« Ritningarlesturinn 4. nóvember 2006Ritningarlesturinn 3. nóvember 2006 »

03.11.06

  08:55:23, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 3566 orð  
Flokkur: Hinir þrír myrku dagar

Hinir þrír myrku dagar (4)

Opinberun bróður Davíðs í Medjugorje

Inngangsorð eftir Wayne Weible (1996) [1]

Lesendur fréttabréfs okkar minnast ef til vill frásagnar minnar af því þegar ég snérist til kaþólskrar trúar og einkum þó frásagnar minnar af kynnum mínum af fransiskanabróðurnum David Lopez. Ég minnist á þetta vegna þess sem kemur á eftir um reynsla bróður Davids í Medjugorje og hvernig hann hefur meðtekið yfirskilvitlegar náðargjafir frá þeim Jesú og Maríu.

Ég hitti bróður Davíð í fyrsta skipti í janúar 1990 meðan ég var á löngu ferðalagi um Texas og kom í lítinn bæ á landamærum Texas og Mexíkó sem nefnist Welasco. Hann býr í reynd á stað sem heitir El Ranchilo í einsetumannabyggð sem kennd er við Vora Frú af gæskunni.

Eftir að hafa varið 18 árum sem meðlimur í Fransiskanareglunni rekur bróðir David þarna lítið hvíldarafdrep sem veitir ólöglegum innflytjendum hjálp bæði með matargjöfum, húsaskjóli og bænum. Það sem vekur furðu er að bróðir David þjáist af heilalömun (cerebral palsy) sem veldur honum umtalsverðum örðugleikun bæði við að ganga og tala, svo að við tölum ekki um það líkamlega álag sem felst í því að reka þennan sælustað.

Engu að síður felst kjarni boðskapar bróður Davids ekki í þessum helgidómi til að aðstoða ólöglega innflytjendur heldur í sérstökum boðskap sem hann meðtók á pílagrímsferð til Medjugorje árið 1987 (hann hefur lagt þessa löngu ferð til þorpsins á sig fjórum sinnum). Þetta er sú saga sem hann greinir nú öllum frá sem vilja hlusta.

Það sem fylgir hér á eftir er íslensk þýðing á þeirri þýðingu sem Weible barst í hendur samkvæmt þýðingu þeirra Irmu Baretto og Patricia Jersin úr spænsku sem báðar eru frá Redondo Beach í Kaliforníu sem sendu honum þýðinguna. Weible heldur áfram:

„Persónulega leiði ég það yfirleitt hjá mér að hugsa eða tala um hina tíu leyndardóma sem opinberaðir hafa verið í Medjugorje, eða um þá refsidóma sem eiga að koma samkvæmt frásögn sjáendanna. Ég hef lesið bók föður Albert Herberts sem nefnist „The Three Days of Darkness: Prophecies of Saints and Seers“ (Hinir þrír myrku dagar: Spádómar hinna heilögu og sjáenda). [2] Eftir að hafa lesið hana bað ég afar mikið. Ég fann það í hjarta mínu að jafnframt því sem þetta væri hluti þess sem lægi framundan, þá fælist köllun mín í því að breiða út fagnaðarerindið um Jesú Krist, en ég finn að þetta er kjarni boðskapar Guðsmóðurinnar í Medjugorje.

En samtímis þessu getum við ekki gengið fram hjá mikilvægum þætti í boðskap Guðsmóðurinnar: Við erum leidd áfram í bæninni til undirbúnings því sem koma skal. Það er þetta sem er lögð áhersla á í þessum boðskap. Einnig er lögð áhersla á orð hennar um að við eigum að biðja í gleði en ekki undir álagi eða depurð. Vinsamlegast hafið þetta hvoru tveggja í huga þegar þið lesið eftirfarandi frásögn bróður Davíðs.

ÞRÍR DAGAR MYRKURS: ÞRENGINGIN MIKLA

eftir bróður David Lopez, O.S.F.

Þann 14. ágúst 1987 þegar ég var í Medjugorje veittust mér þau forréttindi að vera í opinberunarherberginu á þeim tíma sem hin heilaga Mey birtist sjáendunum og veittist sú ánægja að afhenda sjáendunum bænir og greinar trúarlegs eðlis sem fjölmargt fólk sendi með mér. Þrátt fyrir þessi forréttindi sem voru mikil, var þetta allt saman heldur léttvægt í samanburði við þá opinberun sem Guðsmóðirin veitti mér síðar.

Eftir opinberunina minntust sjáendurnir á að hin heilaga Mey hefði í hyggju að tala við þá um kvöldið á Krossfjallinu (Krizevac). Síðar þetta sama kvöld fór fjölmargt fólk með þeim upp á fjallið. Ég fór þangað ekki sjálfur fyrr en þann 15. klukkan 2 síðdegis ásamt vini mínum, bróður Edward Villa. Ég fór einungis hálfa leiðina upp á fjallið vegna þess að mér reyndist það of erfitt á hækjunum. Meðan ég var þarna fór ég með hinar 15 deildir rósakransins, tíðagjörð dagsins og ræddi við fólk sem átti leið hjá. Vinur minn, bróðir Villa, hélt áfram einn. Ég dvaldi þarna í um það bil tvo tíma.

Þegar vinur minn snéri til baka fórum við til að vera viðstaddir ensku messuna (Í Jakobskirkjunni) og síðan fór ég á heimili fjölskyldunnar sem ég dvaldist hjá. Síðar fór vinur minn aftur upp fjallið, en ég varð einn eftir heima.

Meðan ég var þarna á fjallinu um morguninn heyrði ég fólk tala um að Meyjan hefði tilkynnt sjáendunum að sökum Hátíðar uppnumingarinnar væri um sérstakan dag að ræða og fólkið sem væri nærri opinberunarherberginu myndi öðlast sérstakar náðargjafir. Meðan ég dvaldi í herberginu hugleiddi ég þetta og minntist þess jafnframt að ég hefði þegar farið með hinar 15. deildir rósakransins og farið til messu og það bæri því enga nauðsyn til að ég væri fyrir utan prestsetrið til að fara með annan rósakrans og ef til vill vildi Meyjan ekki heldur að ég færi úr húsi. Hið innra með mér heyrði ég rödd sem sagði: „Og hvaða ástæðu ætti ég svo sem að hafa til að vilja sjá þig?“

Hjá fjölskyldunni þar sem við bjuggum meðan við dvöldum í Medjugorje var leigubílstjóri sem ég vingaðist við og hann sagði við mig: „Þú skalt ekki nota neinn annan leigubíl. Ég skal aka þér allt sem þú þarft að komast og ég vil ekki að þú borgir mér neitt“ Þannig sagði ég við Meyjuna: „Ef bílstjórinn kemur nægilega tímanlega mun ég fara, annars ekki.“

Leigubílstjórinn kom tímanlega og spurði mig að því hvort ég vildi fara til prestsetursins. Ég sagði já. Þegar ég kom þangað létu nokkrir vinir mig hafa klappstól. Ég sat við gluggann í opinberunarherberginu og tók að fara með rósakransinn ásamt fólkinu. Klukkan 6 síðdegis komu síðan sjáendurnir.

Við tókum að biðja hina hryggilegu leyndardóma þegar ég missti meðvitund. Ég heyrði hvorki neitt né sá. Það eina sem ég man var að ég skynjaði nálægð Meyjarinnar. Ég heyrði rödd hennar, milda rödd viturrar og skilningsríkrar konu sem ávarpaði mig á ensku, en ég hvorki sá hana né held því fram að það hafi ég gert.

Orð boðskaparins og áhrif vöktu með mér skelfingu, ekki sökum þess sem ég heyrði, ekki sjálf orðin, heldur sú ábyrgð sem Meyjan lagði mér á herðar. Ég gerði mér ljóst að þau skilaboð sem hún bar mér gerðu þá kröfu til mín að kunngera þau og ég vildi ekki lifa því lífi ofsókna sem spámenn verða að ganga í gegnum. Þannig vildi ég ekki hlusta og tók að biðja rósakransinn aftur, en hún hélt áfram að tala og gaf mér ekki tækifæri til að biðja.

Þegar hún hafði lokið máli sínu stóð ég á fætur eins hratt og mér var unnt. Ég fann leigubílstjórann og hann keyrði mig síðan heim. Þar tók ég til við að biðja upphátt vegna þess að ég vildi ekki hlusta á þessa innri rödd, þrátt fyrir að ég gerði mér ljóst að reynsla mín væri raunveruleg. Hálfri stundu síðar kom vinur minn, bróðir Villa heim og ég sagði honum hvað hafði borið að höndum og greindi honum frá boðskapnum sem mér hafði borist. Hann spurði mig þá að því, hvort ég hefði lesið bókina „The Three Days of Darkness,“ bók sem ég hafði aldrei heyrt um. Þá sagði hann: „Þú ert að lýsa því nákvæmlega sem greint er frá í þessari bók.“

Ég vil taka fram að orðin sem koma fyrst eru nákvæmlega þau sömu og í boðskap Meyjarinnar, en síðari hluti boðskaparins eru þau áhrif sem greyptust í mér ásamt fleiri upplýsingum sem hin blessaða Mey María hafði að segja um það sem myndi gerast.

Baráttan bróður Davíðs við að skrifa boðskapinn niður

Upphaflega skrifaði bróðir Davíð boðskap Guðsmóðurinnar þann 11. september árið 1987, eftir að hafa barist gegn því í heilan mánuð eftir dvöl sína í Medjugorje: „Ég barðist gegn þessu í heilan mánuð. Ég leitaði að fólki sem myndi halda aftur af mér að greina frá þessum boðskap, en enginn varð til þess. Þannig fór ég til andlegs leiðbeinanda míns og hann bað mig að festa þetta á blað, en ég varð ekki við bón hans.

Þann 11. september fór ég til San Antonio í Texas. Ég fór þangað nokkrum dögum fyrir heimsókn Jóhannesar Páls páfa II til að aðstoða við undirbúning komu hans. Vinur minn fór með mér til Helgidóms Guðmóðurinnar frá Czetochowa þar sem ég baðst fyrir frammi fyrir hinu blessaða sakramenti sem var útstillt í kapellunni. Um það bil klukkan 11:40 fannst mér líkt og Drottinn væri að segja mér að ég ætti að færa mig yfir í aðalkirkjuna (kapella hins blessaða sakramentis er í hliðarkapellu). Ég gerði þetta og tók að biðja rósakransinn frammi fyrir líkneski Guðsmóðurinnar frá Guadalupe. Klukkan var 11: 45 þegar ég af einhverjum ókunnum ástæðum skimaði í kringum mig og uppgötvaði þá að líkneskjan hafði öðlast líf. Hún opinberaði mér nokkur persónuleg málefni áhrærandi vini mína og dróg athygli mína að þeirri staðreynd, að ég hefði ekki gert það sem hún hafði beðið mig um að gera. Síðan sagði hún við mig: „Ég vil að þú skrifir skilaboðin sem ég bar þér í Medjugorje niður áður en þú gleymir þeim. Ég vil að þú farir síðan til biskupsins til að fá staðfestingu á þeim.“ Ég hugsaði svo með sjálfum mér: „Ef það sem hún sagi mér hvað áhrærir vini mína er rétt, þá ætla ég að festa skilaboðin á blað.“ Ég talaði við vini mína um það sem Meyjan hafði opinberað mér um þá og allt var þetta sannleikanum samkvæmt. Þannig hafði ég ekkert lengur mér til afsökunar og ég ákvað að festa þetta á blað.

Tveimur vikum síðar fór ég á fund biskupsins (John Joesph Fitzpatrick biskups, sem nú er kominn á eftirlaun, en hann var biskup í Brownsville í Texas). Hann sagði við mig: „Davíð, þessi boðskapur er ekki nýr af nálinni. Þetta er ekki þinn boðskapur og þú átt ekki að halda honum leyndum. Hann er ætlaður öllum heiminum og ég ætla ekki að standa í vegi fyrir því að þú gefir þetta út á prenti. En vertu varkár vegna þess að það eru ekki allir sem munu samþykkja þetta eða skilja. Hér er vissulega ekki um neinskonar kenningarfræðilegar, andlegar eða siðferðilegar villur að ræða.“ (Bróðir Davíð biður okkur að hafa í huga að Fitzpatrick biskup hefur ekki gefið opinbert samþykki sitt hvað áhrærir þessi skilaboð).

Boðskapur hinnar blessuðu Meyjar til bróður Davíðs.

Þú skalt ekki óttast þá þrjá myrku daga sem koma munu yfir heiminn vegna þess að þeir sem lifa til samræmis við boðskap minn um innri bæn munu fá viðvörun frá innri raust þremur dögum og allt að viku áður en þetta gerist.

Börn mín verða að halda áfram að iðrast synda sinna og biðja meira eins og ég hef sagt. Þau eiga að hafa hjá sér vígt vatn, helgigripi og leggja sérstaka rækt við guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú og ætíð láta kertaljós loga frammi fyrir honum.

Þau verða að láta sér nægja að fullnægja frumþörfum lífsins og verða minna háð efnislegum gæðum. Prestarnir verða ekki einungis að hyggja að sínu eigin innra lífi, heldur einnig að leggja rækt við innri bænina meðal sókarbarna sinna. Með sama hætti ættu þeir að forðast alla þá sem tala um byltingu og uppreisn. Þeir sem tala um byltingu og uppreisn eru lærisveinar Antíkrists.

Ég er hrygg vegna reglumeðlima á Vesturlöndum sem lagt hafa til hliðar tákn helgunar sinnar. Satan mun freista þeirra sérstaklega og þeir munu ekki standast andleg og líkamleg áhlaup hans. Þeir verða að hverfa að nýju að lífi í helgun og hlýðni við Son minn, Krist.

Óttist ekkert eða neinn. Verið gagntekin af elsku Guð með bæn, lestri heilagrar Ritningar og meðtöku sakramentanna. Ég mun vera hjá ykkur á tímum angistarinnar og börn mín geta ákallað mig um örugga vernd. Þeir sem berjast við að sigrast á siendurtekinni persónulegri synd eiga ekki að örvænta vegna þess að Guð mun horfa til þess að þeir þrá og leitast við að sigrast á syndum sínum. Farðu í Guðs friði.

Frekari boðskapur frá hinni blessuðu Mey

Meðan þessir þrír myrku dagar ganga yfir verður ekki einn einasti djöfull eftir í víti. Allir verða þeir á jörðinni. Þessir þrír dagar verða svo myrkir, að við komum ekki auga á hendur okkar fyrir ásjónum okkar.

Á þessum dögum munu þeir deyja sem lifa ekki á stigi náðarinnar sökum ótta við þá skelfilegu djöfla sem þeir munu sjá. Meyjan bað mig um að öllum dyrum og gluggum yrði læst og og ekki ætti undir neinum kringumstæðum að svara einhverjum sem kallaði að utan. Mesta freistingin sem mætir okkur felst í því að djöflarnir muna líkja eftir röddum ástvina okkar. Hún sagði við mig: „Þú skalt ekki gefa slíku nokkurn gaum vegna þess að þetta eru ekki ástvinir þínir. Þetta eru djöflar sem eru að reyna að lokka þig út.“

Hvað áhrærir þann stað þar sem ég bý. Í upphafi hinna þriggja daga mun fólk reyna að komast yfir Rio Grande, en það getur það ekki gert vegna þess að það getur ekki séð frá sér og mun drukkna. Það verður svo hrætt að það mun drepa hvort annað og þannig deyja í synd.

Meyjan sagði mér að Guð hefði útvalið fólk sem verða mun að píslarvottum í upphafi hinna þriggju myrku daga. En það skyldi ekki vera óttaslegið vegna þess að Guð myndi gefa því þolgæði og eftir píslarvættið kæmu englarnir og tæki líkama þess og sál og bæru til himna.

Hún lagði á það ríka áherslu að við bæðum Drottin um að þessir dagar kæmu ekki að vetrarlagi og að konum væru ekki vanfærar vegna þess að ef þetta gerðist að vetrarlagi yrði nístingskalt og ekki um neina húshitun að ræða. Konur sem væru komnar að því að ala börn myndu ekki fá neina læknisaðstoð.

Hún gaf mér tvær náðargjafir sem ég get ekki greint frá. Hún sagði við mig: „Fólk ætti ekki að reyna að leita að táknum og ekki kasta tímanum á glæ með því að reyna að reika út tímann.“ Hún sagði mér þetta vegna þess að hún sagði að það væri kominn maður fram á sjónarsviðið sem segði fyrir um nákvæman tíma þessara þriggja myrku daga. Þegar ég innti Meyjuna eftir þessum spádómi, þá sagði hún: „Vertu á varðbergi gagnvart þeim sem koma með nákvæm tímamörk.“ Við ættum ekki að leiða hugann að tímasetningum. Ef við vissum nákvæmlega um tímann myndi fólk einungis bíða þessa dags en ekki iðrast sökum elsku til Guðs.

Hún sagði mér að tímaskeið myrkursins yrði nákvæmlega 72 stundir og einungis væri unnt að mæla það með mekanískum klukkum vegna þess að ekkert rafmagn yrði í boði.

Eftir þessa hreinsum kæmi vor. Allt verður iðjagrænt og allt verður hreint. Vatnið verður kristalstært, jafnvel í lögnum frá húsum. Vatnsmengun yrði engin, fremur en í andrúmsloftinu eða fljótunum. Það fegursta við þetta allt saman fælist í því að fólk myndi lífa af gæðum landsins og þyrfti ekki að vinna til að komast af, heldur sökum gagnkvæmrar elsku og samhjálpar.

Mikilvægasti þáttur þess að stuðla að þessari breytingu er að iðrast og lifa kærleiksríku lífi í dag. Lifið á stigi náðarinnar. Það er afar mikilvægt að mynda samfélög samstöðu þar sem þið getið notið stuðnings bræðra ykkar. Hinir myrku dagar eiga eftir að verða afar þungbærir fyrir einstætt fólk og fyrir foreldra sem eiga uppkomin börn vegna þess að þeim munu berast raddir þeirra að utan.

Foreldrar, einkum feðurnir, verða að kenna sonum sínum og dætrum að biðja. Meðan á myrkrinu stendur munu bænir barna gera kraftaverk.

Skilaboð sem beint er til presta

Ég vil bæta við skilaboðum til presta. Þeim er falin sú skylda á herðar að greina sóknarbörnum sínum frá þessum atburði, að styrkja þau og fá þau til að iðrast og segja þeim að vera ekki óttaslegin. Þeim er falið að láta þessi boð berast og ekki óttast að greina frá þeim vegna þess að þessi boðskapur hefur verið opinberaður mörgu heilögu fólki og við megum ekki glata neinum tíma með því að hirða ekkert um þau. Þeir ættu að leggja áherslu á að uppfræða fólki í því að iðrast og ákalla Heilagan Anda. Þeir ættu einnig að kenna fólki að vera ekki upptekið af efnislegum hlutum, peningum, völdum, vinnu og þess háttar, sökum þess að slíkt er þess ekki virði.

Með sama hætti ættu þeir að predika hvernig undirbúa á sig fyrir dauðann. Það er mikilvægt að predika fyrir mönnum hina hinstu stund: Dauðann, dóminn og víti. Predikið með opnum hætti um syndina, einkum dauðasyndina og þann dauða sem hún hefur í för með sér.

Drottinn kýs að við snúum til baka af elsku, en ef nauðsynlegt er, sökum ótta við refsingu. Hann mun ávallt viðurkenna afturhvarfið og taka á móti okkar vegna þess að hann elskar okkur og þráir að við frelsumst. Hvort sem það svo er af elsku eða ótta, þá er það eina sem skiptir máli að við gefumst honum. Prestum ber skylda að leiðbeina fólki, einkum með því að gefa fordæmi með eigin lífi og helga sig Kristi að fullu og öllu.

Táknið mikla sem birtist á undan þrengingunum

Fyrir þrenginguna miklu verður gefið tákn. Við munum sjá mikinn og rauðan kross á himnum á heiðskírum degi. Rauði liturinn táknar blóð Krists sem endurleysti okkur og blóð píslarvottanna sem Guð hefur útvalið á dögunum myrku. Allir munu sjá þennan kross: Kristnir menn, heiðingjar, guðleysingjar og þeir sem hafa verið undirbúnir (með þessu er ekki einungis átt við Kristna menn vegna þess að það fólk er að finna sem aldrei hefur heyrt fagnaðarerindið, heldur þá sem heyra raust Guðs í helgidómi samviskunnar) og Guð mun leiða á Krists vegum. Þeir munu öðlast náð til að skilja merkingu krossins.

[1] Wayne Weible er blaðamaður og fyrrum sunnudagaskólakennari í Lútersku kirkjunni sem snérist til kaþólskrar trúar eftir heimsókn til Medjugorje. Hann kemst svo að orði: „Köllun mín var að útbreiða fagnaðarerindi Jesú Krists sem ég finn að er kjarni boðskapar Guðsmóðurinnar í Medjugorje.
[2]. Herbert, Albert J., The Three Days' Darkness, A.J. Herbert, S.M., P.O. Box 309, Paulina, LA 70763, 1994.

Næst: 5. Opinberanir þeirra Anna-Maria Taigi og Marie Julie Jahenny frá La Fraudais

No feedback yet