« Drottinn blás okkur auðmýkt og hlýðni í brjóstTak rekkju þína og gakk! »

28.03.06

  06:44:31, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 987 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hin holdlegu augu og það andlega (sjá Jb 42. 5 og Lk 24. 45)

Þessi hugleiðing fæddist fyrir mörgum árum síðan og var samin á ensku undir heitinu „From Illu-Zion to Reality“ og birtist í bandarísku kirkjublaði. Kalla mætti hana „Hin holdlegu augu og það andlega“ á íslensku.

Eitt sinn dvaldi ég í trappistaklaustri í nokkrar vikur. Ég og einn munkana höfðum til siðs að fara „niður að teinunum“ (down to the track) eftir morguntíðirnar af og til. Þar biðum við í nokkrar mínútur, stundum allt að hálfri stundu þar til járnbraut birtist. Yfirleitt voru þetta einungis flutningalestar, en einstaka sinnum duttum við í lukkupottinn. Það var þegar hinar silfurlituðu Amtrak-lestar brunuðu fram hjá í allri sinni dýrð.

Járnbrautir búa yfir einhverju leyndardómsfullu aðdráttarafli, já, ég þori að segja yfirskilvitlegu. Þær hafa alveg einstakt aðdráttarafl á karlmenn (eftir minni bestu vitund ekki á konur). Járnbrautir hafa bókstaflega yfirþyrmandi áhrif á menn, geta jafnvel beint okkur inn í sjálft totum simul: Eilífð Guðs þar sem allur tími og rúm renna saman í einum punkti.

Leyfið mér að útskýra þetta örlítið nánar: Fullorðnir menn verða aftur að litlum drengjum sem undrast og Drottinn okkar sagði að við yrðum að verða eins og börn. Jafnvel voldugustu stjórnmálamenn og verðbréfasalar eiga sér „sitt leyndarmál“ sem þeir fela í vinnuherberginu sínu. Þeir eiga sér sína leikfangalest til að leika sér að þegar þeir slappa af heima eftir erfiði dagsins. Að sjálfsögðu segja þeir að erfingi hússins eigi hana, þegar þeir eru staðnir að verki. En þetta er einungis „leiktjöld“ sem eiginkonan staðfestir að sjálfsögðu svo að þeir glati ekki virðingu sinni fyrir fullt og allt.

Já, járnbrautir búa yfir einhverju leyndardómsfullu aðdráttarafli. Þær geta snert við dýpsta kjarna verundar okkar og vakið til lífs, það sem hl. Ágústínus nefndi „memoria“ og abbarnir í egypsku eyðimörkinni „mnemi þeou“ eða endurminninguna um Guð. Við þurfum einungis að horfa á þær með Kristsauganu. Leyfið mér að útskýra þetta betur. Teinarnir tveir eru elska og náð Heilags Anda. Hjólin boðorð Krists, vagnarnir hinir lifandi limir á líkama Krists – kirkjunni – og sjálf brautin trúarsetningarnar. Eimvagninn er að sjálfsögðu Heilagur Andi sem dregur okkur til Föðurins, ákvörðunarstaðurinn hin helga borg Síon, brottfararstaðurinn heimur dauða og syndar.

Þetta er reyndar það sem systir Elísabet af Þrenningunni tjáði með svo fögrum orðum: „Eina hræring hins Alhelga Hjarta Jesú er að uppræta syndina og leiða okkur til síns himneska Föður.“ Í þessu ljósi opinberar járnrbrautin leyndardóm hjálpræðisins sem pílagrímsferð frá hinni fölsku Síon (illu-Zion) mennskra hugsmíða til hinnar himnesku Síonar – veruleikans.

Ég og trappistinn vinur minn töluðum aldrei um þetta beinum orðum. Við stóðum þarna einungis í eftirvæntingu. Stundum voru vagnarnir 120, stundum einungis 15. Trappistinn hafði jafvel einu sinni séð lest með 196 vögnum! Ég varð steinhissa! Þetta er ekki tilfinning sem einskorðast við kaþólska. Einu sinni dvaldist lúterskur prestur frá fjarlægu landi í klaustrinu í nokkrar vikur og heillaðist af járnbrautunum. Hann var reyndar svo heillaður að hann tók brot af einum þverbitanna (spike) sem eftirlitismennirnir höfðu skilið eftir og kom honum fyrir í geymslu í klaustrinu. Þar er hann enn. Þetta gerðist fyrir mörgum árum og á næstunni ætlar hann að koma og ná í þennan dýrgrip sinn. Það eru engar járnbrautir í heimalandi hans.

Já, það er eitthvað leyndardómsfullt við járnbrautir eins og allt annað í sköpun Guðs. Þær geta verið ímynd, eða getum við sagt helg tákn um eitthvað handan hins skynræna heims? Ég veit það ekki, en það er gott að „ganga niður að teinunum.“ Þetta er einmitt það sem hl. Jóhannes frá Damaskus sagði: „Farið út að ganga!“ Hér var hann að skírskota til bænalífsins. Sýrlensku feðurnir fóru stundum í langar gönguferðir í eyðimörkinni í „göngubæn.“ Stundum stóð þetta yfir í átta eða tíu daga (að sjálfsögðu tóku þeir efkaristíuna með sér). Þegar við „göngum niður að teinunum“ er hér um göngubæn að ræða þar sem Drottinn opinberar raunnánd sína. Við skulum því „ganga niður að teinunum“ sem oftast í barnslegri undrun!

Eitt sinn þegar við trappistinn „gengum niður að teinunum“ lögðum við tuttugu og fimm senta pening á teinana og biðum eftir lestinni. Þegar hún var farin hjá leituðum við að honum, en hann hafði horfið sýnum fyrir fullt og allt. Þessi trappisti getur stundum hagað sér dálítið skringilega. Nokkrar vikur liðu og þá bárust mér boð frá honum þar sem ég dvaldi í erlendu landi. Hann sagði einungis: „Þú skalt leita að honum í „nous“ (gríska: hinn andlegi skilningur). Stundum hef ég það á tilfinningunni að Heilagur Andi sé að tala til mín fyrir munn hans. Allavega var það þetta sem ég gerði. Ég leitaði að honum eins og konan í dæmisögunni að drökmunni. Það var þannig sem ég fann hann. Rétt eins og járnbrautin fór yfir peninginn og markaði hann „innsigli“ sínu, þannig markar Heilagur Andi okkur með innsigli sínu í sakramentum kirkjunnar. Í reynd er peningurinn það sem Jóhannes Tauler nefndi „neista sálarinnar.“ Við verðum einungis að leita hans hið innra. Eða eins og hl. Páll sagði: Touta mega mysterion estin (þetta er mikill leyndardómur).

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér fyrir það, Jón, að deila með okkur þessari heillandi hugleiðingu þinni : meditation sem vinnur á hug okkar gegnum bernska endurminningahugsun okkar sjálfra – a.m.k. okkar strákanna! Einfaldleikinn er “miklu betri leið” til Guðs en að láta ærast af öllu því sem við verðum upptekin af í lífsbaráttunni, metnaði okkar og skyldum, sem oft er aðeins sókn eftir vindi. Við vitjum betur okkar eigin verundar, grunns tilveru okkar og (upprunalega-)vaknandi sjálfsvitundar, þegar við leyfum okkur að upplifa undur veraldar á bernskan hátt á ný eða vitjum bernskustunda okkar í minningunni ; þar getur hún þó gerzt þessi snerting, þessi tilfinning fyrir nánd Guðs með lífi okkar, hinni elskandi návist hans. Og leiðin: með því að ganga út úr skarkala lífsins, eins og gönguhugleiðendurnir – eða þið sem “fóruð niður að teinunum” til móts við þetta nunc æternum (eilífa nú) sem þar var unnt að finna til. Og þetta gerum við líka í einveru okkar í klefa okkar eða herbergi (Mt.6.6).

Orðin hennar Elísabetar af Þrenningunni: „Eina hræring hins Alhelga Hjarta Jesú er að uppræta syndina og leiða okkur til síns himneska Föður“ –– hversu fjarri eru þau ekki hinum steigurlátu yfirlýsingum sérhyggjunnar (sem brýtur jafnvel guðfræðina undir neyzluhyggjuform sitt) um það, hver sé kjarni kristindómsins, þ.e. “umfram allt umburðarlyndið fyrir öllu” og sér í lagi fyrir syndsemi okkar og náungans, eins og það sé bróðurkærleikurinn í anda Krists! – ekki hitt að minnast (eins og séra Guðmundur Örn Ragnarsson gerði svo ágætlega í hugleiðingu á Omega í gær) þessara orða Jesú: “Hver, sem gjörir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir” (Mk.3.34) – “Móðir mín og bræður eru þeir, sem heyra Guðs orð og breyta eftir því” (Lúk.8.21). Sbr. einnig Jóhannesarritin um sama thema.

28.03.06 @ 11:50