« Ritningarlesturinn 6. október 2006Ritningarlesturinn 5. október 2006 »

05.10.06

  09:52:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 923 orð  
Flokkur: Bænalífið

Hið konunglega prestafélag hins Nýja sáttmála í upphafi nýrra aldarskila

Það er Pétur postuli sem færði okkur þessi fögru orð í hendur að arfleifð: „En þér eruð útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans, sem kallaði yður frá myrkrinu til ljóssins“ (1Pt 2. 9). Sérhver kaþólskur karl og kona eru meðlimir þessa konunglega prestasamfélags. Höfuð þess er Kristur: „En Kristur er kominn sem æðsti prestur hinna komandi gæða“ (Heb 9. 11). Æðsti prestur hins Gamla sáttmála var þannig forgildi Krists. Mikilvægasta hlutverk æðsta prests hins Gamla sáttmála var að bera fram friðþægingarfórnina á yom kibbur og í Mishna lesum við: „Hann lét bæn sína ekki dragast á langinn svo að Ísrael fylltist ekki skelfingu.“ [1] Á friðþægingardaginn bar æðsti presturinn blóðið – tákn lífsins – af brennifórnaraltarinu (krossinum) inn fyrir forhengið og smurði því á örkina í hinu Allra helgasta innan forhengisins. Síðan gekk hann út eftir tjaldbúðinni og smurði blóðinu á áhöld helgidómsins og friðþægði þau, en hin stærri áhöld voru forgildi sakramentanna.

Með sama hætti úthellti Drottinn blóði sínu á fórnarhæð krossins og það var María Guðsmóðir, Móðir hryggðarinnar, sem stóð undir krossinum [SJÁ]:

Stóð að krossi sefa sárum
sorgum bitin, drifin tárum,
móðir þar sem mögur hékk;

og um hennar hyggju skarða,
harmi lostna, böli marða,
eggjabrandur bitur gekk [2].

Þannig verður Móðir hryggðarinnar að Móður og Drottningu kirkjunnar þegar hið yfirskilvitlega samfélag heilags Sonar hennar verður til: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn [Jóhannes]: „Nú er hún móðir þín.“ (sjá Jh 19. 16, 27). Þannig varð Guðsmóðirin Móðir okkar allra.

Eftir fórn krosshæðarinnar „rifnaði fortjald musterisins sundur í miðju“ (Lk 23. 46), það er að segja við getum gengið inn í hið Allra helgasta í gegnum forhengið með bænir okkar og árnaðaróskir fyrir öllu mannkyninu. Ef forhengið lokast, þá er það sökum synda okkar sem verða þess valdandi að við glötum náðinni. Því hefur Guð falið prestum sínum og arftökum postulanna sem þegið hafa blessun sakramentis prestsvígslunnar rétt sem staðgenglum sínum til að fyrirgefa syndirnar:

„Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum." (Mt 20. 18-20).

Og enn og aftur: „Meðtakið Heilagan Anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað" (Jh 20. 22, 23). Þegar forhengið lokast getum við þannig skriftað og játað syndir okkar fyrir skriftaföður og þannig gengið að nýju inn fyrir forhengið og séð (sjá Mt 5. 8). Þetta er mikilvægt því að þannig getum við borið fram fyrirbænir okkar í hreinni bæn frammi fyrir Guði Föður í hinu Allra helgasta sálarinnar.

Og hver er þessi bæn? Heil. Silúan á Aþosfjalli bar upp fyrirbænir fyrir mannkyninu í 50 ár. Drottinn og Guðsmóðirin hafa gert það í 2000 ár. Þetta er brýnt í dag, að sem flestir hinna trúðu taki undir bænir þeirra til að breiða út loga elskunnar vegna þess að þannig tekur stórflóð náðarinnar að streyma yfir heimsbyggðina, eða með orðum Jesú:

„Ég get líkt þessu flóði náðarinnar við fyrstu Hvítasunnuna þegar krafti Heilags Anda var úthellt yfir heiminn. Allt mannkynið mun verða vitni að þessu kraftaverki. Þetta er útstreymi loga elsku hinnar blessuðu Meyjar. Heimur hinna vantrúuðu sem smám saman umlykst myrkri mun sannreyna þetta sem mikið áfall, áður en hann tekur að trúa. Áfallið mun skapa nýjan heim sökum styrks trúarinnar. Trúartraustið mun skjóta rótum í sálunum og ásjóna jarðar mun endurnýjast vegna þess að aldrei hefur verið um slíka úthellingu náðarinnar að ræða síðan Orðið íklæddist holdi.“ [3].

Ef við viljum verða að sönnum æðstu prestum Guðs í hinu konunglega prestafélagi hins Nýja sáttmála skulum við því biðja daglega með:

Heil sért þú María, full náðar,
Drottinn er með þér,
blessuð sért þú á meðal kvenna
og blessaður sé ávöxtur lífs þíns, Jesús.
Heilaga María Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum
og úthell náð loga elsku þinnar
yfir allt mannkynið,
nú og á dauðastundu vorri.

Þannig fylgjum við hinni Lifandi örk hins Nýja sáttmála eftir til hins Fyrirheitna lands, rétt eins og Hebrearnir forðum og eins og sjá má í forgildi þessa leyndardóms, hófst friðþæging æðsta prestsins við sáttmálsörkina í hinu Allra helgasta. Þannig mun logi elskunnar streyma fram og eins og Guðsmóðirin segir sjálf, þá er HANN JESÚS. Hinn síðari Hvítasunna verður eins og sú fyrri: „Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum. MARÍA, MÓÐIR JESÚ, var líka með þeim“ (P 1. 14).

[1]. Mishna, Yoma 5, 1.
[2]. Stabat Mater dolrósa, í þýðingu Gísla Brynjólfssonar.
[3]. The Flame of Love of the Immaculate Heart of Mary, bls. 81-82.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þetta Jón. Það verður umhugsunarefni þegar þetta er skoðað hvort eða hvernig gerlegt sé að lesa neitt annað en bókstaflegu merkinguna út úr Mt 20. 18-20, og Jh 20. 22, 23.

Hvað með þá sem byggja grundvöll boðunar sinnar alfarið á hl. ritningu en ekki á hinni heilögu arfleifð og vígsluröð líka? Það væri athyglisvert að heyra sjónarmið þeirra hvernig þeir túlka þennan texta?

05.10.06 @ 17:44
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Bæði Vestur- og Austurkirkjan taka þessi ummæli bókstaflega og fylgja þeim eftir í verki með skriftasakramentinu og andlegri leiðsögn, eins og við vitum báðir.

Hin almenna syndajátning í upphafi messunnar virðist vera það eina sem lifir eftir af hinni heilögu arfleifð meðal mótmælenda í þessu sambandi.

Ég veit satt best að segja ekki hvaða skilning hvítasunnuhreyfing mótmælenda leggur í þessi orð, en hvítasunnuhreyfing kaþólsku kirkjunnar (Catholic pentecostals) kvikar ekki frá henni fremur en hin almenna kirkja. Fróðlegt væri að heyra hvaða skilning hvítasunnumennirnir lútersku leggja í þessi orð, þar er ég þér sammála.

Hvað varðar hina postullegu vígsluröð, þá höfnuðu mótmælendur henni við siðaskiptin og njóta þar með ekki viðurkenningar sem postullega vígðir prestar eins og við vitum, rufu hina postullegu erfikenningu.

Hvað varðar Guðsmóðurina sem örk Guðs er fátt eins vel staðfest í hinni heilögu arfleifð nema þá páfavaldið. Um daginn safnaði ég saman 60 ummælum frá feðrum Austurkirkjunnar frá þriðju fram á tíundu öld þar sem þeir lýsa eindregnum stuðningi við vald páfa. Ég hef minnst áður á einn, það er að segja Þeodór stúdita í Konstantínópel (níunda öld).

Það færi ekki vel fyrir risaolíuflutningaskipi ef skipstjórarnir væru margir í brúnni, fremur en að Heilagur Andi væri margskiptur og sjálfum sér sundurþykkur!

05.10.06 @ 18:00
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég vil ítreka mikilvægi þess hvernig hvítasunnumenn á Íslandi túlka þessa tvo ritningarstaði: Mt 20. 18-20, og Jh 20. 22, 23.

Í hvítasunnuhreyfngu kaþólsku kirkjunnar er allt dæmt ómerkt sem stangast á við hina heilögu arfleifð, þá arfleifð sem kirkjan lifði á fyrstu tvær og hálfa öldina í sögu sinni þar til hin kanónisku rit komu til sögunnar, arfleifð sem Páll postuli bar sína eigin predikun við á fyrsta kirkjuþinginu í Jerúsalem árið 48.

Afar fróðlegt væri að heyra túlkun þeirra vegna þess að þeir segja að Biblían sé eina viðmiðun þeirra, en samkvæmt kaþólskri arfleifð eru Ritningarnar einungis einni hluti arfleifðarinnar sem lesa ber í ljósi arfleifðarinnar.

Andar eru dæmdir í ljósi arfleifðarinnar og ekkert sem stangast á við hana er komið frá Guði. Heilagur Andi lifir í kirkjunni og starfar í gegnum náðarmeðöl hennar, sakramentin, og þar með skriftasakramentið og orð skriftaföður sem staðgengils Krists á jörðu.

05.10.06 @ 20:44