« Ritningarlesturinn 31. október 2006Ritningarlesturinn 30. október 2006 »

30.10.06

  16:30:13, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2285 orð  
Flokkur: Hinir þrír myrku dagar

Hinir þrír myrku dagar (1)

1. Um tákn Guðs á himinhvelfingunni
Eftir sólarundrið í Fatíma þann 13. október árið 1917 sem 70.000 manns urðu vitni að og greint var frá í fjölmörgum dagblöðum á sínum tíma reynist nútímamanninum ekki eins erfitt að trúa því, að Guð geti í raun og veru gripið til kraftaverka til að koma boðskap sínum á framfæri við mannkynið þegar mikið liggur við.

Við skulum hlýða á brot úr lýsingu portúgalska prófessorsins Almeida Garetts af atburðinum:

Þegar ég leit til sólarinnar veitti ég því athygli að allt var orðið myrkvað. Í fyrstu leit ég til þess sem stóð mér næst og horfði síðan fjær mér allt að sjóndeiladarhringnum. Ég veitti því athygli að allt bar nú lit ameþýstssteins. Hlutirnir í kringum mig, himininn og sjálft loftið bar allt sama lit. Allt sem var nærri og fjærri hafði breyst og leit út eins og gamalt og gulnað klæði (damask). Fólkið leit út eins og það væri með gulu og ég minnist þess að það vakti með mér kátínu að sjá það líta svona skringilega og fráhrindandi út. Hendur mínar báru sama lit.

Þá barst mér skyndilega til eyrna angistaróp frá fólksmergðinni. Sólin sem snérist leifturhratt virtist allt í einu rífa sig lausa af himnhvelfingunni og koma nær okkur blóðrauð og ógnvekjandi til jarðar og ætla að kremja okkur með stærð sinni og þyngd. Andrúmsloftið á þessu andartaki var svo sannarlega ógnvekjandi.

Allt þetta fyrirbrigði sem ég hef lýst horfði ég á rólegur og í fullkomnu jafnvægi án nokkurra tilfinningasveiflna. Það er annarra að túlka þetta og varpa ljósi á það. Að lokum verð ég að koma því á framfæri að aldrei áður eða eftir þennan 13. dag októbermánaðar (1917) hef ég séð neitt svipað sólarfyrirbrigði á himnum. [1]

Annað loftfyrirbrigði sem tengdist atburðunum í Fatíma var það sem Guðsmóðirin sagði fyrir um sem fyrirboða Annarrar heimstyrjaldarinnar. Þann 25. janúar 1938 mátti sjá þetta ljós víða yfir Evrópu (og í Norðurameríku) milli kl. 18:30 til 21:30 og þann 12. mars réðust síðan herir nasista inn í Austurríki sem margir telja hafa markað upphaf Annarrar heimstyrjaldarinnar. [2] Ég hafði samband við Veðurstofu Íslands og spurðist fyrir um veðurfarið yfir Íslandi þetta sama kvöld. Frekar þungbúið var um allt land, í Reykjavík var skýjað og vindur af vest-norðvestan og 0 stiga hiti. Á Austurlandi var kaldara og þungbúið síðdegis, þannig að þetta loftfyrirbrigði virðist hafa farið fram hjá Íslendingum, alltént er þess ekki getið í dagblöðum dagana á eftir.

Loftsýnin í Fatíma sem einnig má segja um síðari sýnina var hvatning til iðrunar, að fólk iðraðist áður en drægi til ógnvænlegra atburða á jörðinni. Við finnum fjölmörg dæmi um loftsýnir og fyrirbrigði í Biblíunni. Minnast má á það þegar sólin stóð kyrr og tunglið staðnaði (Js 10. 13), sólin verður að sjödægrasól (Jes 30. 26); að sólin gangi til baka (Jes 38. 6); gangi ekki til viðar (Jes 60. 20); myrkvast (Esk 32. 7; Jóel 2. 10, 31; 3. 15); gangi til viðar á hádegi (Am 8. 9); standi kyrr (Hab 3. 11); að eftir þrengingarnar muni sólin sortna og tunglið hætta að skína (Mt 24. 29; Mk 13. 24); að tákn verði á sólu (Lk 21. 25) og að hún missi birtu sína (Lk 23. 45) og loks að „sólin snúist í myrkur og tunglið í blóð, áður en dagur Drottins kemur“ (P 2. 20).

Í Lúkasarguðspallinu er vikið að hinu sex stunda myrkri sem huldi heimsbyggðina við krossfestingu Krists (vers 45). Sumir hafa afneitað þessari frásögn eins og svo mörgu í Ritningunni sem hverri annarri bábilju, enn aðrir reynt að útskýra þetta sem staðbundinn sólmyrkva. Þetta fæst að sjálfsögðu ekki staðist vegna þess að sólmyrkvi varir einungis í nokkrar mínútur. Auk þess á sólmyrkvi sér stað á nýju tungli þegar tunglið er á milli jarðar og sólar. En krossfestingin átti sér stað á fullu tungli þegar tunglið er gagnstætt sólu, eða á 14. degi tunglmánaðar Gyðinga, það er að segja á aðfangadag páska.

Fjölmargir standa jafnframt í þeirri trú að það hafi einungis verið Palestína sem var hulin myrkrinu. Svo vel vill til að við höfum undir höndum frásögn heiðins sagnfræðings, Grikkjans Flegonar, sem víkur að þessari myrkvun með eftirfarandi orðum: „Á fjórða ári 202. Olympíuleikanna átti sér stað meiri og mun sérstæðari sólmyrkvi en hafði nokkru sinni áður gerst. Á sjöttu stundu umbreyttist dagsbirtan í næturmyrkur þannig að stjörnurnar birtust á himnum.“ [2] Hann skrifaði ekki í Júdeu og Orígenes (185-254) vitnar í orð hans í skrifum sínum „Gegn Celsíusi.“ Og í bréfi sínu til Polykarpusar í Smyrnu (um 69-156) segist Díonysíus hafa séð sjálfur með eigin augum þennan skelfilega sólmyrkva í Helíopolis í Egyptalandi. Lúcían píslarvottur (um 240-312) komst svo að orði um þennan atburð: „Líttu í annála okkar og þú munt komast að raun um að á tímum Pílatusar hvarf sólin og dagurinn umbreyttist í myrkur.“ Rúfínus vitnar í þessi orð hl. Lúcíans í Kirkjusögu Eusebíusar sem hann þýddi sjálfur á latínu. Í riti sínu „Apologeticon“ talar Tertullían um alla jörðina og það gerir Páll Orosíus einnig í söguriti sínu, en ekki einungis í Júdeu.

Í hinu stórathyglisverða riti sínu „Sjö orð Krists á krossinum“ kemst hl. Róbert Bellarmine kardínáli (1542-1621) svo að orði:

Fyrr á tímum höfðu menn í illsku sinni til siðs að þjaka, ofsækja og deyða góða menn. Nú hafa guðlausir menn dirfst að ofsækja og krossfesta sjálfan Guð sem íklæðst hafði okkar mennska eðli. Áður deildu menn sín á milli, deilurnar leiddu til heityrðinga og þær ólu hins vegar af sér blóðsúthellingar og morð. Nú hafa þjónar og þrælar risið upp gegn Konungi manna og engla og neglt hann á kross af fáheyrðri illsku. Þar af leiðandi er öll veröldin gagntekin hryllingi og til að sýna andúð sína á slíkum glæp, hefur sólin dregið geisla sína til baka og hulið heiminn í skelfilegu myrki.“ [4].

Nokkru fyrr vék Bellarmine kardínáli að því að myrkrið hafi mátt rekja til andlegrar blindu Gyðinga og Rómverja. Við finnum annað dæmi um slíkt myrkur í heilagri Ritningu í svartnætti hinna þriggja myrku daga í Annarri Mósebók eða níundu plágunni sem gekk yfir Egyptaland (2M 10. 22-23). Hebrear lifðu undir þrældómsoki Egyptanna með tvenns konar hætti, bæði sem efnislegri ánauð og frelsissviptingu, en ekki síður undir andlegu kúgunarvaldi heiðinnar prestastéttar og musterisvalds. Guð leiddi þeim þetta kúgunarvald fyrir sjónum með myrkri hinnar níundu plágu. Og hann leysti þá undan því þegar engill Drottins fór um landið og hóf á loft réttlætisverð Guðs Föður og deyddi íbúa landsins, en gekk hjá heimilum Hebreanna vegna þess að dyrastafir þeirra voru markaðir blóði, en blóðið er tákn lífsins. Fáir hafa lýst þessu andlega ánauðaroki betur en heil. Jóhannes af Krossi:

Ó, andlega sál! Þurrkaðu af þér dustið, stráin og saurgunina og hreinsaðu augu þín og hin skæra sól mun uppljóma þig og þú munt sjá skírt. Kyrrðu sál þína, dragðu hana út og frelsaðu hana undan þrældómsoki eigin vanmáttar sem er þrældómsok Egyptanna sem felur ekkert annað í sér en að safna saman stráum fyrir múrsteinagerðina (2M 5. 17-19). Og þú, andlegi meistari, beindu henni til hins fyrirheitna lands sem flýtur í mjólk og hunangi (2M 3. 8, 17). Sjá að sökum þessa heilaga frelsis og aðgerðarleysi Guðs barna kallar hann sálina til eyðimerkurinnar þar sem hún ferðast um í skrúðklæðum skrýdd gulli og silfursmeltum eðalsteinum vegna þess að nú hefur hún yfirgefið Egyptaland og verið svipt auðæfum sem felast í hinu skynræna sviði (2M 32. 2-3). En ekki einungis þetta heldur hefur Egyptunum verið drekkt í hafi ásæisins (2M 14. 27-28) þar sem Egyptar skynhrifanna drukkna vegna þess að þeir hafa ekkert fast land undir fótum og þannig öðlast börn Guðs frelsi. [5]

Þessi orð varpa ágætu ljósi á andlegri blindu veraldarhyggju (secularism) nútímans sem er sárþjáð af sama ánauðaroki og Hebrearnir til forna með guðsafneitun sinni. Í þessu sambandi hefur bandaríski biskupinn Thomas Doran [6] talað um hin sjö sakramenti veraldarhyggjunnar sem afskræmingu sakramenta heilagrar kirkju, það er að segja: „fósturdeyðingar, kynvillu, getnaðarvarnir, hjónaskilnaði, líknarmorð, róttækan femínisma [7] og tilraunir á fósturvísum og drápum á þeim.

SAKRAMENTI DAUÐANS er það sem sett hefur mark sitt á veraldarhyggjuna á s. l. tveimur áratugum þegar einn milljarður barna – eða einn þriðji allra fæddra barna heimsins – hefur verið myrtur með köldu blóði og fórnað Mólok. Þannig er hún sannkölluð DAUÐAMENNING. Englar þessara smælingja og okkar minnstu bræðra á himnum hrópa nú á guðdómlegt réttlæti sökum alls þess blóðs sem úthellt hefur verið. Einn þáttur veraldarhyggjunnar hefur falist í því að þrengja mjög að kristnum siðagildum eða hafna þeim fyrir fullt og allt með beinum lagasetningum og er Ísland hér engin undantekning á. Það er að þessum þrengingum sem Drottinn víkur að í guðspjöllunum:

En þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi (Mt 24. 9-31).

Við skulum nú íhuga þessi orð nánar. Í fyrsta lagi eins og þessi sannleikur blasir við sjónum í heil. Ritningu, því næst eins og hann hefur opinberast hinum heilögu kirkjunnar og loks víkja að kenningum kaþólsku kirkjunnar um endatímann og endurkomu Krists. Þetta er okkur nauðsynlegt og gagnlegt vegna þess að eins og Guðsmóðirin sagði í Fatíma, þá lifum við núna á endatímanum. Það er þessi sami sannleikur sem opinberaðist heil. Nilos á Aþosfjalli í upphafi sautjándu aldar:

Allt má rekja þetta til þess að Antíkristur vill koma í stað Drottins og verða stjórnandi alheimsins og hann mun gera kraftaverk og undur. Hann mun einnig gefa vansælum manni öfugsnúna þekkingu þannig að hann mun uppgötva aðferð til þess að menn geti talað saman úr einu heimshorninu til annars. Á þessum tímum munu menn einnig fljúga um loftin eins og fuglarnir og kafa niður í hafdjúpin líkt og fiskar. Og þegar þeim hefur auðnast þetta allt, þá mun þetta ógæfusama fólk verja tíma sínum í munaði án þess að þessar vesælu sálir geri sér ljóst, að þetta eru blekkingar Antíkrists, lögleysingjans! Algóður Guð mun sjá hvernig mannkynið hrapar niður í djúpið og stytta þessa tíma vegna þeirra fáu sem frelsast vegna þess að óvinurinn vill jafnvel leiða hina útvöldu í freistingu, ef slíkt er unnt . . . Þá mun sverð réttlætisins birtast óvænt og deyða siðvillinginn og þjóna hans.

Næst: 2. Hinir þrír myrku dagar í Ritningunni.

[1]. „Novos Documentos de Fatima,“ (Loyala editions, San Paulo, 1984).
[2]. Margir sérfræðingar töldu að hér væri um norðurljós (aurora borealis) að ræða, en á þessum tíma var virkni sólarbletta í lágmarki og í fjölmörgum borgum Evrópu voru slökkvilið kölluð út vegna þess að menn töldu hér vera um elda að ræða.
[3]. Olympíuleikarnir voru haldnir á fjögurra ára fresti og Grikkir gerðu þá síðar að grundvelli tímatals síns. Talið er að sagnfræðingurinn Efórus sem uppi var á fjórðu öld hafi verið upphafsmaður þessa tímatals. Díódorus fullyrti að sólmyrkvi hafi orðið á þriðja ári 117. Olympíuleikanna sem talið er skírskota til sólmyrkvans árið 310 f. Kr. Samkvæmt þessu fóru fyrstu Olympíuleikarnir fram miðsunars árið 776 f. Kr. Þá hefur myrkri sá sem Flegon getur um átt sér stað árið 36. En fræðimönnum kemur ekki saman um hvort ártalið 776 f. Kr. sé nákvæmlega hið rétta, þannig að það getur hlaupið á nokkrum árum til eða frá.
[4]. Sjö orð Krists á krossinum, Önnur bókin.
[5]. Logi lifandi elsku, 3, 38.
[6]. Í grein á New Advent þann 17. ágúst s. l.
[7]. Hér er átt við það afbrigði femínisma sem frú Margaret Sanger og fylgjendur hennar boða sem á rætur sínar að rekja til kenninga Friedrichs Engels um upplausn fjölskyldugilda og óheft kynfrelsi konunnar sem er ein þeirra villna sem Guðsmóðirin varaði við í Fatíma og sagði að villa Rússlands (marxisminn) myndi sýkja Vesturlönd með. Sjá Vefrit Karmels: Glæpurinn gegn mannkyninu – Kynþáttahyggjan og markviss
fækkun jarðarbúa, eftir Paul Jalsevac, bls. 59.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta eru fróðlegar og yfirgripsmiklar athuganir hjá þér, Jón Rafn. Maður þarf að leggjast í góða stúdíu á þessari grein þinni, þegar betra færi gefst til. Á meðan færi ég þér þakkir mínar.

30.10.06 @ 22:17
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Et hoc intilligere, quis hominum dabit homini?
Quis angelus angelo?
Quis angelus homini?
A te peteatur,
In te quaeratur,
Ad te pulsetur,
Sic, sic accipietur, sic invenietur, sic aperietur.

31.10.06 @ 10:29
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Og þetta er evangelium. – En ég mundi hafa orðið Te með stórum staf, þá er þetta augljósara. – Er þetta þinn texti eða annars manns, Jón?

31.10.06 @ 11:52