« Miskunnarbæn Heil. Faustína Kowalska (1905-1938).Við gerum ekkert án trúar »

14.08.07

  08:30:14, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 612 orð  
Flokkur: Bænalífið

Heilög Teresa frá Avíla um hina innri bæn

Hinir heilögu hafa greint frá þeirri gæsku sem sá verður aðnjótandi sem leggur rækt við bænina, ég á við hina innri bæn. Dýrð sé Guði fyrir þessa gæsku! Ef þessi gæska væri ekki fyrir hendi dirfðist ég ekki í stærilæti mínu að minnast á hina innri bæn, jafn áfátt og mér er hvað varðar auðmýktina. Ég get greint frá reynslu minni af henni. Hún felst í því að þrátt fyrir að sá sem leggur rækt við hana verði eitthvað á, má hann ekki leggja árar í bát vegna þess að það er í krafti hennar sem hann getur bætt ráð sitt. Það yrði mun erfiðara að bæta fyrir slíkt án bænarinnar. Megi honum verða forðað frá því að djöfullinn freisti hans eins og mín, svo að hann hætta ekki að biðja sökum falsk­rar auðmýktar. Megi hann trúa því að orð Guðs geta ekki brugðist. Ef við iðrumst í raun og veru og ásetjum okkur að misbjóða ekki Guði, mun hann glæða fyrri vináttubönd sín að nýju og gefa okkur hlutdeild í þeim náðargjöfum sem hann hefur þegar veitt, og stundum auka þær að mun ef iðrunin er borin fram af fyllstu einlægni.

Ég bið sérhvern þann sem hefur ekki hafið iðkun bænarinnar að verða ekki af slíkum gæðum vegna elsku þeirrar sem hann ber í brjósti til Drottins. Hér er ekkert að óttast heldur er það hér sem elskan glæðir þrá sálarinnar. Þrátt fyrir að framfarirnar verði ekki miklar og viðleitnin til að öðlast slíkan fullkomleika ekki svo ríkjandi að sálirnar verðskuldi þær náðargjafir og miskunn sem Guð gefur þeim hlutdeild í sem eru örlátari [á tíma sinn], mun viðkomandi að minnsta kosti öðlast skilning á þeim vegi sem liggur til himna. Og ef hann sýnir þolgæði set ég allt mitt traust á miskunn Guðs sem endurgeldur þeim ætíð sem kosið hafa hann sér að vini. Í mínum huga er innri bænin ekkert annað en innilegt samfélag tveggja vina. Þetta felur í sér að gefa sér iðulega tíma til að dvelja einn út af fyrir sig með þeim sem við vitum að elskar okkur.

Svo að þessi elska sé sönn og vináttan verði varanleg, verður vilji vinanna að falla í einn og sama farveg. Við vitum nú þegar að vilji Drottins er í engu ábótavant. Okkar eigin vilji er svikull, skynrænn og fullur vanþakklætis. Og ef þið elskið hann ekki nú þegar eins og hann elskar ykkur, hafið þið ekki enn náð því stigi að vilji ykkar sé í samhljóðan við hans vilja. Þannig munið þið standast þann sársauka að verja miklum tíma með þeim sem er svona ólíkur ykkur, þegar þið verðið þess áskynja hversu blessunarríkt það er fyrir ykkur að öðlast vináttu hans og sjáið hversu mjög hann elskar ykkur.

Ó þú ósegjanlega gæska Guðs míns! Þannig virðist mér ég sjá þig. Þannig ert þú og þannig er ég! Ó þú englanna yndi! Þegar ég horfi til þín þrái ég það eitt að brenna upp til agna í elsku þinni! Hversu mjög er þér ekki umhugað um þann sem er fús að vera hjá þér! Ó, hversu góður vinur ert þú ekki, Drottinn minn!

Saga lífs míns, 8. 5-6.

No feedback yet