótal kraftaverk þegar hún læknaði fólk, gat lesið í hjörtu manna, sagði fyrir um andlát fólks og sá sýnir og óorðna atburði. Hún sagði fyrir um báðar heimsstyrjaldirnar á tuttugustu öldinni. Átján árum eftir andlát hennar var líkami hennar svo vel varðveittar að það var eins og hún hefði sofnað daginn áður. Hér verður nú greint frá spádómi hennar um hina þrjá myrku daga.

Refsingar þær sem Guð mun senda verða tvenns konar: Önnur verður í mynd styrjalda, byltinga og annarrar illsku og hún mun eiga upptök sín á jörðinni. [2] Svartnætti sem vara mun í þrjá sólarhringa mun koma yfir alla jörðina. Ekki sést handa skil og loftið verður þrungið drepsóttum sem kosta munu marga lífið og ekki einungis óvini trúarinnar. Með öllu útilokað verður að nota ljós af mennskum uppruna meðan þetta myrkur varir, nema blessuð kerti. Sá sem af forvitni opnar glugga til að skyggnast um eða gengur út undir bert lof mun falla niður á staðnum sem liðið lík. Á þessum þremur dögum á fólk að dvelja innan dyra, biðja rósakransinn og ákalla Guð um miskunn.

Allir óvinir kirkjunnar, þekktir sem óþekktir, munu farast um alla jörðina meðan á þessari alheimsmyrkvun stendur, að örfáum undanskildum sem Guð mun vekja til trúar. Loftið veruð fullt af djöflum sem birtast munu í furðulegustu myndum.

Marie Julie Jahenny frá La Fraudais (1850-1941)

Marie bar hin fimm sáramerki Drottins. Hún var Bretonskaganum og var því nefnd „La bretonne stigmatisée.“ Hún hafði þá einstöku náðargjöf til að bera að geta greint á milli Evkaristíubrauðs og venjulegs brauðs og hluta sem höfðu verið blessaðir og annarra og gat greint hvaðan helgar menjar dýrlinga komu. Loks gat hún skilið sálma og helgisiðabænir á fjölda tungumála. Á fimm ára tímabili frá og með 28. desember 1875 lifði hún einungis á hostíum. Franskur læknir, dr. Imbert-Gourbeyre fylgdist með því og skráði að allan þennan tíma kom enginn vökvi eða útferð frá líkama hennar. Hún var ónæm gagnvart sárauka eða sterku ljósi meðan á andlegum hrifum hennar stóð. Í sumum hrifunum hófst hún frá jörðu og öðlaðist yfirskilvitlegan léttleika.

Þann 20. september 1882 sagði Guðsmóðirin: „Jörðin mun hyljast myrkri og víti ganga laust um á jörðinni. Þrumur og eldingar verða þess valdandi að þeir sem eru trúlausir og treysta ekki á mátt minn munu deyja af skelfingu. Meðan á þessum þremur skelfilegu dögum stendur má ekki opna neinn glugga vegna þess að allt verður hulið sjónum á jörðu og ógnvænlegur litur mun setja mark sitt á allt á þessum dögum refsivandarins. [3] Um loftið leika hrævareldar og jörðin mun leika á reiðiskjálfi. Látið blessað kerti loga alls staðar og ekkert annað ljós mun skína á þessum þremur myrku dögum.“

8. desember 1882: „Enginn mun lifa af án húsaskjóls. Jörðin mun skjálfa eins og á dómsdegi og skelfingin verður mikil. Við munum hlusta á bænir vina okkar. Enginn þeirra mun farast. Við þörfnumst þeirra til að vegsama krossinn. Kerti úr blessuðu vaxi munu ein loga á þessum skelfingartíma myrkursins. Eitt kerti mun nægja í þessari vítisnótt. Á heimilum vondra manna og guðlastara munu þessi kerti ekki gefa frá sér neitt ljós.

Og Guðsmóðirin segir: „Allt mun hristast nema það húsgagn þar sem hið blessaða kerti brennur. Það mun ekki haggast úr stað. Þið skuluð safnast saman í kringum róðukross og blessaða mynd af mér. Þetta mun halda ógnunum frá.

Meðan á þessu myrkri stendur munu djöflarnir og hinir vondu taka á sig furðulegustu myndgervi . . . rauð ský eins og blóð munu sjást á himnum. Hávaðinn frá þrumunum framkalla jarðskjálfta og geigvænlegar eldingar skekja himinhvolfið . . . Bylgjur hafsins munu rísa og ganga yfir heimsálfurnar. Jörðin verður eins og ógnarstór kirkjugarður.“

Þann 4. janúar 1884 opinberuðust Marie Julie hinir þrír myrku dagar aftur: „Máttarvöld vítis munu deyða alla óvini Guðs. Hörmungarnar munu dynja skyndilega yfir. Allir munu finna fyrir þessari refsingu og hver þeirra mun taka við af annarri.“ Hinir þrír myrku dagar munu „ríða yfir á fimmtudegi, föstudegi og laugardegi, dögum hins heilaga Sakramentis, krossins og Guðsmóðurinnar . . . þrír dagar og tvær nætur.“

Hin endanlega opinberun og persónulegar opinberanir [4]

Þegar við vegum og metum slíkar opinberanir verðum við að gera mun á hinni endanlegu eða fullkomnu opinberun, eða eins og komist að orði um hana í Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar:

Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna. En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í Syni sínum.” Kristur, Sonur Guðs sem gerðist maður, er hið eina, fullkomna og óviðjafnanlega Orð Föðurins. Í honum hefur hann sagt allt; það verður aldrei nokkurt annað orð en þetta. Heilagur Jóhannes af krossinum hefur meðal annarra látið þetta í ljós í skýringum sínum á Hebreabréfinu 1:1-2: Með því að gefa okkur Son sinn, einasta Orð sitt (því hann á ekkert annað), talaði hann til okkar allt í senn í þessu einasta Orði - og hann hefur ekkert meira að segja…vegna þess að það sem hann talaði áður til spámannanna á köflum, hefur hann nú talað allt í senn með því að gefa okkur Son sinn, allt sitt. Sá sem vill bera fram spurningu til Guðs eða sem óskar einhvers konar sýnar eða opinberunar yrði ekki einungis sekur um heimskulega hegðun heldur einnig að misbjóða Guði með því að beina ekki sjónum sínum eingöngu að Kristi og með því að lifa með löngun eftir einhverri annarri nýjung. (65)

Þar sem þessi eina opinberun Guðs sem beint er til allra fullkomnast í Kristi og þeim vitnisburði sem borinn er um hann í ritum Nýja testamentisins er kirkjan bundinn af þessum einstæða atburði í hinni helgu sögu og af orðum Biblíunnar sem staðfesta hann og túlka. En þetta felur ekki í sér að kirkjan geti einungis horft núna til hins liðna og yrði þannig dæmd til lífvana endurtekningar. Í Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar er komist svo að orði í þessu sambandi:

Enda þótt opinberuninni sé þegar lokið er hún engu að síður ekki að fullu skýr; það liggur fyrir kristinni trú að skilja smám saman merkingu hennar í aldanna rás. Í gegnum aldirnar hafa átt sér stað svokallaðar “persónulegar” opinberanir og hefur yfirvald kirkjunnar viðurkennt nokkrar þeirra. Þær tilheyra hins vegar ekki trúararfinum. Hlutverk þeirra er ekki að betrumbæta eða fullkomna afdráttarlausa opinberun Krists, heldur að aðstoða við að breyta með fullkomnari hætti eftir þeirri opinberun á vissum tímum í sögunni. Undir leiðsögn kennsluvalds kirkjunnar veit sensus fidelium (trúarskynbragð hinna trúuðu) hvernig á að greina og taka á móti því sem í slíkum opinberunum er sannarlegt kall Krists eða dýrlinga hans til kirkjunnar. Kristin trú getur ekki meðtekið “opinberanir” sem staðhæfa að þær beri af eða leiðrétti opinberunina sem uppfyllist í Kristi eins og á sér stað í vissum ekki-kristnum trúarbrögðum og einnig í nýjum sértrúarflokkum sem byggja á slíkum “opinberunum”. (66, 67)

Hvernig kirkjan er bæði bundin hinni einstæðu opinberum og framþróun hvað áhrærir skilning á honum birtist ljóslega í kveðjuorðum Drottins þegar hann kvaddi lærisveina sína, en þar segir hann: „Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú. En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á. Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður. Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig" (Jh 16. 12-14).

Annars vegar starfar Heilagur Andi sem leiðsögumaður sem kunngerir þekkingu sem áður var ókunn vegna þess að forsendurnar skorti, en þetta er takmarkalaus breidd og dýpt kristindómsins: Að vera leiddur áfram af Andanum en þetta felur jafnframt í sér að nærast á auðlegð Drottins Jesú Krists sem opinberast í ósegjanlegu óræðisdjúpi leiðsagnar Andans. Í þessu samhengi vitnar Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar í orð Gregors páfa hins mikla: „Hin guðdómlegu orð vaxa með þeim sem les þau” (Homilia in Ezechielem I. 7, 8). (94).

Annað Vatíkanþingið tiltekur þrjár meginreglur í leiðsögn Andans í kirkjunni og þar með þrjár leiðir í „vexti orðsins.“ Þetta er með íhugun og rannsóknum hinna trúuðu, með þeirri djúsptæða skilningi sem rekja má til andlegrar reynslu og með prédikun þeirra sem ásamt með vígsluröð biskupsembættisins hafa hlotið óbrigðular náðargjafir sannleikans“ (Dei Verbum, 8).

Persónulegar opinberanir

Í þessu samhengi getum við nú með réttu skilið hvað býr „perónulegri opinberun“ að baki, en hugtakið skírskotar til allra þeirra sýna og opinberana sem hafa átt sér stað síðan lokið var við að skrifa Nýja testamentið. Undir þetta má flokka opinberanirnar líkt og í La Saliette, Lourdes, Fatíma og aðrar persónulegar opinberanir hinna heilögu sem stangast ekki á við erfikenninguna. En að nýju skulum við leita á náðir Trúfræðsluritsins:

Í gegnum aldirnar hafa átt sér stað svokallaðar “persónulegar” opinberanir og hefur yfirvald kirkjunnar viðurkennt nokkrar þeirra. Þær tilheyra hins vegar ekki trúararfinum. Hlutverk þeirra er ekki að betrumbæta eða fullkomna afdráttarlausa opinberun Krists, heldur að aðstoða við að breyta með fullkomnari hætti eftir þeirri opinberun á vissum tímum í sögunni. (67)

Þetta varpar ljósi á tvennt í senn. Inntak persónulegrar opinberunar er með eðlislægum hætti frábrugðin hinni einu og endanlegu opinberun. Sú síðarnefnda krefst trúar og í henni talar sjálfur Guð til okkar með mennskum orðum og í íhugun hins lifandi samfélags kirkjunnar. Trú á Guð og á Orð hans er frábrugðið allri annarri mennskri trú, trúnaðartrausti eða afstöðu. Vissan um að það sé Guð sem er að tala veitir okkur fullvissu um að við séum í sambandi og snertum við sjálfum Sannleikanum. Hún veitir okkur fullvissu sem er handan sannana mennskra orða og þekkingar. Hún felur í sér þá fullvissu sem við getum grundvallað allt okkar líf og trúnaðartraust á henni á sjálfri dauðastundinni.

Persónuleg opinberun er trúnni til styrktar

Persónulegar opinberanir eru trúnni til styrktar og leiða í ljós sannleiksgildi hennar einmitt með því að leiða okkur til baka til hinnar einu opinberunar og kjarna hennar, ef þær eru komnar frá Guði á annað borð. Þær opinbera okkur sannleika þann sem Drottinn boðaði sjálfur lærisveinunum: Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. Þér eruð vottar þessa" (Lk 24. 46-49). SANNAR PERSÓNULEGAR OBINBERANIR LEIÐA ÞVÍ ÁVALLT TIL IÐRUNAR, FYRIRGEFNINGU SYNDANNA OG YFIRBÓTAVERKA!

Í þessu sambandi komst flæmski guðfræðingurinn E. Dhanis, virtur fræðimaður á þessu sviði svo að orði, að viðurkenning á persónulegri opinberun fæli í sér þrjá meginþætti: Að boðskapurinn fæli ekkert í sér sem stangaðist á við trú og siðgæði og því væri lögmætt að gera hann opinberan og hinir trúuðu væru beðnir um að meðtaka hann af varúð. [5]. Slíkur boðskapur gæti verið raunveruleg hjálp til að skilja guðspjöllin og að haga lífi okkar á betri veg á sérstöku tímaskeiði sögunnar. Því ætti ekki að hafna honum og hann væri hjálplegur, en við værum ekki skuldbundin til að styðjast við hann.

Forsenda sannleiksgildis persónulegrar opinberunar er afstaða hennar til sjálfs Krists. Ef hún leiðir okkur í burtu frá honum, þegar hún verður óháð honum og kemur jafnvel í stað hans sem önnur og betri leið til hjálpræðis, hefði meiri þýðingu en sjálf guðspjöllin, þá er hún sannarlega ekki komin frá Heilögum Anda sem ávallt leiðir okkur með djúpstæðum hætti inn í sannleika fagnaðarerindisins, en ekki frá því. Þetta felur ekki í sér að persónuleg opinberun geti ekki leitt til nýrra áherslna eða orðið að uppsrettu nýrrar guðrækni eða blásið nýju lífi í eldri hefðir. En í þessu öllu verður hún að glæða trú, von og kærleika sem er hin ófrávíkjanlega leið allra til hjálpræðisins. Bæta má því við að persónuleg opinberun sprettur iðulega upp úr hinni almennu guðrækni og setur mark sitt á hana og blæs í hana nýju lífi og opnar nýjar leiðir svo að hún þróist enn frekar. Þrátt fyrir að hana megi undantekningarlaust rekja til helgisiðanna glæðir hún trúna með því að blása í hana nýju lífi. Þetta má meðal annars segja um guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú sem öðlaðist nýtt líf á sautjándu öld sökum persónulegra opinberana hinna heilögu.

Samband persónulegra opinberana og Ritninganna

Hvernig eru persónulegar opinberanir vegnar og metnar í ljósi Ritninganna? Elsta bréf Páls postula eða Fyrsta bréfið til Þessalonikíumanna felur í sér leiðsögn í þessum efnum. Postulinn segir: „Slökkvið ekki Andann. Fyrirlítið ekki spádómsorð. Prófið allt, haldið því sem gott er“ (5. 19-21). Í aldanna rás hefur kirkjan stöðugt meðtekið náðargjöf spádómsorða sem verður að „prófa“ og sannreyna til samræmis við heilaga arfleifð kirkjunnar, en ekki „fyrirlíta“ þau að órannsökuðu máli.

Í þessu sambandi ber að hafa í huga að spádómsorð í skilningi Biblíunnar felast ekki í því að segja fyrir um óorðna hluti, heldur að varpa ljósi á VILJA GUÐS í nútíðinni og sýna þannig þá réttu leið sem ber að taka í framtíðinni. Sá sem segir fyrir um óorðna hluti – tímasetur hið ókomna af nákvæmni – svalar óseðjandi forvitni mannshugans. Spámaðurinn skírskotar hins vegar til myrkurs og blindu mennsks vilja og skynsemi og kunngerir vilja Guðs sem stefnumótun í nútíðinni. Spádómsgildi tímasetninga vegur því mun minna í þessu sambandi. Það sem skiptir meginmáli er RAUNGILDI hinnar endanlegu opinberunar sem hrærir við dýpsta verundardjúpi hjarta sjálfrar kirkjunnar og hvers hinna trúuðu sem einstaklinga. Spádómsorðin felast þannig í viðvörunum jafnt og huggunarorðum. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga orð sjálfs Drottins um að gefa „tákni tímanna“ nánar gætur og á þessa staðreynd lagði Annað Vatíkanþingið áherslu: „Hræsnarar, útlit lofts og og jarðar kunnið þér að ráða, en hvernig er því farið, að þér kunnið eigi að meta þennan tíma?“ (Lk 12. 56).

Í þessum ummælum Drottins ber að skilja „tákn tímanna“ sem þá braut sem okkur ber að taka, að túlka tímanna tákn er ljós trúarinnar og að bera skyn á nærveru Krists í sögunni á öllum öldum. Persónulegar opinberanir hjálpa okkur þannig að skilja tímanna tákn og bregðast við þeim með réttum hætti í ljósi trúarinnar.

Fjölmargir mótmælendur leggja nú orðið trúnað á gildi persónulegra opinberana. Söfnuðir (ministries) meðal mótmælenda líkt og „Promise Keepers“ og „March for Jesus“ hafa vakið athygli á þeim og hvatt predikara (pastors) til að vera umburðarlyndari og opnari gagnvart kaþólsku kirkjunni. Sumir evangelískir predikarar líkt og þeir Pat Robertson og Francis Frangipane hafa þannig talað um Maríubirtingarnar sem „opinberanir frá Guði“. Meðal múslima hafa þær einnig vakið umtalsverða athygli og má einkum rekja þetta til opinberananna í Fatíma, en bærinn Fatíma dregur nafn sitt af tignarkonu frá tímum Mára í landinu og dóttir Múhammeðs bar þetta sama nafn.

Ekki gildir þetta þó um alla mótmælendur. Þeir telja að hér sé djöfullinn að verki sem sé að draga „sannkristið“ fólk á tálar, og að sjálfsögðu eru þessir hópar hinir einu „sanntrúuðu“ að eigin dómi. Þetta eru klofningshópar út úr mótmælendakirkjunni sem binda sig við sína eigin einstrengingslegu túlkun á Ritningunum sem er sú eina rétta að þeirra mati og ekki í neinni samhljóðan við meginstrauma kristindómsins. Þeir vitna gjarnan til ritningarstaða eins og þessa í Opinberunarbókinni: „Og hinir mennirnir, sem ekki voru deyddir í þessum plágum, gjörðu eigi iðrun og sneru sér eigi frá handaverkum sínum og vildu ekki hætta að tilbiðja illu andana og skurðgoðin úr gulli, silfri, eiri, steini og tré, sem hvorki geta séð, heyrt né gengið. Og eigi gjörðu þeir iðrun né létu af manndrápum sínum og töfrum, frillulífi sínu og þjófnaði“ (9. 20, 21).

Þessum orðum snúa þeir upp á rómversk kaþólsku kirkjuna sem sé að „smita“ hina „hreinu evangelísku kirkju“ með „djöfladýrkun“ sinni. Þetta eru hinir andlegu íkónubrjótar samtímans, menn sem horfið hafa til baka til skilnings Íslams á Guði og varð svo ríkjandi innan býsönsku kirkjunnar um nokkra alda skeið, en var endanlega hafnað af samkirkjuþinginu í Jerúsalem árið 787. Þessir sértrúarhópar innan kristindómsins vitna jafnframt gjarnan í orð Páls postula í Fyrsta Tímóteusarbréfinu: „Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda. Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni“ (4. 1-2).

Í þessu sambandi koma orð sjálfs Drottins upp í hugann sem hann mælti til Faríseanna:

„Þessi rekur ekki út illa anda nema með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda." En Jesús vissi hugsanir þeirra og sagði við þá: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hver sú borg eða heimili, sem er sjálfu sér sundurþykkt, fær ekki staðist. Ef Satan rekur Satan út, er hann sjálfum sér sundurþykkur. Hvernig fær ríki hans þá staðist? Og ef ég rek illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með Guðs anda, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið. Eða hvernig fær nokkur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans. Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn Andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn Heilögum Anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda“ (Mt 12. 24-32).

Í öllum þeim persónulegu opinberunum sem átt hafa sér stað í kirkjunni síðan 1531 er það sem setur mark sitt á þær að kalla hina trúuðu til iðrunar, afturhvarfs, aukins bænalífs, að leggja rækt við hina innri bæn hjartans og lúta VILJA GUÐS OG BOÐORÐUM HANS Í EINU OG ÖLLU. Þeir sem telja sig í kristinna manna tölu og halda því fram að Satan standi slíku að baki eru helteknir af sundlunarandanum:

Drottinn hefir byrlað þeim sundlunaranda, svo að þeir valda því, að Egyptaland er á reiki í öllum fyrirtækjum sínum, eins og drukkinn maður reikar innan um spýju sína. Ekkert heppnast Egyptalandi, hvorki það sem höfuð eða hali, pálmakvistur eða sefstrá taka sér fyrir að gjöra“ (Jes 19. 14, 15). Þeir eru þjakaðir af sama sundlunarandanum og DAUÐAMENNING VERALDARHYGGJU NÚTÍMANS.

Hinar persónulegu opinberanir í kirkjunni hafa orðið milljónum og aftur milljónum manna til sáluhjálpar og leitt hina trúuðu til einlægrar og sannrar köllunar lærisveina Krists: AÐ ELSKA GUÐ OG NÁUNGA SINN EINS OG SJÁLFA SIG! Þetta er ákall Heilags Anda í kirkju sinni á öllum öldum. Þeir sem andmæla slíku andmæla þar með leiðsögn Andans!

[1]. Yves Dupont, Catholic Prophecy,Tan Books and Publishers, 1973.
[2]. Sama tilvitnun.
[3]. Ég vísa hér til ummæla prófessors Almeida Garetts hér að framan um litarhátt fóls í opinberuninni í Fatíma.
[4]. Í umhjöllun þessari um opinberanirnar styðst ég afar mikið við hina ágætu umfjöllun Joesph Ratzinger kardínála og núverandi páfa: Benediktusar XVI, sjá:
http://www.ewtn.com/fatima apparitionsThird_Secret Fatima.htm#Commentary.
[5]. E. Dhanis, Sguardo su Fatima e bilancio di una discussione, í La Civiltà Cattolica 104 [1953], II, 392-406.

Næst. 6. Þrengingartímar en ekki heimsendir!

No feedback yet