« Vísindin og kirkjan – GalíleómáliðHollur undirbúningur fyrir hvítasunnuna – John Henry Newman, kardínáli (1801-1890):„Að rísa upp með Kristi.“ »

28.12.09

  07:36:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 950 orð  
Flokkur: Bænalífið

Hin heilaga fjölskylda og hreinleiki hjartans

Sjá meðfylgjandi mynd

Endurbirtur pistill sem birtist upprunalega 28.11.2007.

Svo er sagt að þegar hin heilaga fjölskylda var á leið til Egyptalands á flótta undan heiftaræði Heródesar hafi ræningi nokkur sem var víðkunnur af illvirkjum sínum og níðingsverkum heft för þeirra. En þegar hann sá barnið í faðmi Guðsmóðurinnar sagði hann: „Jafnvel þó að sjálfur Guð væri hér á ferð væri hann ekki fegurri en þetta barn!“ Og hann lét þau fara í friði. Undarlegt er til þess að hugsa að þessi miskunnarlausi ræningi lét hrífast af fegurð barnsins á sama tíma sem valdstjórnarmenn leituðust við að fyrirkoma því.

Síðar voru það prestarnir og hinir skriftlærðu sem létu krossfesta þennan sama Drottin á krossi. Lærdómurinn sem við getum dregið af þessu er sá að það er ekki nægilegt að „vita“ heilmikið um Guð. Ef við þekkjum hann ekki af raun megnum við ekki að elska hann. Og við lærum að þekkja hann í Heilögum Anda en ekki af bókalærdómi.

Guðspjöllin greina okkur frá öðrum ræningja, ræningjanum sem var krossfestur með Drottni á Hauskúpuhæðinni. Þessi ræningi iðraðist gerða sinna og játaði syndir sínar og Drottinn sagði við hann: „Í dag muntu sannarlega verð með mér í Paradís.“ Ræninginn sá Drottin á krossinum sér við hlið vegna þess að hann játaði syndir sínar og öðlaðist þar með hreint hjarta. Þetta er líka það sem Drottinn sagði: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8). Sú saga er sögð af sóknarprestinum í Ars (Curé d’Ars) að maður nokkur hafði komið nokkrum sinnum til hans til að skrifta. Þegar hann kom svo í sjöunda skiptið heyrði hann að einhver var í skriftaklefanum að tala við prestinn. Hann beið því dágóða stund og skyndilega kom svo Guðsmóðirin út úr skriftaklefanum og leit brosandi til hans.

Sóknarprestinum var dálítið órótt þegar maðurinn kom inn í klefann og spurði hann: „Sástu eitthvað?“
„Já,“ stundi maðurinn upp, „ég sá Guðsmóðurina.“
„Þá þarftu ekki að skrifta“ sagði presturinn.

Þannig voru þau Adam og Eva í upphafi er okkur greint frá í Sköpunarsögunni áður en þau syndguðu og „heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum“ (1M 3. 8). Biblían greinir okkur frá þessu hreinleika þegar í upphafi vegna þess að hann er svo mikilvægur. Henni lýkur einnig á honum. Jóhannes hefði aldrei séð borgina helgu stíga niður af himni nema í hreinleika hjartans:

Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til. Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum. Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið" (Opb 21. 1-4).

Í Gamla sáttmálanum var það tjaldbúðin sem var bústaður Guðs á jörðu, en í þeim Nýja sjálf Guðsmóðirin: Hún varð að tjaldbúð Guðs við holdgun Orðsins. Hvergi glæðist hreinleiki hjartans meira heldur en einmitt í návist Guðsmóðurinnar. Því er hollt að koma í heimsókn til hennar í lágreistum heimkynnum hennar í Nazaret. Okkur er hollt að sjá hvernig hún vakti í elsku sinni yfir Jesú þar sem hann lék sér skríkjandi á gólfinu. En þegar hún heyrði hamarshögginn berast frá Jósef þar sem hann var við smíðar sínar nístu þau jafnframt hjarta hennar. Hún vissi að síðar yrði ástfólgið barn hennar neglt á kross. „Allt hið blíða blandað stríðu, allt er gott sem gjörði hann“ sagði Sveinbjörn Egilsson forðum.

Móðurelsku Maríu hefur kirkjan tjáð um aldir með Íkonunni af Guðsmóður hinnar sínálægu hjálpar (Beata Virgo de Perpetuo Succursu). Erkienglarnir á íkonunni minna okkur á þá staðreynd að María Guðsmóðir er einnig Drottning englanna sem veita henni hjálp: „Eru þeir ekki þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa“ (Heb 1. 14). En íkonan greinir okkur jafnframt frá öðrum trúarleyndardómi. Við sjáum hvernig Jesúbarnið horfir óttaslegið til Mikjáls erkiengils sem heldur á krossinum. Drottinn grípur um hönd móður sinnar til að leita sér styrks og huggunar! Svona mennskur var hann í holdtekju sinni og leitaði huggunar hjá móður sinni. Það eigum við öll að gera!

Veitið því einnig athygli hvernig Þeotokos bendir með hendi sinni til Sonar síns. Hún er Vegvísan (Hoidegetria) og beinir okkur ávallt til Jesú: „Horfið til hans!“

Hin heilaga fjölskylda þráir ekkert eins heitt og að sem flestar sálir öðlist hreinleika hjartans til að sjá Guð. Þá megum við ekki gleyma heilögum Jósef. Það gerði heil. Teresa frá Avila í upphafi eins og hún greinir frá í Sögu lífs míns. En þegar hún tók að leita fyrirbæna heilags Jósefs „komst skriður á málið.“ Útskýring hinnar heilögu móður er einföld, hrein og bein. Jesús hlýddi heilögum Jósef ávallt á jörðinni sem föður sínum og því neitar hann honum aldrei um neitt á himnum. Því skulum við biðja:

Alhelga Hjarta Jesú, líknarríkt náðardjúp loga lifandi elsku. Gef í miskunnarrríkri náð þíns Heilaga Anda að logi elsku þinnar glæðist með stöðugt fyllri hætti í mínu bersynduga hjarta. Hlýð á bæn mína eins og þú lagðir eyra við ákalli ræningjans á krossinum. Drottinn minn og Guð! Veit mér náð til að leita ávallt skjóls í þínu Alhelga Hjarta rétt eins og lærisveinninn – hann Jóhannes – sem hallaði sér að brjósti þínu við síðustu kvöldmáltíðinni – hann sem þú elskaðir mest þeirra allra.

Alhelga Hjarta Jesú! Miskunna mér syndugum manni!
Blíða og flekklausa Hjarta Maríu! Umvef mig hjúpi verndar þinnar.
Heilagur Jósef og ástvinur hinna háheilögu Hjartna: Bið fyrir mér. Amen.

1 athugasemd

Athugasemd from: Patrick Guelpa
Patrick Guelpa

Ágætt! Þakka Þér fyrir, Jón!
Vinsamlegast
Patrekur

28.01.13 @ 12:36