« Við þekkjum ríki Guðs á kærleikanumKirkjan er líkami Krists »

04.09.06

  20:27:32, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 498 orð  
Flokkur: Messan

Helgisiðir messunnar - eftir Sr. Róbert Bradshaw

Meðan Jesús dvaldist hér á jörðu, klæddist hann síðum kufli. Í messunni klæðist presturinn samskonar fötum til þess að minna okkur á að raunverulega er það Jesús sjálfur sem færir messufórnina með því að notfæra sér hendur og varir prestsins.

Krossinn á altarinu minnir okkur á að Jesús dó fyrir okkur. Í messunni þökkum við honum fyrir það.

Presturinn kyssir altarið vegna þess að það er heilagt og einnig vegna þess að í hverju altari eru geymdir helgir dómar einhvers dýrlings.

Við hefjum messuna með því að signa okkur.
Við segjum Guði að við iðrumst synda okkar.
Það voru syndir okkar sem negldu Krist á krossinn.

Í hverri sunnudagsmessu eru lesnir þrír kaflar úr Biblíunni. Guð talar við okkur í þessum ritningarköflum.

Í Biblíunni er samtals 73 bækur: 46 þessara bóka voru skrifaðir fyrir komu Krists og nefnast Gamla testamentið. 27 bækur voru skrifaðar eftir komu krists og kallast Nýja testamentið.

Um leið og presturinn byrjar að lesa guðspjall dagsins, gerum við krossmark á ennið, varirnar og brjóstið.
*Krossmarkið á enni minnir okkur á að hugsa oft um Jesúm og það sem hann kenndi okkur.
*Krossmarkið á varirnar minnir okkur á að segja öðrum frá Guði.
*Krossmarkið á brjóstið minnir okkur á að elska allt sem Jesús sagði.

Presturinn ber fyrst fram brauðið. Við ættum einnig að fórna Guði sjálfum okkur, fjölskyldu okkar og störfum, svo að öll dagleg viðhorf okkar helgist Guði og verði honum velþóknanleg.

Presturinn hellir víni í kaleikinn. Síðan lætur hann nokkra dropa af vatni út í vínið. Vatnsdroparnir tákna okkur. Samruni vatns og víns minnir okkur á að eins og vatnið hverfur í víninu og sameinast því, eins sameinumst við Jesú í messunni.

Nú ber presturinn fram vínið. Brauðið og vínið eru ekki sérstaklega dýrmæt enn sem komið er, en þeim verður innan skamms breytt í líkama og blóð Krists. Þess vegna eru þessar fórnargjafir orðnar svo mikilvægar.

Nú er komið að mikilvægasta hluta messunnar, gjörbreytingunni. Presturinn lýtur fram yfir brauðið og hefur yfir sömu orðin og Jesús sagði við brotningu brauðsins við heilaga kvöldmáltíð, "Þetta er líkami minn." Brauðið hefur nú breyst í lifandi líkama Jesú.

Presturinn brýtur hostíuna til þess að minna okkur á að Jesús dó á krossinum. Líkami hans var lemstraður fyrir syndir okkar.

Presturinn brýtur smábrot af hostíunni og lætur það í kaleikinn. Þetta minnir okkur á upprisu Krists. Það er tákn um samruna blóðs og líkama Krists í upprisunni á páskadagsmorgun. Þetta er einnig áhrifarík áminning um að þeir sem feta í fótspor Krists og lifa lífi sínu í bæn, dyggðum og fórn verða þátttakendur í upprisu Krists og eilífri sælu á himnum.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þennan pistil sr. Denis. Þarna komu fram athyglisverðar upplýsingar sem ég var búinn að gleyma, svo sem um merkingu krossmarkanna þriggja.

05.09.06 @ 20:39
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

LEYNDARDÓMUR VATNSINS OG VÍNSINS Í HEILAGRI MESSU

Presturinn hellir víni í kaleikinn. Síðan lætur hann nokkra dropa af vatni út í vínið. Vatnsdroparnir tákna okkur. Samruni vatns og víns minnir okkur á að eins og vatnið hverfur í víninu og sameinast því, eins sameinumst við Jesú í messunni.

„Þegar hinn góði og trúfasti þjónn gengur inn í fögnuð Drottins verður hann ölvaður af ríkidæmi húss Guðs sökum þess að hann finnur með ósegjanlegum hætti það sem ölvaður maður sannreynir. Hann gleymir sjálfum sér og er ekki lengur meðvitaður um sérstöðu sína. Hann hverfur og týnir sjálfum sér í Guði og verður einn andi með honum, líkt og vatnsdropi hverfur í miklu víni. Og þrátt fyrir að slíkur dropi hverfi sjónum og taki á sig lit og bragð vínsins gildir hið sama um þá sem öðlast fullkomna hlutdeild í sælunni. Allar mennskar langanir eru teknar frá þeim með ósegjanlegum hætti, þeir eru hrifnir frá sjálfum sér og sökkva niður í hinn guðdómlega vilja. Ef þessu væri á annan veg varið – ef eitthvað mennskt yrði eftir í slíkum manni sem ekki hefur verið upprætt – væru þau orð Ritningarinnar sem segja að Guð eigi að vera allt í öllu röng. Verund hans heldur áfram að vera til, en í annarri mynd, í annarri dýrð og í öðrum mætti. Og allt er þetta ávöxtur algjörrar og fullkominnar sjálfsafneitunar . . . Hérna muntu finna svarið við spurningunni, sökum þess að hin sanna sjálfsafneitun þegar maðurinn gefst hinum guðdómlega vilja sannarlega á vald í hinum tímanlega heimi er ímynd og smærra afbrigði sjálfsafneitunar hinna blessuðu sem Ritningin víkur að. Og þessi samlíking nálgast frummynd sína í réttu hlutfalli við sameiningu sína við Guði. Taktu vel eftir því sem sagt er um hina blessuðu: Þeir eru sviptir persónulegu frumkvæði sínu og ummyndast í aðra mynd, aðra dýrð og annan mátt. Hvað er þessi mynd, ef hún er ekki Guðdómseðlið og Guðdómsverundin sem þeir úthella sjálfum sér í og sem úthellir sjálfri sér í þeim? Og hvað er þessi önnur dýrð, ef hún uppljómast ekki og verður ljómandi í hinu óaðgengilega ljósi? Hvað er þessi annar máttar, ef hann er ekki þessi sameining við hinn guðdómlega persónuleika þegar maðurinn öðlast guðdómlegan styrk og guðdómlegan mátt, svo að honum megi auðnast að framkvæma allt sem sæla hans felur í sér, og hafnar öllu sem stangast á við slíkt? Og það er með þessum hætti, eins og sagt hefur verið, sem maðurinn öðlast frelsi frá sérhyggju sinni.“ [1]

Á slíkri stund þegar sálinni er úthellt syngur hún í gleði sinni:

„Sál mín hefur sameinast unaðsríkri sál þinni eins og vatnið víninu, hver getur aðskilið vatnið og vínið eða mig og þig í samruna okkar? Þú ert orðinn mitt meira sjálf og engir fjötrar geta heft mig framar. Þú hefur gagntekið verund mína og á ég því ekki að íklæðast þinni? Mig hefur þú styrkt svo að ég þekki mig í þér. Elska þín hefur gegnumnýst mig, og hrif hennar gert mig allsgáðan.“

[1]. Blessaður Heinrich Seuse, „Buchlein von der Wahrheit,“ 4. kafli.

08.09.06 @ 18:57