« Hvar stöndum við Íslendingar varðandi líðan barna?Samkynhneigð í leikskóla? »

13.02.07

  18:24:06, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1107 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Benedikt frá Aniane

(Eftirfarandi grein sem Torfi Ólafsson þýddi úr þýsku birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í febrúar 2005 og er endurbirt hér með leyfi ritnefndarinnar og þýðandans. (Aths. RGB )

Benedikt frá Aniane (12. febrúar)

Þessi heilagi Benedikt fæddist árið 750. Faðir hans var Aigulf greifi af Maguelone (Suður-Frakklandi) og miðaðist uppeldi hans við að hann gegndi herþjónustu. Henni gegndi hann í hersveitum Pippins litla og Karls mikla, en 774 ákvað hann að gerast munkur.

Fyrstu klausturárum sínum varði hann í Saint Seine-klaustrinu við Dijon, en ekki leið á löngu þangað til hann stofnaði Aniane-klaustrið á arfleifð föður síns, eða 779/80. Undir forustu hans varð það miðpunktur umbóta í öllum Benediktsklaustrum Franka.

Loðvík frómi (guðrækni) skipaði hann yfirmann allra klaustra í Frankaríki og lét lýsa því yfir á ríkisþinginu í Aachen 817 að umbótareglur hans væru bindandi fyrir öll Benediktsklaustur. Heilagur Benedikt dó árið 821 í klaustrinu Kornelimünster nálægt Aachen, sem hann hafði stofnað, að loknu starfsömu lífi.

Á 8. og 9. öld höfðu mörg klaustur reglu heilags Benedikts frá Núrsíu vikið mjög frá upphaflegu líferni vegna hnignunar lifnaðarhátta þeirra tíma og tekið upp lakari siði. Sérstaklega tóku Frankakonungar í sínar hendur forréttindi klaustranna, litu á klausturjarðirnar sem lénsjarðir sínar, slógu eign sinni á tekjur þeirra til þess að verðlauna hraustustu hermenn sína, létu veita sér eða skyldmennum sínum ábótanafnbætur án þess að hafa þegið æðri vígslur munka og þvinguðu oft forstöðumenn klaustranna til herþjónustu og þátttöku í ríkismálefnum. Því fór svo að skrautgirni, heimshyggja og bardagafíkn náðu yfirhöndinni í mörgum klaustrum en í öðrum ríktu hóflaus strangleiki og miskunnarlaus harka. Páfarnir og kirkjuþingin brugðust við slíkri óreglu með því að skipa sérstaka ábóta til eftirlits og til að krefjast þess að í engu væri vikið frá klausturreglunum. Síðan tók keisarinn helgaða staði undir sérstaka vernd sína og setti hverju klaustri verndara sem annaðist veraldleg málefni klaustranna í þeirra nafni. Innri umbætur klausturreglanna annaðist heilagur Benedikt frá Aniane, undir yfirstjórn Loðvíks fróma.

Benedikt var sonur greifans af Maguelone í Languedoc, fæddur árið 750. Hann dvaldist í æsku við hirð Pippins og Karls mikla, en þrátt fyrir virðingarstöðu sína lifði hann mjög út af fyrir sig og mitt í hirðlífinu og herþjónustunni þráði hann líf í kyrrlátum klausturklefa. Óvænt slys hreif hann burt úr veraldlegu lífi. Bróðir hans drukknaði við hliðina á honum og þegar hann ætlaði að koma honum til hjálpar af bróðurlegri fórnfýsi sinni, munaði minnstu að hann gyldi fyrir það með lífi sínu. Þetta slys varð Benedikt svo þungbært að hann fór að ráði guðrækins einsetumanns sem Widmar hét og gekk árið 774 í Benediktsklaustur heilags Sequanusar (Saint Seine) í Búrgund. Innan skamms urðu þó þau reglubrot, sem viðgengust innan klausturs þessa, til þess að hann yfirgaf það nokkru síðar. Hann hélt til heimkynna sinna og stofnaði árið 780 á föðurleifð sinni við ána Aniane hjá Montpellier lítið klaustur, Frelsara heimsins til dýrðar. Sá fyrsti sem helgaði sig leiðsögn hans var Widmar einsetumaður og smám saman söfnuðust til hans um það bil hundrað lærisveinar.

Benedikt og þeir meðbræður hans sem fylgdu skoðunum hans lifðu samkvæmt mjög ströngum lifnaðarháttum, neyttu aðeins vatns og brauðs og voru svo fátækir að þeir notuðu lengi kaleik úr gleri við heilagar messur og nokkur tími leið þangað til þeir höfðu efni á að kaupa kaleik úr tini. Hinn heilagi og fórnfúsi andi reglustofnandans Benedikts var ráðandi í samfélagi klaustursins svo að orðstírinn frá Aniane breiddist óðum út í landinu. Páfinn og Karl mikli keisari fólu honum umbætur í mörgum klaustrum í Gallíu og Aquitaníu. Hann reyndi að temja klausturfólki Frankaríkis og Þýskalands sömu lifnaðarhætti og sameina það eftir reglum heilags Benedikts. Þá sendi hann, samkvæmt óskum margra biskupa, munka úr skóla sínum, venjulega tólf að tölu, í þau klaustur sem slakað höfðu á lifnaðarháttum, til þess að koma á strangari aga og kveikja eldmóð að nýju. Auðséð var að blessun Guðs hvíldi yfir störfum Benedikts. Ferskur keppnisandi og viðleitni til að ná sem lengst í andlegum þroska báru hina fegurstu ávexti.

Árið 794 sat Benedikt þingið í Frankfurt og samdi margar trúvarnargreinar. Menn litu á kröfur hans með virðingu eins og Guð sjálfur hefði talað. Lúðvík frómi konungur kvaddi hann árið 817 til að sitja hið fræga kirkjuþing í Aachen þar sem ábótar frá Þýskalandi og Frakklandi öllu komu saman undir stjórn Benedikts. Þá stofnaði konungurinn klaustrið Kornelimünster við Aachen og skipaði Benedikt ábóta þess, til þess að hafa þennan ágætismann ævinlega nálægt sér. Benedikt stofnaði aftur, undir vernd og með stuðningi konungsins, tólf klaustur sem áttu að vera þeim sem fyrir voru til eftirbreytni. Hann heimsótti öll klaustrin, hvatti munkana til að breyta í anda eftir fyrirmynd reglustofnandans, bætti við þær útskýringum og viðaukum, batt enda á misferli og kom á sama aganum í öllum klaustrum sínum og afnam undanþágur sem veittar höfðu verið í samræmi við staðarvenjur. Þá kom hann skipulagi á afstöðuna milli klaustranna og ríkisins eftir því sem tímar gerðu kröfur til. Þannig varð klausturregla Benedikts frá Aniane enginn eftirbátur hinnar upprunalegu klausturreglu heilags Benedikts frá Núrsíu hvað frægð og útbreiðslu snerti. Þegar hinn andlegi afreksmaður og heilagi ábóti Benedikt hafði með óþreytandi umhyggju útbreitt anda sinn í öllum klaustrum ríkisins og vakið til lífs endurbætt klausturlíf, gekk hann til hinstu hvíldar sem hann hafði óneitanlega unnið til í hinu elskaða klaustri sínu Kornelimünster 11. febrúar 821, þá á 71. aldursári.

Benedikt er oft sýndur á myndum með logandi eld við hlið sér, enda slökkti hann oft á undursamlegan hátt elda sem kviknuðu í námunda við hann.

Heimild: http://www.vortex.is/catholica/snts.html

No feedback yet