« Heilög FaustínaKærleikur Guðs til mannkynsins »

28.03.08

  20:03:53, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 512 orð  
Flokkur: Dýrlingarnir og hetjur

Heilög Teresa frá Lisieux

Heilög Teresa frá Lisieux er mjög vinsæll dýrlingur rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Hún fæddist 1873 og lést 1897. Hún var frönsk karmelnunna og er einnig þekkt undir nafninu „Hið litla blóm Jesú.“

Þegar hún fæddist í Alençon Frakklandi var henni gefið nafnið Thérèse Martin. Hún var strax í barnæsku mjög trúrækin og gekk í Karmelklaustrið í Lisieux 15 ára gömul. Árið 1893 var hún skipuð til að hafa umsjón með nunnuefnum klaustursins, þar sem hún dvaldi ævilangt.

Heilög Teresa hagaði lífi sínu í samræmi við það sem hún kallaði …

… hinn „litla veg“. Hún leitaði heilagleika með því að inna samviskusamlega af hendi smáa hluti og fábrotin störf.

Góðlyndi hennar var slíkt að yfirboðarar hennar báðu hana að skrifa sögu sína. Hlaut bókin nafnið „Saga sálar.“

Teresa hafði sagt áður en hún dó: „Eftir dauða minn mun ég láta falla niður skúr af rósum“ og mörg kraftaverk gáfu þessu óvenjulega fyrirheiti hennar merkingu. Hún var tekin í tölu heilagra árið 1925. Hún er verndardýrlingur trúboða í framandi löndum og er messudagur hennar 1. október.

Heilagri Teresu var það mjög kært að lesa guðspjöllin. Í þeim sá hún Guð opinbera sig mannkyninu með sínum miskunnsama kærleika sem teygir sig lágt niður til okkar og veitir okkur styrk í þjáningum okkar. Hún sá í guðspjöllunum að fyrir Jesúm Krist er tómleikakennd fólks umbreytt í brennandi kærleika til Guðs. Eftir að hafa gert sér þetta ljóst ákvað hún að elska Guð eins mikið og henni var mögulega unnt alla ævidaga sína. Þaðan í frá var öll hennar hugsun, orð og athöfn umvafin kærleika til Guðs. Kærleikurinn gaf henni allan lífsþrótt og varð hann að markmiði alls þess sem hún gerði.

Heilög Teresa gerði sér fulla grein fyrir því að Guð er Faðir okkar á himnum og við erum börn hans. Þörfin að elska er ríkur þáttur barnæskunnar. Barnið elskar foreldra sína blíðlega og sýnir þeim ástúð sína á einfaldan hátt. Það er þannig sem við eigum að elska Guð, elska hann blíðlega og sýna honum ástúð okkar.


Andleg auðkenni heilagrar Teresu sem oft eru kölluð „kenningin um veg barnæskunnar“ má draga saman í þrjú grundvallaratriði:

1. Við verðum að viðurkenna að fullu og játa andlega fátækt okkar.

2. Við verðum að snúa okkur til Guðs af mikilli trúfesti til að hann geti innt það af hendi í okkur sem við getum ekki sjálf gert af eigin rammleik.

3. Við verðum að trúa á Guð sem er miskunnsamur kærleikur og við verðum að elska aðra.

No feedback yet