« Hann hefur ætlað okkur öllum hverju og einu ákveðið hlutverk á jörðinniErt þú samstarfsmaður Drottins? »

16.03.06

  20:04:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1613 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hin stríðandi kirkja og heimurinn

Við hér á Kirkjunetinu höfum ekki farið varhluta af því orðbragði sem einkennir málflutning samkynhneigðra og stuðingsmanna þeirra. Hér er einungis tekin nokkur dæmi um slík gífuryrði: „Hreinræktuð heimska,“ „deyjandi menningarkimi,“ „forneskjuleg hirðingjahugsun,“ „trúarofstopi,“ „ómerkilegur útúrsnúningur,“ „þvælusálgreining,“ „della,“ „að skemmta skrattanum, „hommahatur,“ „óþol á samkynhneigðum,“ „ofstækismenn,“ „öfgafull, ósanngjörn og óumburðarlynd kristin trú,“ „að sverta mannorð samkynhneigðra, gera úr þeim sjúk og hættuleg skrímsli og hafna tilverurétti þeirra.“ Og heilög Ritning fer heldur ekki varhluta af þessu og boðskapur hennar dæmdur sem „réttlæting á þrælahaldi, þjóðarhreinsunum og kvennakúgun.“ Í reynd hefur atgangur þessa fámenna hóps verið slíkur á undanförnum árum að margir veigra sér við að lenda í orðaskaki við þessa menn. Í Laugarnesskólanum í gamla daga hefði Marínó kennari tekið í eyrað á þeim nemenda sinna sem gripið hefðu til slíks munnsafnaðar og leitt þá fram á gang og látið þá standa þar fram að frímínútunum.

Frá upphafi vega hefur kirkjan fordæmt það kynlíf sem felst í ástarleikjum fólks af sama kyni, eins og glöggt má sjá í Tólfpostulakenningunni (Didache): „Þú skalt ekki iðka kynvillu [saurga drengi] (2. 2). Afstaða kirkjunnar hefur því legið ljós fyrir frá upphafi. Það er þessi afstaða sem fer svona í purrurnar á samkynhneigðum og stuðningsmönnum þeirra, svo að blótsyrðin vella fram eins og jökulhlaup. Benedikt Groeschel á EWTN sagði einu sinni þegar hann vék að óvinum kirkjunnar: „En ég vara ykkur við – Þið verðið að muna að í heiminum er illska".

Ég tel samkynhneigða ekki falla undir slíka illsku því að þeir eru fólk sem þarf einungis að horfast í augu við sig sjálft í ljósi Krists, eins og við verðum reyndar öll að gera fyrr eða síðar. Þeir eru einungis lítill stormur í vatnsglasi, gárur á vatni tímans. Höfuðóvinir kirkjunnar eru guðlaus sósíalismi og guðlaus kapítalismi. Síðari stefnan birtist nú um stundir í hömlulausri græðgi fóstureyðingarstóriðju lyfjaauðvaldsins og misskiptingu ávaxta jarðarinnar. Fyrri stefnan sem ég kýs að kalla sósíalfasisma hefur reynst kirkjunni þungur í skauti á s. l. öld. Þannig hef ég minnst á það að 200.000 prestar létu lífið á tímum Sovétríkjanna í útrýmingarbúðum og talið er að fórnardýr þessarar stefnu á tuttugustu öldinni hafi numið allt að 200 milljónum. [1]

Meðan Politiburo Sovétvaldins var og hét teygði dauðahönd þess sig vítt um heimsbyggðina og lét ekki staðar numið við leppríki sín. Allir sem dirfðust að rísa upp gegn valdi þess voru umsvifalaust teknir af lífi ef tækifæri gafst til, eða þá við fyrsta tækifæri. Við skulum taka dæmi af pólska prestinum Jerzy Popieluszko. Hann var fæddur þann 23. september 1947 í Opochy nærri Suchowola í Póllandi og útsendarar Politiburo rændu honum þann 19. október 1984. Lík hans fannst síðan þann 30. október í Vistulastíflunni nærri Wloclawek og augljóst var að hann hafði verið pyntaður áður en hann andaðist. Faðir Jerzy Popieluszko hafði dirfst að gagnrýna stjórnvöld. Síðar kom í ljós að þrír útsendarar öryggislögreglu kommúnista höfðu staðið að baki ódæðinu.

Þann 3. mars s. l. komst nefnd sem skipuð var af hálfu ítalska þingsins að þeirri niðurstöðu, að „það væri hafið yfir allan vafa“ að Sovétríkin hefðu staðið að baki tilræðinu við Jóhannes Pál páfa II þann 13. maí 1981. Tyrkinn Mehemet Ali Agca hefði einungis verið eins konar „verktaki“ á vegum búlgörsku leyniþjónustunnar sem var þannig undirverktaki fyrir KGB. Í Kína kommúnismans hafa stjórnvöld komið upp eins konar gervikirkju sem lýtur stjórn herravaldsins í Peking jafnframt því sem neðanjarðarkirkjan blómstrar aldrei sem fyrr, hin sanna rómversk kaþólska kirkja. Ofsóknir á hendur prestum, nunnum og trúuðum er daglegt brauð, en slíkt hefur ætið verið hinn sanni vaxtarbroddur kirkjunnar í aldanna rás þegar hún er vökvuð blóði píslarvættisins. Þetta er leyndardómur Krists. Þannig held ég að þegar Svavar Knútur Kristinsson, blaðamaður og heimspekingur telur að kirkjan sé „deyjandi menningarkimi,“ þá grundvallist þessi ummæli hans á vanþekkingu. Í reynd vildi ég óska því blaði sem hann starfar við til handa, að það eignaðist jafn trúfastan hóp lesenda – sem í reynd hefur farið ört minnkandi á umliðnum árum – eins og hinir trúuðu eru kaþólsku kirkjunni. Eins og nóbelskáldið okkar komst eitt sinn að orði, þá er kaþólska kirkjan ekki eins konar klúbbur sem fólk gengur í og úr.

Vaxatarmöguleikar kirkjunnar eru miklir á Íslandi eins og sjá má á tölum Hagstofunnar. Því háttar svo um jafn stórt og alþjóðlegt samfélag að öldurnar rísa og hníga heimsálfanna á milli. Þetta er leyndardómur Heilags Anda sem starfar með þeim hætti, að hann er atkvæðamestur þar sem mannshjörtun eru opnust hverju sinni. Hún er nú fjölmennasta trúarsamfélagið í Bandaríkjunum og hafa samkynhneigðir og stuðningsmenn fóstureyðinga lagt sitt að mörkum í þeim efnum.

Fjöldi kaþólskra hefur vaxið mjög á trúboðssvæðum í suðaustur Asíu á undanförnum árum, þannig um 2, 4% árið 2004 í Kóreu. Svavari Knúti til hryggðar get ég meðal annars upplýst hann um að fyrsta kaþólska kirkjan hefur jafnvel tekið til starfa í Ponyang í Norðurkóreu. Kirkjan hefur aldrei vaxið jafn hratt eins og einmitt nú í upphafi 21. aldarinnar og í reynd mun Kína verða einn helsti vaxtabroddur hennar til 2050 að sögn kunnugra. Rétt er að „endurkristnun“ Evrópu er aðkallandi verkefni og því hafa trúboðar frá þriðja heiminum streymt til álfunnar á undanförnum áratug, meðal annars til Íslands. Framsókn guðleysisaflanna má meðal annars rekja til skoðanabræðra Svavars Knúts í blaðamannastéttinni. En ýmiss teikn eru á lofti um að þeirri þróun verði snúið við, líkt og sjá má að hefur gerst í Bandaríkjunum.

En svo að ég snúi að nýju að sósíalfasimanum, þá langar mig að greina hér frá atviki sem átti sér stað í Frakklandi á sjötta áratugi s. l. aldar. Frönsk hjúkrunarkona, Marie Carré, var falið að annast mann nokkurn sem lent hafði í alvarlegu bílslysi. Af öryggisástæðum gaf hún ekki upp heiti viðkomandi borgar. Maðurinn lág milli heims og heljar í nokkrar stundir þar til hann andaðist. Hann bar ekki á sér nein skilríki en skjalatösku hafði hann meðferðis sem hafði að geyma ævisögudrög hans. Hún las þessi skrif hans og sökum þess hversu einstök þau voru, var ákveðið að gefa þau út. Árangurinn birtist í lítilli bók sem nefnist AA-1025 – The Memoirs of an Anti-Apostle. [2] Talan AA-1025 var það leyninafn sem þessum útsendara hafði verið gefið, sem segir ef til vill eitthvað um fjölda þeirra. Hún fjallar um útsendara Politiburosins sem voru gerðir út af örkinni til að gerast kaþólskir prestar. Tilgangurinn miðaðist við að eyðileggja kaþólsku kirkjuna innan frá. Á enskri tungu er slík hernaðartækni nefnd „infiltration.“

Þeim var falið að bera út trúvillukenningar og útbreiða samkynhneigð meðal presta og barnaníðingshátt (pedófílíu). Þessir útsendarar Sovétvaldsins einbeittu sér sértaklega að tveimur löndum: Írlandi og Bandaríkjunum. Árangurinn lét ekki á sér standa. Upp úr 1960 reið yfir bylgja kynferðismisnotkunar á börnum og samkynhneigðar meðal presta. þróun sem vafalaust eru stuðningsmönnum hömlulauss kynlífs fagnaðarefni. Um 1980 náði þessi bylgja hámarki þar sem margir þessara manna voru orðnir biskupar og beittu áhrifum sínum miskunnarlaust til að auka á siðspillinguna innan kirkjunnar. Nú eru flestir þeirra gegnir á vit feðra sinna og flett hefur verið ofan af launráðum þeirra.

Í þessum samhengi ber að skilja boðskap Benedikts páfa XVI frá 15. janúar s. l. þar sem ítrekað var að engum samkynhneigðum yrði heimilað að ganga í prestaskóla rómversk kaþólsku kirkjunnar. Í tvö þúsund ára sögu sinni hefur hún orðið að heyja grálynda glímu við höfðingja þessa heims og fylgjendur hans og óttast því ekki þessi átök á 21. öldinni því að hún veita af aldagamalli reynslu „að ég er með þér“ (P 10. 18), það er að segja Drottinn Jesús Kristur. Það var meðal annars af þessum ástæðum sem hinir heilögu feður og mæður til forna kusu að kalla kirkjuna HINA STRÍÐANDI KIRKJU Á JÖRÐU. Hún á enga samleið með höfðingja þessa heims.

Lofa þú Drottin, sála mín,
og allt sem í mér er hans heilaga Nafn,
lofa þú Drottin, sála mín,
ég gleymi engum velgjörðum hans.
Lofið Drottin, allar hersveitir hans,
þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
Lofa þú Drottin, sála mín.

(Úr 103. Davíðssálminum).

[1]. Sjá grein mína: „Dauðamenning eða lífsmenning?“
[2]. amazon.com

6 athugasemdir

Svavar Knútur

Aldrei sagði ég að kirkjan væri deyjandi menningarkimi minn kæri Jón. Það verð ég að leiðrétta, þótt mér sé meinilla við að rífast við ykkur. Kirkjan er hið indælasta samfélag, sem betur fer að mestu laust við illsku og heimsku.
Ég sagði hins vegar að hommahatarar væru deyjandi menningarkimi. Það er allt annar sálmur.
Bestu kveðjur,
Svavar Knútur

14.11.06 @ 10:16
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég myndi ekki flokka trúboð Evrópubandalagsins í kynlífsbyltingunni undir hugtakið menningu, heldur ómenningu. Okkur greinir vafalaust á um þetta, en þakka þér alltént fyrir hlýleg orð í garð kirkjunnar sem „deyjandi hornkerlingar“ í „glæstri“ framtíðarsýn póstmódernískrar heimspeki.

En í ljósi athafnaheimspekinnar (pragmatismans) held ég að afstaða þín eigi eftir að dæma sig sjálfa til dauða sem eitt mesta heilbrigðisvandamál samtímans. Siðmenning sem lærði að þvo sér um hendurnar eftir að hafa gengið örna sinna fyrir einni öld verður fyrr en síðar að horfast í augu við þá bláköldu staðreynd að subbuskapur í kynlífi samræmist ekki – og getur ekki samræmst – heilbrigðum lífsháttum þrátt fyrir hugmyndafræðilega velþóknun sína á slíku framferði.

14.11.06 @ 10:43
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þó það sé ekki ósennilegt að Kremlarvaldið hafi reynt að koma sínum mönnum að í kaþólsku kirkjunni þá eru þeir til sem efast um trúverðugleika sögunnar „The Memoirs of an Anti-Apostle“. Sjá t.d. athugasemdir lesenda við bókina á Amazon.com: [Tengill]. Athugasemdin frá Stephen Hitchings er t.d. sæmilega rökstudd.

15.11.06 @ 17:44
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Útdrátt úr 8. kafla bókarinnar „The Memoirs..“ má finna hér: [Tengill]

15.11.06 @ 18:22
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Er bók konunnar eina heimildin/staðfestingin á þessu “uppátæki"?

15.11.06 @ 23:51
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Haukur. Þú finnur miklu fyllri svör við þessu á:

TENGILL

16.11.06 @ 13:29