« Af læsi á kaþólskum síðmiðöldumRannsóknir á stofnfrumum úr fullorðnum lofa góðu »

02.12.17

  11:02:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 551 orð  
Flokkur: Unnur Gunnarsdóttir

Heimsókn til Medjugorie

Endurbirtur pistill eftir Unni Gunnarsdóttur sem birtist í okt.-nóv. tölublaði Kaþólska kirkjublaðsins. 

Þúsundir kaþólskra pílagríma ferðast til Medjugorje í Bosníu-Herzegóvínu á hverju ári. María mey er talin hafa birst þar fyrst hinn 24. júní 1981 tveimur ungum stúlkum, sem hétu Mirjana Dragićević og Ivanka Ivanković, og næsta dag fjórum öðrum börnum og hefur haldið áfram að birtast fram til dagsins í dag. Páfagarður hefur ennþá ekki viðurkennt þessar birtingar opinberlega en sér þó um rekstur helgireitsins.

Boðskapur Maríu meyjar, Drottningar friðarins, eins og hún hefur nefnt sjálfa sig, hefur ávallt verið með svipuðu sniði, þ.e.a.s. að biðja okkur um að fasta, meðtaka skriftasakramentið og biðja Rósakransinn með hjartanu, þannig færumst við nær Jesú með hennar hjálp, „to Jesus through Mary“.

Nýlega dvaldi ég í Medjugorie í hópi danskra pílagríma og fararstjóri var sr. Benny Blumensaat, sóknarprestur í Esbjerg í Danmörku.

Ég fór ekki til Medjugorje til upplifa kraftaverk eða leggja dóm á hvort birtingar Maríu meyjar væru sannar. Ég fór til að leita friðar í hjarta og sál, og til að dýpka trú mína. Þar upplifir maður hina sönnu lifandi trú bæði með heimafólki og pílagrímum alls staðar að úr heiminum.

Flestir sem heimsækja staðinn vilja ganga á bæði fjöllin sem þar eru, hæðina sem María birtist á (Birtingarhæðina) og á Mount Krizevac (Fjall krossins). Þar er fallegur kross sem íbúar reistu 15. mars 1933 með flís af krossi Jesú sem Píus XI páfi lét koma fyrir. Á leið upp fjallið er pílagrímum ráðlagt að hugleiða samband sitt við Guð og hverju þurfi að breyta til að dýpka sambandið við hann. Oft á sér stað andleg hreinsun og pílagrímar upplifa mikinn innri frið, sérstaklega þegar þeir biðjast fyrir við krossinn. Einnig finna margir fyrir djúpri þrá eftir að ganga til skrifta. Við kirkju hl. Jakobs er hægt að skrifta á öllum stundum sólarhringsins á óteljandi tungumálum og þessari þjónustu sinna hundruð presta af mikilli þolinmæði.

Í Medjugorie eru í boði margvíslegir fyrirlestrar reglufólks og þeirra sem María birtist, um hin ýmsu andlegu málefni, trúna, bænina og fleira. Sjálf sótti ég fyrirlestur hjá sóknarprestinum í Medjugorje, sr. Marinko Sakotar, ásamt fleirum. Hann lagði áherslu á fimm mikilvægustu atriði trúar okkar til að öðlast sanna hamingju og samveru Guðs. Þau atriði eru að biðja með hjartanu, fasta, skrifta, lesa í Biblíunni og taka þátt í messu.

Dagskrá fyrir pílagríma er á opnu svæði fyrir aftan kirkju hl. Jakobs og stendur frá klukkan 16 á daginn fram eftir kvöldi. Þar er hið heilaga altarissakramenti tilbeðið, Rósakransinn beðinn á óteljandi tungumálum, lesin messa og blessaðir hlutir sem pílagrímar hafa meðferðis.

Medjugorje er staður friðar, bænar og trúariðkunar og þess vegna er María mey þaðan kölluð drottning friðarins. Heimsókn þangað er að vissu leyti eins og að fá að koma inn á heimili hennar í Nasaret þar sem hún færir okkur nær syni sínum. Margir sem þangað fara finna fyrir sterkri návist Guðs og fá staðfestingu á að þjáningar lífsins eru hluti af áætlun Guðs og þjóna því tilgangi. Þjáningar geta verið uppspretta stórkostlegrar andlegrar uppvakningar.

Það er ómögulegt að koma til Medjugorie án þess að finna fyrir friði, bæði í hjarta sínu og umhverfi og öðrum pílagrímum. Fyrir mig dvelur þessi friður og staður djúpt í hjartanu og get ég ekki beðið eftir að ferðast þangað aftur. Upplýsingar um pílagrímsferðir þangað er að finna meðal annars á http://www.medjugorjecenter.dk/

Unnur Gunnarsdóttir. 

No feedback yet