« Um helgimyndirFastan - hin andlega eyðimerkurferð »

10.02.08

  10:23:32, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 511 orð  
Flokkur: Trúarpælingar, Fasta og yfirbót, Fastan

Hinar þrjár freistingar Krists í eyðimörkinni

Í upphafi 4. kafla Mattheusarguðspjalls er greint frá því þegar Kristur hélt út í eyðimörkina og fastaði þar í 40 daga og nætur og 'var þá orðinn hungraður'. Þegar þar var komið sögu vitjaði djöfullinn hans og freistaði hans þrisvar sinnum. Hin fyrsta freisting var sú að hann skyldi breyta brauði í steina, önnur freistingin var sú að hann skyldi kasta sér af brún musterisins og koma niður óskaddaður, borinn af englum. Þriðja freistingin var sú að djöfullinn lofaði að gefa honum öll ríki jarðarinnar ef hann félli fram og tilbæði sig.

Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“
En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“
Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.

Í hinum tveim fyrri freistingum er það Jesús sem á að breyta steinum í brauð og Guð sem á að senda engla. Fyrri freistingarnar tvær freista Guðs að fara út fyrir þau mörk sem hann hefur sett sér. Hversu mikið myndi það jú ekki bæta heiminn ef til væri fólk sem gæti einfaldlega breytt dauðu efni í brauð og ef til væru slík ofurmenni að þau gætu kastað sér fram af háum húsum og svifið um? Hér er í rauninni komin draumsýnin um ofurmennið, náttúruguðinn sem Guð kristninnar er ekki en er samt oft gagnrýndur fyrir að vera ekki.

Í þriðju freistingunni er það djöfullinn sem býðst til að vinna máttarverkið, þ.e. gefa honum öll ríki jarðarinnar. Hversu ægileg er ekki þessi freisting? Djöfullinn var vel meðvitaður um þann vilja Guðs að að allir menn verði hólpnir og tilheyri guðsríkinu. Þarna kemur fram sú ósk djöfulsins að það verði í rauninni hann sem taki hásæti Guðs. Hann býður Kristi að gerast lénsherra sinn ef hann sjálfur fái hásætið. Kristur hafnar freistingunni trúlega á fernum forsendum. Í fyrsta lagi vegna hlýðni sinnar og elsku til Guðs eins og kemur fram í svari hans. Í öðru lagi sér hann að hugsun djöfulsins gengur ekki upp. Lénsherrann getur aldrei setið í friði með hinn óróasama djöful sem konung. Í þriðja lagi getur það trúlega ekki gengið upp með neinu móti að hið skapaða setjist í sæti skaparans. Hið skapaða mun alltaf verða sköpun en skaparinn skapari, það er eðli þeirra. Í fjórða lagi veit Kristur einfaldlega að djöfullinn er að ljúga og hann gæti ekki gefið sér ríki jarðarinnar þó hann feginn vildi.

No feedback yet