« Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Norbert frá MagdeburgEnn um staðfestingu sambúðar samkynhneigðra »

19.05.07

  09:45:58, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 805 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Konráð frá Parzham

(Eftirfarandi grein sem Torfi Ólafsson þýddi úr þýsku birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í apríl 2005 og er endurbirt hér með leyfi ritnefndarinnar og þýðandans. (Aths. RGB )

Konráð frá Parzham (21. apríl)
Hinn 22. desember 1818 fæddist í Parzham drengur sem nefndur var Jóhann Birndorfer og átti eftir að verða dyravörður í hl. Önnu- klaustrinu í Altötting í Suður-Þýskalandi. Fyrir honum lá að taka við myndarlegum búgarði í Rottal en hann hneigðist til þjónustu við Guð. Altarissakramentið var uppsprettulind og miðpunktur guðrækni hans. Hann gekk langa leið, eins þótt illa viðraði, til þess að geta tekið þátt í messu.

Þegar hann var orðinn 31 árs gamall gerðist hann leikbróðir í Kapúsínareglunni og starfaði í klaustri hennar sem dyravörður í 41 ár. Þjónustuvilji hans og fórnfús kærleikur til pílagríma, fátæklinga og förumanna í iðnaðarstétt virtist vera óþrjótandi. Hann dó 21. apríl 1894 og var lagður til hinstu hvíldar í Kapúsínakirkjunni í Altötting. Árið 1934 var “hinn eilífi dyravörður” tekinn í tölu heilagra.

“Hann Jói í Venusarhofi er engill,” sagði fólkið um Jóhann Birndorfer, son mannsins sem byggði Venusarhofið í Parzham, Weng-sókninni í Suður-Bayern. Og Jói í Venusarhofi var enginn annar en Konráð frá Parzham sem síðar gerðist Kapúsínabróðir.

Heilagleiki hefur alltaf áhrif á aðra. “Við urðum að fara til Jóa í Venusarhofi til að læra að biðja,” sagði fólk í Parzham. Svo mikil áhrif hafði bróðir Konráð haft í æsku sinni á fólkið með fordæmi sínu í bænagerðinni. Ef kirkjudyrnar voru læstar að morgninum þegar hann kom þangað til að biðjast fyrir, kraup hann úti og bað. Við guðsþjónustuna og aðrar langar bænastundir í kirkjunni var hann á að sjá eins og engill. Áhrifin af hinni innilegu guðrækni hans hafa enst fram á okkar daga. Og þessi vandaði drengur gat ekki haft hemil á andstyggð sinni á syndinni. Þegar hann heyrði sagt frá alvarlegum syndum annarra, felldi hann stundum tár, kraup á kné og bað Guð í bænum sínum að fyrirgefa þeim. Þess vegna var oft sagt um hann: “Ef hann verður ekki heilagur, verður það enginn.”

Í klaustrinu var fordæmi bróður Konráðs öllum sem einlæg bæn. Hjartans þrá hans var að lifa einlægu bænalífi, í traustu, innilegu samfélagi við Guð í einveru. En þegar hann var orðinn 41 árs, varð hann að taka að sér dyravörslu í hinu fjölsótta klaustri í Altötting, en það var embætti sem í upphafi gat truflað hann í bænalífinu. En bróður Konráð tókst þrátt fyrir það að sinna þjónustunni eins og Marta með hugarfari Maríu. Fyrir marga sem leituðu til hans varð heilagt fordæmi hans þeim hvatning til þess að betrumbæta líf sitt. Dag einn kom útgrátinn maður til klaustursins til að skrifta. Þegar hann var síðar spurður hvað hefði komið honum til að snúa til betri vegar eftir þessi mörgu ár og sættast við Guð, svaraði hann: “Gamli Kapúsíninn við hliðið horfði þannig á mig að það nísti mig gengum merg og bein.” Yfir ýmsum þeirra mörgu iðnaðarmanna og flakkara sem komu að klausturhliðinu las hann alvarleg og áhrifamikil orð sem voru þó mælt af mikilli vinsemd.

Ekkert gat raskað ró og þolinmæði bróður Konráðs. Óhlýðin börn stríddu honum oft. Einu sinni kastaði ósvífinn betlari fullum súpudiski að fótum hans. Bróðirinn sagði ekki annað en þetta: “Jæja, ef þú vilt ekki þessa skal ég sækja aðra handa þér.” Örlæti hans gekk líka fram af sumum meðbræðrum hans sem fannst rausn hans við fátæklinga ganga of langt, og átöldu þeir hann oft fyrir það, en hann svaraði þeim með því að brosa vingjarnlega til þeirra.

Þegar hann var orðinn 75 ára og grár fyrir hærum, veiktist hann alvarlega. Yfirmaður klaustursins vísaði honum þá inn í klefa sem kallaður var Guðsmóðurklefinn og sagði: “Þú hefur alltaf elskað Guðsmóðurina svo heitt.” Bróðir Konráð ljómaði af fögnuði og settist að í nýja klefanum. En ekki liðu nema þrír dagar þangað til hann kvaddi þetta líf glaður og Guði trúr. Það var 21. apríl 1894, á laugardegi.

Á myndum er Konráð frá Parzham sýndur í brúnum bróðurkufli með sítt, hvítt skegg og kross í hendi.

Heimild: http://www.vortex.is/catholica/snts.html

No feedback yet