« Verundardjúp mannssálarinnar og sköpunarmáttur þjáningarinnarÓður sálar sem gleðst yfir því að þekkja Guð í trú – Hl. Jóhannes af Krossi »

22.06.08

  00:24:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 472 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Hin innsiglaða uppspretta – Hl. Gregoríos frá Nyssa (335-395)

Með eftirfarandi orðum víkur hl. Gregoríos að innsta verundardjúpi mannsins í skrifun sínum, hinu innsta sviði Edith Stein eða uppsprettunni hans Jóhannesar af Krossi:

En garðurinn okkar þarfnast einnig uppsprettu, þannig að trjálundirnir fái að blómgast í sífellu og njóti vökvunar. Og þess vegna bætir hann uppsprettunni við þegar hann lofar brúðina og segir: Lokuð lind, innsigluð uppspretta (Ll 4. 12). Orðskviðirnir uppfræða okkur um hvað felst að baki þessarar uppsprettu með dæmisögu: Gæddu uppsprettur þína sætleika. Þér einum skulu þær tilheyra og engum óviðkomandi með þér (Ok 5. 16, 17, Sjötíumannaþýðingin). Hér leggur textinn blátt bann við því, að einhver annar spilli vatninu. Þannig er þessu einnig varið í fyrra textabrotinu okkar: Óviðkomandi er meinað að njóta uppsprettunnar, eins og gefið er í skyn með orðinu innsigluð, sem þýðir eitt og hið sama og „undir eftirliti.“

Ég tel að textinn víki að hinu vitræna sviði sálarinnar vegna alls þess fjölda hugmynda sem spretta þar fram í sífellu. En hugsanirnar beinast í rétta átt þegar þær hneigjast til einhvers sem er okkur hollt og verða okkur þannig til styrktar í leit okkar að gæskunni. Þegar einhver beinir hugarorku sinni hins vegar til einhvers syndsamlegs, þá er hann að deila uppsprettunni með einhverju óviðkomandi. Eigandinn getur gengið að einhverjum hlut vísum, ef honum hefur ekki verið stolið. Í textanum okkar er því borið mikið lof á brúðina vegna þess að óvininum hefur ekki auðnast að brjótast inn í hugskot hennar þar sem það er innsiglað með hreinleika hennar og kyrrleika. Það er hreinleikinn sem innsiglar þessa uppsprettu Húsbóndans: Hið yfirskilvitlega ljós hjarta hennar hefur ekki spillst með saurgandi áhrifum illra hugsana.

Svo að þetta liggi nú allt saman ljóst fyrir, þá skal ég leitast við að útskýra þetta með öðrum hætti. Sumt af því sem í okkur er að finna er okkar eigið, til að mynda sálarkraftarnir [vitið, reiðin og þráin]. Ýmislegt annað umgöngumst við eins og okkar eigin eign, ég á við ýmislegt af hinu ytra sem tilheyrir holdinu á þeirri fölsku forsendu, að þessi fyrirbrigði sem eru okkur óviðkomandi tilheyri okkur.

Hvað á hið andlega eðli sálarinnar yfirleitt sameiginlegt með grófleika efnisins? Það er af þessum ástæðum sem Orðskviðirnir hvetja okkur til að deila ekki uppsprettu hugskots okkar með einhverju óviðkomandi, það er að segja hinum holdlega og ytra heimi. Við eigum miklu fremur að nota hana til að vökva jurtir Guðs og þær skírskota til dyggðanna, eins og við höfum séð.

Þýðing úr Source chrétienne (krítiskri útgáfu Jean Danielou, kardinála:
(Patrologia Greaca XVIV, 964C - 965B).

No feedback yet