« Von um hjálpræðiBernadetta í Lourdes »

13.02.08

  20:52:02, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 821 orð  
Flokkur: Dýrlingarnir og hetjur

Hetjan á Molokai

Kafli úr trúfræðslubókinni LEGG ÞÚ Á DJÚPIÐ.

Hawai-eyjar eru í miðju Kyrrahafinu. Í ferðaskrifstofubæklingum er þeim lýst sem Paradís á jörðu. Þar vaxa hitabeltisblóm um allt, pálmarnir vagga fyrir léttum blænum og bláar bylgjur Kyrrahafsins gjálfra við hvítar strendurnar. Ein þessara eyja heitir Molokai og hún var frá því endur fyrir löngu kölluð "Dauðaeyjan". Í lok 19. aldar voru þessi orð skrifuð í blað um hana: "Allir þeir, sem fara fram hjá klettaströnd Molokai, ættu að hneigja sig djúpt." Og blaðið segir hvers vegna menn ættu að gera það:

Eyjan hafði frá fornu fari verið dvalarstaður fyrir ………

holdsveika. Mönnum stóð skelfing af holdsveikinni, hún var smitandi sjúkdómur sem læknar þeirra tíma kunnu engin ráð við. Þeir vesalingar, sem sýktust af holdsveiki, voru reknir úr mannlegu samfélagi og fluttir til fjarlægra staða.

Á Molokai var einmitt slík holdsveikranýlenda og meðal sjúklinganna starfaði belgiskur prestur, Damien að nafni. Þegar hann var 35 ára, hafði hann ákveðið að yfirgefa heim hinna heilbrigðu og setjast að hjá holdsveikisjúklingunum á eyjunni.

Þegar hann steig á land á Molokai, ungur og hraustur maður, blöstu við honum ósegjanlegar hörmungar. Tærð andlit, bólgin og afmynduð af sjúkdómnum, einblínu á hann. Sjúklingarnir féttu fram handleggjastúfa, vafða óhreinum tuskum, sem útferðin lak úr. Hann varð að taka á öllu sem hann átti til þess að snúa sé ekki frá þeim með viðbjóði. Óþefinn lagði út úr kofunum þeirra. Jörðin var óræktuð og vatnsleiðsla var engin. Þar stóð hús sem átti að heita sjúkrahús, en í því var kvorki læknir né hjúkrunarkona og ekki heldur lyf eða umbúðir, og sjúklingar lágu þar á bálkunum eins og lifandi lík. Þegar menn dóu, var þeim fleygt á sorphauginn.

Þetta mátti sannarlega kalla forgarð helvítis, og þangað var nú ungi presturinn kominn. Ofan á allt annað bættist ofdrykkja. Þetta vesalings fólk, sem ekki sá annað fyrir sé en eymd og volæði til dauðadags, lagðist í drykkjuskap í örvæntingu sinni. Áfengið bjó það til sjálft. Síðan drakk það frá sé vitið og hagaði sé eins og villidýr í ölæðinu. Ofbeldi og hvers kyns svívirða voru daglegir viðburðir.

Séra Damien bjó 16 ár meðal þessa fólks. Áminningar um siðgæði og guðrækilegt tal var ekki hans aðferð. Hann sneri sé fyrst að hagnýtu hliðinni. Gömlu, lúsugu pestarbælin voru rifin og ný hús byggð. Hinir holdsveiku byggðu þau sjálfir og presturinn stjórnaði vekrinu. Gerð var áætlun um ræktun landsins og vatn var leitt ofan úr fjöllunum til borgar hinna holdsveiku. Séra Damien sigraðist líka á drykkjuskapnum, því sjúklingarnir létu sé segjast þegar þeir uppgötvuðu að þar var hægt að lifa líkt og aðrar manneskjur, þrátt fyrir hinn voðalega sjúkdóm.

Árin liðu. Séra Damien flutti boðskap sinn með brosi og kærleika. Áminningar hans voru starfið sem hann vann með eigin höndum. Dag einn í desember 1884 kom séra Damien niður úr fjöllunum eftir erfiðan dag á hestbaki. Honum var mjög kalt og hann bað eina af holdsveiku konunum að útbúa fyrir sig heitt fótabað. "Gáðu að þér," sagði hún þegar hún kom með vatnið, "Það er sjóðandi heitt."

Presturinn deif tánum varlega niður í það. Nei, það var ekkert sérlega heitt. Hann fór því hiklaust með báða fætur ofan í vatnið. Þegar hann dró þá upp úr aftur, sá hann að þeir voru brenndir. Tilfinningaleysi í höndum og fótum er eitt fyrsta merkið um að maður sé orðinn holdsveikur. Það fór skefingarhrollur um prestinn þegar hann skildi að hann var sýktur af holdsveikinni. Hann hafði verið 12 ár meðal hinna holdsveiku og þetta voru afleiðingarnar.

Hann var fjögur ár að deyja. Andlitið á honum bólgnaði og hann fékk kýli. Að lokum komst sjúkdómurinn einnig í augun og hann varð blindur. Hann leið hræðilegar þjáningar þegar leið að lokunum.

Séra Damien dó 15. apríl 1889. Hann var nefndur postuli hinna holdsveiku og "Hetjan á Molokai." Hann var jarðsettur á eyjunni.

Enn í dag er ástæða til að hneigja sig djúpt þegar farið er fram hjá klettaströnd Molokai. Þar eru ekki lengur holdsveikir menn því það er hægt að lækna fólk af þeim sjúkdómi nú á tímum. En minningin um hetjuna á Molokai hefur ekki bliknað þótt árin líði.

No feedback yet