« Hvernig kaþólska kirkjan lagði grunninn að vestrænni menningu (2): HagfræðinVísindin og kirkjan – Galíleómálið »

25.10.10

  15:13:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1330 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Hin neikvæða hlið líffæragjafa – mál Oklahomabúans Zack Dunlap og „heiladauðakenningin“

Í september 2003 greindi ástralska dagblaðið Courier Mail sem gefið er út í Brisbane í Ástralíu frá því að rússneskir skurðlæknar fjarlægðu nýru úr heimilislausum sjúklingum og seldu. Gangverð slíkra líffæra er allt að 40.000 $. Einn rússnesku skurðlæknanna sem talaði undir nafnleynd sagði „að almennt talað væru viðkomandi sjúklingar búnir að vera og ættu í mesta lagi þrjá eða fjóra daga ólifaða.“ Margir minnast einnig orðróms sem gekk fjöllunum hærra fyrir nokkrum árum um að heimilislaus börn í Brasilíu væru notuð sem lifandi „líffærabankar,“ þó að erfitt væri að staðfesta þennan orðróm. Kínversk stjórnvöld hafa þannig legið undir grun um að selja líffæri úr fórnarlömbum ógnarstjórnar sinnar og slík viðskipti blómstra alls staðar um hinn vestræna heim, ekki síst í Bandaríkjunum og Kanada. Í nýlegum deilum um „heiladauðakenninguna“ hefur einnig verið vakin athygli á raunverulegri hættu á að hjálparvana sjúklingar væru hafðir að féþúfu lækna og sjúkrahúsa í þessum blómlegu alþjóðlegu viðskiptum eins vaxtarbrodda dauðamenningarinnar.

Dr. John Shea sem er læknisfræðilegur ráðunautur „Campaign Life Coalition“ í Bandaríkjunum kemst svo að orði nýlega: „Þess minna dautt sem viðkomandi fórnardýr er, þess betra hvað áhrærir líffærarán. Eins og þetta er iðkað í dag felst þetta í því að ráðandi læknir á heiladauðradeild lýsir því yfir að frekari tilraunir til að vekja sjúklinginn til lífs séu vonlausar og síðan eru líffærin fjarlægð eins fljótt og unnt er, jafnvel eftir skammvinn heiladauðaeinkenni.“ Fjölmargir sérfræðingar segja: „Orðið „heiladauði“ var fundinn upp til að komast yfir líffærin. Hann hefur aldrei grundvallast á vísindum.“

Nú í vikunni greindi Rás 2 lauslega frá máli bandaríkjamannsins Zack Dunlap. Eins og er fremur regla en undantekning hjá íslenskum fjölmiðlum „gripu“ fréttamennirnir fréttina „hráa“ upp frá erlendum fjölmiðlun án þess að kanna málið frekar og fjallað var um mál hans sem „kraftaverk.“ Saga Zacks er í stuttu máli þessi. Í nóvember s. l. varð hann fyrir slysi á fjórhjóli. Hann brotnaði illa og varð fyrir alvarlegum höfuðmeiðslum. Á sjúkrahúsinu greindu læknarnir þennan unga starfsmann í vöruhúsi sem „heiladauðann.“ Viðkomandi yfirvöldum í Oklahoma var tilkynnt að Zack væri samkvæmt lögum látin og líffæraflutningar stæðu fyrir dyrum.

Bundinn var óvæntur endir á áætlanir læknanna um líffærarflutninga, segja má með dramatískum hætti. Tveim frændur Zacks sem eru báðir hjúkrunarfræðingar fannst líkt og hann væri ekki látinn í þann veginn sem hjúkrunarfólkið sem átti að fjarlægja líffæri hans var að bretta upp ermarnar. Annar þeirra, Dan Coffin, renndi vasahnífi sínum undir fót Zacks og hinn væntanlegi líffærargjafi brást samtundis við með því að kippa að sér fætinum. Coffin rak síðan nögl sína undir nögl á fingri Zacks, en hér er um viðkvæman líkamshluta að ræða, og frændi hans brást þegar í stað við með því að kippa að sér höndinni.

Í viðtali við NBC komst amma Zacks svo að orði að henni hafi einnig fundist líkt og frændur Zacks að barnabarn hennar væri ekki reiðubúinn til að kveðja. Skömmu áður en barnabarn hennar tók að sýna aftur ummerki um að hann væri á lífi hefði hún farið inn í herbergi hans og beðið um kraftaverk: „Hann var of ungur til þess að Guð tæki hann til sín,“ komst hún að orði. „Ég hef heyrt um kraftaverk allt mitt líf, en ég hafði aldrei séð kraftaverk. En nú hef ég séð kraftaverk.“

Og hvað um sjúklinginn sjálfan? Ungi maðurinn sagði við NBC að hann hafi heyrt læknana lýsa því yfir að hann væri heiladauður og bætti við: „Nú er ég glaður að ég gat ekki risið á fætur til að gera það sem mig langaði til.“ Þegar hann var inntur eftir því hvað það hefði verið, þá svaraði hann: „Að kasta þeim út um næsta opna gluggann. Ég er afar þakklátur að þeir gáfust ekki upp,“ sagði hann um síðustu tilraun ættingja sinna um að ganga úr skugga um að hann væri enn á lífi: „Einungis hinir góðu deyja ungir, þannig að minn tími var ekki kominn.“ Faðir Zacks segir að hann ásaki ekki neinn, en með þessu gefur hann til kynna að læknarnir hafi fullvissað sig um að Zacks væri dáinn og að ekki væri um neitt blóðstreymi til heila hans að ræða.

48 dögum eftir slysið var Zacks kominn heim að nýju á postulunum tveimur. Hann á enn við minnisleysi að stríða af völdum slyssins og líklega jafnar hann sig ekki til fulls fyrr en að ári liðnu. Slíkar frásagnir berast einnig einstaka sinnum frá Norðurlöndunum og nú fyrir skömmu vaknaði maður aftur til lífs í líkhúsi í Þrándheimi í Noregi eftir að hafa verið úrskurðaður látinn. Viðkomandi var svo lánsamur að hafa ekki verið boðinn til sölu á „líffæramarkaðnum.“

Þetta rifjar upp fyrir mér frásögn sem móðir mín sagði mér einu sinni og gerðist fyrir fjölmörgum árum, en lang er síðan hún andaðist. Atburðurinn gerðist í Arnarfirði um 1860. Á þessum tíma óttaðist fólk mjög kviksetningu. Ung stúlka á einum bænum (því miður man ég ekki lengur hvaða bæ) andaðist óvænt. Móðir hennar átti afar erfitt með að sætta sig við að stúlkan væri dáin og lét leggja hana á fjalir í útihúsi á bænum þar sem hún lá í dái í þrjár vikur. Á hverjum degi fór móðirin til að vitja dóttur sinnar og bar spegil að vitum hennar þar til loksins að gufa sást á speglinum. Degi síðar reis stúlkan úr dáinu og var heilbrigð upp frá þessu: Errarum humanum est. Þannig virðist sauðsvartur almúginn á Íslandi hafa þekkt til „heilasvefnsins“ og umgengist af meiri varúð en sprenglærðir læknadoktorar í landi Sáms frænda.

En snúum okkur aftur að frásögninni um hinn lánsama Oklahomabúa Zack Dunlap. „Ungi maðurinn var aldrei látinn,“ segir Dr. Paul Byrne, fyrrum forseti Sambands kaþólskra lækna (the Catholic Medical Association), en hann tók að rita um heiladauða 1977. „Það sem gerir tilvik Dunlaps svo óvenjulegt, þó ekki einstætt,“ segir Byrne „er að Zack var nægilega heppinn til að það kæmi í ljós að hann væri enn á lífi áður en mikilvæg líffæri voru fjarlægð úr honum.“

Í viðtali við LifeSiteNews komast hann svo að orði: „Síst af öllu vil ég svipta Guð því sem sannarlega tilheyrir honum, en það er ekkert yfirskilvitlegt sem átti sér stað. Ef hér er um eitthvað kraftaverk að ræða, þá felst það í því að þeir klófestu ekki líffæri hans áður en einhverjum hugkvæmdist að ganga úr skugga um að um viðbrögð af hans hálfu væri að ræða. Hann var lifandi allan tímann, hjarta hans sló, blóðþrýstingurinn var ávallt til staðar: Hann var sprellifandi.“

Dr. Byrne segir að í gegnum árin hafi hann safnað saman upplýsingum um fjölda tilvika þar sem sjúklingar sem dæmdir voru látnir „snéru aftur til lífsins.“ „Ástæðan er sú,“ segir Byrne, „ að heiladauði er aldrei raunverulegur dauði.“

Árið 2007 skrifaði Dr. John Shea, læknisfræðilegur ráðgjafi LifeSiteNews.com grein sem er samhljóða niðurstöðum Byrnes hvað lýtur að heiladauða þar sem hann kemst svo að orði að forsendur „heiladauða“ séu vísindaleg kenning en ekki staðreynd. Hann bætti því við að hér væri um kenningu að ræða sem væri einkar viðkvæm gegn misnotkun í hagsmunaskyni og því ætti að fjalla um hana af mikilli varúð. Hann vakti jafnframt athygli á því að það sem yki enn á vandann væri sú staðreynd að um margvíslegar forsendur heiladauða væri að ræða, þannig að einstaklingurinn væri talinn látinn samkvæmt einni þeirra sem gilti þó ekki um þá næstu.

Við sem erum kaþólsk þekkjum vel afstöðu kirkjunnar til heiladauðakenningarinnar, og í reynd hefur kirkjan verið harðlega gagnrýnd fyrir afstöðu sína, og það einmitt af þeim öflum sem hafa hagsmuna að gæta hvað varðar hinn alþjóðlega líffæramarkað. Hér er því um enn aðra hlið lífsverndarstefnunnar (pro-life) að ræða sem mörg okkar hafa ef til vill ekki leitt hugann að.

Þá menn er að finna sem í skjóli nætur stela varahlutum sem þeim vanhagar um úr bifreiðum náunga sinna. Öllu verra er það og fyrirlitlegra þegar heilbrigðisstéttirnar temja sér slík vinnubrögð gagnvart fórnardýrum sínum líkt og hjálparvana sjúklingum, með sama hætti og að deyða hjálparvana börn í móðurlífi undir yfirskyni mannúðar, þegar hin raunverulega ástæða er sá forni fjandi sálarinnar sem talinn er til dauðasyndanna sjö: Græðgin!

Endurbirtur pistill sem birtist fyrst hér á vefsetrinu 28.03.2008

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Heill og sæll, og kærar þakkir fyrir góða grein og einkar fróðlega. ‘Heiladauðinn’ er þá oft ekki annað en heilasvefn! Menn athugi það og fari sér varlega. Okkar róttæki heilbrigðisráðherra, með sinn róttæka aðstoðarmann úr herbúðum líberal- og femínisma, hefur verið að gæla við hugmyndir um frumvarp um líffæragjafir. Hann er sömuleiðis hlynntur bæði tæknifrjóvgun (með öllum fórnunum á fósturvísum) fyrir einhleypar konur (til viðbótar við hjónafólk og lesbíur), sem og tilraunum og gernýtingu (exploitation) á fósturvísum. Og hvað ætli okkar nominaliter kaþólska Þorgerður Katrín segi um það?!

29.03.08 @ 00:46
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Frater dilectissime Jón Valur! Þakka þér fyrir gott innlegg og athyglisvert er að þú skulir sjá þetta í þessu víðfeðma ljósi. Nýlega sá ég mynd á National Geography Channel um vandamál þau sem blasa við mönnum í sambandi við geimferðir í framtíðinni til ystu marka okkar eigin sólkerfis og enn lengra. Slíkar ferðir geta tekið mörg hundruð ár og þar var beinlínis fullyrt að vísindamenn væru þegar byrjaðir að „fikta“ við erfðamengi mannsins til að framkalla „heilasvefn“ eða „dásvefn“ líkt og þegar dýr leggjast í dvala. Þar var meðal annars sagt berum orðum að ein hugmynd þeirra fælist í því að „slökkva á“ ákveðnum hlutum í DNA keðju mannsins!!!

Þetta „fikt“ felst meðal annars í því að blanda saman erfðamengjum manna og dýra líkt og bjarndýra til að „skapa“ nýtt afbrigði manna eða mannkyns: Eins komar „hálfmenni.“ Í þessu sambandi vil ég einungis vekja athygli á „nefelim“ eða risunum sem gengu um á jörðinni forðum. Þegar í upphafi varar Biblían okkur þannig alvarlega við slíku athæfi og þarna er verið að „vekja upp draug“ sem vafalaust snýst fyrr eða síðar gegn skapara sínum.

Í reynd virðist slík framleiðsla hálfmenna ekki þurfa að koma til á okkar tímum svo að maðurinn snúist gegn náunga sínum. Augljóst er af frásögninni af reynslu Zack Dunlap að læknarnir hljóta að hafa vitað hvað þeir voru að gera: Að hér hafi verið um vísvitandi verknað að ræða þar sem þeir ætluðu beinlínis að framkvæma „líffærarán“ líkt og rússneskir læknar virðast óhikað gera. Venjulegt fólk hlýtur að fyllast skelfingu þegar slík grimmd blasir við sjónum.

29.03.08 @ 07:01
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kæri vin, þakka þér svarið, athyglisvert að sjá hugleiðingar þínar. Guð varðveiti þig og þína.

02.04.08 @ 18:26
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

LifeSiteNews.com greinir frá því í gær (2. apríl) að rannsóknarteymi við Háskólann í Newcastle hafi nú þegar auðnast að framleiða kynblendingsveru (hybrid) úr genum manna og nautgripa. Sú sem látin var lifa lengst myndaði 32 frumur á þremur dögum áður en hún var deydd. Samkvæmt nýjum breskum lögum er heimilt að láta slíkar kynblendingsverur lifa í 14 daga.

Prófessor John Burns sem er meðlimur í Newcastleteyminu hélt því fram að hér væri ekki um neitt ósiðlegt að ræða og komst svo að orði við BBC: „Hér er um rannsóknarstörf að ræða. Við erum að fást við frumuklasa sem ekki eru látnir þróast áfram.“

03.04.08 @ 14:06