« Ákall til ungs fólksAð vísu kemur orðið "Þrenning" hvergi fyrir í Heilagri Ritningu »

01.05.08

  20:44:24, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 726 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Heilög Teresa frá Lisieux. Hvers vegna varð hún fyrir valinu?

Stúlka, sem er tuttugu og fjögurra ára, deyr í litlu Karmelklaustri í hjarta Normandí í Frakklandi en það landsvæði var ekki þekkt af miklum trúaráhuga. Farið var með líkama systur Teresu í kirkjugarð bæjarfélagsins og fylgdu henni einungis fáeinir vinir. Þetta vakti litla athygli. En varla var búið að loka gröfinni er fögur mildi hennar fór að koma í ljós. Fljótt varð hún umræðuefni allra. Fyrst í einu héraði síðan í öðru, síðan í Frakkland, allri Evrópu, í hinum gamla og nýja heimi. Nafn hennar var á vörum trúaðra jafnt sem ótrúaðra, þeirra sem enn gátu farið með nafn Krists og þeirra sem höfðu gleymt því.

Hvers vegna varð hún fyrir valinu þegar svo margir, sem höfðu látist um líkt leyti og hún, höfðu sannað dyggðir sínar með áþreifanlegum og opinberum hætti; helgir karlar og helgar konur sem höfðu þjónað hinum fátæku; trúboðar, postular og píslarvottar; trúrækið fólk af öllum stigum? ………

………

„Teresa! Systir Teresa!“ Það var ekki minnst á neinn annan en Teresu. En hvað hafði hún gert fyrir heiminn meðan hún lifði? Var það eitthvað sem við gætum séð með eigin augum? Var það eitthvað sem við gætum snert á? Svarið við þessu er nei. Séð með augum heimsins þá gerði hún ekki neitt. Og þó var stöðugt verið að biðja til hennar og hún var umræðuefni allra.

Það hafði nægt sem hún sagði: „Ég mun verja himnadvöl minni í það að láta gott af mér leiða á jörðu niðri.“ Þetta voru ummæli sem voru öllum hugleikin og menn endurtóku. En var hægt að trúa þeim? Já, það var hægt og það var gert. En hver er leyndardómurinn fyrir þessum ótrúlega dýrðarljóma? Það var einfaldleiki hennar og lítillæti.

Hins vegar er það einnig þessi einfaldleiki sem gerir það að verkum að margt gott fólk fær ekki skilið dýrlinginn. Dag einn sagði prestur nokkur við Píus páfa X að ekkert óvenjulegt hefði gerst í lífi Teresu. Páfi svaraði og sagði: „Það sem er óvenjulegast við þessa sál er einmitt hinn mikli einfaldleiki hennar. Þetta getur guðfræðin sagt þér.“

Heilög Teresa leitast við að kenna okkur þennan guðfræðilega sannleika, að heilagleiki felst í einfaldleika. Þetta er nákvæmlega það sem við þurfum að heyra nú á okkar tímum. Við sem lifum við þröskuld nýs árþúsunds, lítum stórt á okkur sjálf og teljum okkur sjálfstæð, sjálfbjarga og miklar vitsmunaverur. Við lifum annríku og flóknu lífi. Okkur finnst það mjög erfitt að vera einföld í fasi, vera auðmjúk og ósjálfbjarga og því getur Guð ekki notað okkur með þeim hætti sem hann vill.

Það var þessi hógværð heilagrar Teresu — það er að segja, hún gerði sér grein fyrir því að hún var í raun ekkert án síns himneska Föður, að hún var fullkomlega ósjálfbjarga eins lítið barn; hún geymdi það traust sem einungis smábarnið getur haft: það var þetta sem var grundvöllur þess að Guð gat mótað þennan dýrling sinn. Það er einungis á þessum grundvelli sem Guð getur byggt sannan mikilleika.

Drottinn okkar var auðmjúkur fram í dauðann, jafnvel dauða á krossinum og því hefur Guð upphafið hann til að hvert kné skyldi beygja sig fyrir nafni Jesú. María mey var auðmjúk og því varð hún Móðir Guðs og er nú Drottning himnaríkis. Kirkjan bendir okkur á Teresu litlu, sem var óþekkt og auðmjúk í einfaldleika sínum í Karmelklaustrinu, sem dæmi um einn þeirra sem mestrar tignar njóta í ríki Guðs á himnum. Í dag gefur kaþólska kirkjan okkur Teresu að fyrirmynd og segir við okkur öll: „Hver sá sem mun auðmjúkur verða eins og þetta litla barn, mun talinn meiri í ríki Guðs á himnum.“

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þetta er fögur samantekt og hafðu þökk fyrir. Teresa litla og trúarbylting sú sem hún hratt af stað – Litli vegurinn – var afturhvarf til einfaldleika Fagnaðarerindisins. Sjálfur sagði Drottinn: „Þegar auga þitt er heilt, þá er og allur líkami þinn bjartur“ (Lk 11. 34).

Heilt auga má einnig þýða sem eitt (haplou) auga. Þannig horfði Teresa til Drottins með hinu eina auga anda síns (nous), hinum andlega skilningi sínum.

Fyrir nokkrum árum dvaldi ég í karmelklaustri. Ábótinn sýndi mér stílabækurnar þrjár sem Teresa skrifaði ævisögu sína í. Þær voru gefnar út í ljósriti vegna þess að bókmenntafræðingar trúðu því ekki, að hún hefði aldrei strokað út eitt einasta orð.

Þetta voru stílabækur sem tíðkaðist að nota í frönskum skólum á tímum Teresu. Þetta er rétt: Ekki eitt einasta orð var leiðrétt, allt skrifað með nettri hendi skólastúlku!

Heilagleiki Teresu leiðir okkur fyrir sjónir að við getum öll þjónað Guði, jafnvel þó að við séum dálítið taugaveikluð og „vitlaus“ með því að fylgja orðum la Madre fundadora (Teresu frá Avíla) eftir: Horfið til hans sem horfir á okkur!

02.05.08 @ 00:31