« Rannsóknarnefndin birtir skýrsluna - yfirlit yfir fréttir á vefmiðlumKaþólsk kapella vígð á Höfn í Hornafirði »

21.10.12

  07:27:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1679 orð  
Flokkur: Helgir menn

Hildegard frá Bingen tekin í tölu heilagra í dag 21. október

Í dag, sunnudaginn 21. október 2012 verður Hildegard frá Bingen tekin í tölu heilagra. Af þessu tilefni er viðeigandi að minnast hennar með einhverju móti. Páfi útnefndi hana kirkjufræðara hinn 7. okt. síðastliðinn og flutti þá erindi þar sem hann fór yfir störf hennar. Hér á eftir fer útdráttur úr erindi Páfa þar sem helstu atriðin eru tekin saman.

Hildegard frá Bingen

Athugið að ekki er um samfellda og nákvæma textaþýðingu að ræða og á nokkrum stöðum eru innskot sett til að auðvelda íslenskum lesendum lesturinn og ná betra merkingarlegu samhengi. Um öll vafaatriði þýðingarinnar vísast að sjálfsögðu í frumtextann finna má á tengli neðarlega í færslunni. "Hildegard frá Bingen fæddist árið 1098 sennilega í Bermersheim í Rínarlöndum skammt frá Alzey. Hún náði 81 árs aldri og dó árið 1179 þrátt fyrir að hafa verið heilsuveil alla ævi. Hún fæddist inn í stóra aðalsmannafjölskyldu og foreldrar hennar tileinkuðu ævi hennar þjónustu við Guð. Þegar hún var átta ára gömul byrjaði formlegur undirbúningur hennar fyrir klausturlífið samkvæmt ákvæðum reglu Hl. Benedikts.

Til að tryggja að hún fengi viðeigandi almenna og kristna menntun var henni komið fyrir í umsjón ekkjunnar Uda frá Gölklheim sem tekið hafði regluvígslu og síðar hjá Jutta frá Spanheim sem var nunna við Benediktínaklaustrið í St. Disibodenberg. Lítið nunnusamfélag var að þróast þar sem fylgdi reglu Hl. Benedikts. Hildegard var vígð af Otto biskupi af Bamberg og árið 1136 þegar Móðir Jutta, sem þá var orðin príorinna, dó kusu systurnar Hildegard príorinnu. Hún rækti skyldur sínar sem príorinna vel og hæfileikar hennar sem klausturstjórnanda komu fljótt í ljós.

Nokkrum árum síðar, að hluta til vegna mikillar aðsóknar kvenna að reglunni, flutti hún nunnusamfélagið frá áhrifavaldi munkaklaustursins í Disibodenburg og fór með það til Bingen. Hún helgaði klaustrið þar hl. Rupert og dvaldi þar til æviloka. Stjórnunarstíll hennar gæti verið fyrirmynd hverrar trúarreglu. Hún var leiðarljós í heilagleika og góðverkum og kepptu nunnurnar hver við aðra í dyggðum og þjónustu hver við aðra.  

Þegar hún var príorinna klaustursins í Disibodenberg byrjaði hún að segja frá dulrænni reynslu, vitrunum eða leiðslusýnum sem hún upplifði. Hún greindi aðeins munknum Volmar, andlegum leiðbeinanda sínum frá þessu sem og ritara sínum, nunnu að nafni Richardis di Strade sem hún treysti vel. Eins og gerist alltaf í lífi þeirra sem upplifa sanna dulræna reynslu vildi hún leggja frásögn sína í dóm yfirvalda kirkjunnar til að sannprófa uppruna fyrirbæranna. Hún óttaðist að um hugarburð væri að ræða og að þetta væri ekki frá Guði komið. Hún leitaði því til manns sem naut mikillar virðingar í kirkjunni á þessum tíma: Hl. Bernard af Clairvaux. Hl. Bernard róaði og hughreysti Hildegard.

Árið 1147 fékk hún aðra og mjög mikilvæga viðurkenningu í kjölfar þess að Eugene III páfi, sem var viðstaddur kirkjuþing í Trier, fékk að sjá texta með frásögn af einni af leiðslusýnum hennar. Páfi gaf Hildegard fyrirmæli um að skrá sýnir sínar og að gera þær lýðum ljósar.

Hildegard frá Bingen

Frá þeirri stundu óx hið andlega álit hennar svo mjög að sumir samtímamanna hennar nefndu hana "Tevtónsku spákonuna". Þetta, kæru vinir, er innsigli sannrar upplifunar hins Heilaga Anda sem er uppruni allra náðargjafa: Manneskjan sem þiggur hinar yfirnáttúrulegu gjafir stærir sig aldrei af þeim, flíkar þeim ekki og framar öllu sýnir hinu kirkjulega yfirvaldi fulla hlýðni [því] sérhver gjöf sem gefin er af Heilögum Anda er ætluð til að styrkja kirkjuna og kirkjan í gegnum leiðtoga sína þekkir uppruna gjafanna. Þessi mikla kona, þessi "spámaður" talar líka til okkar í dag, í styrk sínum að greina tákn tímans, í kærleika sínum til sköpunarinnar, í læknislist sinni, í skáldskap sínum, í tónlist sinni sem í dag hefur verið endurgerð, í kærleika sínum til Krists og til kirkju hans, sem á þeim tíma þjáðist einnig vegna synda bæði presta og leikmanna. [...]

Hinar dulrænu sýnir Hildegard líkjast sýnum spámanna Gamla Testamentisins. Hún tjáir sig innan menningarlegs og trúarlegs ramma samtíma síns, hún túlkar helga ritningu í ljósi Guðs og beitir túlkun sinni á aðstæður lífsins. Þetta hafði í för með sér að áheyrendur hennar fundu fyrir þörf að haga breytni sinni samkvæmt stöðugum og einbeittum kristnum lífsstíl. Í bréfi til Hl. Bernards játar hún: "Sýnin hrífur alla verund mína, ég sé ekki með augum líkamans en hún birtist mér í anda dulspeki ... Ég ber kennsl á hina djúpu merkingu þess sem er sett fram í Sálmunum, í Guðspjöllunum og í öðrum bókum [biblíunnar] sem mér hafa verið sýndar í sýninni. Sýnin brennur eins og eldur í brjósti mér og í sál minni og leiðbeinir mér til djúps skilnings á textanum." (Epistolarium pars prima I-XC: CCCM 91).

Sýnir Hildegard hafa ríkar guðfræðilegar skírskotanir. Þær vísa til mikilvægra þátta í sögu frelsunarinnar og tungumál þeirra er ljóðrænt og táknrænt. Til dæmis í helsta verki hennar Scivias sem þýðir "Þú þekkir leiðirnar" tekur hún saman í 35 sýnum atburði úr frelsunarsögunni allt frá sköpun heimsins til endaloka tímans. Með kvenlegri næmni þróar Hildegard kjarna verks síns en það er leiðarstefið um hið leyndardómsfulla brúðkaup Guðs og mannkyns sem birtist í Holdtekjunni. [Holdtekju Krists Aths. þýð.] Á krosstrénu á sér stað brúðkaup Sonar Guðs og Kirkjunnar, brúðar hans, fyllt náð og þeim eiginleika að gefa Guði ný börn, í Heilögum Anda (Visio tertia: PL 197, 453c).

Af þessum stuttu tilvísunum sjáum við að guðfræðin getur lært af framlagi kvenna því þær geta talað um Guð og leyndardóma trúarinnar í ljósi sinnar sérstöku greindar og næmleika. [...] Dulspekingurinn frá Rínarlöndum er líka höfundur annarra verka sem innihalda eins og Scivias frásagnir af dulsýnum hennar. Þau eru Liber vitae meritorum (Bók lífsdyggðanna) og Liber divinorum operum (Bók hinna himnesku verka), líka nefnd De operatione Dei. Í fyrra verkinu minnir hún okkur á að öll sköpunin þiggur líf frá Þrenningunni. Verkinu er beint að sambandinu milli dyggða og lasta og útskýrir af hverju menn verða að ganga á hólm við lestina dag hvern, lestina sem fjarlægja þá frá Guði og dyggðinni sem er þeim til góðs. Ávinningurinn er að fjarlægja sjálfa sig frá illu til þess að gefa Guði dýrð og eftir dyggðuga tilveru ganga inn í líf sem er fylling gleði.

Í síðara verkinu sem margir álíta vera meistaraverk hennar lýsir hún á nýjan leik sköpunarverkinu og sambandi þess við Guð, hún lýsir þungamiðju mannlegrar tilveru og ber fram Krist-miðaða [guðfræði] með biblíulegum og fræðimannlegum blæ, þar segir frá fimm sýnum innblásnum af anda Jóhannesarguðspjalls. Í öðrum verkum sínum tekur Hildegard fyrir ýmisleg áhugaverð atriði og menningarlegan fjölbreytileika sem einkenndi nunnuklaustur miðalda. Þetta gerir hún á þann hátt að það myndar sterka andstæðu við fordóma sem enn eru til staðar gagnvart þessu tímabili.

Hún hafði áhuga á læknislist, náttúruvísindum sem og tónlist því hún hafði listræna hæfileika. Hún orti lofgerðarsálma, víxlsöngva og söngva sem safnað var saman undir titlinum Symphonia Harmoniae Caelestium Revelationum (Samhljómssynfónía hinna himnesku opinberana). Tónlist þessi var flutt í klaustrum hennar og breiddi út anda friðsældar sem hefur borist til okkar. Fyrir hana sjálfa var allt sköpunarverkið symfónía hins Heilaga Anda sem í sjálfum sér er fögnuður og gleði. Vinsældirnar sem Hildegard naut urðu til þess að margir leituðu ráða hjá henni. Vegna þess eru mörg bréf frá henni varðveitt.

Mörg karla- og kvennaklaustur leituðu til hennar, sem og biskupar og ábótar og mörg andsvara hennar geta átt við okkur. Til dæmis þessi orð sem hún skrifaði til nunnusamfélags: "Hið andlega líf verður að rækta af mikilli skyldurækni. Til að byrja með er það byrði því það kallar á afneitun lystisemda holdsins og þess háttar hluta. En ef hún [sál nunnunnar] lætur hrífast af heilagleikanum mun hinni heilögu sál finnast að jafnvel fyrirlitning á heiminum sé sæt og elskuverð. Allt sem þarf er að sjá um að sálin missi ekki kjarkinn. " (E. Gronau, Hildegard. Vita di una donna profetica alle origini dell'età moderna, Milan 1996, p. 402).  

Þegar keisarinn Frederic Barbarossa kom af stað klofningi í kirkjunni með því að styðja þrjá andpáfa gegn Alexander III hinum lögmæta páfa, hikaði Hildegard ekki, hvött áfram af sýnum sínum að minna hann á að jafnvel hann, keisarinn væri undirorpinn dómi Guðs. Í algeru óttaleysi sem einkennir góða spámenn skrifaði hún þessi orð til hans, eins og þau væru töluð af Guði: "Þig mun iðra þessarar illu guðlausu hegðunar sem ég fyrirlít! Hlustaðu Ó þú konungur, ef þú vilt lifa! Ella mun sverð mitt nísta þig" (ibid., p. 412).

Í krafti hina andlegu yfirburða sem henni voru gefnir lagði Hildegard upp í ferðir á síðustu árum ævinnar. Þetta gerði hún þrátt fyrir hækkandi aldur og það hve ferðalög voru óþægileg [á þessum tíma]. Tilgangurinn var að tala til þjóðar Guðs [kirkjunnar]. Fólkið hlustaði viljugt, jafnvel þegar orð hennar voru hörð. Hún var álitin sendiboði Guðs. Fyrst og fremst hvatti hún klausturreglurnar og klerkastéttina til að lifa í samræmi við köllun sína. Á sérstakan hátt stóð hún þannig í vegi fyrir hinni þýsku hreyfingu cátari [Katara]. Katari þýðir bókstaflega "hreinn" og hreyfing þeirra stefndi á róttæka umbyltingu kirkjunnar og henni var séstaklega beint gegn spillingu klerkastéttarinnar. Hildegard ávítaði þá fyrir að reyna að breyta grundvelli kirkjunnar og minnti þá á að sönn endurnýjun kirkjulegra samfélaga fæst aðeins með einlægum anda iðrunar og með því að fara fram á að fólk snúi sér til trúarinnar, fremur en með því að breyta forminu. Þetta eru boð sem við ættum aldrei að gleyma.

Við skulum alltaf ákalla Heilagan Anda að hann uppljómi innan kirkjunnar heilagar og hugrakkar konur eins og heilaga Hildegard frá Bingen, sem eins og hún þrói gjafir Guðs og beri fram sitt eigið sérstaka og dýrmæta framlag til andlegrar þróunar samfélaga okkar og Kirkjunnar á okkar tímum. "

Hér lýkur þessari lauslegu þýðingu á erindi Benedikts páfa sem finna má í heild sinni á eftirfarandi vefslóð. http://en.radiovaticana.va/articolo.asp?id=627721

Áður en sagt er skilið við Hildegard frá Bingen er rétt að taka fram að tónsmíðar hennar sem Páfi minntist á hér að framan gerðu það að verkum að nafni hennar er haldið á lofti innan tónlistarsögunnar. Hún samdi langar sekvensur, bæði texta og tónlist og einnig helgileiki. Hún er eitt af fyrstu nafngreindu tónskáldum sem sögur fara af sem samdi sjálfstæða tónlist. Á undirsíðu vefsetursins www.hildegard.org má t.d. finna þessa síðu sem fjallar sérstaklega um tónsmíðar hennar: http://www.hildegard.org/music/music.html

Á eftirfarandi YouTube tengli má finna upptöku af sálmi eftir Hildegard: Caritas abundat in omnia:

[youtube]Vv3CDYpkrSw[/youtube]
Beinn tengill: http://www.youtube.com/watch?v=Vv3CDYpkrSw

RGB

No feedback yet