« Ritningarlesturinn 5. september 2006Ritningarlesturinn 4. september 2006 »

04.09.06

  08:12:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1162 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hinir þrír miklu risar hjartans

Í ritningarlestri dagsins (þann 4. september) er vikið að anda ótta Drottins sem í Septuagintatextanum (sem er hinn opinberi texti kirkjunnar) segir að fylla myndi Drottin, hinn komandi Messías og mannkynsfrelsara. Um hina andana er sagt að þeir myndu hvíla yfir honum, en að andi óttans muni fylla hann. Þetta er ekki sá ótti sem er til samræmis við skilning heimsins. Þetta er ótti elskunnar – að forðast með öllu að særa þann sem hann elskaði: Guð. Þennan sama ótta sjáum við jafnvel að starfi í heilbrigðri og elskuríkri mennskri fjölskyldu þar sem meðlimirnir forðast allt það sem gæti kælt elskuna í garð hvers annars. Þetta er ætíð einkenni elskunnar: AÐ VAXA. Elska sem staðnar er dæmd til að deyja því að eðli elskunnar er að vaxa í sífellu vegna þess að hún er óseðjandi elska. Guð leggur okkur þennan óseðjanleika í brjóst þegar hann skapar okkur til að við fáum notið hans að fullu og öllu vegna þess að Guð er ELSKA (1Jh 4. 18).

Orðið andi vefst fyrir nútímamönnum og þar á meðal ofurfrjálsyndisguðfræðingunum sem vita allt betur en sjálf heil. Ritning og kirkjan. Þeir segja að skilja beri anda með hliðsjón af menntunarstigi fólks á tímum Jesú sem hefði verið afar bágborið, en núna – á okkar tímum – skiljum við þetta allt betur en jafnvel sjálfur Jesús. En ef við skiptum orðinu andi út og setjum orðið „ismi“ í stað þess, lýkst sannleikur guðspjallanna upp fyrir okkur: Nútímamaðurinn skilur merkingu þá sem býr að baki orðsins „ismi.“ Orðið „ismi“ víkur að ákveðnu hugmyndafræðilegu kerfi.

Í þekkingu sinni á Guði nefndu hinir heilögu feður í eyðimörkinni þrjá slíka „isma“ eða anda GLEYMSKU, FÁVISKU OG ÁHUGALEYSI. Ég vék að einum þessara illu anda í skrifum mínum í gær: Fáviskuna sem Drottinn nefndi heimsku (Mk 7. 22). Hún er eitt og hið sama og secularism (veraldarhyggjan). Ekkert orð lýsir atheism (guðsafneitun) betur en gleymskan á Guði. Og í kjölfar hennar kemur svo áhugleysið líkt og þerna hinna tveggja: Einstaklingurinn verður áhugalaus um allt sem áhrærir Guð. Í bréfi til lærisveins síns, Nikulásar, komst abba Jesaja svo að orði:

„Ef þú æskir þess sonur minn að eignast þinn eigin lampa hið innra sem varpar hinu huglæga ljósi andlegrar þekkingar, þannig að þú getir gengið án þess að hrasa í myrkri nótt þessarar aldar og gefa fótum þínum festu Drottins (Sl 38. 23), vegna þess að sá vegur sem guðspjöllin benda á vekja þér mikla gleði, eða með öðrum orðum, ef þú vilt leggja rækt við boðorð Krists af festu og brennandi trú og bæn, ætla ég mér nú að leiða þér fyrir sjónir undursamlega andlega aðferð eða leið til að ná þessu takmarki. Þetta er aðferð sem krefst ekki líkamlegs erfiðis eða áreynslu, heldur andlegrar viðleitni – athygli hugans og hugsananna styrktra í guðsótta.
Með því að styðjast við þessa aðferð auðnast þér ætíð að sigrast á herflokkum óvinarins. Jæja, ef þú vilt sigrast á ástríðunum, skaltu dveljast með þér hið innra í bæn og með Guðs hjálp síga niður í dýpsta djúp hjartans. Þar munt þú uppgötva þrjá mikla risa: Gleymskuna, áhugaleysið og fáviskuna. Hlutverk þeirra er að styrkja þá sem brjótast inn í hugann og bera með sér enn aðrar illar ástríður til að starfa, þrífast og dafna í sálum þeirra sem elska fýsnirnar.
En eftir að þú hefur fundið alla þessa ókunnu og illskeyttu risa með vökulli athygli og einbeitingu hugans – ásamt með hjálp úr hæðum – mun þér ekki reynast torsótt að hrekja þá á brott með bæn og árvekni. Þá munt þú þrá sanna þekkingu vegna þess að þú minnist Orðs Guðs og munt samræma vilja þinn og líf með þetta að leiðarljósi ásamt með athygli þinni og með því að standa stöðugt á verði í hjartanu og vernda það af kostgæfni. Og hinn virki kraftur náðarinnar mun tortíma og uppræta síðustu ummerkjum gleymskunnar, fáviskunnar og áhugaleysisins“ [1].

Spakir að viti voru þeir þessir heilögu feður og þessa speki sína hafa þeir fært okkur, afkomendum sínum, sem heilaga arfleifð og ótæmandi fjársjóð til að vinna úr í baráttu trúarinnar. Nútímamaðurinn hefur orðið að ánauðugum þræl þessara ÞRIGGJA MIKLU RISA HJARTANS. Hversu oft heyrum við ekki að kristindómurinn séu 2000 ára gamlar gyðingasögur sem ekkert mark sé takandi á og trú á slíkt beri vott um menntunarskort. Við skulum taka Postulasöguna sem dæmi hér um. Í guðsafneitun sinni segja þessir „spekingar“ nútímans að ekkert mark sé takandi á slíku bulli og að enginn Heilagur Andi sé til sem úthellt sé yfir menn. Heil. Silúan frá Aþosfjalli kemur mér í huga í þessu sambandi. Hann sagði að ef við værum með einhverjum hætti svipt heil. Ritningum myndi Heilagur Andi rita þær að nýju á hjartaspjöld úr lifandi holdi. Þetta er hann að gera í Kína í dag þar sem kristnum mönnum er ekki heimilt að eiga Biblíuna og sæta þungum refsingum ef hún finnst í fórum þeirra og dæmdir til þungrar fangavistar af hálfu stjórnvalda.

Þá gerir Heilagur Andi einmitt það sem heil, Silún sagði að hann myndi gera: Hann tekur að skrifa Postulasögu hina nýju á hjartaspjöld hinna trúuðu með sama hætti og í frumkirkjunni með undrum og stórmerkjum. Mikill fengur verður að því að fá bókina „Hinn himneski maður“ útgefna á íslensku í vetur. Þökk sé bræðrum okkar og systrum í Hvítasunnuhreyfingunni fyrir framtak sitt. Vafalaust mun þessi bók vekja einhverja Íslendinga af svefni og losa þá undan áhrifavaldi hinna ÞRIGGJA MIKLU RISA HJARTANS.
Látum því bæn okkar vera:

Kom þú, Heilagur Andi,
og send ljósgeisla þinn frá himnum.
Kom þú, faðir fátækra, þú gjafari gæðanna,
og ljós hjartnanna.
Hjálparinn besti, ljúfi gestur sálarinnar,
ljúfa hressing hennar.
Hvíld hennar í erfiði, forsæla í hitum,
huggun í sorgum.
þú blessaða ljós, lát birta til
í hugskoti fylgjenda þinna.
Án þinnar velvildar er maðurinn ekkert,
án þín er ekkert ósaknæmt.
Lauga það sem er saurgað,
vökva það sem er þornað,
græð það sem er í sárum.
Mýktu það sem er stirnað,
vermdu það sem er kólnað,
réttu úr því sem miður fer.
Gef fylgjendum sem treysta þér,
þínar heilögu sjöföldu gjafir.

Amen.

[1] Dobrotolubije – Um óaflátanlega bæn hjartans, bls. 23.

No feedback yet