« Í þessu ljósi munið þið sjá eilíft ljós – Pétur hinn ærurverðugi, ábóti í Cluny (d. 1029) | Hinn guðdómlegi gleðileikur Dante – í þýðingu Guðmundar Böðvarssonar, bónda og skálds frá Kirkjubóli » |
Í huga Silúan starets var hlýðnin óhjákvæmileg forsenda vaxtar í hinu andlega lífi. Skilningur hans á hlýðninni var samofinn afstöðu hans til hinnar heilögu arfleifðar og Orðs Guðs.
Hann leit á líf kirkjunnar sem líf í Heilögum Anda og hina heilögu arfleifð sem óaflátanlegt starf Heilags Anda í kirkjunni. Þar sem hin heilaga arfleifð felst í eðli sínu í eilífri og óaflátanlegri nærveru Heilags Anda í kirkjunni er hún jafnframt tilvistarlegur grundvöllur hennar. Þannig umvefur hin heilaga arfleifð allt líf kirkjunnar og það í svo ríkum mæli, að Ritningarnar sjálfar eru eitt tjáningarforma hennar. Þetta hefur í för með sér að ef kirkjan væri svipt arfleifð sinni yrði hún ekki söm og áður vegna þess að boðskapur Nýja testamentisins er orð Andans „ekki skrifað með bleki, heldur með Anda lifandi Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi“ (2Kor 3. 3-6). Ef við gerðum ráð fyrir því að kirkjan glataði með einum hætti eða öðrum öllum sínum ritum: Gamla og Nýja testamentinu, verkum hinna heilögu feðra og öllum helgisiðabókum sínum, myndi hin heilaga arfleifð endurskrifa Ritningarnar, vafalaust ekki orðrétt og með öðru tungutaki. En að meginhluta til yrði inntak hinna nýju ritninga tjáning þeirrar sömu trúar „sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld“ (sjá Júd 1. 3). Þær yrðu tjáning þess sama og eina Anda sem sífellt er að starfi í kirkjunni.
Heilög Ritning felur ekki í sér dýpri merkingu fremur en að vera þýðingarmeiri en hin heilaga arfleifð, heldur er hún eins og tekið hefur verið fram ein birtingarmynda hennar. Í þessari mynd er hún afar dýrmæt vegna þess að hún er aðgengileg og ávallt tiltæk. En þegar Ritningin er slitin úr samhengi við arfleifðina er ekki unnt að skilja hana rétt með neinum vísindalegum rannsóknum.
Ef það er rétt að Páll postuli hafi haft „huga Krists“ (1Kor 2. 16), hversu fremur gildir þetta þá ekki um þá kirkju þar sem Páll var einn limanna! Og ef skrif heilags Páls og hinna postulanna eru heilagar Ritningar og ef þessi skrif glötuðust yrðu ritningar nýrrar kirkju einnig heilagar vegna þess að samkvæmt fyrirheiti Drottins lifir Heilög Þrenning ávallt í kirkjunni.
Þeir sem hafna arfleifðinni hafa einfaldlega á röngu að standa þegar þeir varpa hinni heilögu arfleifð fyrir róða og telja sig hverfa til sjálfrar uppsprettu kirkjunnar með því að leita beint til heilagrar Ritningar. Það eru ekki heilög Ritning heldur hin heilaga arfleifð sem er uppspretta kirkjunnar. Kirkjan hafði ekki eignast rit Nýja testamentisins fyrstu áratugina í sögu sinni og lifði einungis samkvæmt arfleifðinni – þeirri arfleifð sem heilagur Páll hvatti hina trúuðu til að virða (sjá 2Þ 2. 15).
Það er alkunn staðreynd að allir villutrúarmenn skírskota ætíð til heilagrar Ritningar, en með þeim hætti að þeir túlka hana einungis „eftir eigin höfði.” Pétur postuli varaði þegar við rangtúlkun Ritninganna þegar þær eru túlkaðar með persónulegum hætti (sjá 2P 3. 16).
Engir meðlima kirkjunnar, hennar bestu synir og lærifeður ekki undanskildir, hafa öðlast hlutdeild í allri fyllingu náðargjafa Heilags Anda. Þannig getur verið um vissa ágalla í uppfræðslu þeirra og skrifum að ræða eða jafnvel rangfærslur. En í heild sinni í samfélagi kirkjunnar býr hún yfir fullri þekkingu og fyllingu hinna andlegu náðargjafa og þannig er boðskapur hennar sannur í aldanna rás . . .
Einstakir synir og meðlimir kirkjunnar sem fikra sig áfram á veginum til þessarar elsku geta hrasað, fallið eða gert sig seka um alvarleg mistök, en í djúpi sínu þekkir kirkjan fyrir atbeina Heilags Anda hina sönnu Kristselsku. Hvar sem sjálft orðið „elska“ birtist í öðru samhengi, lætur hún ekki villa sér sýn með neinni heimspeki eða háreystri kenningasmíð. Kirkjunni getur ekki skjátlast.
Ég tel að blessaður Silúan starets, sannur sonur kirkjunnar, leiði okkur fyrir sjónir í skrifum sínum hinn háleita og trausta mælikvarða á sannleika kirkjunnar.
Þessi mælikvarði er: Auðmýkt Krists og elska Krists á fjandmönnunum.
(úr ritinu Um heilagan Silúan frá Aþosfjalli).
Ég mun fjalla nánar um hina heilögu arfleifð erfikenningarinnar í nokkrum greinum á næstunni jafn samofin og hún er sakramentum Vesturkirkjunnar og Austurkirkjunnar og helgun mannssálarinnar í krafti sakramentanna.