« Stef úr hljómkviðu þagnar næturvökunnarRitningarlesturinn 1. nóvember 2006 »

01.11.06

  09:10:27, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1729 orð  
Flokkur: Hinir þrír myrku dagar

Hinir þrír myrku dagar (2)

2. Hinir þrír myrku dagar í Ritningunni.

Í einni hugvekja sinna kemst heil. Jóhannes Chrysostomos svo að orði: „Það er auðveldara fyrir sólina að gefa ekki frá sér yl og ljós, en að ljósið streymi ekki frá kristnum einstaklingi. [1] Það er þetta sem Guð vill leiða okkur fyrir sjónir með myrkri hinna þriggja myrku daga: LÍFSHATUR DAUÐAMENNINGAR BARNAMORÐANNA MIKLU þar sem sakramenti dauðans leysir sakramenti elskunnar eða Evkaristíuna af hólmi. Glæpir veraldarhyggjunnar eru því orðnir miklir því að hún hefur iðkað mannfórnir sínar til Móloks af þvílíkum ofsa, að mannfórnir hinna fornu Fönikíumanna blikna gagnvart þessari kosmísku illsku. Okkur er ætlað það hlutverk á endatímanum að skína sem ljós í heiminum til að miðla öðrum af ljósinu: „Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því“ (Jh 1. 5). Og þetta ljós er lífið (Jh 1. 4) sem veraldarhyggjan hafnar. EN LJÓSIÐ VERÐUR AÐ SKÍNA ÞÓ AÐ ÞVÍ VERÐI HAFNAÐ! ÞANNIG GETUR SATAN EKKI ÁSAKAÐ GUÐ (sjá Job 1. 6-12).

Guð hatar einnig þessa kosmísku illsku og hyggst eyða henni af yfirborði jarðarinnar og endurnýja ásjónu hennar: „Þú sendir út Anda þinn . . . og þú endurnýjar ásjónu jarðar“ (Sl 104. 30). Við getum sagt með fullum rétti að hinir þrír myrku dagar séu boðberar nýrrar sköpunar! Hljómar þetta ekki eins og hver önnur öfugmæli? Ekki í ljósi orða Jóhannesar Páls páfa II:

„Kristin hugmyndafræði sá óhjákvæmilega samband á milli upprisunnar sem átti sér stað á „fyrsta degi vikunnar“ við fyrsta dag hinnar alheimslegu viku (sjá 1M 1. 15) í Sköpunarsögunni. Þetta samhengi glæddi skilning á upprisunni sem upphafi nýrrar sköpunar, en frumávöxtur hennar er hinn dýrlegi Kristur, „frumburður allrar sköpunar“ (Kol 1. 15) og „frumburðurinn frá hinum dauðu“ (Kol 1. 18).“ [2]

Við getum þannig með fullum rétti litið á kirkjusöguna sem vöxt líkama Krists í VIKU DROTTINS, þess líkama sem hann lítur á sem sinn eiginn líkama (P 9. 6) og í því ljósi skírskota hinir þrír myrku dagar til daganna þriggja sem Kristur dvaldi í grafhýsinu fyrir upprisuna. Kirkjan býður í eftirvæntingu eftir hinni Nýju Hvítasunnu, en það eru ekki allir sem deila með henni þessari sýn, það er að segja þeir sem hafna samfélagi hennar sem samfélags hinna heilögu sem grundvallast á uppfyllingu kærleiksboðanna tveggja, eða með orðum heil. Katrínar frá Síena:

Þar sem þær hafa lifað í elsku til mín og á náungum sínum eru þær sameinaðar í elskunni. Þær fagna og gleðjast og eiga hlutdeild í gæðum hverrar annarrar í ástúð elskunnar og auk þess í þeim alheimslegu gæðum sem þær verða allar aðnjótandi saman. Og hinir heilögu fagna og gleðjast með englunum í samfélagi við þá. Þeir eiga sérstakt samfélag við þá sem þeir elskuðu af sérstakri ástúð í heiminum. Í þessari ástúð tóku þeir út vöxt í náðinni og dyggðunum og sérhver þeirra og einn var tilefni fyrir aðra til að opinbera dýrð og vegsemd nafns míns. Í lífi sem varir að eilífu hafa þeir ekki glatað elsku sinni heldur er hún þeirra enn. Sú sæla sem þeir njóta sökum hamingju annarra eykur þeirra eigin hamingju enn frekar í enn ríkara mæli. [3]

Þeir sem lifa í líkama hinnar stríðandi kirkju á jörðu í dag uppfylla það sem enn vantar á þjáningar Kristslíkamans eða með orðum Páls postula: „Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna. Það, sem enn vantar á þjáningar Krists, uppfylli ég með líkamlegum þjáningum mínum til heilla fyrir líkama hans, sem er kirkjan“ (1Kól 1. 24). Kirkjan gengur í gegnum þrengingar í heiminum, þrengingar sem aukist hafa í sífellu frá því á tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar og þessar þrengingar eiga eftir að aukast enn frekar. Þegar eru stjórnvöld í síðkristnum eða nýheiðnum löndum tekin að setja lög sem skerða frelsi kristinna manna til tjáningarfrelsis (Kanada). Þetta á eftir að breiðast enn frekar út um hinn síðkristna heim. Drottinn okkar og Endurlausnari sá þessar þrengingar fyrir:

„Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða. Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma“ (Mt 24. 12-14).

Nú er fagnaðarerindi Krists prédikað um alla heimsbyggðina og kærleikur fjölmargra hefur kólnað. Þrengingarnar eru þegar hafnar:

En þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli“ (Mt 24. 29-31).

Og Kristur bætir við okkur til varnaðar að halda vöku okkar og biðja. Fjölmargir sértrúarsöfnuðir hafa boðað og boða ákveðna stund heimsslitanna miklu, en slíkt fær ekki staðist í ljósi ummæla Krists:

„En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né Sonurinn, enginn nema Faðirinn einn. Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins. Þá verða tveir á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. Tvær munu mala á kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi“ (Mt 24. 36-44).

Það eina sem við vitum er að við erum stödd á endatímanum eins og Guðsmóðirin hefur boðað okkur í Fatíma og ótal öðrum opinberunum síðustu áratugina. Hún hefur einnig margendurtekið að heilagur Sonur hennar og hinn himneski Faðir vilja ekki að nein sál glatist að eilífu og því ríkir enn náðartími til iðrunar og afturhvarfs. Heilög Ritning sagði þegar fyrir um þessa tíma í spádómsbók Jóels spámanns. Hann talar um svartnættið í heiminum áður en hinn skelfilegi dagur Drottins kemur:

„Og ég mun láta tákn verða á himni og á jörðu: blóð, eld og reykjarstróka. Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. Og hver sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast“ (Jóel 3. 3-5) [4]


Þessi orð eru endurtekin í Postulasögunni 2. 19-20. Og enn sem komið er hefur „sólin ekki sortnað og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar hafa ekki enn hrapa af himni né kraftar himnanna bifast“ (sjá Mt 24. 29). Í Annarri Mósebók lesum við: „Því næst sagði Drottinn við Móse: „Rétt hönd þína til himins, og skal þá koma þreifandi myrkur yfir allt Egyptaland.“ Móse rétti þá hönd sína til himins, og varð þá niðamyrkur í öllu Egyptalandi í þrjá daga. Enginn sá annan, og enginn hreyfði sig, þaðan sem hann var staddur, í þrjá daga, en bjart var hjá öllum Ísraelsmönnum, í híbýlum þeirra“ (2M 2. 21-22).

Þetta er það sem Ritningin boðar okkur:

(1). Algjört myrkur í öllum heiminum í þrjá daga (2M 10. 22).
(2). Það verður nístingskalt (Jóel 3. 3).
(3). Sólin sortnar og tunglið hættir að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. (Mt 24. 29).
(4). Tákn verða á himni og á jörðu: blóð, eldur og reykjarstrókar. (Jóel 3. 3).
(5). Í svartnættinu mun verða ljós hjá hinum trúuðu: En bjart var hjá öllum Ísraelsmönnum, í híbýlum þeirra“ (2M 2. 22).

Þessi sannleikur hefur jafnframt opinberast hinum heilögu kirkjunnar af sívaxandi þunga allt frá því á tólftu öld. Við skulum nú sjá í hverju þessi innsýn sem Guði hefur þóknast að gefa hinum heilögu inn í ráðsályktun sína. Þetta er ekki birt til að vekja skelfingu, heldur er tilgangurinn sá að hvetja fólk til að „koma málunum á hreint“ frammi fyrir Drottni allsherjar áður en það verður um seinan. Sannkristinn einstaklingur þarf ekki að óttast þann sem líkamann deyðir, heldur þann sem deyðir sálina:

„Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt. Það sem ég segi yður í myrkri, skuluð þér tala í birtu, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér kunngjöra á þökum uppi. Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti. Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar Föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar“ (Mt 10. 26-31).

[1]. Hugvekja 20 um Postulasöguna.
[2]. „Dies Domini,“ §24.
[3]. Samræðurnar, 41. kafli.
[4]. Jóelsbók er spádómssýn Gamla sáttmálans á heimslitunum miklu sem dregur upp fyrir okkur mynd af Jesú sem Endurlausnaranum sem úthella mun Anda sínum yfir þjóðirnar við endurkomu sína til jarðar (Jóel 3. 1).

3. Opinberun heil. Padre Píós af hinum þremur myrku dögum frá árinu 1949.  

No feedback yet