« Jón Arason í vitund ÍslendingaHl. Tómas og lögin »

03.11.06

  18:46:14, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1784 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Karl Borromeus

(Eftirfarandi grein sem Torfi Ólafsson þýddi úr þýsku birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í nóvember 2005 og er endurbirt hér með leyfi ritnefndarinnar og þýðandans. (Aths. RGB )

Karl Borromeus (4. nóvember).

Borromeus-fjölskyldan átti miklar jarðeignir við Maggiore-vatnið, var skyld mikilvægustu aðalsfjölskyldum Ítalíu á þeim tímum og margar jarðeignir kirkjunnar voru nytjaðar af meðlimum fjölskyldunnar.

Karl fæddist 2. október 1538 í Arona. Fjölskyldan bar saman ráð sín um hvað drengurinn skyldi verða og varð hún ásátt um að hann skyldi verða prestur. Hann var krúnurakaður tólf ára og látinn klæðast hempu.

Þegar hann var sextán ára var hann sendur í háskólann í Padúa og innritaður í lögfræði. Hann varð doktor í lögfræði 1559 og eftir að frændi hans, Gian Angelo Medici, var kjörinn páfi 1560, voru honum falin mikilvæg embætti í rómversku kúríunni. Samtímis var hann tilnefndur erkibiskup í Mílanó. Árin 1560-1565 gegndi hann störfum sem ríkisritari páfastóls og stjórnaði öllum málefnum ríkis og kirkju út á við. Hann var áhrifamikill varðandi störf og niðurstöður kirkjuþingsins í Trient 1562-63.

Samkvæmt tilskipunum kirkjuþingsins hóf Karl Borromeus umbætur sem snertu allt kirkjulífið. Hann stofnaði prestaskóla og stofnun fyrir efnalitla en vel gefna háskólastúdenta. Auk þess efldi hann hina frægu stofnun og menntaskóla Jesúíta. Flestu kom hann til leiðar í heimsóknum sínum út um sóknirnar. Hann skipulagði heimsóknir út um kirkjuumdæmi sitt sem einnig náði yfir héruð í Sviss. Hann kynnti sér allsstaðar vandlega kirkjulífið og uppbyggingu þess.

Þegar drepsóttin braust út í Mílanó sumarið 1576 og fólk flýði borgina unnvörpum, var Karl Borromeus kyrr og skipulagði umönnun fólksins. Hann lagði til starfsins sínar eigin eigur og safnaði gjöfum til kaupa á lyfjum, fatnaði og matvælum, lét opna sjúkraskýli og stöðvar til neyðarhjálpar og tryggði fólki læknaþjónustu og sálgæslu.
Óþrotlegt starf hans og fullkomin fórnfýsi á tímum drepsóttarinnar, svo og strangt meinlætalíf hans, reyndu um of á krafta hans, svo að hann dó aðeins fjörutíu og sex ára, 3. nóvember 1584. Hann var tekinn í tölu heilagra árið 1610.

Eins og við höfum þegar drepið á hóf heilagur Karl heimsóknir sínar innan biskupsdæmis síns í borginni Mílanó. Ýmis óháð nunnuklaustur vildu ekki taka á móti honum undir því yfirskini að systurnar væru aðeins háðar príórinnu sinni enda settu þær sig upp á móti þeim umbótum sem hann vildi koma til leiðar. Slík höfnun á guðrækilegum fyrirætlunum hans fyllti sál hans djúpum harmi en svipti hann ekki hugrekkinu.

Umbætur á klerkasamkundu dómkirkjunnar í Mílanó voru fyrst gerðar. Inn í guðsþjónustuna höfðu slæðst óleyfilegar breytingar og voru þær lagðar niður. Kanúkunum var nú gert skylt að vera ævinlega viðstaddir kórbænir. Heilagur Karl stofnaði einnig þrjár nýjar stöður. Ein var skipuð guðfræðingi sem átti að prédika á hverjum sunnudegi og flytja tvisvar í viku fyrirlestra um guðfræðileg efni. Önnur var ætluð skriftaföður sem þeir áttu að snúa sér til sem vildu losna undan yfirbótarverkum sem biskupinn hafði lagt á þá og öruggt var að sæktu alltaf skriftir. Sá skriftafaðir hélt vikulega fundi með undirmönnum sínum og hálærðum guðfræðingum og kunnáttumönnum þar sem ráðið var fram úr erfiðum vandamálum sem prestar og aðrir kirkjunnar menn úr biskupsdæminu höfðu lagt fyrir þá. Þriðja staðan var ætluð manni með doktorsgráðu sem fékk heimild til að vanda um við þá kirkjunnar þjóna sem benda þurfti á hvað þeir mættu gera og hvað ekki.

Heimsóknir til þess hluta erkibiskupsdæmisins sem Sviss tilheyrði, hófust í októbermánuði. Það voru þrír dalir, Uri, Schwyz og Unterwalden, því að Mílanó-biskupsdæmi náði upp í Alpafjöll, að Gotthardsberg. Heilagur Karl bað stjórnir þessara héraða að lána sér þingmann til fylgdar um þessar slóðir, til þess að fólki fyndist ekki að hann væri að sýna af sér yfirgang, og gerðu þær það fúslega. Dalir þessir höfðu verið algerlega vanræktir fram að því, þar var allt skipulag í mesta ólestri og prestarnir þar voru ekki síður syndum hlaðnir en almenningur yfirleitt. En yfirhirðirinn lét ekki af kappsemi sinni, hann lét hvorki snjó né vatnsföll fjallanna hindra sig, sigraðist á fjöllum sem talin höfðu verið ókleif og þoldi með gleði kulda, hungur, þorsta og hvers konar erfiði fyrir Jesúm. Hann prédikaði hvar sem hann kom og fræddi fólkið um kristindóminn. Fáfróða og slæma presta svipti hann embættum og fól þau öðrum sem færari voru um fyrir kappsemi sína og þekkingu að koma siðavendni og guðrækni til vegs á ný. Þar sem villukenningar Zwinglis höfðu fest rætur á stöku stað í biskupsdæmi hans, leitaðist hann ekki aðeins við að sætta við kirkjuna þá sem villst höfðu af réttri leið, heldur yfirgaf þá ekki fyrr en hann hafði fjarlægt með viturlegum fortölum alla hættu á fráfalli.

Heilagur Karl fór þessar ferðir sínar um biskupsdæmin alltaf á hestbaki eða fótgangandi. Hann hafði aldrei fleiri en sex hesta með sér og allir fylgdarmenn hans sáu hver um sinn farangur. Venja hans var að þiggja húsaskjól og fæðu hjá þeim prestum sem hann heimsótti, hversu fátæklega sem þeir bjuggu, og lét hann fylgdarmenn sína um þau rúm sem tiltæk voru. Til hádegisverðar lét hann matreiða súpu handa sér, einhvern mat og ávexti. Og þar sem hann lifði síðustu ár sín á vatni og brauði einu saman, borðaði hann í herbergi sínu en ekki með öðrum. Ýmsir prestar tóku að sér að búa fólkið undir heilaga bergingu en létu hann um að útdeila sakramentinu. Í öllum sóknum leitaðist hann við að sjá íbúunum fyrir lausn andlegra og líkamlegra þarfa og skrifaði hjá sér athugasemdir sínar varðandi þær þarfir. Síðar spurðist hann svo fyrir um, hvort bætt hefði verið úr þeirri vanrækslu sem hann hafði orðið var við.

Árið 1568 tókst hann á hendur umbætur á reglu “Humiliata” eða “Hinna auðmýktu” sem hann verndaði sérstaklega. Sú regla var stofnuð á 11. öld af aðalsmönnum í Mílanó sem unnið höfðu klausturheit með samþykki eiginkvenna sinna. Í upphafi 16. aldar var þessi regla orðin svo spillt að einungis hundrað og sjötíu reglubræður bjuggu í þeim níutíu klaustrum sem samfélagi þeirra tilheyrðu. Yfirmenn þess, sem kallaðir voru “prófastar”, notuðu tekjur sínar eins og þeim hugnaðist best og hirtu ekki um nein lög. Heilagur Karl fékk tvö páfabréf frá þáverandi páfa sem heimiluðu honum að gera þær umbætur á reglunni sem honum fyndust nauðsynlegar. Í því skyni kvaddi hann saman almenna klerkastjórn í Cremona og kynnti henni hvað taka þyrfti til bragðs til að endurvekja hinn guðrækilega tilgang sem bjó að baki stofnunar hennar.

En Humiliatar reyndu á margvíslegan hátt að koma í veg fyrir þær afleiðingar þessa framtaks sem þeir óttuðust svo mjög. Og þegar þessi viðleitni þeirra kom fyrir ekki, voru þeir gripnir hamslausri reiði. Þrír prófastanna ákváðu að ráða þennan hvimleiða umbótamann af dögum og fjölgaði þeim samsærismönnum brátt verulega. Prestur einn í reglunni, La Farina að nafni, ákvað að taka að sér illvirkið fyrir ákveðna fjárupphæð. Hann þóttist vita, að grunurinn mundi falla á nokkra embættismenn konungs, sem þá voru síður en svo vinir erkibiskupsins. Hinn 26. október 1569 laumaðist hann dulbúinn inn í kapellu erkibiskupshallarinnar á þeim tíma, sem heilagur Karl bað kvöldbænir með heimilisfólki sínu. Verið var að syngja andstefið: “Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist,” þegar morðinginn hleypti skoti af byssu sinni. Erkibiskupinn kraup frammi fyrir altarinu, varla fimm eða sex skref frá glæpamanninum. Þegar skotið reið af, hljóðnaði söngurinn og ótti og skelfing gripu þá sem viðstaddir voru. En Karl veik ekki af staðnum heldur bauð fólki sínu með bendingu að krjúpa áfram og ljúka við bænina með rósemi, eins og ekkert hefði í skorist. Og launmorðinginn komst undan á flótta. Heilagur Karl, sem hélt að hann hefði hlotið banasár, lyfti höndum sínum í átt til himins, í því skyni að færa Guði líf sitt að gjöf. Það var ekki fyrr en hann stóð upp frá bæninni að hann fann að kúlan, sem hafði átt að lenda í baki hans, lá við fætur hans og hafði aðeins skilið eftir svartan blett á kórkápu hans. En þar sem skotið hafði verið af haglabyssu, höfðu nokkur högl þó komist gegnum fatnað hans og strokist við húðina. Þegar hann var kominn inn til sín voru ummerkin skoðuð betur og kom þá í ljós dálítill marblettur og bólga í húðinni sem ekki hvarf meðan ævi hans entist. Menn voru ekki í vafa um að Guð hefði haldið verndarhendi sinni yfir honum, því að högl höfðu komist gegnum fingurþykka fjöl sem var við hliðina á honum og lent með krafti og skellum á múrveggnum bak við hana.

Heilagur Karl er verndardýrlingur margra borga á Ítalíu, svo og háskólans í Salzburg og kaþólsku bókasafnahreyfingarinnar. Þá er hann einnig verndari rómverskra presta, sálusorgara og prestaskóla. Hann var einnig ákallaður þegar drepsóttir geisuðu.

Heimild: http://www.vortex.is/catholica/snts.html

No feedback yet