« Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Heilagir konungar NorðurlandaHinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Konráð frá Parzham »

08.06.07

  18:32:05, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1505 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Norbert frá Magdeburg

(Eftirfarandi grein sem Torfi Ólafsson þýddi úr þýsku birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í júní 2005 og er endurbirt hér með leyfi ritnefndarinnar og þýðandans. (Aths. RGB )

Norbert frá Magdeburg (6. júní)
Norbert, stofnandi Premonstratensareglunnar, fæddist á tímabilinu 1080-85 í Gennep (Hollandi), annar sonur foreldra sinna. Fjölskylda hans tilheyrði aðlinum og hún sá honum fyrir kórsbróðurstöðu við kapítula heilags Viktors í Xanten. Tekjurnar sem hann hafði af þeirri stöðu tryggðu honum að geta lifað því lífi sem aðalsmanni sæmdi. Hann var jafnan velkominn gestur við hirð Friðriks I, erkibiskups í Köln.

Á því varð breyting árið 1115. Sagan greinir frá miklu óveðri sem hafi fengið svo á hann andlega að hann hafi dregið sig í hlé í Siegburg-klaustri og horfið frá hinu fyrra og veraldlega líferni sínu. Árið 1118 lét hann af kórsbróðurstöðu sinni, afsalaði sér tekjum þeim sem henni fylgdu og lét vígjast til prests, þar sem hann hafði fram að því aðeins þegið hinar lægri vígslur. Hann hugðist gerast farandprédikari og fór því á fund Gelasíusar II páfa, til þess að fá hjá honum leyfi til að gerast prédikari.

Norbert varð við þeirri ósk biskupsins í Laon 1121 að stofna í Prémontré nálægt Laon klaustur á grunni hinnar endurbættu reglu heilags Ágústínusar. Líferni það sem hann kaus sér breiddist óðfluga út og oft varð hin endurbætta Premonstratensaregla þeim klausturreglum sem fyrir voru yfirsterkari.

Norbert lagði nú leið sína sem farandprédikari um Frakkland, Belgíu og Þýskaland. Varð honum vel ágengt í Antwerpen í baráttunni við áhangendur Tanchelms sem vísuðu prestdómi og sakramentum á bug. Árið 1126 staðfesti páfinn reglustofnun hans og á því ári var hann vígður erkibiskup í Magdeburg.

Árin 1132 og 1133 fylgdi Norbert Lothari II keisara til Rómar, sem erkikanslari fyrir Ítalíu. Skömmu eftir heimkomu sína veiktist hann og dó 6. júní 1134 í Magdeburg.

Dag einn reið Norbert til þorps í Westfalen sem Freten nefndist. Hneigð hans til hins ljúfa lífs dró hann þangað. Sér til fylgdar hafði hann aðeins einn þjón. Hann var á leiðinni yfir fallegt engi þegar ofviðri skall á. Himinninn þaktist þykkum óveðurskýjum með þrumum og eldingum sem dundu á ferðamanninum. Hann litaðist um en kom hvergi auga á neitt skýli sem hann gæti leitað hælis í, og hann var altekinn ógn og skelfingu. Loks ákvað hann, þrátt fyrir allt, að halda ferð sinni áfram og gaf hesti sínum lausan tauminn til þess að flýta för sinni. Á sömu stundu laust voldugri eldingu með drynjandi þrumuhljóði niður í jörðina rétt framan við hestinn. Hesturinn varð dauðskelkaður og kastaði reiðmanninum af sér og lá hann næstum því klukkutíma á jörðinni eins og dauður væri. Þegar hann kom loksins til sjálfs sín aftur hrópaði hann með beiskju í rómnum: “Drottinn! Hvað vilt þú að ég geri?” Og innri rödd svaraði honum: “Forðastu hið illa og gerðu hið góða, leitaðu friðar og snúðu allri athöfn þinni í áttina til hans.” Þessi atburður, við svo óvenjulegar kringumstæður, hafði mikil áhrif á hann. Og hann beið ekki boðanna en tók þá ákvörðun að bæta með ríkulegri yfirbót fyrir yfirsjónir sínar fram að þessari stundu.

Tveim árum eftir sinnaskipti sín fór hann að búa sig undir heilagar vígslur. Friðrik, erkibiskup í Köln, veitti honum djákna- og prestvígslu sama daginn.

Kalixtus II páfi, sem varð eftirmaður Gelasíusar II á páfastóli árið 1119, hélt stuttu eftir stöðuhækkun sína kirkjuþing í Reims. Þangað lagði Norbert leið sína til þess að fá staðfestingu á valdi sínu. Biskuparnir, sem þar voru saman komnir og undruðust vilja, visku og guðrækni þessa þjóns Guðs, voru svo forviða yfir hinni ströngu yfirbót hans, að þeir réðu honum margir til að þyrma sjálfum sér meira. Norbert taldi þó að hann þyrfti ekki að fara eftir þessum ráðleggingum og dró ekkert úr strangleika lifnaðarhátta sinna. Bartólómeus, biskup í Laon, kynnti hann fyrir páfanum sem staðfesti öll þau réttindi sem Gelasíus II hafði veitt honum.

Bartólómeus, sem þekkti verðleika Norberts, krafðist þess af páfanum að hann mætti hafa Norbert í biskupsdæmi sínu svo að hann gæti komið á betri reglu hjá almennum kórsbræðrum heilags Marteins í Laon, en þeir vildu ekki ganga að þeim kröfum sem gerðar höfðu verið til þeirra. Biskupi var kunnugt um atorku Norberts og vildi fá honum verkefni sem honum væri samboðið. Bað hann því Norbert að velja sér einhvern stað í biskupsdæminu þar sem hann gæti byggt klaustur. Norbert valdi sér til þess eyðidal sem nefndist Prémontré (Prämonstrat) í Coucy-skógi. Þar fann hann litla kapellu, helgaða heilögum Jóhannesi, sem var orðin svo hrörleg að hún minnti helst á ruslahaug. Hún hafði verið í eigu munka af reglu heilags Vinsentíusar í Laon sem höfðu þá fyrir löngu yfirgefið hana. Bartólómeus keypti þennan eyðistað og kom þar á laggirnar klaustri. Norbert fluttist í fyrstu í nýju klausturbygginguna með þrettán nemendum sínum frá Brabant sem vildu lifa undir stjórn hans. Þeim fjölgaði brátt og innan skamms voru reglubræðurnir orðnir fjörutíu. Þeir unnu svo klausturheit sín á jólunum 1121. Og þannig hófst saga nýju reglunnar sem eiginlega var aðeins endurbætt regla hinna almennu kórsbræðra. Premonstratensar lifðu ströngu lífi samkvæmt reglu heilags Ágústínusar og klæddust hvítum kuflum sem áttu að gefa til kynna að
hlutverk þeirra hér á jörðu væri að gegna störfum engla og lofsyngja
Drottni.

Nýja reglan stækkaði dag frá degi og ávann sér álit. Þeim mönnum fjölgaði óðum sem vildu ganga í þjónustu Guðs svo að á skömmum tíma var kominn til sögunnar fjöldi klaustra sem stóðu með miklum blóma. Norbert fór í ferðalög um Frakkland, Flandern og Þýskaland til þess að hvetja presta, söfnuði og fursta til að verða við köllun um að boða orð Guðs og koma á fót klaustrum. Í tilkynningunni um staðfestingu Premonstratensareglunnar (sem fyrst var kölluð Norbertínareglan) sem Honoríus II gaf út árið 1126, voru nefnd átta klaustur: Prémonstré, Laon, Viviers, Floreffe í Lüttich-biskupsdæmi, Cappenberg í Westfalen, Elostadt í Mainz-biskupsdæmi, St. Annalis í Metz-biskupsdæmi og St. Michael í Antwerpen. Árið 1141 voru Premonstratensaklaustin orðin 100 og á 15. öld yfir 1000. Prófastdæmin voru þá 300 og nunnuklaustrin 500. Norbert hafði nefnilega, með stuðningi og hvatningu vinar síns, heilags Bernharðs, komið á laggirnar nunnureglu samkvæmt hinum ströngu reglum heilags Ágústínusar, og þrátt fyrir strangleika í klausturlífinu var aðsóknin svo mikil að á æviferli heilags Norberts voru yfir 10.000 konur og meyjar, aðallega úr tignum og ríkum fjölskyldum, gengnar í hina nýju reglu.

Norbert fór í erindum Theobalds greifa í Champagne í heimsókn til Lothars II keisara sem hélt þá ríkisþing í Speyer. Þingmenn frá Saxlandi heyrðu Norbert prédika og óskuðu að fá hann sem erkibiskup til Magdeburg. Norbert færðist undan þeirri stöðuhækkun sakir auðmýktar sinnar. Hann varð þó loks að láta undan þrýstingi Gerhards sendiherra kardínálans og Lothars konungs. Hann hélt síðan berfættur og fátæklega búinn til Magdeburg. Þegar skrúðgangan hélt af stað frá kirkjunni til hallar erkibiskupsins, vildi dyravörðurinn, sem var honum ókunnur, ekki hleypa þessum fátæklega klædda aðkomumanni inn. Þegar kunnugri maður hafði frætt hann um sannleikann ætlaði þjónninn að leggja á flótta en Norbert brosti aðeins og kallaði til hans: “Flýðu ekki, bróðir minn. Þú þekkir mig betur en þeir sem neyddu mig, fátækan og umkomulítinn, til þessarar háreistu hallar.”

Það var einkum á 17. og 18. öld sem heiðrun og kynning Norberts breiddist út. Hann er ýmist sýndur í biskupsbúningi eða reglubúningi Premonstratensa (hvítum kufli, með skapúlar og hettu). Hann ber bagal í hendi, þar sem hann var biskup, svo og kaleik eða lýsandi sýniker. Við fætur hans liggur stundum fjötraður púki.

Norbert frá Magdeburg er verndardýrlingur Bæheims, borganna Antwerpen, Magdeburg og Prag og auk þess Premonstratensareglunnar.

Heimild: http://www.vortex.is/catholica/snts.html

No feedback yet