« Upphaf opinberananna í MedjugorjeFrásögnin af blessuðum Joskíusi »

27.12.06

  14:59:05, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 976 orð  
Flokkur: Hið flekklausa hjarta Maríu

Helgaðu sókn þína hinu heilaga og Flekklausa Hjarta Maríu

Sókn Vorrar Frúar af sigrinum er staðsett í miðju verslunarhverfi Parísarborgar, ekki fjarri verðbréfamarkaðinum og umlukin leikhúsum og næturklúbbum. Árum saman hefur þetta verið miðstöð pólitískrar mótstöðu sem þjakað hefur París í svo mörg ár. Sóknin hefur orið vitni að því hvernig allt trúarlíf hefur smám saman liðið undir lok í henni. Kirkjurnar hennar voru mannlausar, jafnvel á mestu hátíðunum, hætt hefur verið að veita sakramentin og önnur trúariðkun með öllu horfið og ekkert virtist megna að snúa þessari hryggilegu þróun við sem nú hafði staðið yfir í meira en tíu ár.

Þann 3. desember 1836 á hátíð hl. Frans Xavier, klukkan 9 um morguninn, hóf ég heilaga messu við altari hinnar blessuðu Meyjar. Ég var að fara með fyrsta versið í sálminum, þegar skelfilegar hugsanir sóttu að mér. Ég tók að hugsa um það hversu þjónusta mín væri með öllu tilgangslaus í þessari sókn. Það var ekki fágætt að slíkar hugsanir sóttu að mér og það var svo fjölmargt sem áminnti mig í sífellu á þetta. Mér fannst eins og ég hefði brugðist í þjónustu minni og vildi segja stöðu minni lausri við kirkju Vorrar Frúar af sigrinum.

Þrátt fyrir allar tilraunir mínar til að hrekja þessar hugsanir frá mér, þá var ég svo gagntekinn af þeim að þær fylltu bókstaflega huga minn. Ég tók að lesa og fara með bænirnar án þess að skilja hvað ég var að segja. Eftir að hafa farið með Sanctus nam ég andartak staðar og reyndi að einbeita mér. Ég var orðinn svo skelfingu lostinn sökum þessa hugarástand míns, að ég sagði við sjálfan mig: „Góði Guð, hvað er eiginlega að gerast í huga mínum? Hvernig get ég borið hina guðdómlegu fórn fram? Hugarástand mitt er slíkt að ég get ekki farið með helgunarbænina. Ó, Guð minn, leystu mig undan þessum hryggilega einbeitingarskorti!“

Vart hafði ég farið með þessa bæn í hjartanu þegar ég heyrði greinilega að til mín var beint eftirfarandi orðum með af alvöruþunga: „Helgaðu sóknina hinu heilaga og Flekklausa Hjarta Maríu.“

Eftir að hafa borið upp þakkargjörð hugði ég að því hvernig ég hafði borið fram messufórnina. Þá fyrst kom mér í huga að ég hafði verðið þjakaður af einbeitingarskorti. Minni mitt var afar reikult og ég varð að einbeita mér afar mikið í nokkur andartök til að rifja upp hvað hefði í raun og veru gerst. Ég furðaði mig á því hvernig einbeitingarskortur minn hefði liðið hjá og þá minntist ég skyndilega orðanna sem ég hafði heyrt og þau fylltu mig skelfingu. Ég reyndi örvæntingarfullur að víkja því frá mér að ég hefði heyrt þessi innri orð.

Þegar ég stóð upp (ég var aleinn í skrúðhúsinu), heyrði ég þessi orð greinilega aftur: „Helgaðu sókn þína heilögu og Flekklausu Hjarta Maríu.“

Ég féll aftur á hnéin og fyrstu viðbrögð mín einkenndust af mikilli undrun. Ég hafði heyrt sömu orðin sem mælt voru af sömu rödd og með sama hætti. Áður hafði ég gert mitt besta til að trúa ekki og ég taldi að ég ætti að draga það í efa sem ég hafði heyrt. Nú gat ég ekki efast um það sem ég hafði heyrt ef ég vildi ekki blekkja sjálfan mig. Ég var gripinn mikilli hryggð og gamlar áhyggjur vöknuðu til lífs og þjökuðu anda minn að nýju.

Ég ákvað með sjálfum mér að hirða ekkert um það sem borið hafði að höndum og reyndi eftir bestu getu að gleyma þessu. En orðin „Helgaðu sókn þína hinu heilaga og Flekklausa Hjarta Maríu“ komu sífellt aftur upp í huga minn. Til þess að að losna við þessa þreytandi hugsun lét ég undan og sagði við sjálfan mig: „Það getur svo sem ekki orðið til neins tjóns að auðsýna hinni blessuðu Mey einhvern guðræknisvott.“

Satt best að segja lét ég ekki undan af fúsum vilja, heldur sökum þess að ég var orðinn dauðþreyttur á þessu. Ég fór heim í íbúðina mína og til þess að gleyma þessum hugsunum, ákvað ég að semja reglurnar sem lutu að félagsskap okkar. Ég hafði vart tekið mér fjaðrapennann í hönd þegar allt lág ljóst fyrir og ég samdi reglurnar á örskömmum tíma. [1]

[1]. Með samþykki erkibiskupsins í París helgaði faðir Desegenettes sóknina hinu Flekklausa Hjarta Maríu að kveldi þess 11. desember 1836. 500 kirkjugestir voru við athöfnina, en um morguninn töldust þeir einungis 40! Sama daginn stofnaði hann Samtök hins heilaga og Flekklausa Hjarta Maríu til afturhvarfs syndara, en árið 1838 ákvað Gregor páfi XVI að gera samtökin að Arconbræðralagi. Í dag er meðlimafjöldi þess 1.638.000 og það hefur stofnað meira en 20.000 kristin samfélög (sóknir, söfnuði og skóla) um allan heim.

Faðir Desgenettes, prestur við kirkju Vorrar Frúar af sigrinum (1778-1860).

Heil sért þú María, full náðar,
Drottinn er með þér!
Blessuð ert þú á meðal kvenna,
og blessaður sé ávöxtur lífs þíns, Jesús.
Heilaga María, Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum,
nú og á dauðastundu vorri. Amen.

© The MARY OF NAZARETH Project.

No feedback yet