« Hl. Tómas og löginSaga opinberra fólksfækkunarmarkmiða stjórnvalda í Bretlandi og BNA og tengsl þeirra við stefnumarkmið stofnana Sameinuðu þjóðanna og alþjóðastofnana »

04.07.06

  17:30:37, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 2573 orð  
Flokkur: Sr. Þorbergur Kristjánsson

Helgi lífsins

Ræða sr. Þorbergs Kristjánssonar á Lífsvonarfundi 12. des. 1992. Áður birt í Lífsvon, fréttabréfi Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, 1. tbl. 9. árg. (marz 1993), s. 1–3. Lesendur Kirkjunetsins eru hvattir til að lesa þessa grein – hér er margt djúpt hugsað og bent á afleiðingar fósturvíga, sem fram hafa komið á síðari árum. (Aths. JVJ).

Átökin um lífsgæðin, sem efnishyggjan magnar, leiðir af sér tillitsleysi og hörku – kaldræna afstöðu vonarsnauðu viskunnar. Landvinningar vísinda og tækni geta verið tvíbentir, sem dæmin sanna. Þeir hafa, á mörgum sviðum, bætt lífskjörin og veitt aukna innsýn í tilveruna. En í sumum tilvikum hefur tækninni verið beitt gegn lífinu sjálfu. Virðingin fyrir manneskjunni sem slíkri stendur höllum fæti, og birtist það með ýmsu móti. Þannig hafa nú í næstum tvo áratugi verið í gildi lög í landi okkar, sem svipta hið ófædda líf réttarvernd fyrstu 12 vikurnar eftir getnað, a.m.k.

Auðvitað fer ekki milli mála, að kona, sem verður þunguð, án þess að hafa ætlað sér það, getur staðið í erfiðum sporum. Þar getur margt komið til. En í þessu sambandi varðar miklu, hvernig vandanum er mætt, hvort menn yppta bara öxlum og benda á fóstureyðingu eða reyna að finna lausn, er e.t.v. gerir kröfur til einstaklings og heildar. Það má ekki gleymast, að val konunnar á oftast, að verulegu leyti, rætur í afstöðu umhverfisins.

Nú erum við yfirleitt alin upp við það, að íslensk lög séu nokkur mælikvarði á rétt og rangt. Og hvað sem því líður, þá hafa lög áhrif, sbr. t.d. þá staðreynd, að dregið hefur úr reykingum, síðan það var lögtekið, að menn gætu ekki reykt, hvar sem þeim sýndist. Og konunni, sem að var vikið, mæta lög, sem gefa henni rétt til að hindra fæðingu barnsins, sem hún ber undir belti. Óbeint er henni sagt, að barnið hennar hafi ekkert manngildi, fyrr en eftir 12. viku, nema því aðeins, að hún kjósi sjálf að líta svo á, að það eigi að njóta helgi lífsins. Ekki er óeðlilegt, að þetta komi til með að móta afstöðu hennar. Hér koma svo til ótal röksemdir: Hún er e.t.v. of ung – þarf að ljúka skólanámi, erfitt getur orðið að ráða við kostnaðinn – húsnæðis- og gæsluvanda. Oft eru það þá líka þeir, sem standa henni næst, sem benda á allt þetta. Og þegar leitað er til opinberra ráðgjafa í þessu samhengi, mun misskilin tillitssemi einatt valda því, að ráðgjöf þeirra verði lítt letjandi.

Þetta og ýmislegt fleira er rétt að hafa í huga. Það gerir skiljanlegt, að gripið sé til fóstureyðinga, en það dregur ekki úr alvöru málsins.

Eldfimt umræðuefni

Fá umræðuefni eru annars jafneldfim eða eins erfitt um að fjalla sem fóstureyðingar, því að hér er mál, sem grípur djúpt inn í persónulegar og oft dapurlegar aðstæður. Og þá geta fallið orð, sem kunna að koma illa við þá, sem andstæðrar skoðunar eru, án þess að það sé í raun ætlunin. Um þetta höfum við ótal dæmi: Annars vegar virðist það hart og óréttlátt, þegar talsmenn frjálsra fóstureyðinga saka andstæðinga sína um kaldranaskap og dómsýki gagnvart konum, sem hafa látið eyða fóstri. En það sem vakir fyrir okkur, sem teljum frjálsar fóstureyðingar ekki ásættanlegt fyrirbæri, er alls ekki að dæma neina þá manneskju, sem leitar eða hefir fengið fóstureyðingu framkvæmda. Á það verður að leggja áherslu, án þess að slegið sé af eða dregið úr því, að framkvæmd fóstureyðinga leiðir m.a. til vanmats á manngildi og brýtur á helgi lífsins. Það getur vissulega legið nærri að líta svo á, að þeir sem vilja frjálsar fóstureyðingar, hafi takmarkaðan skilning á mannréttindum, manngildi eða helgi lífsins.

En í þessu sambandi hljótum við að benda á, að við fellum ekki dóma um siðferðileg viðhorf einstaklinga, heldur afleiðingarnar, þegar til lengri tíma er litið. Þessu máli verður að halda vakandi, og málflutningurinn hlýtur að mótast af þeirri alvöru, sem efnið kallar á: Hér er fjallað um réttinn til lífs handa mannlegu lífi, sem er að springa út, hvorki meira né minna.

Slagorð sem standast ekki

Eitt af þeim slagorðum, sem lengi var hamrað á, gekk út á, að það væru mannréttindi að vera velkominn í heiminn – fæðast eftir ósk foreldra. Þessu hefir, að ég hygg, ekki verið hampað mjög í seinni tíð, og ástæðan er ugglaust sú, að þessi þankagangur stóðst ekki, væri hugsunin hugsuð til enda. Rétturinn til að vera óskabarn var hér settur ofar réttinum til lífs, og jafnvel áköfustu talsmenn fóstureyðinga hafa ekki talið vænlegt að halda fast við það.

Öllu lífseigari virðist sú röksemd, að kona eigi að ráða yfir eigin líkama. Og á það hljóta vissulega allir að fallast. En í fyrsta lagi gildir það ekki aðeins eftir að þungun er orðin, og í öðru lagi er þá ekki lengur um líkama konunnar einan að ræða, heldur og þess einstaklings, sem hún ber undir belti. Þetta er í raun svo augljóst, að þessi röksemd er líka á undanhaldi, að ég hygg.

Þriðja atriðið, sem haldið er á lofti, til að auðvelda frjálsar fóstureyðingar, gengur út á það, að persónan, sem málið snerti, eigi að hafa allan ákvörðunarrétt í þessu sambandi, opinberir ráðgjafar eigi ekki að koma hér til. En þetta er í raun málatilbúnaður, sem einfaldar málið meira en eðlilegt getur talist. Hér er ekki verið að taka ákvörðun um venjulega læknisaðgerð, eins og sumir virðast álíta. Og þetta hefir vissulega valdið örlagaríkum ruglingi í umræðum um fóstureyðingar. Málið snýst nefnilega um allt annað og miklu örlagaríkara en hér er látið í veðri vaka. Spurningin lýtur að því, hvort fjarlægja eigi síðustu leifarnar af réttarvernd handa hinum veikasta af öllum í mannlegu samfélagi. Og svo lengi sem ákvörðun um fóstureyðingu kemur til kasta utanaðkomandi aðila, er þó í einhverjum mæli tekist á um rétt tveggja einstaklinga. Fóstureyðing felur í sér, að bundinn er endi á líf, og það er svo alvarlegt mál, að ákvörðun um það verður ekki tekin nema til komi þriðji aðili, er utan við málið stendur. Um leið og ákvörðunin er alfarið afhent öðrum hlutaðeigandi aðila, þ.e.a.s. konunni, um leið er síðasta réttarvörn fóstursins úr sögunni.

Afleiðingar fóstureyðinga

Afleiðingar fóstureyðinga verða æ augljósari í okkar heimshluta. Í norsku blaði var greint frá því sl. vetur, að ljósmóðir við Aker-spítalann í Oslo hefði sagt frá því í sjónvarpi, að fósturlát væru sett af stað allt fram á 20. viku meðgöngu. Dæi barnið ekki í sjálfri fæðingunni, væri það einfaldlega látið liggja umhirðulaust, uns dauðinn kæmi til. Afleiðinga þess, að slíkt gerist, gætir svo margvíslega. Gamalt fólk og fatlað fær t.d. í ýmsum tilvikum bein og óbein skilaboð um, að það eigi ekki rétt til lífs. Legvatnsrannsóknir sem benda til þess, að eitthvað kunni að vera afbrigðilegt við ástand fósturs, leiða nú yfirleitt til þess að það sé fjarlægt. Foreldrar eru a.m.k. settir í erfiða stöðu í slíkum tilvikum – já, gagnvart næstum ofurmannlegu vali. Þrýstingurinn frá umhverfinu er hér mikill og hætt við, að æ fleiri ágallar verði taldir tilefni fóstureyðingar, og spurningin vaknar um það, hvaða eigindir verði í framtíðinni taldar forsendur þess, að þeir, sem til álita koma, eigi rétt til lífs.

Átakanlegt er, að á fæðingarspítala geti það gerst, að í einu herbergi sé 20 vikna barn, er samkvæmt ósk foreldra hefir verið fjarlægt úr móðurlífi og bíði dauðans umhirðulaust, og í næsta herbergi sé svo öllum ráðum beitt til að bjarga lífi fyrirburðar. Hér blasir svo sannarlega við endurmat allra viðtekinna gilda.

Í krafti laga eru nú hundruð barna árlega svipt réttinum til lífs, neitað um að vaxa úr grasi, frá þeim teknir þeir möguleikar, er annars gætu beðið þeirra. Hvernig mundi þetta líta út í ljósi þess, sem segir í 139. Davíðssálmi t.d., þar sem segir, að Guð hafi séð manninn, meðan hann var enn ómyndað efni, ofið hann í móðurlífi?

Líknardráp

Augljóst er líka samhengið milli þess vanmats á helgi lífsins, sem talsmenn fóstureyðinga eiga mikla sök á, og hins harða áróðurs, sem nú er rekinn víða um lönd, fyrir réttmæti líknardráps. Það er auðvitað ekki tilviljun, að höfuðtalsmenn þessa eru hinir sömu og mest hafa haldið fram fóstureyðingum – eða því að þær geti verið ásættanleg lausn. En umræðan um líknardráp er nú víða hávær – ekki aðeins innan heilbrigðisstéttanna, heldur líka á alþjóðlegu, pólitísku plani. Markmiðið er lögleiðing virks líknardráps. Löggjafinn á að gefa læknum og hjúkrunarliði heimild til að binda enda á líf sjúklinga. Ég nefni hér bara nokkur dæmi, sem sýna, hve langt þessi öfugþróun er komin og hve miklu varðar, að á þessu máli sé tekið: Í Washington-ríki í Bandaríkjunum greiddu 45% atkvæði með því í almennri atkvæðagreiðslu, að líknardráp yrðu heimiluð. Talsmenn þessa lögðu fram mikla peninga til að koma máli sínu fram, og svipað gerðist eigi alls fyrir löngu í Kaliforníu. Í Bretlandi hafa verið stofnuð þverpólitísk samtök þingmanna til að vinna að framgangi þessa máls þar í landi. Líka þar leggja samtök áhugamanna um líknardráp fram fé. Í Hollandi var nýlega samþykkt löggjöf, sem heimilar líknardráp, en vitað er, að um langt skeið hafa 2% af öllum dauðsföllum þar í landi orðið með þessum hætti. Skoðanakannanir benda til, að um 80% íbúanna þar telji, að menn eigi að hafa rétt til að binda enda á eigið líf með aðstoð heilbrigðisstétta, og á Evrópuþinginu hefir komið fram tillaga, sem gengur út á þetta.

Á pólitísku plani

Hér er um að ræða andlega baráttu, sem er að færast á hið pólitíska plan, er að verða barátta um löggjöf. Hún snýst um ólíkan skilning á manngildi og helgi lífsins. Viðhorf þeirra, sem vilja fá líknardráp lögleidd, eru þó óljós um margt. Sagt er, að manngildið byggist á virðingu, heilastarfsemi og meðvitund og að virkt líknardráp feli ekki í sér neitt vanmat á mannlegu lífi. Telji sá, sem óskar að deyja, að hann geti ekki lengur lifað á viðhlítandi máta, eigi að hjálpa honum til að deyja. En manngildið verður þannig matsatriði eða tilfinningamál. Helgi lífsins víkur fyrir eigin viðhorfi, maður metur manngildið sjálfur – eða það sem verra er, aðrir meta það fyrir mann, og mælikvarði þeirra getur auðveldlega leitt til þess, að sá sem um er fjallað verði dæmdur úr leik. En samkvæmt kristnum mannskilningi er maðurinn skapaður í Guðs mynd og það þýðir m.a., að helgi lífsins er skilyrðislaus, óháð tilfinningum eða mati á möguleikum. Manngildi eiga líka þeir vanbúnu og þroskaheftu, þeir ófæddu og öldruðu og þeir sem haldnir eru ólæknandi sjúkdómum. Helgi lífsins nær líka til þeirra lífs.

Flokkun manngildisins

Kristinn mannskilningur er þá heldur ekki hagkvæmur í augum þeirra, sem vilja flokka manngildið, telja framleiðni og afkastagetu æðsta markmiðið. Kristin viðhorf eru víkjandi, vegna þess að kristin trú er á undanhaldi, og því er vissulega ærin þörf á löggjöf af því tagi, sem Lífsvon hefir viljað fá og hefir líka verið beðið á Kirkjuþingi: Löggjöf er tryggi rétt til lífs frá getnaði til eðlilegs dauða. Hingað til hefir upphaf lífsins verið í mestri hættu, en viðsjárverð öfl láta nú æ meir á sér kræla – líka í sambandi við endi lífsins. Hér er þess því brýn nauðsyn, að merkinu sé áfram uppi haldið, að sýnt sé fram á, hve ómannúðlegar fóstureyðingar og líknardráp eru. Það er í vaxandi mæli þörf á baráttu til varnar því mæti, sem hver manneskja á, einfaldlega af því að um er að ræða manneskju, skapaða í Guðs mynd, umvafða elsku hans.

Hér er teflt um grundvallarverðmæti. Helgi og gildi lífsins sjálfs er í hættu. Svo lengi sem fóstureyðingar eru framkvæmdar, eins og nú, verður að gera ráð fyrir aukinni tilhneigingu til að láta undan því viðhorfi, að það séu mannréttindi að fá aðstoð heilbrigðiskerfisins að binda enda á líf útslitinnar manneskju eða svo illa kominnar, að hún virðist ekki þess umkomin að svara lengur kröfum daganna eða njóta þeirra.

Rétturinn til lífs er grundvallaratriði allra mannréttinda. Honum má skipta í réttinn til að fæðast, réttinn til að vaxa úr grasi, réttinn til verndar og réttinn til að deyja eðlilegum dauða.

Allir eiga rétt til lífs, svo lengi sem forsendur eru fyrir því. Í þessu tilliti er enginn munur á fæddum og ófæddum, ungum og gömlum, dugandi og duglitlum, ríkum og fátækum, körlum og konum, hvítum og svörtum. Einstaklingar og hópar, sem höllum fæti standa, eiga þó kröfu til sérstakrar athygli og umhyggju.

Þorbergur Kristjánsson.

–––––––––––––––––––
Sr. Þorbergur (1925–1996) var í hópi merkustu Þjóðkirkjupresta. Hann var vígður til Skútustaða 1951, þjónaði Bolungarvíkursöfnuði 1952–71 og var sóknarprestur Digranessafnaðar í Kópavogi 1971–95. Þorbergur var Kirkjuþingsmaður 1964–1970 og 1976–90 og sat í stjórn Prestafélags Íslands 1978–84, formaður 1981–83 og ritari 1983-4. Kona hans var Elín Þorgilsdóttir, d. 1999. Fjögur börn þeirra lifa.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Við Kirkjunetsmenn erum þakklátir fyrir þessa djúphugsuðu grein sr. Þorbergs heitins og viljum heiðra minningu þess sómamanns. Það verður ekki gert með því að birta hér persónlegar yfirlýsingar utanaðvífandi manna um “stuðning” þeirra við “möguleika kvenna á fóstureyðingum", sízt af öllu þegar slík yfirlýsing er orðuð með jafn-gróflegum og meiðandi hætti eins og átti sér stað hér í innleggi í nótt. Þessi vefslóð er ekki endastöð fyrir órökstuddar, glannalegar fullyrðingar í þá átt, heldur einungis málefnalega umfjöllun og rökræður. Vitaskuld er fullt af einstaklingum úti í samfélaginu, sem aðhyllast fósturdeyðingaleiðina, en engin þörf á að misnota þessa síðu til að birta einfaldar yfirlýsingar í þá veru. Hér er ekki verið að gera neina skoðanakönnun á málinu; þeir, sem geta ekki rökstutt sitt mál eða haldið sig innan ramma skilyrðanna um háttvísi í orðalagi, geta bara tjáð sig annars staðar.

26.08.06 @ 10:21
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Vel mælt nafni. Mun lesa greinina af athygli.

26.08.06 @ 11:06